Bændablaðið - 08.07.2008, Blaðsíða 25

Bændablaðið - 08.07.2008, Blaðsíða 25
26 Bændablaðið | Þriðjudagur 8. júlí 2008 Um Jónsmessuna fór hópur manna úr Hrunamannahreppi í landgræðsluferð upp á afrétt Hrunamanna. Í fyrra var stofnað uppgræðslufélag Hrunamanna og var þetta fyrsta ferð félagsins, en í nokkur ár hafa bændur úr hreppnum farið í landgræðslu- ferðir upp á afréttinn. Ísófur Gylfi Pálmason, sveitar- stjóri í Hrunamannahreppi, sagði að þessi uppgræðsla á afréttinum væri í framhaldi af beitarstýringu í sauð- fjárrækt. Sigurður H. Magnússon, líffræðingur hjá Náttúrufræði- stofnun, er úr Hrunamannahreppi og mikill áhugamaður um afrétt hreppsins. Hann skrifaði doktors- ritgerð sína um afréttinn og hefur verið aðal hvatamaður að þessum landgræðsluferðum. Þá hefur hann samið skýrslu um uppgræðsluna og hvernig menn eigi að vinna að henni og síðan hafa bændur og annað áhugafólk farið einu sinni á ári í landgræðsluferð, borið á og sáð. „Sigurður H. Magnússon ætlar í haust að fara með einn bekk úr Flúðaskóla upp á afréttinn og sýna þeim hvað menn hafa verið að gera þarna á liðnum árum. Þannig ætlar hann að reyna að vekja áhuga barnanna á landgræðslustarfinu,“ segir Ísólfur Gylfi. Hann segir gríðarlega mikinn árangur hafa náðst í landgræðsl- unni á afréttinum. Það hafi allir séð sem fóru í Jónsmessuferðina á dög- unum. ,,Það gladdi okkur mikið að sjá þennan mikla árangur,“ sagði Ísólfur Gylfi. S.dór Uppgræðsla á Hrunamannaafrétti: „Mikill árangur hefur náðst á síðustu árum“ – segir Ísólfur Gylfi Pálmason sveitarstjóri Sigurður H. Magnússon líffræðingur hjá Náttúrufræðistofnun er einn helsti hvatamaðurinn að stofnun félagsins. Félagar úr Uppgræðslufélagi Hrunamanna komnir á svæðið austan Hvítár til að hefja sáningu. Ekki spillir veðrið, svo ekki sé minnst á útsýnið, Jarlhettur og Langjökull blasa við. Ljósm. Sigurður Sigmundsson „Við erum afar þakklát öllum þeim sem lagt hafa okkur lið og þeir eru fjölmargir,“ segir Óskar Kristjánsson, bóndi í Grænuhlíð í Eyjafjarðarsveit, en hann og kona hans, Rósa María Tryggvadóttir, buðu sveitungum sínum, vinum og velgjörðarmönnum heim nú nýlega. Gestum var boðið að líta yfir þá miklu uppbyggingu sem átt hefur sér stað á jörðinni, en eitt og hálft ár er um þessar mundir liðið frá því að heljarinn- ar aurskriður féllu yfir bæ og úti- hús með tilheyrandi tjóni. Mikil mildi þykir að ekki urðu slys á fólki í hamförunum, sem urðu eftir mikil hlýindi og leysing- ar skömmu fyrir jólin 2006. Skriður féllu yfir íbúðarhúsið og eins yfir eldri fjósbyggingu en 12 gripir sem í henni voru drápust. Þá fór gamall braggi í spað, en hann var notaður undir ýmsan búnað og „um hann er nú ekkert til nema minningar,“ segir Óskar. Þau hjón voru heima við ásamt yngsta syni sínum þegar skriðurnar féllu árla morguns þann 20. des- ember 2006 og áttu þau svo sann- arlega fótum fjör að launa. Fyrsta skriðan féll milli bæjar og útihúsa en skömmu síðar kom önnur spýja úr fjallinu og fann hún sér farveg í gegnum bæinn. Gríðarleg vinna var við hreinsunarstörf, en sveit- ungar lögðu lið og eins komu um 30 manns úr Björgunarsveitinni Dalbjörgu á staðinn og unnu sleitu- laust við að hreinsa aur úr íbúðar- húsinu. „Ég hef nú orðað það þannig að við höfum sett jólin í poka og flutt með þau að Hrísum, þar sem við dvöldum þar til óhætt þótti að flytja heim í Grænuhlíð á ný, en heim komum við 2. í páskum. Kýr voru svo komnar í fjós 5. maí,“ segir Óskar, en fjölskyldan dvaldi í nokkra mánuði á bænum Hrísum í Eyjafjarðarsveit eftir skriðuföllin og þær kýr sem lifðu fengu inni í fjósum á nágrannabæjum. Menn hafa lyft grettistaki Þau Grænuhlíðarhjón fengu um 12 milljónir króna í bætur frá Bjargráðasjóði og Viðlagatryggingu, sem nýttar voru við uppbygginguna. Segir Óskar að reikna megi með að gjafavinnu, sem lögð hafi verið fram, megi meta á 5-6 milljónir króna. Nú hefur verið reist nýtt fjós á jörðinni og er búið komið í full- an rekstur á ný með 28 kýr í fjósi. „Við getum seint fullþakkað öllum sem hafa aðstoðað við uppbygg- inguna, en þetta hefur verið gríð- arleg vinna, menn hafa svo sann- arlega lyft grettistaki og fyrir það vildum við þakka með því að bjóða fólki hingað heim að líta á,” segir Óskar. Hann nefnir sem dæmi að eftir að öflugasta haugsuga norðan heiða hafi gert það sem hún megn- aði við að hreinsa út úr mykju- húsinu hafi menn þurft að taka til óspilltra málanna og handmoka það sem eftir var af aur í húsinu. „Þetta voru um 5 rúmmetrar sem hand- mokað var upp úr húsinu og hífðir upp úr grunninum með bílkrana, það var geysilega mikið verk en einn sona okkar fór þar fremstur í flokki,“ segir Óskar. Þótt grettistaki hafi verið lyft líkt og Óskar segir er þó ýmislegt eftir enn, m.a. segir hann tún hafa komið illa undan skriðuföllum, jarðveg- urinn sé leirkenndur og leiðinlegur, en hann hafi yfir nægum túnum að ráða þannig að þau þurfi ekki að óttast heyskort. „Það er fyrir mestu að allir komust lifandi frá þessum hremmingum og við erum öllu því góða fólki þakklát sem lagði okkur lið, það vildum við sýna með því að bjóða fólki að koma og skoða hjá okkur,“ segir Óskar en um 180 manns litu við í Grænuhlíð nú nýlega. MÞÞ Þau Óskar og Rósa María skildu þennan steinhnullung eftir í túninu, en hann var með þeim stærri sem komu í ljós eftir að búið var að hreinsa skriðurnar í burtu. Á steininn hafa þau sett skilti og stendur hann nú sem minnisvarði í heimatúninu. Eins og sést mæta vel á þessari mynd hefur mikil uppbygging átt sér stað síðan skriðuföllin urðu örfáum dögum fyrir jólin 2006. Byggt hefur verið nýtt fjós og svæðið allt hreinsað upp. Um 180 manns litu við í Grænuhlíð í Eyjafjarðarsveit og skoðuðu uppbyggingu eftir skriðuföll Búið komið í fullan rekstur á ný eftir mikið hreinsunar- og uppbyggingarstarf Um 180 manns sóttu þau Grænuhlíðarhjón heim nýlega þegar þau buðu sveitungum, vinum og velgjörðarmönnum að líta á uppbygginguna frá því skriðurnar féllu. Á myndinni eru, frá vinstri: Rósa María, Bjarni Kristjánsson fyrrverandi sveitarstjóri, Óskar og Haraldur Hauksson læknir.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.