Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2024, Blaðsíða 12
1
12 – Sjómannablaðið Víkingur
Google ekki alls varnað! Renndum við nú
að skemmunni sem er heljarstór, kíktum
inn, þar var þá krökkt af fornbílum af
öllum mögulegum gerðum og einnig nýrri
eðalsportarar.
Þar voru líka básar og fólk að gera upp
gamla bíla og komumst við að því að þetta
væru klúbbar fornbílaeigenda, sölubásar
varahluta og jafnvel hægt að kaupa gamla
eðalvagna. Síðast en ekki síst voru nokkrir
eðal Borgward bílar í skemmunni.
Borgward voru framleiddir frá 1939 –
1963.
Á leiðinni til Hamborgar keyrðum við hjá
gamla fiskmarkaðnum sem er á mörkum
Altona hverfis og St. Pauli hverfis. Nú er
þar enginn markaður en risastór
farþegaskip leggjast að bryggjunni.
Komum seint til Hamborgar og skráðum
okkur inn á „REICHSHOF HOTEL
HAMBURG“, 4 stjörnu hótel sem er gegnt
Hamburg Hauptbahnhof. Hótelið var
byggt 1910 og er í Art Deco stíl.
Endurnýjað í upprunalegum stíl 2015 og
allt hið glæsilegasta. Sannkallað augnayndi
innan sem utan.
Þórarinn lagði heljarstórum bílnum okkar
í bílageymslu hótelsins og þar skyldi hann
vera þar til við færum út á flugvöll.
Ómögulegt að flækjast á svona stórum bíl
um borgina, hvað þá að finna bílastæði.
Ákveðið að hittast niðri í anddyri eftir að
hafa frískað upp á okkur og fara saman út
að borða á góðu steikhúsi sem heitir Block
House og er í um 100 m. frá hótelinu við
sömu götu, sömu megin.
Þótt fullsetið væri og við ættum ekki
pantað, var þjónustufólk svo elskulegt að
koma okkur öllum fyrir við eitt borð eftir
smá bið.
Pöntuðum hver fyrir sig indælis steikur
og tilheyrandi. Allir mettir og sælir heim á
hótel, þó einhverjir hafi fengið sér smá
kvöldgöngu um nágrennið fyrir svefninn.
GRÍÐARMIKIÐ SAFN
1. september. Hópurinn mætti snemma í
„lobby“ eftir gæða morgunverð í
glæsilegum matsal hótelsins. Nú var
förinni heitið á „INTERNATIONALES
MARITIMES MUSEUM HAMBURG“.
Ég reyni ekki að lýsa í þaula þessu
stórfenglega safni sem er í 10 hæða rauðu
múrsteinshúsi sem byggt var 1878/79 og
er í dag elsta vöruhús Hamborgar.
Þessi fallega bygging stendur við ein elstu
hafnarmannvirki Hamborgar og er á
heimsminjaskrá UNESCO. Safnið
inniheldur sögu siglinga og landafunda
frá upphafi til nútíma. Frá steinöld (eða
fyrr). Skipamódel, skip fortíðar, smíði
þeirra, efni og allt sem við kemur
siglingum. Tæki og tól til siglinga um
heimshöfin, ár og vötn. Barkarbáta frá
fornöld, grænlenskan húðkeip og
konubát, sefbát af Titicacavatni,
víkingaskip og fleira og fleira. Brjóstlíkön
úr bronsi af helstu hetjum landafunda,
meðal annars af Leifi Eiríkssyni (veit
reyndar ekki hvar þeir fundu mynd af
honum). Líkön stríðsskipa frá fornöld til
nútíma ásamt raunverulegum vopnum
nema stærstu nútímavopnum sem eru
líkön. Þarna eru búningar sjómanna,
sjóliða allt upp í skrýdda aðmírála,
aðbúnaður um borð, siglingatæki fortíðar
og nútíðar, málverk og líkön í
tugþúsundavís.
Þyrfti að minnsta kosti nokkra daga til að
geta skoðað allt safnið.
Eftir safnið fórum við niður á
Landungsbrücken og pöntuðum okkur
siglingu um fraktskipahöfnina. Þarna er
sægur ferjubáta sem sigla með ferðamenn
um höfnina og eitthvað af skipum til
sýnis. Meðal annars var þarna hvítur,
rennilegur og fallegur „bananabátur“,
CAP SAN DIEGO, Markúsi til mikillar
ánægju en hann sigldi sem stýrimaður í
mörg ár á nokkrum slíkum milli Suður-
og Mið-Ameríku til USA og að sjálfsögðu
fór hann og skoðaði skipið. Við ákváðum
að sigla um fraktskipahöfnina og nágrenni.
Þar var verið að lesta og losa skip af
ýmsum stærðum og gerðum en auðvitað
bar mest á risa gámaskipum frá til dæmis
EVERGREEN, MAERSK og MSC sem
lesta allt að 25.000 TEUS, það er 20 ft.
gámaeiningar. Gaman að sjá að íbúar fara
enn á „ströndina“, það er nota grænu
svæðin á bökkum fljótsins, veiða, sóla sig
og fara í lautarferðir „picnic“ í góða
veðrinu.
Áður fyrr þegar við sigldum framhjá
Landungsbrücken upp fljótið, var hefð að
í landi var spilaður þjóðsöngur þess lands
sem skipið var frá og heilsað með fánum
„kípað“ í landi og um borð. Að sjálfsögðu
löngu hætt þar sem fæst skip sigla undir
þjóðfána síns lands heldur hinum ýmsu
hentifánum.
Fengum okkur að borða í einum af
veitingastöðunum sem eru í gömlu
vöruskemmunum. Skemmunum er mjög
vel við haldið og mikið af myndum frá
fyrri notkun þegar þarna voru upp og
útskipunarbryggjur.
Eftir máltíðina; kálfapylsur með
kartöflumús og súrkáli (sauerkraut) var
frjáls tími, sumir fóru heim á hótel aðrir
kíktu í búðir og af því að við vorum
staddir í St. Pauli og stutt að labba upp á
Reeperbahn, ákváðu nokkrir að líta við
þar á heimleið og kíkja á lífið. Reyndar
var bjartur dagur og bjuggumst varla við
að næturlífið væri byrjað fyrir alvöru.
Í „Strassanum“ Herbertstrasse voru
drottningar næturinnar byrjaðar að
auglýsa varninginn í sýningargluggunum
og allt að lifna á Reeperbahn með ýmsum
gylliboðum, en ekki meira um það.
Þá rann upp 2. september. Lokadagur.
Eftir góðan morgunverð voru allir mættir
í „lobby“ og skráðum okkur af hóteli.
Þórarinn búinn að sækja farartækið og ók
sem leið lá út á flugvöll þar sem við áttum
bókað flug heim kl. 14.05. Um það bil 50
mínútna töf varð í öryggisleit. Víðar en í
Keflavík sem er mikill fjöldi ferðamanna.
Heimkoma um kl. 16:00.
Sammála allir, að þetta hefði verið aldeilis
fín ferð og ekki síðri ferðafélagar, svo fín
að á næsta fundi félagsins, hinn 13.
september, var farið að tala um næstu ferð
og þá til Bretlands.
Sjáum hvað setur og hverjir tóra.
Vesturfarar bíða brottfarar. Einstakt safn
Vitaskipið „Elbe“.
St. Pauli Landungsbrücken, handan landgangsins
eru barkskip og bananabátur.