Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 15.05.2006, Blaðsíða 14

Ljósmæðrablaðið - 15.05.2006, Blaðsíða 14
ástand. Eina ástandið sem veldur meiri verkjum að meðaltali er eftir aflimun á fingrum. Flestar fæðandi konur meta verki sína á bilinu 4-5 af 5 mögulegum á MPQ-skalanum, en orðskýringarn- ar sem fylgja stigunum eru hræðilegur (horrible) og óbærilegur (excruciating). Þó er vert að benda á að þrátt fyrir að verkirnir séu mjög slæmir kæra sumar konur sig ekki um að nota svo neikvæð orð yfir sársauka sem þær upplifa við jafn jákvæðan atburð og fæðingu barns (Lowe, 2002; Mander, 1998). Rannsóknir hafa gefið til kynna að neikvæð upplifun kvenna af verkjum í fæðingu geti sett mark sitt á þær alla ævi. Samkvæmt stórri, megindlegri rannsókn sænsku ljósmóðurinnar Ulla Waldenström (2003) á minningum kvenna um fæðinguna sína telur þriðj- ungur kvenna sársaukann sem þær upplifðu vera versta sársauka sem þær geta imyndað sér. Ári eftir fæðinguna er fjórðungur kvennanna enn þeirrar skoðunar. I megindlegri rannsókn Svíanna Nystedt, Högberg og Lundman (2005) á upplifun kvenna af langdreginni fæð- ingu eru verkir sterkasta stefið. Konur sem höfðu neikvæða upplifun af fæð- ingunni töldu hana vera skelfilega og eyðileggjandi, og svo sársaukafulla að þær héldu að þær væru að deyja. Þrátt fyrir þetta voru þær ánægðar með þann stuðning sem þær fengu frá ljósmóður sinni. Margar fæðandi konur virðast þvi þurfa á verkjastillingu með lyfjum að halda, þrátt fyrir að þær fái viðeigandi stuðning og aðra verkjameðferð frá ljósmóður. Þessum konum finnst mjög erfitt að vera neitað um þau verkjalyf sem þær biðja um (Page, 2000). Slæmir verkir í fæðingu geta haft neikvæð líkamleg áhrif á móður og barn. Verkjunum geta fylgt ofondun, uppköst og oforvun á ósjálfráða taugakerfinu. Þessi oforvun getur m.a. leitt af sér sam- drátt í æðum. Æðasamdrátturinn skerðir blóðflæði til heila konunnar, legs og fylgju, sem getur valdið súrefnisþurrð hjá barninu. Að auki getur samdráttur legs orðið ósamræmdur og samdrátt- arhæfni þess minnkað (Bryant og Yerby, 2004; Lowe, 2002). Afleiðingarafþessu tagi sjást frekar í fæðingum þar sem inngrip eiga sér stað, enda væru slík- ar aukaverkanir í náttúrulegri fæðingu undarlegar frá sjónarmiði þróunar. Ýmsar kenningar eru uppi um sál- félagslegar afleiðingar slæmra verkja í fæðingu. Mjög slæm upplifun af verkj- um getur leitt til andlegrar vanlíðunar móður eftir fæðinguna. Hún á frekar á hættu að fá fæðingarþunglyndi, en það getur haft neikvæð áhrif á aðlögun henn- ar að móðurhlutverkinu. Tengslamyndun móður og barns getur verið skert og hamlaðtilfinningalegumþroskabarnsins (Bryant og Yerby, 2004; Ferber, Granot og Zimmer, 2005). Á móti kemur að þegar endorfinframleiðsla konu er heft með verkjalyfjanotkun getur það komið niður á náttúrulegri tengslamyndun móður og barns fyrst eftir fæðinguna (Schmid, 2005), en betur verður fjallað urn hlutverk endorfins síðar í þessari grein. Viðhorf samfélagsins Sköpunarsaga Biblíunnar segir frá því þegar höggormurinn tælir Evu til þess að taka sér ávöxt af skilningstré góðs og ills, sem Guð hafði forboðið. Eva tekur ávöxt og gefur Adam að borða með sér. Við þetta opnast augu þeirra fyrir nýjum skilningi á heiminum. Sem kunnugt er vísar Guð þeim Adam og Evu úr aldingarðinum Eden fyrir vikið, en að auki hljóta þau hvort sína refs- ingu. Adam er dænrdur til að strita í sveita síns andlits, en við Evu segir Guð: „Mikla mun ég gjöra þjáningu þína, er þú verður barnshafandi. Með þraut skalt þú börn fæða, og þó hafa löngun til manns þíns, en hann skal drottna yfir þér.” (Genesis 3:16). Fram til 17. aldar var það viðhorf kristinna manna og gyðinga að kvalir kvenna í fæðingu væru hluti af guð- legri skipan heimsins, líkt og kvalir karla í stríði. Kvalirnar fólu í sér bæði refsingu og yfirbót fyrir erfðasynd- ina sem Eva hafði kallað yfir allar konur. Ljósmæður og aðrar konur sem þekktu lækningarmátt jurta og reyndu að lina þjáningar fæðandi kvenna voru því álitnar óvinir kirkjunnar. Talið er að fjölmargar ljósmæður hafi verið brenndar á báli í galdraofsóknum mið- alda, þó fræðimönnum beri ekki saman um hve viðtækar ofsóknir gegn ljós- mæðrum hafi verið (Camann, 2005; Leap og Anderson, 2004). Frá 17. öld til þeirrar 19. breyttust vestræn viðhorf til verkja. Farið var að líta á þá sem náttúrulegt og vísindalegt fyrirbæri frekar en út ffá trúarlegum og siðferðilegum gildum. Árið 1847 not- aði læknirinn James Young Simpson í fyrsta sinn eter til að deyfa konu með aflagaða grind meðan barn hennar var tekið með töngum. Mikil eftirspurn skapaðist fljótt eftir þessari nýju þjón- ustu, þrátt fyrir að Simpson og sam- ferðamenn hans hafi strax spurt sig þeirra spurninga sem enn er ekki að fullu svarað: Hvaða áhrif hefur deyfing sem þessi á virkni legsins, kviðvöðv- ana og bamið? Engu að síður þótti Simpson notkun deyfingar réttlætanleg, og sakaði gagnrýnendur aðferðarinnar um grimmd (Camann, 2005; Leap og Anderson, 2004). í lok 19. aldar hafði fjölbreytileiki verkjastillinga aukist. Læknastéttin sá konur í sífellt auknum mæli sem við- kvæmar verur sem þyrfti að bjarga undan oki og kvöl fæðingarinnar. Á sama tíma tóku femínistar að leggja áherslu á rétt konunnar til að krefjast verkjalyfja í fæðingu. Um miðbik 20. aldar kom læknirinn Grantly Dick-Read fram með kenningar sem veittu þessum viðhorfum mótspyrnu og hrintu af stað hreyfingum sem aðhylltust náttúrulegar fæðingar. Dick-Read var þeirrar skoðunar að fæð- ing væri í sjálfu sér sársaukalaus ef hægt væri að vinna gegn lærðum ótta konunnar við fæðinguna með fræðslu (Leap og Anderson, 2004). Nútímakonur hafa mjög ólíkar skoð- anir á verkjastillingu í fæðingu. Margar vilja fæða án verkjalyfja ef þess er nokk- ur kostur, meðan öðrum finnst sjálfsagt að nota þá þjónustu sem læknavísindin bjóða upp á (Enkin o.fl., 2000; Henry og Nand, 2004). Svo notuð séu orð konu sem fengið hafði mænurótardeyfingu í fæðingu: „Svo lengi sem ég er vak- andi, tek þátt og veit hvað er að gerast, sé hana fæðast og þarf ekki að upp- lifa allan sársaukann, af hverju ekki? (Callister, Khalaf, Semenic, Kartchner og Vehvilainen-Julkunen, 2003, bls. 148). ii Ljósmæðrablaðið maf 2006

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.