Morgunblaðið - 25.03.2001, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 25.03.2001, Blaðsíða 4
4 B SUNNUDAGUR 25. MARS 2001 MORGUNBLAÐIÐ SÆNSKUNÁMSKEIÐ Norræna félagið á Íslandi, í samvinnu við Norræna félagið í Norrbotten í Norður-Svíþjóð, gefur 15 Íslendingum kost á 10 daga sænskunámskeiði í Framnäs folkhögskola dagana 30. júlí - 8. ágúst nk. Farið verður út 29. júlí. Kenndar verða 6 kennslu- stundir á dag og auk þess fer fram kynning á lífi og starfi fólks á Norðurkollu. Eftir námskeiðið gefst kostur á þriggja daga kynnis- ferð um Lappland. Námskeiðið kostar 98.000 krónur. Innifalið er: Ferðir báðar leiðir, kennsla og dvalarkostnaður með fullu fæði alla dagana. Umsækjendum er bent á að kanna hvort viðkomandi stéttarfélög eða atvinnurekendur veiti styrki til fararinnar, svo- kallaða fræðslustyrki. Félagsmönnum Norræna félagsins er bent á að sækja um styrk til viðkomandi deildar Norræna félagsins. Umsóknarfrestur er til 17. apríl nk. Umsóknir skal senda til skrif- stofu Norræna félagsins, Bröttugötu 3b, 101 Reykjavík, á sérstöku umsóknareyðublaði sem þar fæst. Opið mánudag-föstu- dag milli kl. 9.00-16.00. Kjörið tækifæri til að sameina sumarfrí og sænskunám. Nánari upplýsingar fást á skrifstofunni. í Framnäs í Svíþjóð OFT hefur maður veriðskammaður um ævina.Skammaður fyrir bráð-læti, ókurteisi, skaps- muni, óvandaðan málflutning. Stundum er ég líka skammaður heima fyrir að taka ekki til eða týna hlutum eða bara vegna þess að maður segir eitthvað, sem fell- ur ekki í kramið. Núna hefur það hinsvegar hent mig að vera skammaður fyrir íhaldssemi! Íhalds- semi mín mun vera fólgin í því að vilja að flugvöllurinn verði í höfuðborginni, að minnsta kosti þangað til vitað er hvert hann á að fara. Sagt er að fylkingar með og móti vellinum hafi skipst eftir aldri. Yngri kynslóðin vilji völlinn burt, meðan gamlingjarnir vilji láta hann í friði vgna þess að íhaldssemin hafi ráð- ið ferðinni. Kannske er eitthvað til í þeirri fullyrðingu. Og hálfpartinn stendur mér ekki á sama. Það er svo stutt á milli íhaldssemi og afturhalds- semi. Er maður virkilega orðinn svona gam- all að vilja engu breyta? Er maður loksins orðinn ómeðvitaður íhaldsmaður fyrir aldurs sakir? Víst er það rétt að maður sér fortíðina í hillingum, hálfgerðri nostalgíu, þegar allt var í föstum skorðum og veturinn kom með skól- anum og sveitalífið kom með vorinu og ábrystirnar komu með rútunni á haustin og eplalyktin boðaði komu jólanna. Það var festa í mannlífinu. Kaupmaðurinn á horninu var á sínu horni í fjörutíu ár, sami bankastjórinn í bankanum í fimmtíu ár og afi virtist ódauðleg- ur þegar hann hélt upp á níræð- isafmæli sitt. Soðinn fiskur á mánudögum, sagrínugrautur í þriðjudögum. Saltfiskur á kvöldin. Sjálfstæð- isflokkurinn stjórnaði borginni, löggan stjórnaði umferðinni, mamma stjórnaði fjöl- skyldunni. Faðir vorið á kvöldin. Engin blöð á mánudögum, vínlaust ámiðvikudögum, ekkert sjónvarp áfimmtudögum. Hótel Borg sótt á laugardögum. Heim fyrir tólf á kvöldin. Þetta var auðvitað skelfileg rútína, engar óvissuferðir, engar óvæntar uppákomur, ekki einu sinni neitt óvænt í pólitíkinni eða kosningum og hvorki nektarbúllur, flugvellir né þriðja kynslóð farsíma til að rífast um. Það reifst enginn nema þeir á þinginu og flokks- hollar málpípur, sem bergmáluðu því, sem sagt var í málgögnunum. Og ég sem hélt að ég hefði verið liðsmaður í þeirri kynslóð sem ýtti þessu tilbreyting- arleysi til hliðar, ég sem hef staðið í þeirri meiningu að vera fótgönguliði í þeirri bylt- ingarsveit nútímans, sem hefur tekist að um- turna þessum gamaldags, íhaldssama hver- dagsleika – ég stend allt í einu frammi fyrir þeirri ásökun að greiða gamla tímanum at- kvæði mitt, fulltrúi íhaldsseminnar í tilveru okkar Reykvíkinga!! Fulltrúi afturhaldsins!!! Jæja þá og hana nú, sagði ég heima í stofu og fór að velta því fyrir mér hvort ég ætti ekki að skammast mín fyrir þessa ósvinnu, fyrir að falla í þann pytt, að vilja status quo. Sat heima í stofu og vorkenndi þessu gam- almenni og afturhaldsseggi, sem hefur villst af leið. Ég sem hef hamast við að veita hinni líkamlegu hörnun minni viðnám, gert gys að kritíklausri afstöðu skoðanalausrar þjóðar, barist gegn flokkslegum fjötrum og jafnvel barið í borðið (með valdsmannslegum hætti) þegar konan mín eða börnin vilja mér eitt- hvað upp á dekk. Mótþróafullur, uppreisn- argjarn efasemdarmaður og gott ef ekki ríf- andi kjaft um allt sem mér kemur ekki við. Ég er meira segja enn að lemja menn, sem standa upp í hárinu mér og láta lemja mig líka, fyrir það eitt að vera ekki sammála þeim. Svo er ég óafvitandi orðinn bandamaður þeirra þjóðfélagsafla, sem berjast gegn um- bótum og breytingum! Á móti því framfara- máli að völlurinn fari burt. Bara eitthvað burt. Þetta er stílbrot. Auðvitað ætti maðurað kyngja því öllu, sem að höndumber, hvort sem það er dópnotkun, kvótabrask, súludans, öryrkjaeinelti, vaxta- okur, verðbréfabrask eða þá því, að láta stjórnmálamenn og sérfræðinga afskiptala- lausa um að eiga síðasta orðið í því sem varð- ar hagsmuni fjöldans. Láta þetta allt saman lönd og leið og strjúka kviðinn fyrir framan sápuóperurnar í sjónvarpinu. Það er einfald- asta útgönguleiðin. Enda kom það raunar vel í ljós í kosningunni um flugvöllinn, að meiri- hluti Reykvíkinga sér ekki ástæðu til að taka þátt í þeirri kosningu, af því að það er búið að venja fólk við að hafa ekki skoðun (nema þá út af fyrir sig). Til hvers að vera að skipta sér af þessu? Til hvers að taka afstöðu gegn blessaða unga fólkinu og nútímanum, sem fretar á gamlan flugvöll og lýsir frati á þau sjónarmið að höf- uðborgin þurfi að þjóna landsbyggðinni? Skýjakljúfarnir blasa við í Vatnsmýrinni. Eru þetta ekki úrelt viðhorf, afturhald, storkun gegn unga fólkinu, sem er skítsama hvað þeim finnst sem eru eldri en tvævetur? Íhaldsdurgunum. Já, hún fellur ekki í kramið, íhaldssemin og þó er það nú svo að jörðin snýst og jörðin snýst og sumarið kemur á eftir vorinu og börnin koma undir með sama hætti og áður og margt er það í kýrhausnum, sem lærist af reynslu og þroska og samanlögðum mistök- um fortíðarinnar. Ég hef stundum saknað þess að vera ekki ungur eftir að vera orðinn gamall. En ég hefði líka viljað vera eldri þeg- ar ég var yngri. Það hefði afstýrt mörgum ax- arsköftunum. Brennt barn forðast eldinn og ætli íhaldssemin sé ekki fyrst og fremst sú, að kunna fótum sínum forráð. Ana ekki út á foraðið, af því reynslan hefur kennt okkur að stíga varlega til jarðar. Það er afturhald að vilja aldrei stökkva, en það er íhaldssemi og eðlileg varkárni að vilja ekki stökkva fyrr en maður veit hvar maður lendir. Þar að auki er það hroki og barnaleg stertimennska að úthrópa reynslu manna og vitsmuni sem íhaldssemi fyrir það eitt, að lúta lögmálum dómgreindar sinnar. Svo má heldur ekki gleyma því að í ár-anna rás, kemur að því að unga fólkið ídag, verður gamla fólkið á morgun. Hvað sem allri viðleitni lýtur um að veita aldrinum viðnám. Og hvað sem öllum gengur gott til að varðveita æskumanninn og bylt- ingarhetjuna í sjálfum sér. Spyrjið bara mig!! Íhaldssemin er ekki alvond Eftir að hafa staðið í þeirri meiningu að hann hefði verið fótgönguliði í þeirri byltingarsveit nútímans, sem hefur tekist að umturna þessum gamaldags, íhaldssama hverdagsleika, stendur Ellert B. Schram allt í einu frammi fyrir þeirri ásökun að greiða gamla tímanum atkvæði sitt, vera fulltrúi íhaldsseminnar í tilveru Reykvíkinga, fulltrúi afturhaldsins. HUGSAÐ UPPHÁTT

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.