Bændablaðið - 08.07.2008, Blaðsíða 14

Bændablaðið - 08.07.2008, Blaðsíða 14
14 Bændablaðið | Þriðjudagur 8. júlí 2008 Linda Guðmundsdóttur með Písl, átján ára læðu sem slapp úr eldhaf- inu þegar gluggi sprakk. Písl hefur hafist við í fjósinu síðan eldsvoð- inn varð. Þarna eru þær að horfa á niðurrif Finnbogastaða. Endurreisn Finnboga- staða snertir okkur öll Mánudaginn 16. júní brann íbúðarhúsið að Finnbogastöðum í Árneshreppi til kaldra kola. Guðmundur bóndi Þorsteinsson slapp við illan leik úr eldhafinu, en engu varð bjargað. Ætt Guðmundar bónda hefur búið undir Finnbogastaðafjalli í tólf kynslóðir að minnsta kosti. Faðir hans reisti húsið sem brann árið 1938 og þar fæddist Guðmundur árið áður en Ísland varð lýðveldi. Hann er því 65 ára, nú þegar hann hefur misst eigur sínar og íbúðarhús. En Guðmundur bóndi ætlar ekki að gefast upp. Hann er dyggilega studdur af börnum sínum, fjölskyldu, sveitungum og vinum. Nýtt íbúðarhús skal rísa að Finnbogastöðum áður en vetur gengur í garð á Ströndum. Árneshreppur er minnsta og afskekktasta sveitarfélag á Íslandi, útvörður okkar í norðri. Þar er varðveitt merkileg saga um baráttu Íslendinga við ysta haf, saga sem við megum aldrei gleyma. Nú eru að vísu aðeins um 50 einstaklingar búsettir í hreppnum, en mannlífið þar er eigi að síður þróttmikið og fjölbreytt. Sauðfjárbúskapur er und- irstaða byggðarinnar og nú eru í hreppnum 10 bú á 8 bæjum. Í svo litlu samfélagi skiptir hver bær, hver einstaklingur, miklu máli fyrir heildina – og ekki bara Árneshrepp, heldur alla sem láta sig byggð á Íslandi varða. Endurreisn Finnbogastaða snertir okkur öll. Nú hefur Félag Árneshreppsbúa stofnað styrktarreikning fyrir Guðmund á Finnbogastöðum, enda bæta tryggingar aldrei að fullu hið gríðarlega tjón og missi sem hann varð fyrir. Við hvetjum alla til að leggja góðu máli lið, og tökum undir með vinum Guðmundar á Finnbogastöðum: Margt smátt gerir eitt hús við ysta haf. Einar Kristinn Guðfinnsson landbúnaðarráðherra Guðni Ágústsson fyrrverandi landbúnaðarráðherra Össur Skarphéðins- son byggðamálaráðherra Við minnum á söfnun Félags Árneshreppsbúa til styrktar Guðmundi Þorsteinssyni á Finn- bogastöðum. Reikningsnúmer: 1161-26-001050 Kennitala: 4510892509 Eldhafið var gríðarlegt þegar íbúðarhúsið að Finnbogastöðum brann. Húsið gjöreyðilagðist og Guðmundur bóndi missti allar eigur sínar. 17. júní, daginn eftir brunann, var flaggað við Finnbogastaði – tákn um að Guðmundur bóndi og fjölskylda ætluðu ekki að gefast upp. Guðmundur á Finnbogastöðum ásamt tveimur af börnum sínum, Lindu og Þorsteini, 17. júní, daginn eftir brunann. Uppgjöf kemur ekki til greina hjá þeim. Eitt af því sem finna mátti í dag- skárliðum sólstöðuhátíðarinn- ar sem haldin var í Grímsey á dögunum var að mögulega sæist „hreppstjóratuskunni bregða fyrir ásamt hestinum Mö“. Það mun vera Bjarni Magnússon hreppstjóri, sem gegnir hinum ýmsu störfum í eynni þrátt fyrir að vera 78 ára gamall. Það var auðsótt mál að taka smá viðtal við Bjarna, sem byrj- aði á að rölta með blaðamann upp í skógræktarreit sem hann hefur lagt alúð við í nokkur ár. Kríurnar héldu viðteknum hætti og steyptu sér stanslaust niður í höfuð þess- ara óboðnu gesta en Bjarni var vel útbúinn með hjálma til að skella upp. Í skógræktarreitnum var að finna hinar ýmsu plöntur en að sögn Bjarna gengur einna best að koma víðinum til. Hann hefur sett upp skjól og brasað ýmislegt þarna til að gefa gróðrinum betri vaxt- arskilyrði. Sums staðar er of mikill leir í jarðveginum til að hann nái sér almennilega á strik og sum trén sem hann setti niður fyrir meira en áratug síðan eru enn vart metri á hæð. Bjarni segist ekkert klippa þetta til heldur leyfa því að vera sem náttúrulegustu. Fátt fé er eftir í eynni og segir hann að gróðurinn sé allur annar eftir að því fækk- aði, það hafi gengið út um allt og því mun betri skilyrði fyrir tré og runna til vaxtar núna. Þarna fannst líka sérstök tegund af víði sem nefndur var Bjarnavíðir, þar sem hann hefur ekki fundist víðar. Það er óhætt að segja að Bjarni komi víða við og hafi hina ýmsu starfstitla. Auk þess að vera hrepp- stjóri er hann vitavörður, sér um radíóskúrana, sumarbústað í eynni og er einnig umsjónarmaður fast- eigna, sem aðallega felst í að sjá um sundlaugarhúsið. Hann segir bros- andi að hann sé eiginlega bara eins og Þórður húsvörður, nema bara ekki með rauðan vasaklút. Alla tíð hefur hann grúskað í vélum og var eitthvað á sjó sem ungur maður. „Ég fór nú túr á síld í kringum 1960 og fór þá út að Kolbeinsey, síðan kom ég ekki þangað í 40 ár, ekki fyrr en ég sigldi þangað með syni mínum. Eyjan hefur svo sannarlega látið á sjá. Það voru ísár hérna milli 1960 og 1970 og það þyrfti nú ekki nema nokkur svoleiðis ár til að hún hyrfi alveg.“ Hann segir það vera eins og geng- ur með þá sem eru í landi, það sé nóg að gera og alls kyns störf sem til falli. Sundlaugin var vígð árið 1989 og hefur hann verið húsvörð- ur síðan. Eftir að nýtt rafmagnshús kom í eyna árið 1980 var mögulegt að hita upp sundlaug, sem ekki hefði verið mögulegt með olíu- kyndingu. „Það eina sem okkur vantar núna er heitt vatn, það væri alveg gríðarlegur munur því það er svo dýrt að kynda þetta með rafmagni. Það er háhitasvæði hér sunnan við eyna og vonandi er þetta eitt- hvað sem þeir ná að bora upp hér í eynni. Auðvitað ættum við líka að reyna að nýta vindinn til að virkja og framleiða rafmagn,“ segir Bjarni, enda hefur hann alla tíð spáð í svona málum. Sígur enn í björg Grímseyingar síga mikið í björg- in til eggjatínslu og er Bjarni þar engin undantekning „Ég seig nú ekkert í vor, það voru svo margir til þess og ungir menn, en ef það vantar einhverja til að síga fer ég. Ég sýni líka aðeins bjargsig en það er nú bara rétt til að sýnast fyrir þá sem vilja fylgjast með,“ segir hann, þá nýbúinn að sýna bjargsig fyrir hóp ferðamanna, sem létu hafa það eftir sér að hann hefði ekki blásið úr nös. Hann hlær að því og segist nú alveg hafa fundið fyrir þessu, en þetta sé sitt sport og hann sígi eins lengi og hann mögulega geti. Eitthvað hefur eggjatínslan þó breyst þar sem skegglunni hefur fækkað mikið, að sögn Bjarna. Hann segir svo litla átu hafa verið fyrir um 2-3 árum og eggin hafi þá líka breyst. „Við fórum að sjá hvað rauðan var að verða gul og hún fór líka að verpa seinna en svartfugl- inn, því var alltaf að seinka. Núna í fyrra var nóg áta en hún náði sér ekki á strik, það varð ekki nema um þriðjungur af því sem var.“ Bjarni segir að það sé líkt og verndarvættur vaki yfir þeim Grímseyingum: „Við erum svo ótrúlega heppin, það fór ekki nema einn maður í sjó á síðustu öld en hann var að skjóta fugl. En við höfum vissulega misst menn í björgin, þau hafa tekið alltof marga,“ segir hann. Aðspurður um ungt fólk í Grímsey segir hann kíminn að strákarnir fari nú yfirleitt í land til að ná sér í konur, þeim hald- ist ekki eins vel á stúlkunum í eynni. Hann segir að flestir strák- ar sem á annað borð fari á sjóinn taki pungaprófið snemma og séu viðloðandi þetta alla tíð. „Þegar Norðursjávarævintýrið var hér fyrir nokkrum árum síðan var eng- inn maður með mönnum nema hafa farið á Norðursjó, svo komu þeir bara aftur til að róa hér heima. Þú sérð þessa stráka á litlum hrað- bátum og slíku, helduru að það sé nokkur spenningur yfir þessu? Þeir eru vart komnir úr barnaskóla þegar þeir taka pungaprófið, um leið og þeir koma í framhaldsskóla í landi, svo mega þeir byrja ungir að læra á flugvélar þótt þeir séu varla komnir með bílpróf.“ Bjarni er ánægður með menntaframboð í dag og segir Verkmenntaskólann á Akureyri alveg einstakan í sinni röð. Sjálfur segist hann gjarnan vilja hafa haft möguleika á þessum tækifærum sem núna eru í boði. Grímseyingar geta seint tal- ist feimnir og segir Bjarni að þeir hafi líka bara svo gaman af því að fá gesti. Kona hans, Vilborg Sigurðardóttir, bíður með kaffi og köku þegar við komum inn úr skógræktarreitnum og tekur undir það hvað það sé gestrisið fólk í eynni. Vilborg starfaði eins og bóndi sinn við ýmis störf, en auk þess að vera menntuð ljósmóðir vann hún við símstöðina og veð- urathuganir í 50 ár. Hún hætti árið 2000, en þá höfðu verið gerðar veðurathuganir í Grímsey sam- fleytt síðan árið 1873 og til dagsins sem hún hætti og sjálfvirkur veð- ursendir tók við. Þau hjónin eiga fimm börn og nokkur barnabörn. Synir þeirra tveir búa í eynni en þrjár dætur á höfuðborgarsvæðinu. Það er ekki annað hægt í lokin en að forvitnast um hestinn góða sem Bjarni á. Hesturinn Mö er 14 vetra meri, jafngömul sonardótt- urinni sem nefndi hana. Sagan á bak við þetta sérkennilega hest- anafn er sú, að maðurinn sem Bjarni keypti hestinn af átti hest sem hét Mön og kom til umræðu að nefna þennan hest Mön. Hann sagðist nú ekki ætla að gera það, en sú stutta byrjaði að kalla hest- inn Mö og það heitir hún enn. Á góðum dögum setur Bjarni aktygi á hana og spennir aftan í lítinn vagn sem hann á, tveggja sæta, og er það vissulega skemmtileg sjón að sjá á góðviðrisdegi. gbj Hreppstjórinn og hesturinn Mö Bjarni Magnússon hreppstjóri í Grímsey ásamt hestinum Mö. Ljósm. gbj

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.