Helgarpósturinn - 26.11.1987, Blaðsíða 32

Helgarpósturinn - 26.11.1987, Blaðsíða 32
EFTIR ÖNNU KRISTINE MAGNÚSDÖTTUR Mannskemmandi eöa edlileg tilfinning? Hefur þú einhvern tímann ordid svo heltekin(n) afbrýdisemi að þú hefur tekið vatnskönnur og hellt úr þeim yfir þann sem þér finnst eiga það skilið? Hefur afbrýðisemi einhvern tíma náð svo sterkum tökum á þér að þú hefur látið þig hverfa um tíma? Hefurðu einhvern tíma leitað leiða til hefnda af völd- um afbrýðisemi? Kannistu við eitt- hvert ofangreindra atriða ertu sennilega óörugg persóna, sjálfs- ímyndin léleg og jafnvel geturðu verið að yfirfœra afbrýðisemi úr œsku yfir á maka þinn . . . ÁSTRÍÐUMORÐ Það er engin tilviljun sem veld- ur því að fólk hefur framið morð í afbrýðisemiskasti. Slík ástríðu- morð hafa löngum verið vinsælt yrkisefni skálda og rithöfunda. * Um sekt eða sakleysi í slíkum til- vikum eru oft skiptar skoðanir. Þannig voru framin tvö ástríðu- morð í úthverfi New York-borgar, Scarsdale, annað á tvítugri auðkýf- ingsdóttur, hitt á hinum þekkta „megrunarlækni" og uppfinninga- manni Scarsdale-megrunarkúrsins, Herman Tarnower. Fyrrnefnt fórnarlamb, Bonnie Gar- land, var myrt á þann hátt að unnusti hennar, Richard Herrin, sló hamri í höfuð hennar þegar honum var ljóst að hún ætlaði að slíta ástarsambandi þeirra. Dómur- inn yfir honum hljóðaði upp á sakleysi. Kviðdómendur höfðu hins vegar ekki sömu skoðun á afbrýðisemi í dómnum yfir Jean Harris. Þegar hún uppgötvaði að Tarnower læknir ætlaði virkilega að yfirgefa hana fyrir aðra konu tók hún sér byssu í hönd og skaut Tarnower til dauða. Jean Harris var dæmd fyrir morð. TIL VERKSINS HEIGULL VELUR KOSS . . . I Reading-fangelsinu, þar sem Oscar Wilde dvaldi, horfði hann á hermanninn sem dæmdur hafði verið til hengingar fyrir ástriðu- morð. í kvæði sínu „Ballad of Reading Jail“ lýsir Oscar Wilde því æðruleysi sem einkenndi fangann, og tekur þar fyrir að í raun er hægt að drepa á margvíslegan hátt: „Því allir myrða yndi sitt þess engin dyljist sál: Vopn eins er napurt augnaráð og annars blíðumál: til verksins heigull velur koss en vaskur maður stál!" (Kvæðið um fangann. Þýðing Magnúsar Asgeirssonar.) Já, já, svo er nú það. Maður þekkir nú svosem þessi eitruðu augnaráð! En það er nokkuð dæmigert að fólkið úti í bæ veit oftast nákvæmlega hvaða makar eru afbrýðisamir og hvers vegna! Það hljóta að vera makar þeirra sem starfs síns vegna eru umkringdir aðdáendum (kannski fullsterkt til orða tekið, eða hvað???). Það er ástæða þess að við völdum eftirtalda við- mælendur til að svara spurningunni: „Ertu afbrýðisöm/ afbrýðisamur?" Þess má geta að síður en svo allir voru reiðubúnir til að lýsa skoðunum sínum á prenti, en svör hvunndagshetjanna fara hér á eftir. Þau sem svara eru Bjarkey Magnúsdóttir, eiginkona Heiðars Jónssonar snyrtis, sem í mörg ár þjálfaði keppendur í Fegurðarsamkeppni Islands, Margrét Björnsdóttir, eiginkona Baldvins Jónssonar, auglýsinga- stjóra og forsvarsmanns Fegurðar- samkeppninnar, og Magnús Ketilsson, eiginmaður Brynju Nordquist, sýningarstúlku og flugfreyju. En fyrst hefur orðið Ásta Kristrún Ragnarsdóttir, náms- ráðgjafi viö Háskóla fslands, en Ásta er menntuð í sálarfræði og kann því ýmsar skýringar á tilfinningunni afbrýöisemi: ÓÖRYGGI OG FYRRI REYNSLA „í fyrsta lagi skil ég á milli öfundar og afbrýði. Ofundin er efnislegri en afbrýðisemin og þar kemur inn í viljinn til að vera í sömu sporum og einhver annar, samanburður, að finnast annarra hlutskipti betra en eigið og eiga erfitt með að unna öðrum að líða vel eða ganga vel. Þessari tilfinningu fylgir oft á tíðum andúð, undangröftur og jafnvel það að einstaklingurinn sneiðir hjá samskiptum. Afbrýðisemi er aftur á móti tilfinningalegri, óljósari og jafnvel meira hugar- fóstur en öfund. Hún getur stafað af almennri vanmáttarkennd og óöryggi, og þá er sjálfsmyndin óljós. Afbrýðisemi getur einnig stafað af óöryggi vegna fyrri biturrar reynslu og sú reynsla getur meðal annars verið fólgin í því að viðkomandi hefur verið skilinn útundan hvað varðar athygli og aðdáun, jafnvel i æsku, — eða á fullorðinsárunum — vegna hreinna svika, eins og til dæmis framhjáhalds. Reynsla frá æsku getur þannig flust yfir til fullorðinsáranna, milli ólíkra sviða og alls ekki þarf að vera samhengi milli atburðanna." HASTARLEG VIÐBRÖGÐ VIÐ AFBRÝÐISEMI „Barn getur verið afbrýðisamt í garð systkina sinna og þær upp- lifanir geta orðið til þess að sem fullorðnum finnist þessu fólki makinn veita öðrum of mikla athygli. Þar sem öll þessi upplifun er óljós og meira á sviði tilfinninga en öfundin verða viðbrögð við henni mun hastar- legri en í sambandi við öfund, og fólk hefur tilhneigingu til að missa taumhald á sjálfu sér. Það orsakast vegna þess að oft á tíðum eru engin áþreifanleg rök fyrir hendi. Afbrýðisemi tengist einnig samkeppniseðli. Það fer eftir því á hversu háu stigi samkeppniseðlið er hjá fólki, en þeir sem hafa það á háu stigi vilja vera mestir og bestir. Hjá þeim getur afbrýði- semin beinst gegn einum einstaklingi eða hópi. Þá er hægt að greina milli einkalífs og utan þess og þá skiptir til dæmis frami í starfi fólk miklu máli. Svo er hér ein heimatilbúin kenning: Margur heldur mig sig. Með þessu á ég við það, að sá sem gælir við tilhugsunina um að laumast, syíkja og til dæmis halda fram hjá — hann reiknar með að aðrir geri slíkt hið sama og er af þeim sökum stöðugt á varðbergi'* MANNSKEMMANDI TILFINNING Þá snúum við okkur að svörum þeirra sem rætt var við. Þar var eingöngu spurt hvort þau væru afbrýðisöm vegna þess hversu mikið makinn væri í sviðsljósinu eða hvort þau væru afbrýðisöm vegna starfa þeirra. Svörin komu án nokkurrar umhugsunar: „Nei, ég er ekki afbrýðisöm!" sagði Margrét Björnsdóttir, og bætti við: „Hvað er annars afbrýðisemi? Persónulega held ég að afbrýðisemi komi vegna þess að fólk treystir ekki maka sínum. Það er mitt mat.“ Undir þessi orð tóku Bjarkey Magnúsdóttir og Magnús Ketilsson: „Eg veit ekki hvað veldur því að sumir eru afbrýðisamir og aðrir ekki,“ sagði Bjarkey. „Sjálf hef ég ekki upplifað þessa tilfinningu árum saman enda tel ég afbrýðisemi eina af fáum mannskemmandi tilfinningum sem fólk hefur." Magnús sagðist sammála því að um vantraust væri að ræða þegar afbrýðisemin næði yfirhöndinni: „Sjálfsagt á ég þessa tilfinningu til eins og margir aðrir," svaraði hann. „Hins vegar er ég ekki afbrýðisamur vegna konunnar minnar. Frá því ég kynntist Brynju hefur hún verið í sviðsljósinu, starfs síns vegna, og þess vegna hefur það alltaf verið fyrir mér eins og sjálfsagður hluti lífsins." AFBRÝÐISEMI TENGIST VANTRAUSTI Á MAKANUM Margrét hló þegar hún var spurð hvort það færi aldrei í taugarnar á henni að eiginmaðurinn umgengst mikið ungar fegurðardrottningar: „Nei, það er langt frá því. Þetta eru ungar og sætar stelpur og það hefur aldrei verið til nein afbrýðisemi af minni hálfu til þess sem maðurinn minn er að gera. Ég styð hann heils hugar í þeim málurn." Bjarkey tók í sama streng: „Ég hef aldrei verið afbrýðisöm vegna starfa Heiðars," segir hún. „Hins vegar var ég oft afbrýðisöm á mínum æskuárum þó mig reki ekki minni til að hafa gert neitt róttækt í þeim efnum! Eftir að ég fullorðnaðist og þroskaðist hvarf þessi tilfinning með öllu. Mér fannst alltaf svolítið skammarlegt að vera afbrýðisöm, fannst það ljót og leiðinleg tilfinning sem ekki samræmdist kristnu sjónarmiði." Magnús kvaðst ekki heldur hafa gripið til sinna ráða vegna afbrýðisemi og segir fólk skólast í þeim málum með árunum: „Þar kemur aftur að því að afbrýðisemi tengist van- trausti á makanum. Ég hef aldrei haft ástæðu til að vantreysta minni konu.“ Öll eru þau sammála því að afbrýðisemi tengist miklu fremur unglingsárunum: „Þegar við Baldvin vorum að byrja að vera saman og allt var svo nýtt fyrir manni vildi ég helst hafa hann út af fyrir mig,“ sagði Margrét. „Hann átti auðvitað ekki að vera að þvælast út um allt! En ég gerði aldrei neitt róttækt af mér! Enda tel ég að það borgi sig aldrei að hefna sín, á þannig hlutum græðir enginn. Þegar fólk þroskast og lærir að þekkja lífið sér það hversu heimskulegt það er að vera afbrýðisamur. Afbrýðisemi sprettur bæði af vanþroska og vantrausti. — En auðvitað fer það svo alveg eftir því hvernig makinn er hvort hann er traustsins verður eða ekki.“ Bjarkey bætti við: „Ég held að það sé engin spurning um að afbrýðisemi tengist þroska fólks. Að minnsta kosti hef ég ekki orðið afbrýðisöm í seinni tíð!“ 32 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.