Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2024, Blaðsíða 24
NORÐURLANDA
Hilmar Snorrason skipstjóri
ljósmyndakeppni
Sjómanna 2024
Í byrjun febrúar fór loks fram Norðurlandakeppni sjómanna í
ljósmyndun, að þessu sinni í Stokkhólmi. Skipulag keppninnar
var í höndum sænsku Siglingamálastofnunarinnar en fulltrúi
hennar, Jimmy Eriksson, hefur verið umsjónarmaður sænsku
keppninnar. Hann hafði ákveðið að keppnin færi fram um borð í
safnaskipinu Sankt Erik sem er í höfninni í Stokkhólmi og er
gamall ísbrjótur smíðaður árið 1915.
Því miður náðu íslensku myndirnar í keppninni ekki
vinningssætum en myndir tveggja okkar ljósmyndara lentu í
heiðurssætum. Það voru þeir Hlynur Ágústsson háseti á Þórunni
Sveinsdóttur og Davíð Már Sigurðsson háseti á Drangey sem
náðu þeim árangri. Myndir þeirra sannarlega heilluðu dómara
keppninnar sem voru þau Anneli Karlsson sem er ljósmyndari í
Sjóminjasafninu í Stokkhólmi og Mikael Dunkers sem er
samskiptastjóri Vrak safnsins. Vrak safnið er afar áhugavert safn
sem og safnaskipið sem mun verða fjallað um síðar.
Að þessu sinni var um stórsigur að ræða hjá Svíum og
Norðmönnum. Að vísu var sami ljósmyndarinn, matsveinninn
Jörgen Språng á tankskipinu Bitflower, sem hreppti þrjú efstu
sætin en hann hefur verið sigursæll í gegnum tíðina í keppninni
en okkar menn hafa nokkru sinni haft betur en hann. En skoðum
nánar niðurstöðu keppninnar.
Í fyrsta sæti var mynd Jörgens, 100% raki,
þar sem dómarar sögðu myndina vera
klassíska svart hvíta mynd. Rólegt í
augnablikinu. Frábær samsetning sem lætur
ekkert eftir liggja.
Í öðru sæti var mynd Jörgens sem hann
kallaði Standby en dómararnir sögðu vera
fyrir þá tilfinningu og nærveru sem myndin
miðlaði. Skerpan væri alveg rétt og sem
áhorfendum væri okkur boðið að vera með
í augnablikinu.
Þriðja sætið vermdi Jörgen einnig eins og
áður sagði en mynd hans, Ramminn í
legunni, sögðu dómararnir sýna einbeitingu
manns í hrikalega erfiðu umhverfi sem
vekti athygli. Samsetningin, skerpan og
birtuskilin væru fullkomin.
Fjórða sætið kom í hlut Norðmannsins
Håkon Sunde en ummæli dómaranna voru
að myndin leyfði sér að skoðast lengi.
Starfsmennirnir streyma frá sér æðruleysi
en fyrir áhorfandann virðist umhverfið vera
hættulegt og dramatískt. Þrátt fyrir
„sóðalegt“ mótíf passar tæknin. Håkon fær
að launum verðlaun frá Vinnslustöðinni í
Vestmannaeyjum upp á 450 evrur.
Fimmta og síðasta verðlaunasætið féll í
skaut Norðmannsins Rune Larson en um
hans mynd sögðu dómararnir að þar
sameinuðust tvær ljósmyndir í augljósri samsetningu þar sem
uppbygging og náttúra mætast í samhljómi. Þá væri flottur
litatónn.
Eins og áður sagði komust tveir íslenskir sjómenn í heiðurssæti,
þeir Hlynur Ágústsson og Davíð Már Sigurðsson en þeirra myndir
hljóta ekki verðlaun. Alls eru fimm ljósmyndir í heiðurssætum.
Þær sýnum við ykkur síðar.
NORÐURLANDAKEPPNIN NÆST Á ÍSLANDI
Á næsta ári kemur það í hlut Sjómannablaðsins Víkings að annast
Norðurlandakeppnina og er því mikilvægt að fá sem flesta
sjómenn á íslenskum skipum til að taka þátt sem og íslenska
sjómenn á erlendum skipum. Hvetur blaðið lesendur okkar og
sjómenn til að vera duglega að mynda og stefna á verðlaunasæti í
næstu keppni. Myndir hafa þegar borist umsjónarmanni
keppninnar og vonumst við til að við fáum metþátttöku í íslensku
keppninni. Gæði margra farsíma eru orðin það góð að þær
myndir eru sannarlega vel gjaldgengar í keppni sem þessa.
Hér eru þeir sem komu að keppninni í Stokkhólmi. Frá vinstri Jimmy Eriksson (Svíþjóð), Trine Tynes
(Noregi), Christinan Kronqvist (Svíþjóð), Hilmar Snorrason, Joakim Malmberg (Svíþjóð), Irene Olsen
(Danmörku), Jukka Lindel (Finnlandi) og Nanna Dupont (Danmörku).
24 | Sjómannablaðið Víkingur