Sjómannablaðið Víkingur

Árgangur

Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2024, Blaðsíða 38

Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2024, Blaðsíða 38
DULARFULLU SKIPIN Á POLLINUM Það er gaman að skoða gamlar skipamyndir (og nýjar raunar líka) en stundum reynist þrautin þyngri að þekkja skipin, ég tala nú ekki um ef komin eru til ára sinna. Þá er gott að eiga hauka í horni eins og til dæmis Hilmar Snorrason sem við þekkjum öll af hans frábæra starfi sem skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna. Ég held að ekki sé til það skip í íslenska kaupskipaflotanum, fyrr og síð, sem Hilmar ekki þekkir. Ég sneri mér því óðara til hans með þessa mynd sem tekin er austur yfir Pollinn á Akureyri. Akureyrarkirkja er í forgrunni en á Pollinum eru torkennileg fley, vægast sagt. RASK OG VIGÖR „Þetta eru ekki íslensk fraktskip,“ sló Hilmar föstu um leið og hann leit augum ljósmyndina enda skipin honum ókunn með öllu. En ekki frekar en fyrri daginn dó hann ráðalaus. „Ég skal leita til skandinavískra vina minna, þeir hljóta að þekkja skipin. Að minnsta kosti ef þau eiga eða áttu norræna heimahöfn.“ Og viti menn. Svarið kom um hæl frá hinum norska Dag Bakka: „Skipið fjær er M/S Rask. Hitt er D/S Vigör frá Osló.“ FLUTTI SALT, TIMBUR OG KOL Hyggjum fyrst að Vigör. Það var smíðað 1948 fyrir útgerðina S. Ugelstad í Osló sem fimm árum síðar seldi skipið til Manchester á Englandi þar sem það fékk nýtt nafn, Manchester Prospector. Seinna fékk Vigör heimahöfn í Grikklandi og þar var það afskráð árið 1992. En hvað var Vigör að gera á Pollinum við Akureyri? Skoðum timarit.is. Þar stingur skipið upp „stefni“ árin 1948 og 1949 og er sagt leiguskip Sambands íslenska samvinnufélaga, SÍS, og færir meðal annars kol, salt og timbur til Íslands Þá vitum við það. Því má hnýta við að í 50 ára afmælisriti Sambandsins sem út kom 1952 segir um árið 1949 að þá hafi leiguskip á vegum SÍS verið alls 27 talsins en höfðu verið 30 árið á undan. DAUÐALEIT En hvað um M/S Rask? Það komst fyrst á flot árið 1924 og gekk kaupum og sölum allt til ársins 1971 að það var selt til Grikklands – í brotajárn. Áður en lengra er haldið verð ég að viðurkenna að ég hafði leitað augun úr að skipinu undir nafninu Rask. Og ekkert fundið. En svo kviknaði á perunni – loksins. Í gramsi mínu hafði ég ekki rekist á Vigör á Íslandi eftir 1949. Var ljósmyndin ef til vill tekin það ár? Eða ári fyrr? Hvar var þá skipið Rask statt í sinni sögu? Og viti menn, kemur þá á daginn að Rask hét alls ekki Rask þessi tvö ár – 1948 og 1949 – sem hér eru undir heldur Herma og var í eigu norska útgerðarfélagsins Leif Erichsen Rederi A/S í Bergen. Og nú vænkaðist hagur strympu. Í mars 1949 flutti Dagur þá frétt að tvö skip Sambandsins væru komin til Akureyrar. Annað var Hvassafell, hitt leiguskipið Herma sem kom færandi hendi með kol frá Póllandi. Þar með var þó ekki sagan öll. Frá Akureyri sneri Herma stefni til Narvíkur í Noregi en var ekki komin nema rétt á móts við Tjörnes þegar eitthvað gerðist í vélinni og skipið varð aflvana. Togarinn Kaldbakur var sendur til hjálpar og dró kolaskipið aftur til Akureyrar þar sem gert var við vélarbilunina. Í framhaldinu fór Útgerðarfélag Akureyringa (ÚA) fram á björgunarlaun sem Norðmennirnir voru ófúsir að greiða. Þetta var ekki björgun heldur aðstoð, var mótbára þeirra. Undirréttur var sammála Norðmönnunum en Hæstiréttur féllst á skoðun forráðamanna ÚA og dæmdi félaginu 200 þúsund krónur í björgunarlaun sem var þó ekki nema tæplega helmingur upphæðarinnar sem ÚA hafði farið fram á. Nýr fiskur út úr búð kostaði þá rúma krónu kílóið, saltur þorskur fjórar krónur og mjólkurlítrinn tæpar tvær og hálfa krónu. Lýkur svo sögu Herma á Íslandi sem telur ekki nema fáeina mánuði á því herrans ári 1949. Árið eftir var skipið selt til Haugasunds og nefndist eftir það Rask. Þó ekki nema í eitt og hálft ár eða svo. Þá urðu aftur eigendaskipti og nafnaskipti. Rask varð Silja og rekjum við þá sögu ekki frekar. Þekkir þú skipin? Mynd: Minjasafnið á Akureyri

x

Sjómannablaðið Víkingur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Sjómannablaðið Víkingur
https://timarit.is/publication/335

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.