Helgarpósturinn - 14.01.1988, Blaðsíða 16

Helgarpósturinn - 14.01.1988, Blaðsíða 16
EFTIR JÓNÍNU LEÓSDÓTTUR MYND JIM SMART Terry G. Lacy háskólakennari er bandarísk ad uppruna en getur hvergi hugsad sér að búa nema á Islandi. Hún er í HP-viðtali. Landid dró mig aö sér eins og segull „Þaö er í rauninni ekki nema eittskreffrá mínum heimaslóöum á Nýja- Englandi hingad til íslands. Ég er alin upp á lítilli eyju þar sem allir þekkja alla!“ Konan, sem hefur orðiö, heitir Terry G. Lacy. Hún er bandarísk, en samt meiri íslendingur en margir sem hafa íslenskt vegabréf upp á vasann. Enda segir hún undantekningarlítið „við“, þegar talið berst að íslensku þjóðinni. „Þetta byrjaði eiginlega allt í Alaska,“ sagði hún og hló. „Ég er mikill fuglaskoðari og fór þangað með hópi fólks með sama áhugamál. I þessum hópi var kona, sem nýkomin var úr ferð um Nordur-Európu, og hún var sífellt að tala um fugla og plöntu sem hún sá á íslandi. Þetta vakti áhuga minn og ég kom síðan hingað árið 1971 með kunningjakonu minni, sem er fornleifa- fræðingur og hafði einu sinni dvalið hér dag- langt. Við leigðum okkur bíl, fórum vítt og breitt um landið og mér fannst svo gaman, að ég gerði alit sem ég gat til að komast hingað aftur. Það tók mig tvö ár, en þá kom ég hingað sem félags- fræðikennari á vegum Fulbright-stofnunarinn- ar. Ég er háskólamenntuð í tónlist, en þegar þriðja barnið mitt var orðið tveggja ára hóf ég nám í félagsfræði og lauk doktorsgráðu í þeirri grein. Ég kenndi viðskiptaensku og uppbygg- ingu vísindagreina í mörg ár. Og það er enska, sem ég hef mest verið að kenna hér á landi, þó ég hafi fyrst komið hingað sem félagsfræðingur." — Ætlaðir þú bara að vera í nokkra mánuði á íslandi? „Það stóð í fyrstu einungis til að ég yrði hér í eitt ár. Eftir árið fór ég síðan í skamman tíma aft- ur til Bandaríkjanna, en hjónaband mitt hafði ekki gengið sem best og við hjónin ákváðum að skifja. Þá flutti ég til íslands og settist hér að, því landið hafði sömu áhrif á mig og segull! Börnin mín voru orðin nokkuð uppkomin og tvö þau elstu urðu eftir úti, en yngsti sonur minn, Dav'iö, bjó hjá mér um skeið og gekk í skóla hér á landi. Hann skilur enn heilmikið í ís- lensku. Hérna kynntist hann líka Sigurði Þórar- inssyni og þau kynni áttu án efa mikinn þátt í því að Davíð gerði jarðfræðina að ævistarfi." Að þessum orðum sögðum stóð Terry á fætur og náði í tvö ílát með afar sérkennilegum stein- um og bergi, sem hún og Davíð höfðu safnað á Þingvöllum og víðar. Þarna gaf m.a. að líta stein- rör frá náttúrunnar hendi, sem vel mætti nota til að sötra vökva úr glasi. Einnig litla kúlulaga steina, sem höfðu margir hverjir bráðnað saman þegar þeir voru enn heitir og þannig orðið að „tvíburum" og jafnvel „þríburum". Tal okkar barst nú að muninum á Bandaríkja- mönnum og íslendingum. „Bandaríkjamenn halda því gjarnan fram, að þeir séu miklir ein- staklingshyggjumenn. Þetta er alls ekki rétt," sagði Terry. Síðan þagnaði hún, svolítið sposk á svipinn, og gaf mér tíma til að melta þessa yfir- lýsingu. Síðan rökstuddi hún mál sitt. „Bandaríkjamenn eru nefnilega alltaf að leika ákveðin hlutverk — eins og þeir væru á sviði. Einn er í hlutverki læknis, annar í hlutverki sjúk- lings. Einn er kennari, annar nemandi. Og svo framvegis... Það verða alltaf að vera pör, tveir og tveir saman, og hlutverkið kemur fyrst. Persón- an er alltaf í öðru sæti. Hérna á íslandi er nem- andinn hins vegar aldrei nemandi!" — Hvað áttu við með því? „Jú, sjáðu til. Fólkið hér er alltaf fyrst og fremst einstaklingar og það finnst mér mjög mannlegt. Þegar nemandi mætir í kennslustund er við- komandi ennþá sonur eða dóttir móður sinnar og föður síns. Það er númer eitt. Þetta er afkom- andi ákveðins fólks, foreldra, afa og ömmu, langafa og langömmu, o.s.frv. Þessi tengsl hverfa aldrei. En í Bandaríkjunum sjá menn fyrst og fremst hlutverkið: nemandann, sjúkl- inginn, kennarann eða lækninn. Ekki svo að skilja að fólk gleymi hvað það heitir og hvaðan það kemur, en þeir hlutir eru bara einhvern veg- inn í bakgrunninum. Viðhorf okkar á íslandi er mjög mikilvægt, t.d. varðandi varðveislu tungunnar. Eg er viss um að íslenskan er ekki í mikiili hættu á meðan ein- staklingshyggjan er svona sterk.“ KOM EKKI HINGAÐ TIL AÐ TALA ENSKU — Terry, þú segir „viö", þegar þú talar um ís- lendinga. Ertu með íslenskan ríkisborgararétt? Hún hló og hristi höfuðið. „Nei, nei. En ég er búin að vera hér svo lengi...“ — Og orðin íslendingur? Brosið var enn breitt, glettnisglampa brá fyrir í augunum og hún svaraði játandi. Bætti síðan við: „Ég er a.m.k. orðin hálfur íslendingur!" — Þekkirðu það vandamál, sem margir út- lendingar á íslandi kvarta yfir, að íslendingar séu mjög áfjáðir í aö œfa enskuna sína? „Svo sannarlega. Það er eins og fólk haldi, að maður þrái að tala ensku daginn út og inn. Ef sú væri raunin hefði ég alveg áreiðanlega farið eitt- hvað annað, því það eru margir staðir betur til þess fallnir en ísland! Ég tala heldur ekki ensku við marga hér á landi, enda kom ég ekki hingað til að lifa amerísku Iífi.“ — Hvernig brugðust œttingjar þínir og vinir við því að þú vœrir að flytja alfarin hingab til ís- lands? „Móðir mín var dáin og faðir minn alvarlega veikur, þegar ég flutti hingað. En ég heimsótti hann oft áður en ég fór og hann vissi hvað til stóð. Upphaflega var þetta auðvitað erfitt fyrir börnin mín, en þau eru fyrir löngu búin að sætta sig við það að ég skuli búa hér. Eg heimsæki þau líka annað hvort ár. En fólk í Bandaríkjunum vissi eiginlega ekki neitt um ísland á þessum tíma. í samræðum var alltaf verið að blanda Grœnlandi í málið og ég þurfti sífellt að ítreka, að ég ætti hreint ekkert heima meðal eskimóa. Svona er þetta hins veg- ar ekki lengur. Ekki síðan Reagan kom hingað. Annars var þetta í raun og veru ekki svo stórt skref fyrir mig. Ég er alin upp á eyju í Maine, eins og ég sagði þér, og þar var lífið ekki svo frá- brugðið því sem hér gerist. Á sumum sviðum bjóðast meira að segja mun fleiri tækifæri hérna en á mörgum stöðum í Bandaríkjunum, t.d. hvað varðar tónlist. Það er alveg sérstaklega blómlegt tónlistarlíf á íslandi, enda finnst mér söngur eitt af einkennum þjóðarinnar. íslendingar syngja mjög mikið saman." — Hefur þú ekki einmitt tekið þátt í tónlistar- lífinu? „Ég söng með Fílharmóníukórnum, en hann hefur — því miður — verið lagður niður. Það vantaði fleiri karla. Þeir hljóta bara allir að vera í Fóstbrœðrum\ Annars er þetta ekkert grín, því það er virki- lega leiðinlegt að svona skyldi fara. Það var svo spennandi að syngja óperur. En núna er ég í Kantötukórnum og það er líka mjög gaman. Þetta er lítill kór sem hóf starfsemi í fyrra, en Jón Asgeirsson sagði í blaðadómi að við værum „efniieg"! ÍSLENDINGA SKORTIR SJÁLFSTRAUST — Finnst þér Islendingar montnir? „Veistu, ég er orðin svo íslensk að ég er varla dómbær á það. En ef svo er, þá kemur það a.m.k. ekki fram í sjálfstrausti. Það hafa Banda- ríkjamenn hins vegar, m.a. vegna þess að þeir búa við miklu meiri samkeppni. Þetta sést hrein- lega á útlitinu, því Ameríkanar standa gjarnan gleiðfættir og með þaninn brjóstkassa. Islend- ingar standa hins vegar með fæturna saman og frekar niðurlútir. Það var Davíð, sonur minn, sem vakti fyrst athygli mína á þessu, þegar hann var farinn að ferðast hér um í strætisvögnum. Þetta sést svo vel á fólkinu í strætó. í Bandaríkjunum er fjöldinn svo mikill, að hver maður er bara eins og dropi í hafinu. Þar er nauðsynlegt að segja meira um sig... auglýsa sig. Annars er maður glataður. En á íslandi er mikið lagt upp úr því að vera ekki of áberandi. Sjáðu t.d. hvernig fólk talar um Kristján Jó- hannsson söngvara. Hann þykir monthani hér á landi, en erlendis hefur hann alveg örugglega ekki slíkan stimpil. Þar þurfa menn að bera sig vel til að komast áfram.“ — Finnur þú mun á streitunni í þjóðfélaginu frá því að þú komst hingað fyrst? „Já, það hefur orðið mikil breyting frá árinu 1973. Þá fannst mér Ameríkanar hræðilega stressaðir, en núna hefur þetta snúist við. Því miður. Fólk er á sífelldum þönum til þess að vinna sér inn nægilega margar krónur fyrir út- gjöldunum. En lífskjörin hafa Iíka batnað tölu- vert. Það kemur oft fyrir, þegar ég hitti ókunnugt fólk, að það spyr mig m.a. hvort mér líki vel hérna. Og auðvitað líkar mér vel í þessu þjóðfé- lagi og á þessu landi. Annars væri ég löngu farin! Það segir sig sjálft. En við svona samanburð gleymist hins vegar oft að á Islandi er um að ræða eina þjóð og eitt land. í Bandaríkjunum eru fimmtíu fylki og þar búa ýmsar þjóðir, enda er þar ekki einungis tal- að eitt tungumál. Þau eru á fjórða hundrað. Hins vegar er eitt þeirra „opinbert" og opinberlega reyna menn því að tala þannig. Undir niðri er hugsunarhátturinn þó oft alveg gjörólíkur! Islendingum finnst líka sjálfsagt að lögin gildi á landinu öllu. Þannig er það ekki í Bandaríkjun- um, heldur eru lög breytileg eftir fylkjum. Um- ferðarreglurnar geta t.d. verið ólíkar og leið- beiningarnar á götunum geta þannig skyndi- lega breyst, enda er ekkert til sem heitir „amerískt ökuskírteini" — nema bara að nafn- inu til. Flytji maður á milli fylkja er nauðsynlegt að taka bílpróf á nýjan leik og fá nýtt skírteini. Mér dettur líka annað í hug, fyrst við erum farnar að tala um muninn á íslandi og Bandaríkj- unum. Það varðar stundvísi. Ameríkanar mæta t.d. alltaf mjög tímanlega á leiksýningar, tón- leika og slíkt. Þar byrja líka tónleikar á slaginu klukkan átta, ef það hefur verið auglýst. Það sama á við í löndum eins og Bretlandi og Þýska- landi, svo dæmi séu tekin. Þar er ekki byrjað fimm mínútum eftir auglýstan tíma, eins og hérna. En mér finnst ykkar máti mun mann- eskjulegri og vil miklu fremur lifa þannig." ÞAÐ VERÐUR AÐ GÆTA BARNANNA BETUR — Geturðu nefnt mér dœmi um hluti, sem þér finnst hafa breyst til batnaðar hérna frá því þú komst til íslands? „Mér dettur t.d. í hug matvöruúrvalið. Nú er hægt að fá miklu meira af fersku grænmeti og ávöxtum. Svo hafa lífskjörin líka batnað til muna. En það verður að gæta barnanna betur... Það er allt of mikið um hræðileg slys á börnum. Mér finnst þó alls ekki rangt af íslenskum kon- um að fara út á vinnumarkaðinn, enda fór ég sjálf aftur í nám þegar Davíð var bara tveggja ára. Það er hins vegar mikilvægt að hvert barn fái óskipta athygli manns einhvern tímann á hverjum einasta degi. Þegar Davíð var ungur voru þetta kannski bara tíu til fimmtán mínútur á dag, en þær skiptu samt sköpum. Við vorum ein saman þennan tíma og ég talaði bara við hann — ekkert við hin börnin og ekkert við eig- inmanninn. Þetta var okkar tími og hann var alveg bráðnauðsynlegur. Mæður mega ekki allt- af segja „Ekki trufla mig núna!“.“ — Hvað með muninn á stöðu kvenna hér og í Bandaríkjunum? „Staðan er betri hérna eða hentar mér að minnsta kosti betur. Kpnur eru sem betur fer ekki taldar lægri stétt á íslandi, eins og víða ann- ars staðar. Þó er að vísu einstaka atriði, sem verður að teljast ósanngjarnt, og nauðsynlegt er að fá leiðréttingu á. Ég tók t.d. strax eftir því að Flugleiðir tryggja karlmenn fyrir miklu hærri upphæð en konur! Það er áreiðanlega vegna þess að karlmennirnir eru flugstjórar en kon- urnar „bara“ flugfreyjur!" — Svo þú lendir þá vœntanlega í þessum vinnuvítahring, sem flestir íslendingar virðast fastir í? „Það er ekki laust við að svo sé. Ég kenndi í nokkur ár við Bankamannaskólann og Verzlun- arskólann, en núna er ég eingöngu við Háskóla íslands, því það er of erfitt að vera á spretti á milli svo margra staða. Þar með er þó ekki allt upp talið, því ég vann að útgáfu ensk-íslenskrar viðskiptaorðabókar ásamt Þóri Einarssyni prófessor og við erum langt komin með íslensk- enska hlutann. Þar að auki hef ég haldið svolítið af námskeiðum fyrir fyrirtæki. Einnig starfa ég mikið við þýðingar og leið- réttingar á ýmsum handritum, sérstaklega fyrir lækna og aðra vísindamenn. Viðhorfið er nefni- lega mikið að breytast og íslendingar hafa smám saman gert sér grein fyrir því hve slæmt það er að láta birta eftir sig greinar, sem eru illa skrifaðar." Það var komið hádegi og verkefnin biðu eftir Terry Lacy, m.a. fundahöld og vinna við orða- bókina. Samt gaf hún sér tíma til að sýna blaða- manni og ljósmyndara minjagripi frá nokkrum af þeim fjölmörgu löndum, sem hún hefur ferð- ast til um dagana. Og ljósmyndir... Terry hefur tekið fjölda frábærra litmynda víðs vegar um heiminn, allt frá Alaska til Kína. Auðvitað Iíka á íslandi. Heima!

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.