Morgunblaðið - 30.11.1979, Blaðsíða 6

Morgunblaðið - 30.11.1979, Blaðsíða 6
38 MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 30. NÓVEMBER 1979 UPPLAUSN OG ENDURREISN þótt Eysteinn virðist ófríður við fyrstu sýn, þá gleymist það þegar við kynningu vegna yfirburða gáfna og starfsorku. Eysteinn var sívinnandi þá eins og hann er enn. Ég hef aldrei þekkt eins sívakandi starfsmann og Eystein, né heldur eins heiðarlegan í starfi sínu og lítið ágengan fyrir sjálfan sig. Þeir Hermann og Eysteinn voru þá, eins og að líkum lætur, aðal- mennirnir í flokkssamtökum Framsóknarflokksins í Reykjavík. Hermann var þá í bæjarstjórn sem fulltrúi Framsóknarflokksins. Nýr og traustur Tímaritstjóri Þegar Jónas Þorbergsson varð útvarpsstjóri 1930, var Gísli Guð- mundsson ráðinn ritstjóri Tímans. Gísli er Norður-Þingeyingur, ætt- aður úr Þistilfirði. Hann hætti við norrænunám í Háskólanum, þegar hann gerðist ritstjóri. Útlit Gísla var alleinkennilegt. Hár maður vexti, en krangalegur, útlimalang- ur, siginaxla með innfallið brjóst, gekk ávallt mjög lotinn, virtuSt margir hlykkir myndast við hvert spor. Hann var mjög langleitur, virtust allir drættir í andliti hans vera teygðir. Augu stór, falleg og gáfuleg. Þótt Gísli væri ófríður maður, upp á að sjá og eftir að líta, þá gleymdist það fljótt við kynningu. Gísli er prýðilega gef- inn, athugull og glöggur, ágætlega ritfær, tillögugóður og ráðslyngur. Hann vann sér því skjótt traust og virðingu þeirra, er með honum störfuðu. Það var talsvert fjör í flokks- samtökum Framsóknarmanna í Reykjavík. Ég mætti þar alloft á fundum og tók nokkurn þátt í því starfi. Allmargir áhugasamir ung- ir menn beittu sér þar, þótt mest kvæði að þeim þremur, er ég nú hefi nefnt... Tryggvi veikist Ég starfaði í sömu nefndum, landbúnaðarnefnd og fjárhags- nefnd, og á sumarþinginu áður. Sömu menn voru þar að mestu. Þó minnist ég þess, að Magnús Jóns- son dósent var í fjárhagsnefnd í stað Magnúsar Guðmundssonar. Kynntist ég Magnúsi talsvert; fjölfróður og skemmtilegur í við- ræðum, en alvörulaus glanni virt- ist hann vera. Á þessu þingi voru afgreidd lög um lax- og silungs- veiði, mrkill lagabálkur og mörg nýmæli. Ég var framsögumaður landbúnaðarnefndar í þessu máli. Urðu harðar deilur um mörg atriði. Voru sterk öfl, sem vildu tefja og eyða málinu. Það var þó drifið í gegn og reynslan hefur Ieitt í ljós, að þetta er einhver merkasta löggjöf, á sínu sviði, sem sett hefur verið. Þegar leið á þingið var greini- legt, að stjórnarandstöðuflokkarn- ir voru þess albúnir að stöðva framgang þeirra mála, sem hvert Alþingi verður að afgreiða, svo sem fjárlög og tekjuöflunarfrum- vörp. Þeir voru staðráðnir í að hrekja Jónas Jónsson úr stjórn- inni og sennilega Tryggva einnig. Komið var fram í maí og engin lausn sjáanleg. Tryggvi virtist ekkert reyna að losna úr þessari bóndabeygju. Ásgeir og Jón í Stóradal mölluðu við íhaldið. Við, hinir yngri og róttækari menn flokksins, vorum algjörlega að missa þolinmæðina, reyndum að ná sambandi og samvinnu við Alþýðuflokkinn, en kröfur þeirra í kjördæmamálinu voru slíkar, að enginn grundvöllur var fyrir sam- komulagi. Þegar kom fram í maí veiktist Tryggvi og lagðist í rúmið og mun hið pólitiska öngþveiti innan flokksins hafa aukið á veikindi hans. Tryggvi biðst lausnar Á fundum í báðum deildum 27. maí 1932 lásu forsetar upp til- kynningu frá forsætisráðherra. Aðalefni hennar var á þá leið, að þar sem stjórnarandstöðuflokk- arnir hefðu samtök um að hindra framgang nauðsynlegra þingmála, og ráðuneytið væri vanmegnugt að ná samkomulagi um lausn þessara mála, en hann teldi litlar líkur til þess að þingrof og nýjar kosningar breyttu nokkru í þessu efni, þá kysi hann þá leið að segja af sér fyrir hönd ráðuneytisins, þar sem hann teldi nokkrar líkur til þess, að annar Framsóknarflokksmaður gæti myndað ráðuneyti, sem fært væri um að ná samkomulagi um hin mestu nauðsynjamál. Næturheimsókn séra Sveinbjarnar Nokkru fyrr en þetta gerðist, var það nótt eina, að ég var vakinn af værum svefni kl. 2. Það var séra Sveinbjörn Högnason, sem þar var á ferð. Hann var dálítið við skál, en þó hóflega. Sveinbjörn hóf máls á öngþveiti því, sem væri í þing- inu, var hann þá kominn að þeirri niðurstöðu, að það yrði að skipta um stjórn og mynda samsteypu- stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Taldi hann, að ekki væri annarra kosta völ, en Ásgeir Ásgeirsson myndaði það ráðuneyti. Aðalnýj- ung séra Sveinbjarnar var að fá séra Þorstein Briem, prófast á Akranesi, til þess að verða ráð- herra í því ráðuneyti. Það var ekki sofið meira þá nótt, en bollalagt um þetta fram og aftur. Svein- björn leit á séra Þorstein Briem sem hálfgerðan dýrling þá, taldi að hann myndi leysa öll okkar vandræði og verða sterkasta afl innan flokksins til þess að halda honum saman og hindra að flokk- urinn klofnaði, sem þá virtist yfirvofandi. Ég tók þessu mjög fálega í fyrstu og svo var um marga fleiri, sem vinstra megin stóðu, en forystuleysið hjá ríkis- stjórninni og tíminn vann með þeim, sem beittu sér fyrir þessu, þvi að eitthvað þurfti að gera. Ríkisstjórnin var ekki starfhæf vegna innbyrðis sundurlyndis og úrræðaleysis. Ráðuneyti Asgeirs myndað Loks var það svo 4. júní, að hið nýja ráðuneyti var kynnt fyrir þinginu, ráðuneyti Ásgeirs Ás- geirssonar. Þorsteinn Briem lét tilleiðast að taka þátt í því, eftir mikla eftirgangsmuni, en ef til vill hefur honum ekki verið svo leitt, sem hann lét. Þá lagði Sjálfstæð- isflokkurinn Magnús Guðmunds- son til í ráðuneytið. Margir Fram- sóknarmenn tóku því með fullum fjandskap. Magnús hafði oft áður setið í ríkisstjórn og var óvægilega gagnrýndur af Framsóknar- flokknum. Svo bættist það við, að um leið og Jónas Jónsson lét af störfum sem dómsmálaráðherra, fyrirskipaði hann sakamálarann- sókn á hendur Magnúsi Guð- mundssyni út af afskiptum hans af einhverju þrotabúsmáli. Hinn nýi dómsmálaráðherra var því undir sakamálarannsókn, þegar hann tók við embætti; óneitanlega óvenjulegt og ekki líklegt til þess að gagnlegt samstarf tækist milli flokkanna. Vantraust borið fram Alþýðuflokkurinn bar þegar á fyrsta degi fram vantraust á ríkisstjórnina. Var sú tillaga að sjálfsögðu felld, en þó með ýmsum fyrirvörum frá sumum Framsókn- arflokksmönnum. Ég lýsti því t.d. yfir við atkvæðagreiðsluna, að ég mundi aldrei veita Magnúsi Guð- mundssyni stuðning eða hlutleysi. Þar með lauk þessu róstusama og sögulega þingi. Því var síitið 6. júní og hafði þá staðið í 113 daga, lengsta samfellt þing til þess tíma. Engar ákvarðanir voru gerðar í kjördæmamálinu, en vitað var, að Ásgeir og hans lið hafði lofað Sjálfstæðisflokknum einhverju, sem þeir gætu sætt sig við. Ásgeirsklíkan vingast æ meira við íhaldið Alþingi hóf störf sín 15. febrúar 1933, eða á hinum lögskipaða tíma. Varðskip tók mig á Sauð- árkróki og flutti til Reykjavíkur. Með skipinu voru nokkrir þing- menn fleiri, af Norður- og Austur- landi. Ekki hafði orðið breyting til batnaðar á samkomulagi innan Framsóknarflokksins. Þess varð fljótt vart, þegar setzt var að störfum. Ráðherrar flokksins, þeir Ásgeir Ásgeirsson og séra Þorst- einn Briem, höfðu einangrazt enn meir en áður frá meginhluta þingflokksins. Það var hvort tveggja, að þeir áttu erfiða að- stöðu, þar sem þeir urðu að sjálfsögðu að taka tillit til Magn- úsar Guðmundssonar, sem var í stjórn með þeim, en þar við bættist svo það, að þeir Ásgeir og Þorsteinn reyndu ávallt fyrst að ná samkomulagi við Sjálfstæðis- flokkinn og tryggja sig þeim megin, en ætluðust svo til að við neyddumst til að vera með. Þetta var tekið mjög illa upp af okkur mörgum. Jónas blés að sjálfsögðu af óánægju okkar, svo sem mest mátti verða. Nokkrir þingmenn úr Framsóknarflokknum fylgdu Ás- geiri í þessum dansi. Þar ber fyrst að telja Jón í Stóradal og Hannes Jónsson á Hvammstanga, þá var og Halldór Stefánsson þeim all- fylgispakur. Tryggvi virtist einnig vera þeirra megin, þótt hann færi varlega. Séra Þorsteinn ekki sameiningartákn Það kom í ljós, að Þorsteinn Briem myndi ekki verða það sam- einingartákn og afl til þess að sætta ólík sjónarmið, sem séra Sveinbjörn og aðrir ákveðnustu fylgjendur hans vonuðust eftir, þegar hann var studdur til ráð- herradóms. Séra Þorsteinn fylgdi algjörlega Ásgeirsklíkunni, var í öllum málum íhaldssamur mjög og leitaði eftir hylli og stuðningi Sjálfstæðisflokksins. Það varð því margt til sundurlyndis og kom æ betur í ljós, að flokkurinn hlaut að klofna áður en langt liði. Óeining- in stafaði að vísu ekki eingöngu af málefnalegum ágreiningi, heldur átti persónuleg óvild vissra manna sinn mikla þátt í sundrunginni, en hvort tveggja var að sjálfsögðu hættulegt framtíð flokksins... Laust skipulag Framsóknarflokksins Skipulag Framsóknarflokksins var ekki orðið eins fast mótað á þessum árum og síðar varð. Tryggvi var talinn formaður flokksins á stjórnarárum þeirra Jónasar og hans, án þess að formlegar kosningar færu fram til ákveðins tíma. Síðar var Þing- vallafundinum árið 1919 gefið nafn sem fyrsta flokksþingi Fram- sóknarmanna. En það var fundur áhugamanna víðs vegar að, en kjörnir fulltrúar mættu þar engir. En með Þingvallafundinum má telja að Framsóknarflokkurinn yrði að landsmálaflokki, þótt hann sé talinn stofnaður 1917, þegar þingflokkurinn var myndaður undir því nafni. Frá 1919 líða 12 ár þangað til næsta flokksþing er haldið, en það var í marzmánuði 1931. Þar komu ekki kjörnir full- trúar, heldur var þetta almennur áhugamannafundur eins og Þing- vallafundurinn. Þetta flokksþing lagði þó drög að innra skipulagi flokksins, sem var þá aðallega í því fólgið, að kosið var fram- kvæmdaráð Framsóknarflokksins, sem nokkrir menn áttu sæti í. Sigurður Kristinsson varð for- maður þess, en hvorki Jónas eða Tryggvi áttu þar sæti. Þetta var sá vísir, er til var að stjórn flokksins, en Tryggvi var þó enn talinn formaður hans. Forseti íslands, herra Sveinn Björnsson og Steingrímur Steinþórsson, forsætisráðherra takast i hendur. — Ljósm.: ÓI.K.M. Söguríkt og átaka- mikið flokksþing í þingbyrjun 1933 komu undir- eins fram sterkar kröfur frá okkur mörgum um að flokksþing yrði kvatt saman hið bráðasta til þess að marka stefnu flokksins. Tryggvi beitti sér gegn þessu eins fast og hann gat, leyndi sér ekki, að hann langaði ekki til þess að mæta flokksþingi þá. Fram- kvæmdaráðið tók af skarið. Ákvað það að kveðja flokksþing saman 5. apríl í Reykjavík, þótt lið þeirra Asgeirs og Tryggva beitti sér gegn því. Á flokksþinginu 1931 höfðu verið gerðar lauslegar reglur um kjör fulltrúa á flokksþing. Var þeim reglum fylgt nú, og fulltrúar kjörnir samkvæmt þeim. Þetta var því fyrsta flokksþingið, þar sem mættir voru kjörnir fulltrúar samkvæmt ákveðnum reglum. Flokksþing þetta vakti mikla eftirtekt, einkum vegna þeirra átaka, sem áttu sér stað innan flokksins og sem þá raunverulega snerust um það, hvort leita skyldi áfram samstarfs við Sjálfstæðis- flokkinn eða snúa sér til Alþýðu- flokksins. Vinstri og hægri Það var ekki svo auðvelt að vita hvernig þingflokkur okkar raun- verulega stóð gagnvart þessu. Þar voru tveir harðsnúnir hópar þá, þeir sem fylgdu Ásgeiri og Tryggva — og svo við, hinir vinstri sinnuðu, en um þriðjungur þingmanna Framsóknarflokksins hafði enga afstöðu tekið, vildu umfram allt reyna að sætta ólík sjónarmið. Það gat því, þegar flokksþingið hófst, brugðið mjög til beggja vona um afstöðu þing- flokksins til aðal átakamálanna. Jónas var ekki aðgerðalaus Flokksþingið varð fjölmennt, enda var þá áhugi mikill um land allt á þessum málum. Allir vissu, að afdrifaríkar ákvarðanir yrðu teknar á þinginu, sem gætu valdið miklu um framtíð flokksins. Kjörnir fulltrúar voru 230 og auk þess margir flokksmenn aðrir utan af landi. Þingið stóð í 7 daga, varð hið sögulegasta og hafði afdrifaríkar afleiðingar. Urðu skjótt úfar með mönnum. Reynt var frá báðum hliðum að hafa sem mest áhrif á fulltrúa utan af landi. Jónas var ekki iðjulaus þá dagana. Skagfirðingar sendu 15 fulltrúa. Það var harðsnúið lið, sem fylgdi mér afdráttarlaust. Ég hafði fund með þeim fyrsta kvöldið, sem. flokksþingið var háð, og var bá fullt samkomulag milli okkar. Ég hafði því harðsnúna deild með mér úr mínu kjördæmi. Tryggvi kom á fimmta degi Af meiri háttar málum, sem rædd voru á flokksþinginu, var í raun og veru aðeins eitt, sem samkomulag var um. Það var kreppulánalöggjöfin. Frumvarpið um Kreppulánasjóð var þá til meðferðar á Alþingi. Náðist gott samkomulag um afstöðu flokks- þingsins til þess máls. Afstaða Tryggva var afar einkennileg. Hann kom ekki fyrr en á sjötta fund flokksþingsins, þegar kreppumálin voru til umræðu. Hélt þá langa ræðu, snupraði flokksþingið og gagnrýndi störf þess. Taldi Tryggvi, að umfram allt yrði að hafa samkomulag við Sjálfstæðismenn, til þess að fleyta kreppulánalöggjöfinni í höfn. Þetta var nokkurs konar einvígis- áskorun af hálfu Tryggva til meiri hluta flokksþingsins. Andúðin gýs upp Virtist svo, sem Tryggvi vissi alls ekki hvernig straumurinn lá. Það leit svo út, að hann stefndi þá beint að því að kljúfa flokkinn. Þó mun það ekki hafa vakað fyrir honum, heldur hefur hann vonað, að orð sín orkuðu á fulltrúana vegna fyrri vinsælda. En hann athugaði ekki, að fulltrúarnir voru móðgaðir, þeim fannst hann sýna þeim lítilsvirðingu með því að koma fyrst á fimmta degi flokks- þingsins, og tala þá jafnhvatvís- lega og hann gerði. Það var því lítill rómur gerður að máli hans, en ræðan vakti mikil andmæli, svo að úr urðu hreinar eldhúsdags- umræður.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.