Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2024, Blaðsíða 34
34 | Sjómannablaðið Víkingur
Þingeyrakirkja
Við þjóðveginn
Texti og myndir:
Jón Hjaltason
Við erum á ferð um hringveginn. Á
leiðinni suður og komin í Húnavatnssýslu
þá eystri – ef má þá tala lengur um sýslur.
Við erum neðst í hlíðinni og gjóum
augum niður yfir Húnavatn að Þingeyrum.
Í fjarska grillum við í gráleita álfabyggð.
Hvaða grámi skyldi þetta vera þarna í
landslaginu? Þetta virðist vera
einhverskonar bygging. Forvitni okkar er
vakin. Fram undan er beygja og brú yfir
Hnausakvísl.
Við brunum áfram, beygjan er að baki,
líka brúin. Og þarna birtist það sem við
erum að skima eftir, upplýsingaskilti og
vegur sem okkur virðist stefna í átt að
álfabyggðinni dularfullu. Skammt þar hjá
er fallegur trjáreitur. Við staðnæmumst
og lesum um Þingeyrar. Þar þinguðu
karlar til forna, Jón Ögmundsson biskup
hinn helgi tók þar grunn fyrir kirkju og
þar reis árið 1133 hið kunna
Þingeyraklaustur.
Á Þingeyrum, þessu forna höfuðbóli, bjó
líka Þorleifur Kortsson sýslumaður. Hefur
enginn Íslendingur staðið fyrir fleiri
aftökum en hann. Það var á 17. öld en þá
létu galdramenn mikið að sér kveða og
var Þorleifur ötull við að þefa þá uppi og
færa á bálið, meira þó fyrir vestan en í
Húnavatnssýslum.
Við tökum stefnuna út á eyrina og það
líður ekki á löngu uns álfahóllinn blasir
við. En þetta er enginn hóll heldur
glæsilega hlaðin steinkirkja. Sjálf
Þingeyrakirkja. Undur í Húnavatnssýslu.
Sjáið og sannfærist.
Algeng sjón í Silkiborg. Bátahús, mótorbátar við annað hvert hús og á vatninu ræðarar.
Árið 1860 fluttist alþingismaðurinn og búhöldurinn Ásgeir
Einarsson að Þingeyrum. Ásgeiri þótti hneisa að
guðshúsinu sem fyrir var á jörðinni og frekar en að búa
við torfkirkju að niðurlotum komna réðist hann í að reisa
nýja kirkju. Sú var byggð úr steini og stendur enn sem
stórkostlegt dæmi um stórhug og áræðni íslensks bónda í
Húnaþingi.