Helgarpósturinn - 22.01.1987, Blaðsíða 36

Helgarpósturinn - 22.01.1987, Blaðsíða 36
ERLEND YFIRSÝN Reiöilestur yfir stjórnendum bandarískra stórfyrirtækja kvað við, þegar Richard G. Darman, staðgengill fjármálaráðherra Bandaríkjanna, ávarpaði Japansfélagið í New York 7. nóvember í vetur. Kjarninn í máli Darmans var, að bandarísk framleiðsla færi halloka í samkeppni, bæði heimafyrir og erlendis, vegna þess að bandaríska for- stjórastéttin sé í alltof ríkum mæli „makráð, áhættutreg, óskilvirk og hugmyndasnauð". Varaði staðgengill fjármálaráðherra við, að af gæti ekki einungis hlotist vantraust al- mennings á máttarstólpum atvinnulífsins, heldur gæti einnig fyrir sömu sök risið með þjóðinni alda einangrunar- og haftastefnu. Margstaðfest er, að síðustu áratugi hafa Bandaríkjamenn dregist langt aftur úr helstu samkeppnisþjóðum í framleiðniaukningu í iðnaði. Skýrasta dæmið er framleiðsla á smíðavélum fyrir vélsmíðaiðnað, þar sem skammt er síðan Bandaríkin höfðu ótvíræða forustu. Nú hefur Bandaríkjastjórn gripið til þess ráðs, til verndar bandaríska smíðavéla- iðnaðinum og í nafni þjóðaröryggis, að setja kvóta á innflutning erlendra keppinauta, ekki aðeins landa eins og Japans og Vestur- Þýskalands, heldur fjölmargra annarra, þar á meðal svo ólíklegra aðila sem Singapore og Spánar. Viðurkennt er með þessu, að í slíkri undirstöðugrein getur bandarísk framleiðsla við engan keppt á almennum markaði, hvorki í verði né vörugæðum. Framleiðnibresturinn í bandarískum iðn- aði er eina helsta undirrót að vaxandi ógöng- um bandarisks viðskiptajafnaðar við önnur lönd. Fyrsta stórvirki stjórnar Reagans for- seta var að lækka skatta um hundruð millj- óna dollara. Með því hugðist forsetinn hleypa nýju fjöri í atvinnulífið, svo skattstofn- inn ykist og ríkissjóður stæði jafnréttur eftir að minnsta kosti og helst við bættan hag. Reyndin varð þveröfug. Halli á ríkissjóði fór úr böndum, svo ríkisskuldir hafa aukist álíka mikið í stjórnartíð Reagans og fyrirrennara hans allra saman, hækkað úr einni billjón (milljón milljónum) dollara í tvær billjónir. Féð sem menn fengu í hendur við skatta- lækkunina fór ekki í arðbæra fjárfestingu, endurnýjun atvinnutækja og framleiðsluað- ferða, heldur að yfirgnæfandi meirihiuta til aukinnar neyslu. Og bandarískir neytendur beindu kaupum sínum í vaxandi mæli að innfluttum varningi. Undir kaupæðið af útlendingum ýtti hátt gengi dollarans, sem einkum stafaði af fast- heldni seðlabankastjórnar, undir forustu Pauls A. Volckers, við aðhaldsstefnu í pen- ingamálum. Hún kvað niður verðbólgu, en James A. Baker fjár- málaráðherra lætur dollarasvipuna ríða um herðar Nakasone og Kohl. Dollari látinn falla til að knýja fram breytta stefnu í Tokyo og Bonn bakaði Volcker óþökk Reagan-stjórnarinnar. Þó taldi forsetinn sig ekki eiga annars kost en endurskipaseðlabankastjórann, þegar fyrsta embættistímabil hans rann út, því honum var treyst erlendis, og aðstreymi erlends fjár- magns var orðið ómissandi til að standa und- ir hallanum á ríkissjóði Bandaríkjanna. Eftir fjármálaráðherraskipti í Washington, þar sem James A. Baker tók við af Donald Regan, var horfið frá þeirri stefnu að láta gengisþróun doilarans með öllu afskipta- lausa af ríkisstjórnarinnar hálfu. Á fundi í Plaza hótelinu í New York í september 1985, ákváðu Baker og starfsbræður hans frá Jap- an, Vestur-Þýskalandi, Frakklandi og Bret- landi að taka höndum saman til að þrýsta gengi Bandaríkjadollara niður á við. Þetta hefur tekist svo rækilega, að nú hef- ur dollarinn misst yfir 40% af þáverandi verðgildi sínu gagnvart öðrum helstu gjald- miðlum. Síðastliðið haust þótti Japansstjórn nóg um, og Baker gerði 31. október í fyrra samkomulag við starfsbróður sinn frá Japan, Kiitji Mijasava. Þar hét japanski ráðherrann aðgerðum stjórnar sinnar til að auka eftir- spurn innanlands og greiða fyrir innflutn- ingi, en hélt sig í staðinn hafa hlotið fyrirheit um ráðstafanir Bandaríkjastjórnar til að hamla á móti frekara falli dollara, sem farið var að valda japönskum fyrirtækjum veru- legum búsifjum, vegna þess hve jenið hækk- aði ört gagnvart honum. Lítt breytt ástand ríkti svo fram um ára- mót, en þá skall á ringulreið á gjaldeyris- mörkuðum heims, þegar dollarinn tók mikla dýfu. Frumorsök hennar var tilkynning um methalla á utanríkisviðskiptum Bandaríkj- anna í nóvember, svo nam 19.2 milljörðum dollara. Mönnum hnykkti við, því síðustu þrjá mánuði á undan hafði greiðsluhalli rén- að, og var það skilið sem merki um að lækk- un dollara væri loks farin að hafa tilætluð áhrif, örva útflutning frá Bandaríkjunum og draga úr innflutningi. Hallinn í nóvember þykir sýna að svo sé ekki. Samkvæmt þeirri tölu stefnir greiðsluhalli Bandaríkjanna á síð- asta ári yfir 170 milljarða, en var 141 millj- arður 1985. Steininn tók þó úr á gjaldeyrismörkuðum, þegar New York Times birti fregn um að Bandaríkjastjórn hefði ákveðið að láta doll- ara falla sem fara gerði án þess að hafast að, og talsmaður Hvíta hússins staðfesti að þar væri rétt frá skýrt. Af hlaust fall dollara niður fyrir 150 jen og 1.80 vesturþýsk mörk. Hrap dollara hafði meðal annars í för með sér, að rót komst á gengishlutföll gjaldmiðla í Evrópupeningakerfinu. Hækkun marks gagnvart dollara ásamt vantrú á franska frankanum vegna verkfalla urðu í samein- ingu til þess að fjármálaráðherrar aðildar- ríkja voru nauðbeygðir til að breyta gengis- hlutföllum á skyndifundi, hækka mark og gyllini um þrjá af hundraði. Var slíkt þó vest- urþýsku stjórninni þvert um geð rétt fyrir þingkosningar. Þegar þetta er ritað er svo eftir Magnús Torfa Ólafsson Mijasava fjármálaráðherra væntanlegur til Washington frá Tokyo til nýs fundar með Baker að biðja jeninu vægðar. Ljóst er orðið að Bandaríkjastjórn notar lykilstöðu dollara á alþjóða peningamarkaði fyrir svipu á bandamenn sína í Austur-Asíu og Vestur-Evrópu. Baker fjármálaráðherra hefur marglýst yfir að stjórnum Japans og Vestur-Þýskalands sér í lagi beri í þágu betra jafnvægis í heimsviðskiptum að ýta rösklega undir eftirspurn og hagvöxt í löndum sínum. Þannig geti þær gerst það hreyfiafl nýs hag- vaxtarskeiðs, sem Bandaríkin megni ekki lengur einsömul. Greiðsluafgangur Japans í utanríkisviðskiptum reyndist í fyrra nema 82.6 milljörðum dollara og Vestur-Þýska- lands 57.4 milljörðum. Hvortveggja eru mettölur. Þensluhvatningar Bandaríkjastjórnar koma þvert á afstöðu ríkisstjórnar Heimuths Kohls í Bonn, sem hyggst vinna kosningarn- ar á sunnudaginn á ánægju landsmanna með aðhaldssama peningamálastefnu, sem í fyrra kom verðbólgu niður fyrir núllið. Winganir Bandaríkjastjórnar, með gengi dollara að vopni, til að knýja fram lækkun vaxta í Vestur-Þýskalandi tafarlaust, eru sagðar hafa gert þá æfa Gerhard Stoltenberg fjármálaráðherra og Karl-Otto Pöhl seðla- bankastjóra. Ekki eru heldur allir í Bandaríkjunum ró- legir yfir því sem ríkisstjórnin hefst að. Volck- er seðlabankastjóri hefur mótmælt afstöðu ríkisstjórnarinnar með því að ítreka skoðun sína að dollari megi ekki falla meira, þá sé hætta á stjórnlausu hrapi með ófyrirsjáan- legum afleiðingum. Fréttaritari Reuters í Washington hefur eftir virtum sérfræðingi um gjaldeyrisviðskipti þessa skoðun á at- höfnum Reagans og hans manna: „Þeir eru að leika sér að dýnamíti." Fleira en gengisárekstra ber í milli í skipt- um Bandaríkjastjórnar og helstu banda- manna hennar í Vestur-Evrópu um þessar mundir. í lok mánaðarins gengur að öllu óbreyttu í gildi 200% refsitollur Bandaríkja- stjórnar á sum vín, brennda drykki, osta og fleiri matföng frá ríkjum Evrópubandalags- ins. Þannig á að rýra útflutning þeirra til Bandaríkjanna um 400 milljónir dollara, í hefndarskyni fyrir missi markaðar fyrir bandarískt fóðurkorn á Spáni og í Portúgal við inngöngu þessara ríkja í Evrópubanda- lagið. Yfirstjórn bandalagsins hefur heitið að svara í sömu mynt. Viðskiptastríð yfir Atl- antshafið vofir því yfir, í viðbót við gengis- glímuna. MÁL OG MENNING Sálin á flakki (2) I síðasta þætti var aðallega rætt um brjóstið sem aðsetur sálarlífs- ins. Þó var farið fljótt yfir sögu. Um það, hvernig einstakir líkamshlut- ar tengjast sálarlífinu í íslenzku máli, mætti rita heila bók. En hér verður aðeins stiklað á stóru. Af ásettu ráði minntist ég ekki á orða- sambandið innan brjósts. Vel má vera, að þetta orðasamband vísi til hjartans. Samkvæmt læknisfræði fornaldar átti sálin, þar á meðal hugur og hugrekki, aðsetur í hjart- anu. I gamalli íslenzkri lækninga- bók, sem vitanlega á sér erlendar rætur, segir: hugur er í hjarta. Miklu eldri heimildir en lækn- ingabókin sýna okkur, að frá upp- hafi hafa íslendingar tengt saman hjarta og sálarlíf. Vísupartur úr Hávamálum (95. vísu) sýnir þetta Ijóslega: Hugr einn það veit, er býr hjarta nær, einn er hann sér um sefa. Auðvitað er erfitt að túlka ná- kvæmlega svona gamla vísu. Hug- myndaheimur höfundar var allur annar en okkar. En að minni hyggju merkir fyrri málsgrein vísupartsins, að hver einstakling- ur hafi einn vitneskju um það, sem honum býr í skapi eða hverjar hugrenningar hans séu hverju sinni, um slíkt hafi aðrir enga hug- mynd. Hér er, sem sé, lögð áherzla á tengsl hugar og hjarta. Síðari málsgreinin skiptir hér ekki máli, en er túlkuð á ýmsa vegu. í næstu vísu Hávamála (96. vísu) segir: Hold ok hjarta/vas mér in horska mœr. Sumum kann ef til vill að þykja það of nútímalegur skilningur hjá mér, að hold vísi hér til „líkamlegrar ástar", en hjarta til „andlegrar ástar“. Orðrétt ætti þá setningin að merkja: „Hin vitra kona (horska mær) var mér líkami (hold) og sál (hjarta)“, þ.e. ég hreifst bæði af líkama hennar og sál. Á sama hátt og ég rakti kenning- ar um brjóst í síðasta þætti, er eðli- legt, að ég drepi á hjartakenningar í þessum. í Snorra Eddu segir: Hjarta heitir negg, þat skal svá kenna, kalla korn eða stein. . . eða líkt, ok kenna við brjóst eða hug; kalla má ok hús eða jörð eða borg hugarins. Sn.E.I,540 (útg. Árna- nefndar frá 1848, stafs. sam- ræmd). Við skulum nú tína til nokkur dæmi um hjartakenningar úr fornum kvæðum. I Hyndluljóð- um (41. vísu) er talað um hálfsvið- inn hugstein konu, og hlýtur hér að vera átt við hjartað. í Málshátta- kvæði frá því um 1200 er talað um hugarkorn hart = „hart hjarta", þ.e. mikið hugrekki. Keimlíkt er, þegar í Helgakviðu Hundings- bana inni fyrri (53. vísu) er sagt, að Helgi hafi haft hart móðakarn, en akarn var „ávöxtur eikar“ og móðr merkti „hugur“. Móðakarn er því „hjarta“. Hjarta er algengt sem fyrri liður samsettra orða og vísar þá oft til sálarlífsins. Þannig merkir hjarta- góður „góðviljaður". Orðið er fornt, kemur fyrir í Biskupasögum (II, 178). Miklu erfiðara viðfangs er orðið hjartveikur. Dæmi Orðabók- ar Háskólans benda yfirleitt til þess, að orðið merki „taugaveikl- aður“, og þeirri merkingu er ég vanur úr bernsku. Elzta dæmi OH er úr bréfi frá Konráði Gíslasyni. Þar segir hann, að Brynjólfur Pét- ursson sé hjartveikur. Af sam- bandi verður ekki ráðin merking orðsins, en af ástæðum, sem ég til- greini ekki hér, þykir mér trúlegt, að Konráð eigi við, að Brynjólfur hafi verk fyrir hjarta. Þess má einnig geta, að Konráð þýðir orðið Hjertesygdom með „veikindi í hjarta, hjartveiki1' í orðabók sinni (1851). Enginn vafi er á, að hjart- veikur hefir bæði merkt „tauga- veiklaður" og „hjartabilaður" enda tilgreinir Blöndal báðar merkingarnar. Orðið vísar þannig bæði til andlegs og líkamlegs kvilla. I orðtökum táknar orðið hjarta oft sálarlífið eða einhvern hluta þess. Nefna mætti orðtökin hjarta einhvers drepur stall „einhverjum fellst hugur," hafa hjartað á réttum stað og vera með hjartað í buxun- um. Tvö síðustu orðtökin eru lík- lega fengin úr dönsku, en eru þýzk að uppruna. Um þau er fjallað í ís- lenzku orðatakasafni I, 247-244. Enn fremur hefi ég ritað grein um hjartað og hugrekkið í íslenzka tungu, 6. árgang, bls. 38-70. En víkjum nú að Biblíuorðtaki, sem ég er vanur frá barnæsku, en ég heyri nú sjaldan. Það er að rannsaka hjörtun og nýrun „grannskoða sálarlífið". Þetta orð- tak kemur nokkrum sinnum fyrir í Biblíunni. Venjulega er vitnað í Davíðssálma 7,10: Lát endiá verða illsku óguðlegra, en styrk hina réttlátu, þú, sem rannsakar hjört- un og nýrun, réttláti Guð. Sama eða svipað orðtak er í Jeremía 11,20;17,10;20,12, og enn fremur í Opinberun Jóhannesar 2,23. Þessi staður úr Opinberun Jóhannesar er með nokkuð öðrum hætti í Nýja testamenti Odds Gottskálks- sonar (1540). Þar segir: og hennar börn mun eg dauða deyða, og all- ar samkundur skulu viðurkenna, að eg em nýrnanna og hjartanna (svo!) rannsakari. (Stafs. sam- ræmd.) Að rannsaka hjörtun og nýrun á sér eðlilegar samsvaranir í öðrum málum, sbr. dönsku ransage ens hjerte og nyrer, sænsku rannska hjártan och njurar og þýzku die Herzen und Nieren prufen (je- mand auf Herz und Nieren prúf- en). Af þessu orðtaki sést, að sálar- lífið hefir einnig verið sett í sam- band við nýrun. Samkvæmt þýzkri heimild, sem ég m.a. styðst við, táknaði nýra oft eins og hjarta sálarlíf mannsins, aðsetur lífs- kraftsins („bezeichnet „Niere" oft aucht wie „Herz".. . allgemein das Innere des Menschen, den Sitz der Lebenskraft"). Ekki þekki ég þetta úr íslenzku nema í fyrr greindu orðtaki, en benda má á, að enska kidney merkir m.a. „eðli, eðlislægur eiginleiki eða hneigð; skapgerð". 36 HELGARPÖSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.