Helgarpósturinn - 26.11.1987, Blaðsíða 16

Helgarpósturinn - 26.11.1987, Blaðsíða 16
KRISTJÁN ARASON ' ■ . ■ STJARNA í ÞÝSKALANDI Á undanförnum árum hefur handknattleikskappinn kunni úr Hafnarfirði, Kristján Arason, verið einn af mátt- arstólpum íslenska handboltalandsliðsins. Á því varð engin undantekning í landsleikjunum gegn Pólverjum, Portúgölum og Israelsmönnum á dögunum. Hann skor- aði mörg mikilvæg mörk, átti stóran þátt í öðrum og var einn af burðarásunum í vörninni. EFTIR BJARNA STEFÁN KONRÁÐSSON MYND: EINAR ÓLASON Kristján Arason hefur allt til að bera sem prýðir góðan handknatt- leiksmann. Hann er hár vexti, sem kemur sér vel bæði í sókn og vörn. Hann gnæfir þá annaðhvort yfir vörn andstæðinganna eða ver skot þeirra sem stökkva upp fyrir framan vörnina og láta skotin ríða af. Kristján er allra manna hraustast- ur og fyrir því fá markmenn að finna er þrumuskot hans þenja út netmöskvana og einnig þeir sem reyna að brjótast framhjá honum í vörninni. Þeir eru teknir föstum tök- um en þó aldrei fantatökum. Kraftur hans og útsjónarsemi eru annáluð og þau eru ótalin gegnum- brotin hans sem og línusending- arnar sem gefið hafa mörk. Kemur þar einnig glöggt í ljós gott auga hans fyrir samleik og það er hrein unun að sjá Þorgils Ottar Mathiesen svífa inn af línunni og skora fallegt mark eftir glæsisendingu Kristjáns. Hversu oft hefur slíkur samleikur ekki glatt íslenska handknattleiks- unnendur? Kristján hefur einnig þann hæfi- leika að geta rifið sig upp og skorað mikilvæg mörk þegar hvorki geng- ur né rekur hjá íslenska liðinu. Þá á hann til að stökkva upp þegar minnst varir og þruma boltanum í netið. Svona menn eru alltaf mikil- vægir og mörk sem þessi ekki síður. Þau gefa samherjunum nýjan kraft og nýja von og þá fer allt í einu allt að ganga betur. í stuttu máli má segja að Kristján sé mjög sterkur varriar- og sóknar- leikmaður á heimsmælikvarða. Hann býr yfir miklum stökkkrafti, geysilegri skothörku og útsjónar- semi og góðu auga fyrir samleik. Síðast en ekki síst leikur hann alltaf af drengskap og er til fyrirmyndar bæði utan vallar sem innan. Það var því ekki að undra að mað- ur með slíka kosti yrði eftirsóttur af erlendum liðum. Enda fór það svo að Kristján hleypti heimdraganum fyrir fáeinum árum og hélt til V- Þýskalands til að leika með liði nokkru sem heitir Hameln og er í samnefndri borg. Þar lék hann við góðan orðstír í eitt ár eða þar til þekktasta handknattleikslið þar í landi, Gummersbach, fékk hann í sínar raðir. Þar hefur Kristján verið fastamaður allt frá fyrstu tíð. Hann leikur nú sitt annað keppn- istímabil með liðinu. í fyrra gekk lið- inu ekki sem best, meiðsli hrjáðu marga leikmenn þess og þeir náðu sjaldan að stilla upp sínu sterkasta liði sem aftur kom niður á skilningi milli manna inni á vellinum. í vetur hefur hins vegar allt smollið saman og Kristjan hefur leikið sérlega vel. Hann er nú orðinn þekktur meðal þarlendra handboltaáhugamanna fyrir snilli sína. Strax í fyrra voru gerðar mjög miklar kröfur til hans eftir frábæra frammistöu hans með íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í Sviss. Nú hafa allar vonir sem bundnar voru við hann ræst og með Gummersbach hefur hann sýnt all- ar sínar bestu hliðar. Hann er klettur í vörninni og ör- ugg vítaskytta. Hann skorar einnig mörk úr hraðaupphlaupum, með gegnumbrotum og þrumuskotum eða laumar boltanum með undir- handarskotum í netið. Hann fiskar mörg vítaköst og matar samherja sína á góðum sendingum. Á Ólympíuleikunum í Seoul í S- Kóreu á næsta ári mun mikið mæða á Kristjáni Arasyni. Óskandi er að hann nái að sýna allt sem hann kann í keppni við allar bestu þjóðir heims. Sama er að segja um félaga hans í landsliðinu og ef þeir ná að stilla saman strengi sína mun vel fara. Það er það sem máli skiptir í hópíþróttum, þar er sigurinn yfir- leitt árangur alls liðsins og ein stjarna, hvort sem hún er Kristján Arason eða einhver önnur, er ekk- ert án samherjanna. í lokin má segja frá því að þegar Kristján kom fyrst til Þýskalands var félagi hans, Sigurður stórskytta Sveinsson, löngu orðinn frægur þar í landi fyrir þrumuskot sín og mörk með liði sínu, Lemgo. Hafði hann þá þegar orðið markakóngur 1. deildar þar ytra og þarlendir markmenn voru yfirleitt með hjartað í buxun- um þegar þeir léku gegn Sigurði og Lemgo. Innfæddir urðu því ekki lítið hissa þegar upp komst að Sigurður kæmist svo til aldrei í íslenska lands- liðið. Það hlyti að vera meiri snill- ingurinn sem héldi honum út úr lið- inu og spurðu hvaða maður það væri eiginlega. Svarið var Kristján Arason. 16 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.