Bændablaðið - 08.07.2008, Blaðsíða 33

Bændablaðið - 08.07.2008, Blaðsíða 33
34 Bændablaðið | Þriðjudagur 8. júlí 2008 Það er úrhellisrigning, hitamæl- irinn sýnir sjö gráður og grámi liggur í hlíðunum sem umlykja Eyjafjörðinn þegar ég banka upp á hjá Kristínu Aðalsteinsdóttur, garð- yrkjukonu í Aðalstræti á Akureyri til að spjalla við hana um garðinn og ræktunina. Þau hjónin Kristín og Hallgrímur Indriðason hafa búið þarna í rúma tvo áratugi og hefur Kristín sérstaklega lagt rækt við garðinn á þeim tíma. Grænmeti, en líka trjáplöntur Kristín byrjar á því að sýna mér það sem hugur hennar stendur næst í garðinum, en það er um þess- ar mundir trjáplönturækt. Kristín: „Hér er nýjasta áhugamálið í garð- inum. Ég keypti um 400 skógar- plöntur og var að ljúka við að potta þeim. Svo ætla ég að njóta þess að horfa á þær vaxa í nokkur ár og þá ætla ég að ákveða hvað ég geri við þær næst, þá planta ég þeim einhvers staðar. Mig langar bara til þess að sjá þær vaxa hérna. Af því að ég á þessa lóð, þá finnst mér sóun að nota ekki plássið. Ég hef bara haft svo lítinn tíma til þess að sinna garðinum síðustu tvö ár, en núna sé ég fram á betri tíma hvað það varðar. En þú veist hvernig það er, grænu fingurnir láta mann ekk- ert vera.“ Af öllum garðverkunum hefur Kristín haft mestan áhuga á að rækta grænmeti. Hún segist hafa lengi vel ræktað þennan áhuga sinn, en hafi hins vegar veikst fyrir nokkrum árum og þurfti að breyta til í fæðinu á heimilinu. Þá fór hún að rækta og borða enn meira grænmeti og vill meina að það hafi gjörbreytt líðan hennar, hún hafi meiri orku og sofi betur. Þannig kom það líka til að Kristín fór að rækta meira grænmeti í garðinum hjá sér. En samtímis byggir hún líka á gamalli hefð, enda ekki svo ýkja langt síðan fólk bjó hér nær sjálfbærum búskap, kart- öflur upp eftir brekkunni bak við fjósið og báturinn í fjörunni. Rukkóla – klettasalat dafnar vel Í gegnum árin hefur Kristín ræktað fjöldann allan af grænmetistegund- um í garðinum, lengi vel að hluta til einnig í plastgróðurhúsi, en núna undir berum himni. Hér gefur að líta breiðu af klettasalati – rukkóla – sem er eitt uppáhaldsgrænmeti Kristínar: „Rukkóla vex eins og arfi og er eitthvað sem Íslendingar gætu ræktað miklu meira af, það dafnar svo vel hér og er bráðhollt. Það er gott í salat og í pestó. Auk þess er hægt að sá því tvisvar yfir sumarið. Ég sái þá bara beint út í beð. Svo er hér spínat. Og hér er mynta. Þótt þessi smábreiða virðist ekki mikil þá er þetta nóg í myntute svona tvisvar til þrisvar í viku allt árið. Þetta er mjög sterk og góð mynta. Líka fín til þess að gefa endabragð- ið í súpur, frískar þær upp.“ Basilíka í pottun Basilíku er Kristín með í pottum, bæði inni í sólskála sem og útivið og er það krydd vinsælt í matargerð á heimilinu. Úr basilíkunni er gert pestó – ítalska grænmetismaukið sem er svo ljúffengt á pasta, brauð og í ýmsa rétti. Meginuppistaðan í því er einmitt basilíkan, sérlega bragðmikil og lystaukandi jurt. Hún er einnig góð blanda í salatið, en fer þó sérstaklega vel með tómötum. Margir kannast við hana þannig ofaná pítsu, en einnig er hún góð í tómatasalat með mozzarellaosti í bland. Basillíka er gömul menning- arjurt og til um hana sagnir sem ekki verða raktar hér, en sjálfsagt er að halda í hana og rækta meira hérlend- is en gert er enda dafnar hún ágæt- lega í íslensku veðurfari. Hún er samt mjög viðkvæm fyrir kulda og þolir alls ekki frost. Því er hún góð í pottum sem hægt er að kippa inn fyrir ef hitastigið lækkar of mikið. Rauðrófubreiður Rauðrófur vaxa einnig í breiðum hjá Kristínu. Af þeim nýtir hún bæði rófurnar sjálfar, eins og þekkt er, en einnig laufblöðin. Þau tekur hún í salat og í pestó og prísar mjög eiginleika rauðrófna, sem holl- ustujurt á ýmsan máta og einnig forvörn gegn krabbameini. Kristín notar helst engan sykur á heimilinu og sýður rauðrófur því ekki niður eins og vanalegra er, heldur steikir þær í litlum bitum á pönnu í olíu og setur smá af balsamikediki og örlítið síróp, nokkur korn af salti. Svona eru rauðrófurnar snæddar sem meðlæti með öðrum mat. Og sólberin Við Kristín virðum síðan fyrir okkur runnalengju af sólberjaplöntum sem vex upp brekkuna í suðurjaðri garðsins. „Þetta eru plönturnar sem ég elska mest af öllum – sólberin. Þessa sólberjalengja virðist kannski ekki mikil en ég er ekki enn búin með uppskeruna af henni síðan í fyrra. Þetta eru ekki mjög marg- ar plöntur, en gefa svona vel, svo frysti ég þetta og á allt árið. Ég geri það síðan þannig að ég bý mér til morgundrykk með frosnum jarð- arberjum úr stórmarkaðnum, sól- berjum hér af runnunum okkar og sojamjólk. Það er morgunmaturinn minn.“ Sólberin eru því eitt af mörgu góðu sem hún býr að í garð- inum. Kristín Þóra Kjartansdóttir sagnfræðingur og garðyrkjunemi kristinkj@gmx.net Gróður og garðmenning Nú er góður tími til að taka niður uppskrift af pestó frá Kristínu Aðalsteinsdóttur og útbúa við tækifæri þegar upp- skera gefst. Svo er hægt að sá til klettasalats nú fljótlega og nýta það svo pestógerðar í haust. En pestó-uppskriftin er svona: 2 bollar fersk basilíka 2 hvítlauksrif hálfur bolli ristaðar furuhnetur (50g) hálfur bolli parmesanostur hálfur bolli ólífuolía salt og pipar Allt hráefnið er hrært saman í matvinnsluvél en gott er að setja ostinn síðast í blönduna. Ég set salatið, piparinn og ostinn í þegar ég nota það eða ber fram. Einnig er prýðilegt að búa til pestó með klettasalati (rukkóla), spínati eða rauðrófublöðum en þá eru notaðir 3 bollar af því í stað tveggja bolla af basilíku. Myndarleg rauðrófubreiða í garði Kristínar Aðalsteinsdóttur, lektors við Háskólann á Akureyri og garðyrkjukonu. Rauðrófur, basilíka og sólber – Litið inn í garð Kristínar Aðalsteinsdóttur í Innbænum á Akureyri Um leið og eitt verkefni klárast tekur það næsta við og heldur okkur sífellt vakandi. Þetta á svo sannarlega við um starfsemi Endurmenntunar við Landbúnaðarháskóla Íslands. Við fögnum kærri komu sumarsins, setjum niður endapunktinn við vinnu vorannar og fullan kraft í þróun námskeiða fyrir næsta vetur. Það má með sanni segja að vet- urinn sem nú er liðinn hafi verið afar frjór hvað varðar starfsemi Endurmenntunar LbhÍ. Frá áramót- um hefur verið boðið upp á hátt í 80 námskeið með um 800 nemend- um. Þetta er mikil aukning frá fyrra ári og því nokkurt fagnaðarefni að okkar mati. Þriðjungur námskeiða er haldinn utan starfsstöðva skólans og skipt- ist nokkuð jafnt á landshluta. Flest námskeiðin, eða tveir þriðju hlutar, eru þó haldin á Vesturlandi og á Suðurlandi, en þar eru aðalstöðvar skólans staðsettar. Kennarar koma einnig víða að og sækjum við m.a. tvo þriðju af okkar kennslukröftum til hinna ýmsu stofnana og fyrirtækja, innlendra sem erlendra, er tengjast fagsviðum skólans á einn eða annan máta. Í vetur höfum við skipt nám- skeiðum okkar upp í eina sjö fag- hópa. Sá áttundi er lengri náms- brautin Grænni skógar. Hver faghópur endurspeglar þau fagsvið sem skólinn leggur áherslu á með sínu námsframboði. Fjöldi nám- skeiða og drifkraftur í hverjum hóp er nokkuð misjafn enda oft og tíðum um mjög misstóra markhópa að ræða. Ekki er þó hallað á neinn þegar tveir hópar eru dregnir fram sem hástökkvarar vetrarins. Sá fyrri eru þátttakendur í námskeið- um sem snúa að hestamennsku. Þar hefur orðið mikil vitundarvakning á öllu því sem snýr að endurmennt- un hestamanna á víðu sviði. Einkar áhugavert hefur verið að fylgjast með fólki koma, oft langar leiðir, til að sækja sér aukna menntun og þekkingu til að efla sig sem reið- menn og þjálfa jafnvel upp sýning- arhross. Nú, eða að sjá allan þann fjölda sem mætti á námskeið þar sem fjallað var um öryggi hesta- manna og kennt hvernig heppileg- ast væri að detta af baki. Hinn hópurinn er síðan örlítið grænni en það er sá hópur fólks sem mætt hefur á hin ýmsu garð- yrkjutengdu námskeið sem í boði hafa verið. Í vetur hefur m.a. verið hugað að rótum vandans, fjallað um mismunandi trjátegundir, gerð tilraun til að breyta örfoka landi í skóg og þannig mætti lengi telja. Landbúnaðarháskóli Íslands hefur í vetur unnið hörðum höndum að gerð stefnumótunar fyrir skól- ann. Skólinn hefur sett fram gildi fyrir skólann sem eru Gróska – Virðing – Viska. Þessi gildi viljum við hjá Endurmenntun LbhÍ að end- urspeglist jafnframt í okkar vinnu. Við höfum því unnið verkferla fyrir alla starfsemi Endurmenntunar LbhÍ. Er það von okkar að þessi til- raun til að ná utan um starfsemina megi verða til þess að gæði nám- skeiða muni aukast enn frekar. Hvað gerir síðan gott námskeið betra? Það er staðföst trú mín að aukin samvinna við neytendur vegi þar hvað þyngst, því án neytenda er Endurmenntun LbhÍ sem væng- brotinn fugl. Rík áhersla hefur því verið lögð á að koma á formlegu samstarfi við mismunandi félaga- samtök og stofnanir núna síðasta ár. Val á námskeiðaefni hefur því á allan hátt færst nær neytendum og um leið í markvissari farveg sem mun án efa eflast enn frekar á næstu misserum. Hefur þetta mælst sérstaklega vel fyrir og án vafa aukið gæði námskeiða. Vinna við þróun námskeiða fyrir næsta vetur er vel á veg komin, þökk sé öllum þeim samstarfsaðil- um sem við höfum. Margar nýj- ungar eru væntanlegar í bland við gamalreynd námskeið. Von er á erlendum fyrirlesurum sem munu fjalla um hin ýmsu málefni er snúa að garðyrkju, þá verður fjallað um landnámshænuna í upphafi vetr- ar og blómaskreytingarnámskeið munu færa sig nær neytendum svo fátt eitt sé nefnt. Ný, lengri náms- braut mun hefja göngu sína í haust en það er tveggja ára nám sem fengið hefur nafnið Reiðmaðurinn. Námið er ætlað hinum almenna hestamanni sem vill á markvissan og skipulegan hátt auka færni sína á flestum þeim sviðum sem varða íslenska reiðhestinn. Við Endurmenntun LbhÍ starfa fjórir verkefnastjórar. Ásdís Helga Bjarnadóttir hefur aðset- ur á Hvanneyri og heldur utan um bútengd námskeið. Hún hefur síðan, ásamt Reyni Aðalsteinssyni, umsjón með námskeiðum tengdum hestamennsku og þar með talinni nýju brautinni, Reiðmanninum. Björgvin Örn Eggertsson hefur aðsetur á Reykjum í Ölfusi og hefur umsjón með lengri námsbrautinni Grænni skógum, sem og styttri námskeiðum er snúa að görðum og gróðri. Undirrituð hefur svo vinnu- aðstöðu á Keldnaholtinu og held- ur utan um námskeið sem snúa að umhverfi og skipulagi, bókhaldi og rekstri, blómaskreytingum og nám- skeiðsflokknum Hugur og hönd. Guðrún Lárusdóttir endurmenntunarstjóri LbhÍ Í upphafi sumars Dagana 24.-25. júní sl. var haldið málþing í Bergen í Noregi um varðveislu erfða- auðlinda með tilliti til búfjár á Norðurlöndum. Frá og með byrjun þessa árs fer ný stofnun, NordGen, með umsjá þessara mála, bæði hvað varðar erfða- efni búfjár og plantna, þar með trjáa, og flutti forstjóri hennar, Jessica Kathle, erindi um starf- semina. Miklar umræður urðu um starfið í framtíðinni, m.a. með hliðsjón af þeim miklu breyting- um sem eru að verða í landbún- aði, og dró Erling Fimland, fyrr- um forstöðumaður Norræna gen- bankans fyrir búfé, saman yfirlit um það helsta sem þarf að takast á við í verndunarmálum næstu árin. Skyldleikarækt er töluvert vandamál í litlum stofnum, helstu framleiðslukynjunum hefur fækk- að mikið og stöðugt er hætta á að verðmætir erfðaeiginleikar tapist fyrir fullt og allt. Á meðal athyglisverðra erinda var umfjöllun Ninu H. Sæther um samanburð á milli NRF mjólk- urkúa og gamla STN kynsins sem er talið einna mest skylt íslenska mjólkurkúakyninu af norrænu kynjunum. NRF kýrnar skiluðu töluvert hærri nyt sem skýrðist að hluta af því að þær eru um 100 kg þyngri, en aftur á móti voru STN kýrnar hærri í nettó orkunýtingu svo og fitu- og prótein prósent- um. Í umræðum kom fram að gömlu kynin væru ef til vill kyn framtíðarinnar, með góða gróffóð- urnýtingu og því vænlegir fram- leiðslugripir á tímum hækkandi orku- og kornverðs. Þess má geta að Jón Hallsteinn Hallsson flutti erindi fyrir hönd Erfðanefndar landbúnaðarins sem vakti ágætar umræður. Í lokin var fundað í búfjárhóp- um NordGen og þá skiptum við íslensku þátttakendurnir okkur niður á þrjá hópa, Jón Hallsteinn fór í nautgripahóp, Jóhanna G. Harðardóttir í alifuglahóp og sá sem þetta skrifar í sauðfjár- og geitfjárhóp. Reiknað er með að fundað verði í flestum eða öllum búfjárhópunum aftur síðar á árinu en auk framangreindra hópa getum við einnig sent fulltrúa í hrossahópinn. Ólafur R. Dýrmundsson Fundað um verndun erfðaefnis búfjár Eru gömlu kúakynin með góða gróffóðurnýtingu framtíðarkúakyn á tímum hækkandi kornverðs?

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.