Helgarpósturinn - 26.11.1987, Blaðsíða 31
Mikilvœgi líkamlegrar áreynslu fyrir andlega jafnt sem líkamlega líöan okkar er
sífellt aö koma betur í Ijós, en fólk hefur alls kyns afsakanir fyrir því að leiða þessi
sannindi hjá sér.
MEÐAUÐ, SEM FOLK VILL EKKI
Fæstir komast hjá því að kenna sér einhvers meins um
ævina. Hin hefðbundnu viðbrögð við líkamlegum sem
andlegum kvillum eru þau að leita til læknis í von um að
,,fá eitthvað við þessu“, eins og sagt er. Oft er lausnina
hins vegar ekki að finna í pilluglasi, heldur í aukinni
hreyfingu. Það sýna bæði vísindalegar rannsóknir og frá-
sagnir þeirra, sem reynt hafa.
eftir jónínu leósdóttur myndir jim smart
Sífellt berast okkur fréttir af fram-
förum í læknavísindum. Á ári hverju
eru fundin upp ný lyf og tæki, sem
gera læknum kleift að framkvæma
ýmis kraftaverk. En samhliða því að
vísindunum fleygir fram hefur skiln-
ingur manna á mikilvægi hvers
kyns heilsuræktar einnig aukist.
Læknar leggja í síauknum mæli
áherslu á hreyfingu sem aðferð til
að losna við líkamlega jafnt sem
andlega kvilla. Þjáist þú t.d. af fyrir-
tíðakvillum, þunglyndi, vöðvagigt,
höfuðverk, bakverk eða liðagigt
getur stundum verið skynsamlegra
að fá hjá lækninum leiðbeiningar
um líkamsrækt en lyfseðil. Skýrast
sést þessi þróun kannski í breyttri
meðhöndlun fólks, sem fengið hefur
hjartaáfall, er með of háan blóð-
þrýsting eða þjáist af bakverkjum.
Áður fyrr voru þessum sjúklingum
gefin lyf og þeir látnir fara afskap-
lega varlega með sig. Núna eru lík-
amsæfingar ómissandi þáttur í með-
ferðinni og fáir myndu hvetja sjúkl-
ingana til að hegða sér eins og brot-
hættar postulínsdúkkur.
1 vestrænum nútímaþjóðfélögum
þjáist flest fólk hins vegar af kvilla,
sem nefnist tímaskortur. Hann gerir
það að verkum, að við erum alltaf
að leita einhvers töfralyfs sem leysir
allan vanda á svipstundu, svo við
þurfum ekki að hægja á ferðinni í
kapphlaupinu. Frásagnir af þróun
læknavísindanna hafa líka gefið
okkur falsvonir um „hókus-pókus“
meðul, en lausnin er oft ekki í pillu-
formi — þó sumir eigi erfitt með að
kyngja þeirri staðreynd. Það er líka
grátbroslegt að hlusta á fólk, sem
ver drjúgum tíma í að heimsækja
heimilislækna, sérfræðinga, sjúkra-
þjálfara og nuddstofur, segjast ekki
hafa nokkurn tíma til að fara í leik-
fimi eða sund. Til slíkra aðila er
beint veggspjaldi í Heilsurœkt Sel-
tjarnarness, en þar segir: ,,Ef þú hef-
ur ekki tíma fyrir heilsu þína í dag,
hefurðu ekki heilsu fyrir tímann
þinn á morgun."
I ritinu Alternative Medicine birt-
ist í fyrra grein um rannsókn, sem
gerð var á áhrifum jógaiðkunar á
líkamsstarfsemina. Niðurstöðurnar
sýndu svo ekki var um villst, að
jógaæfingar eru mjög góðar fyrir
stressað nútímafólk.
Fengnir voru 30 karlkyns sjálf-
boðaliðar á aldrinum 20—30 ára og
áður en tilraunin hófst voru þeir
rannsakaðir hátt og lágt. Állir
mennirnir voru bindindismenn á
vín og tóbak og ekki háðir neinu eit-
urlyfi. Þeim voru kenndar ákveðnar
líkams: og öndunaræfingar, ásamt
hugleiðslutækni, og á hverjum
morgni í sex mánuði framkvæmdu
tilraunadýrin klukkutíma langt
„prógramm". Læknar rannsökuðu
síðan sjálfboðaliðana bæði að þrem-
ur og sex mánuðum liðnum.
Niðurstaðan var sú, að 23 af
mönnunum þrjátíu sögðu líðan sína
mun betri eftir jógaæfingarnar en
fyrir þær. Þeir sögðust sofa betur,
vera kraftmeiri, yfirvegaðri og jafn-
lyndari en áður og þar að auki væri
mikill munur á meltingarstarfsem-
Sigfríður Vilhjálmsdóttir hjá Yoga-
stöðinni Heilsubót
inni. Við blóð- og þvagrannsókn
kom líka margt fram, sem studdi
þessar fullyrðingar sjálfboðalið-
anna. Verulegar breytingar höfðu
orðið á ýmsum taugaboðefnum,
hormónum og ensímum, en lækn-
arnir töldu þær einmitt stuðla að
hinni bættu líðan mannanna. T.d.
fannst aukið magn serotonins í blóð-
inu, en það er taugaboðefni sem
innleiðir svefn.
Þessar jákvæðu efnabreytingar
eiga sér hins vegar ekki eingöngu
stað við jógaiðkun, heldur má búast
við því að öll hreyfing og líkams-
rækt hafi svipuð lífefnafræðileg
áhrif. Við áreynslu aukast sem sagt
m.a. efni, sem stuðla að auknu and-
legu jafnvægi, og viðkomandi verð-
ur færari til að mæta því álagi sem
fylgir lífi í vestrænu streituþjóðfé-
lagi.
Dr. Hallgrímur Þ. Magnússon,
sem rekur Heilsurækt Seltjarnar-
ness, beitir óhefðbundnum aðferð-
um við meðferð sjúklinga sinna. 1
stað þess að leggja megináherslu á
Iyf notar Hallgrímur t.d. nálastung-
ur og líkamsæfingar við hinum
ýmsu kvillum, svo sem vöðvagigt,
bakverkjum og höfuðverkjum.
Hjúkrunarfólk og leikfimikennarar
aðstoða sjúklingana í stórum æf-
inga- og tækjasal og sjá til þess að
þeir fari rétt að. Nálastungurnar
framkvæmir Hallgrímur hins vegar
eingöngu sjálfur, en Tryggingastofn-
un ríkisins tekur engan þátt í þeirri
meðferð og verða sjúklingarnir því
að greiða hana að fullu sjálfir. Það er
svolítið kaldhæðnislegt, þegar til
þess er hugsað að læknirinn gæti
verið að skrifa út lyfseðla allan lið-
langan daginn, sem kostuðu ríkið
gífurlegar fjárhæðir. Trygginga-
stofnunin tæki aftur á móti möglun-
arlaust þátt í kostnaði við slíkar
lækningaaðferðir.
Mikil áhersla er lögð á hvers kyns
hreyfingu í heilsuræktinni á Nesinu,
en Hallgrímur Þ. Magnússon segir
að við Islendingar reynum yfirleitt
ekki nóg á líkamann. Hann segir
gamla fólkið líka eiga að taka þetta
til sín. Erfiðleikar aldraðra með að
sofna á kvöldin eiga nefnilega oft
rót sína að rekja til of lítillar líkam-
legrar áreynslu. Fólk, sem átti við
öfgafullar tilfinningasveiflur að
stríða, hefur einnig í mörgum tilvik-
um fengið mikla bót við að reyna
reglulega á líkamann, t.d. með því
að skokka, synda, fara í leikfimi eða
annað slíkt.
Erlendis hafa læknar kannað or-
sakir hreyfingarleysis, m.a. með því
að rannsaka áhrif þess á geimfara í
geimferðum. I þeim rannsóknum
kemur fram hið gagnstæða við fyrr-
nefnda jógatilraun: svefnerfiðleika
verður vart, viðkomandi verða pirr-
aðir og streita á greiða leið að þeim.
Ef fólk hreyfir sig ekki nóg getur það
líka bitnað á hjartanu, öndunar-,
meltingar- og þvagfærunum og mið-
taugakerfinu. Það segir sig því sjálft,
að aukin hreyfing hlýtur að sama
skapi að hafa jákvæö áhrif á þessa
líkamsstarfsemi.
Hjónin Kristinn Stanojev og Sig-
frídur Vilhjálmsdóttir eru eigendur
Yogastöövarinnar Heilsubót í
Reykjavík. Viðskiptavinir þeirra eru
á öllum aldri, eða frá tvítugu til sjö-
tugs, en meirihlutinn eru konur.
Stundum kemur líka fyrir að erlend-
ir jógaiðkendur, sem hér eru á
ferðalagi, líti t.d. inn til þess að liðka
sig eftir hinar klassísku rútuferðir
um landið.
Fólk lærir jóga af ýmsum ástæð-
um. Sumir laðast einfaldlega að æf-
ingunum og þeirri alhliða þjálfun
sem þær hafa í för með sér. Aðrir
koma vegna einhvers krankleika,
svo sem hryggskekkju, vöðvagigtar
eða höfuðverkja, en í auglýsinga-
bæklingi stöðvarinnar stendur að
markmið jógaiðkunarinnar sé að
„verjast og draga úr hrörnun og efla
heilbrigði á sál og líkamá'. Algeng-
ast er að menn komi tvisvar í viku,
í klukkutíma í senn. Það á að nægja
til að byggja upp sæmilega vörn
gegn hinum dæmigerðu sjúkdóm-
um, sem fylgja nútímaþjóðfélaginu
og orsakast t.d. af streitu, lélegu
mataræði, offitu og hreyfingarleysi.
Þegar blaðamaður Helgarpósts-
ins kom við á Yogastöðinni í byrjun
vikunnar var að hefjast kvennatími.
Við náðum tali af fjórum afar hress-
um konum, sem virtust vera á aldr-
inum 35—60 ára, og inntum þær eft-
ir reynslunni af jógaæfingunum.
Þær sögðust koma í tíma tvisvar í
viku og áttu ekki næg lýsingarorð til
að tjá hrifningu sína af jógaþjálfun-
inni. Ein konan hafði upphaflega
komið til að losa sig við vöðvabólg-
ur og kvaðst hún hafa verið orðin
mun betri eftir tvo mánuði. „Þú get-
ur sko skrifað að þetta virki mjög
vel á vöðvabólgu, því ég væri tæp-
lega ofanjarðar ef ég hefði ekki
komið hingað! Ég var hræðilega
slæm,“ sagði hún með áherslu. Allar
sögðust konurnar finna mikinn mun
á sér andlega og vera afslappaðri og
rólegri en áður. Og hressleikinn
bókstaflega geislaði af þeim, þegar
tíminn hófst og þær hurfu inn í leik-
fimisalinn á vit æfinganna.
HELGARPÓSTURINN 31