Morgunblaðið - 25.03.2001, Blaðsíða 8

Morgunblaðið - 25.03.2001, Blaðsíða 8
8 B SUNNUDAGUR 25. MARS 2001 MORGUNBLAÐIÐ S AMBAND skálda við Hollywood hefur ekki verið neitt sérlega gott í gegnum tíðina,“ segir Sjón og sýpur á kaffibola sem líkst helst súpuskál. „Menn hefur dagað þarna uppi, drukkið sig í hel eða horfið á baklóð- um kvikmyndaveranna. Þetta er al- veg sérstakt fyrirbæri; að vera skáld og fara til Hollywood. Ljóðið og Draumaverksmiðjan hljóta að vera einhverjar mestu andstæður í mann- legu listrænu athæfi.“ – Flest skáld fara þó þangað með drauma um að skrifa og slá í gegn en þú ferð beint á rauða dregilinn. „Það er satt. Ég er einmitt að bíða eftir leiðbeiningunum um það hvern- ig ég eigi að komast á dregilinn. Hvernig við Ása kona mín eigum að bera okkur að. Ég veit til dæmis ekk- ert hvað dregillinn er langur; ég ótt- ast að þetta verði löng ganga því ég er að verða svo sporlatur með aldrinum. En það eru víst sérfræðingar sem fara í gegnum það með mér hvað má og hvað má ekki." – Er ekki skylda að vera í smók- ing? „Jújú. Ég mæti í mátun hjá alþjóð- legu tískuhúsi ytra á laugardaginn. Þannig gengur þetta fyrir sig og ég er bara kominn inní þessa rútínu. Limósínan mætir á tilteknum stað á tilteknum tíma. Þetta er svolítið eins og ganga inní launhelgar. Maður fær helgisiðabók, sérvalið sæti, og ég er búinn að skrifa uppá að ef ég fái Ósk- arinn þá fari ég eftir ákveðnum reglum um hvernig megi nota nafn Óskarsins og styttuna sjálfa; ég má ekki gera neitt ósiðlegt við hana, að minnsta kosti ekki opinberlega.“ Nær söngleikja- hefðinni en Björk – Óskarinn já, hverjar telurðu lík- urnar vera á að þú komir með hann heim? „Ég er alveg með það á hreinu að Bob Dylan fær þetta. Hann er heima- maður; goðsögn sem hefur aldrei ver- ið útnefndur til Óskarsverðlauna. Hann hefur ekkert verið að gera tón- list í kvikmyndir. Þessi flokkur verð- launanna, besta frumsamda lag í kvikmynd, er reyndar töluvert skrýt- inn. Hann varð til þegar verið var að gera söng- og dansamyndir en þá voru tónlistarmenn og textahöfundar að semja sérstaklega fyrir þær. Í dag hefur þetta farið út í að menn gera einhverskonar þemalag sem er leikið undir titlunum. Dylan er með slíkt lag í myndinni Wonderboys.“ – Hefurðu þá enga von um að hampa Óskarnum? „Ég get bara sagt að ég á meiri möguleika á að fá Óskarinn nú en í fyrra! Auðvitað er það möguleiki. Ég tók tímann á þakkarræðunni minni í gær og hún er fimmtán sekúndur.“ – Þú veist að veitt eru verðlaun fyr- ir stystu ræðuna í ár? „Já, ég tók einmitt tímann því við fengum bréf um að það væri hágæða litasjónvarp í verðlaun fyrir stystu ræðuna.“ – Það kann að virðast einkennilegt að ljóðskáld sé að sogast inn í þennan kvikmyndaheim en í sjálfu sér er þetta ekkert svo fjarlægt þér. Þú hef- ur verið að daðra við ólíka miðla og þar á meðal tónlistina. „Já, en það er eins og að keppa um Óskarsverðlaun í ljóðlist að fá útnefn- ingu fyrir texta í lagi í kvikmynd. Ég tek þessa textagerð mjög alvarlega. Það tók mig mjög langan tíma að komast upp á lag með að skrifa texta við tónlist. Þetta eru allt aðrar spek- úlasjónir en að setjast niður og skrifa ljóð. Ég hef prófað þetta svolítið í gegn- um tíðina, hef gert einhverja texta, en komst almennilega af stað þegar ég gerði Ísóbel fyrir Björk. Það var fyrsti textinn þar sem mér fannst þetta takast hjá mér og ég skilja hvernig formið átti að vera. Lagið og sönglínan voru tilbúin; sönglínan set- ur upp bragreglur lagsins og tónlistin gefur stemmningar og vísbendingar um það hvert maður fer með textann. Það þarf að verða samruni tegund- anna texta og tónlistar.“ – Er textagerðin skemmtileg iðja? „Mjög skemmtileg. Og vinnan við þessa mynd, Myrkradansarann, var algjört ævintýri. Við Björk höfðum unnið saman, ég hef gert ein þrjú, fjögur ljóð fyrir hana. Svo þegar rætt var við hana um að gera þessa mynd, þá stakk hún upp á mér við Lars von Trier. Sagði honum frá mér og hann fékk að heyra það sem ég hef gert. Honum leist lík- lega nógu vel á það – og á mig þegar fór og hitti hann, og þá var ákveðið að við myndum reyna að gera þetta sam- an. Ég er ágætur í að ríma, sérstak- lega ef ég er með enska rímorðabók, og þessi mynd þurfti einmitt hefð- bundnari texta en til dæmis Björk hefur verið að gera, því hún yrkir al- veg í frjálsu formi. Það er mjög sér- stakt fyrir dægurlög að gera texta eins og hún gerir. Ég er miklu íhalds- samari, ég er miklu nær gömlu söng- leikjahefðinni. Þessvegna passaði vel að ég kæmi inní verkefnið. Ég fór til Danmerkur, við Lars borðuðum saman og tókum eina eft- irmiðdagsstund í að þreifa á hvor öðr- um. Þá kom í ljós að þetta myndi sennilega ganga og við tókum fjórar sessjónir hálfu ári síðar. Hittumst og vorum saman viku í senn í risastóru sumarhúsi við sjóinn einhversstaðar við Kattegat. Lars eldaði gott karrí og við unnum.“ – Var tónlist Bjarkar þá tilbúin? „Nei. Lars vildi ekki láta hana hafa nein áhrif á það hvernig við skrifuð- um. Hann sá textana sem óaðskiljan- legan hluta af handritinu. Björk var ekkert inní textagerðinni en hún var búin að semja nokkur lög og ég setti mig reyndar nokkuð vel inn í það sem hún var að gera. Við ræddum hvernig væri mögulegt að stilla því saman við orð. En Lars vildi ekkert af því vita. Hann vildi bara einbeita sér að hinum dramatíska þætti. Hvernig lögin kæmu inní söguna; hvernig þau flyttu söguna áfram; hvernig þau lýstu per- sónunni – að lög og textar væru trú- verðug í heimi sögupersónunnar. Þetta þurftum við að stilla saman. Eftir svona sessjónir hittumst við Björk, ég sýndi henni hvað við Lars vorum að gera, stundum mátuðum við textana við lögin. Ég var líklega sá sem var í báðum heimum. Í söngtextum þarf að vera með kúnstir sem eiga ekki að vera sýni- legar. Ég upplifi þetta sem frekar kúbískt form. Í textunum er ákveðið viðfangsefni og sungið í fyrstu per- sónu. Svo á maður möguleika á svo- kallaðri brú í laginu, að stíga út úr fyrstu persónunni og skoða viðfangs- efnið og persónu mannsins frá ann- arri hlið. Þá er komið í viðlagið þar sem birtist ákveðin samantekt eða inntakið í sögunni. Þetta er svolítið eins og að gera eftirmynd af herskipi úr eldspýtum. Það er verið að segja sögu sem er svo miklu stærri en ætti að rúmast í nokkrum versum og við- lagi. Ég er náttúrlega að vinna í gamalli hefð sem er þrælbundinn frásagnar- kveðskapur. Og þótt ég hefði áður skrifað söngtexta, þá var nýtt fyrir mér að vera þarna að skrifa drama- tík. Þetta er eins og libretto í óperu. Ég er kominn inn í þann heim, að skrifa út frá persónum og drama- tískum kringumstæðum. Það er eitt- hvað sem ég hef áhuga á að gefa meira af, eins og að skrifa óperu.“ – Von Trier er frægur fyrir sam- skiptaörðugleika. Þú hefur ekki lent í því ? „Nei, Við náðum mjög vel saman. Þegar ég sá lokaþáttinn í sjónvarps- þáttaröðinni hans, Lansanum, þar sem læknar á spítala eru í einhverju hálfgildings ritúali að flytja krabba- meinslifur í einn læknanna, þá hugs- aði ég með mér: fjandinn hafi það, ég á eitthvað sameiginlegt með þessum manni! Mér þótti hann vera á skemmtilega skrýtnum slóðum með sambland af húmor, mystík og ábyrgðarleysi sem mér finnst ég al- veg eiga sjálfur. Það var eitthvað í hugmyndalegum bakgrunni sem gerði að verkum að við áttum mjög gott með að vinna saman. Sungið upp úr gulu síðunum Í píslavættisþríleik sínum, Brim- broti, Fávitunum og Myrkradansar- anum, þá er Lars voða mikið að reyna að vera raunsæislegur. Hann lagði gífurlega áherslu á að við yrðum að vera realistísk, með hreint raunsæi. Það átti að vera eins og fólk væri að syngja upp úr gulu síðunum í síma- skránni. Þar lágu okkar hugmynda- legu átök í þessu verki, því ég kom með lýríkina og þá kröfu að textarnir flyttu innra líf persónanna og að þar gæti verið litskrúðugra heldur en í verksmiðjunni þar sem Selma vinnur. Ég held að þessi togstreita milli heimanna tveggja hafi skilað sér í þessum texta. Ég er þar fulltrúi söng- og dansatriða og hann heimildakvik- myndarinnar. Já, við Lars áttum mjög gott með að vinna saman. Hann er reyndar mjög ákveðinn maður og svo frekur að hann hafði í gegn að sonur minn fæddist á afmælisdaginn hans, 30. apríl. Okkur hjónunum fannst það reyndar fulllangt gengið þegar fæð- ingin drógst fram yfir miðnættið og við áttuðum okkur á að Lars hafði haft það í gegn sem hann hafði verið að nauða um í símann!“ – Myrkradansarinn hefur hlotið mikla athygli víða en jafnframt verið umdeild. „Myndin ögrar mörgum og það kemur mér á óvart. Ég skældi fyrst þegar ég las handritið. Svo fékk ég nýja útgáfu og fór aftur að gráta því þetta var allt svo sorglegt og heim- urinn vondur. Ég hef bara séð þetta sem hámelódramatíska sögu. Fólk lætur flækjast fyrir sér að Lars sé ólíkindatól og sérstaklega í Banda- ríkjunum er fólk að velta fyrir sér hvort hann sé að gera grín að því.“ – Þar kemur líka inn það geysivið- kvæma deilumál sem dauðarefsingar eru. „Í því máli, dauðarefsingunni, birt- ist hin gífurlega menningarlega gjá sem er á milli Evrópubúa og Banda- ríkjamanna. Evrópubúar munu aldr- ei geta litið á Bandaríkjamenn sem fullkomlega siðmenntaða þjóð fyrr en þeir kippa þessu í liðinn. Auðvitað var þetta nokkuð sem ég var alveg með- vitaður um við að skrifa minn hlut í myndinni; mér fannst þetta vera há- pólitískt verk og með góðan boð- skap.“ Aldrei sérstaklega á móti náttúrunni – Nú ert þú á leiðinni vestur í ljós- um prýddan draumaheiminn, en hvað ertu annars að fást við hér í íslenska grámanum? „Það er nú enginn grámi hér. En ég er að sýsla við að skrifa ljóð og sög- ur. Hef verið að skifa hið langþráða annað bindi þríleiksins um Jósef Löve. Í fyrstu bókinni, Augu þín sáu mig, er hann skapaður, aðeins til að vera settur í hattöskju og sendur til Íslands, en nú segir frá föður hans, Leó Löve, og samskiptum hans við Íslendinga á stríðsárunum. En hvort Jósef litli sleppur úr hattöskjunni, um það verða menn að lesa á síðustu blaðsíðum bókarinnar. Þetta er framhald fyrri bókarinnar og hefur verið skemmtileg vinna. Ég var alveg ákveðinn í að skrifa aldrei um seinni heimsstyrjöldina en gerði það svo í Augun þín sáu mig. Síðan var alveg á hreinu að ég ætlaði aldrei að skifa sögulega íslenska skáldsögu, en hef samt verið að því. Um Ísland eftirstríðsáranna. Sögupersónurnar taka bara völdin.“ – Er það bara ekki í anda súrreal- ismans sem þú varst ungur kenndur við; ósjálfráð skrift? „Jújú, að verða andsetinn þessum persónum og skrifa uppúr svefni. En þetta er bók sem kemur á jólamark- að. Ég er algjörlega á síðasta séns hjá Máli og menningu að skila þeim skáldsögu ... Augun þín sáu mig kemur út hjá forlaginu Tiden í Noregi þegar ég kem frá Hollywood og ég skrepp þangað og tek við fyrsta eintakinu. Svo er hún að koma út í Danmörku í haust. En það er ekkert stórmál að koma þessum bókum út annars stað- ar en hér – ekki þegar maður er að ljóða fyrir popparana, þá er maður í hinni alþjóðlegu útbreiðslu orðsins!“ – Nú er Breiðholtsunglingurinn úr Medúsahópnum orðinn ráðsettur þorpsbúi. Þú ert með annan fótinn á Eyrarbakka og skrifar þar. „Já, það er mikil breyting. En reyndar var Breiðholtið, þegar ég fluttist þangað ungur, algjörlega á mörkum tveggja heima. Annars veg- ar þetta steinsteypta úthverfi og svo móar með andahreiðrum og stökkv- andi laxar í Elliðaánum. Ég hef aldrei haft neitt sérstaklega mikið á móti náttúrunni. Ég er alveg sáttur við að hafa sjóinn nálægt mér þarna á Eyrarbakka. Það er algjör lúxus að hafa svona flóttaleið úr bæn- um. Að geta sest með fjölskylduna inn í sitt litla hús og hlustað á öldu- gjálfrið, eða brimið, eftir því í hvernig skapi hafið er.“ Morgunblaðið/Einar Falur Í Hollywood er uppskeruhátíð ársins framundan. Verið er að fægja Óskarsstytturnar og ryksuga rauða dreg- ilinn sem stjörnurnar ganga eftir á leið í salinn. Íslendingar eru nú tilnefndir í annað sinn, þar sem þremenn- ingarnir Björk, Sjón og Daninn Lars von Trier eru tilnefnd í flokki bestu frumsaminna laga fyrir I’ve Seen it All úr Myrkradansaranum. Skáldið Sjón, sem búinn er að tímamæla þakkarávarpið, drakk kaffi með Einari Fal Ingólfssyni og velti fyrir sér hversu langur dregillinn sé í raun og veru. Á meiri möguleika á Óskar en í fyrra

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.