Skólavarðan - 01.12.2002, Blaðsíða 26

Skólavarðan - 01.12.2002, Blaðsíða 26
Ofurkennarar í bókum og bíó „Hann kenndi með þeim hætti, að allt sem hann sagði varð merkilegt og þess virði að muna það. ... Einu sinni skýrði hann fyr- ir okkur myndir og hætti sagna tvær kennslustundir í röð. ... Eftir þessa tvo fyrirlestra Benedikts kunni ég það, sem ég hef látið mér nægja að vita ævilangt um skynsamlega notkun sagnorða. Seinna talaði hann við okkur heila kennslustund um notkun lýsingarorða. Það var ekki neitt stig- fall- veik- eða sterkbeygingastagl, heldur eldskýr, lifandi og yndisleg ræða um það, hvernig á að gengis- tryggja lýsingarorðin með réttri notkun, þannig að þau haldi gildi sínu og gefi hugmyndinni réttan lit og rétta lykt og rétt bragð og óbjagaða lögun og rétt hitastig frá tungunni yfir í hlustina og frá blaðsíðunni eftir sjóntauginni inn í heilann. Við hlustuðum á dæm- in sem hann tók, uppnumin og agndofa á víxl og þorðum ekki að hlæja né gráta af ótta við að missa af einhverju merkilegu.“ Þannig lýsir Stefán Jónsson fréttamaður kennslu Benedikts Björnssonar skólastjóra á Húsavík og í prentuðum æviminningum Íslendinga er að finna allmargar ámóta lýsingar af ofurkennurum sem ekki var hægt annað en læra hjá. Í kvikmyndum er líka hægt að sjá ofurkennara sem vinna áhugalausa og hálftryllta nemendur til fylgispektar við menntagyðjuna með ástúð og umhyggju ellegar snilldarfærni í karate í bland við óbrigðula innsýn í mannlegt eðli. En hve fjarri er þetta raunveruleikanum hjá - okkur flestum - mörgum - sumum - mér (merkið við það sem þið teljið eiga best við). Að vísu eru sumar kennslustundir rétt eins og í bíómyndun- um, fyrstu tímarnir hjá þeim Sidney Poitier og Michelle Pfeiffer, en sigrarnir hvorki eins öruggir né algerir og hjá þeim. Vitaskuld vinnast stöku sigrar en meðan við bíðum enn ósigra kennum við ekki þannig að nemendum finnist allt sem við segjum merkilegt og þess virði að muna það og þeir þori hvorki að hlæja né gráta af ótta við að missa af einhverju merkilegu. Ofurkennarar í alvörunni En eru ofurkennarar til í alvöru? Þekkjum við einhverja? Þekki ég einhvern? Hefur ofurkennari kennt mér? Þegar ég hugsa til baka og rifja upp skólagöngu mína finnst mér ég hafa verið býsna heppinn með kennara - en ég hef, skrambakornið, aldrei setið í tímum hjá ofurkennara; manni með þennan persónuleika sem gerir öllum kleift að læra - og öllum ókleift að gera það ekki. Að vísu held ég að allir hafi lært hjá Þórði Kristleifssyni í þýskunni í gamla daga; en það var nú aðallega af því hvað við vorum hrædd við hann. Af hverju við vorum svona smeyk veit ég ekki. Ekki var Þórður svo skömmóttur eða refsiglaður. En ég man enn glöggt, eftir fjörutíu ár, þetta eina skipti sem ég gataði hjá honum. Ég man ekkert hvað það var sem ég ekki vissi (veit það trúlega ekki enn) en ég man óhugnanlega vel þegar gamli maðurinn sagði við mig, of- urblíðlega: „Þú skalt fara í sætið þitt, Guðni minn, - með skömm. Og mundu það svo, góði, að þýskukunnátta fellur ekki af himnum ofan.“ Þegar ég litast um á leikvelli íslenskra skólamála sýnist mér ég þó grilla í einn ofurkennara. Hlýtur ekki Jón Böðvarsson að vera ofurkennari? Maðurinn sem gæðir fornsögurnar svo miklu lífi að til hans flykkjast fróðleiksfúsir á öllum aldri og vilja heyra meira og meira og meira. Hann neyddist til að hætta störf- um af því að ekki eru á Ís- landi til nógu stór hús til að rúma hann og hópana hans. En sem betur fer er fræðsla Jóns til á bandi - sem hlýtur að verða notað í ofurkenn- aradeildum kennaraskóla framtíðarinnar. Vera má að til séu fleiri ofurkennarar hérlendis þótt ég þekki þá ekki; kennarar sem taka svo snilld- arlega á brestum, hömlunum, röskunum og áráttum nemenda að allt slíkt gufar upp, hópurinn situr agn- dofa og teygar gullkornastrauminn af munni kenn- ara síns - og deyr tæpri öld síðar með nafn hans á vörunum. Ofurkennari í klukkustund Einu sinni hélt ég að ég væri orðinn ofurkennari - og það í fornbókmenntunum, gæti jafnvel orðið arf- taki Jóns Bö. Ég var á gangi niðri í bæ og hitti fyrr- verandi nemanda minn sem fór að rifja upp hvað hefði nú verið gaman í Njálutímum hjá mér, hvern- ig nemendur hefðu fengið að sitja hjá mér hópum saman ef þeir voru í eyðu - bara svona til að skemmta sér og fræðast um leið. Ég jánkaði upprifinn þótt mig ræki nú ekki minni til að stofan hefði verið neitt yfirfull hjá mér í íslensku 313. Tæpum klukkutíma eftir að ég hitti þennan ágæta nemanda mætti ég öðrum, hann faðmaði mig beinlínis að sér og rifjaði upp hvernig tímarnir hjá mér hefðu verið ljósið í myrkrinu á skólagöngu hans. Ég gekk eftir snævi þakinni gangstéttinni án þess að marka í hana spor og sá fram á að ég yrði að taka mér nafnið Jón Sókrates Bö. En vei, ó vei! Ég mætti einum gömlum nemanda enn. Sá fór líka ótilkvaddur að rifja upp fornbókmenntatímana hjá mér. „Og það get ég sagt þér, Guðni, að mig langaði alltaf meira til að taka inn eitur en koma í þessa helvítis tíma hjá þér.“ Skömmu síðar fór ég að kenna allt aðra námsgrein í öðrum skóla. Guðni Kolbeinsson Höfundur er kennari í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Smiðshöggið 30 Ef ég væri ofurkennari... Í kvikmyndum er líka hægt að sjá ofurkennara sem vinna áhugalausa og hálftryllta nemendur til fylgispekt- ar við menntagyðjuna með ástúð og umhyggju ellegar snilldarfærni í karate í bland við óbrigðula innsýn í mannlegt eðli.

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.