Morgunblaðið - 18.07.1979, Page 19

Morgunblaðið - 18.07.1979, Page 19
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 18. JÚLÍ1979 19 Árni Guðmundsson múrmeistari—sextugur Þegar ég var sendur sem kúa- smali í sveit varð ég þess brátt áskynja, að þar um slóðir var mannfólki skipt í tvo hópa; hina gáfuðu og þá andlega tregu. Um- ræður víða í sýslunni snerust ekki endilega um veðurfar heldur gáfnafar, andlegt ástand einstakl- inga, sveitarfélaga og jafnvel sýslna. Það þarf naumast að taka fram að þetta var'í Suður-Þing- eyjarsýslu meðal andlegs háaðals þessa lands. Eins og gefur að skilja skipuðu þingeyingar sjálfir toppsætið á vitsmunalista úttekt- arinnar. Næstir komu húnvetn- ingar og borgfirðingar. En bilið milli fyrsta og annars sætis var ómælanleg eyðimörk og eilífð. Mér leið alltaf frámunalega vel meðal þingeyinga, nema þegar kom að djúpspekinni og gáfnatal- inu. Þá skrapp ég alltaf saman í andlegan kuðung og vesalings sálarhróið gat komist fyrir á milli tánna. Vart gat ég talist stautfær á bók og kunni hvorki að varpa fram bögu né bregða fyrir mig fornmáli og slá um mig með spakyrðum að innfæddra sið. Þeg- ar ég fór í sendiferð til eins af Sókratesum sýslunnar, Indriða á Fjalli, reyndi ég að fela meðfætt ábyrgðarleysi mitt og „idiótí" með að sýnast vizkulegur í svipmóti, andlegum töktum og misheppnuð- um gáfumanna kækjum og þykj- ast axla alvöru lífsins á herðum. Allir mínir tilburðir í þá átt runnu út í sandinn á hlaðvarpa skáld- bóndans. Þar um sveitir þótti naumast tilhlýðilegt að minnast eða eyða púðri á gáfnafar Akur- eyringa. Hér voru samræður manna á æðra og göfugra plani í þessari kúltúr-Aþenu þeirra Gaut- lendinga, Skútustaðamanna, Sandara, Hriflunga, Hraunkot- unga, Mýrar-í-Bárðardals-niðja, Illugastaðaafspringa, Reykhlíð- inga, Laxmýringa og gáfnaljós- anna af Grenjaðastaðaætt sem og Jóakimunga eða Auðna-benedikt- anna frá Þverá svo stiklað sé á einhverju stóru og bitastæðu. Já, hér komust sjaldan andlegir hott- intottar á blað eins og við Akur- eyringar eða þá Eyfirðingar og hvað þá Skagfirðingar. Svei mér ef mig minnir ekki, að á þá síðastnefndu hafi helst verið litið líkt og negra í Texas. Því urðu mér umskiptin eftirminnileg og fagn- andi undrunarefni þegar ég fór síðar í sveit í Skagafjörð. Þar þótti mér umræðuefnið öllu léttara og skemmtilegra. Hér ræddu menn af meiri áhuga um kvennafar en gáfnafar. Hér glöddust menn, sungu og hlógu saman um helgar og þeystu um hérað á gölnum folum og fóru geyst eins og band- óðir kósakkar. Vinsælasta um- ræðuefnið var jafnan hestar, \ J heimabrugg (á bannárunum), ást- in og meðfylgjandi hopp og hí og húllumhæ. Hér átti hálfviti eins og ég fremur heima. En það litla, sem ég kann í íslensku á ég að telsverðu leyti veru minni meðal þingeyinga að þakka sem smápolli í þessari klassísku akademíu tung- unnar. Fyrir það er ég ævarandi þakklátur. Þegar Skagfirðingur- inn, Árni múrmeistari Guðmunds- son, settist í fyrirsetastólinn á vinnustofu minni snemma á s.l. vori til portretgerðar vegna væn- tanlegs sextugsafmælis, sem er í dag, fannst mér hann flytja með sér léttan og kærkominn skag- firskan blæinn í bæinn. Jafnan var hann glaður og reifur í bragði. í sálarranni hans ríkir birta og bjartsýni athafnamannsins, þar sem oftast „skín við sólu Skaga- fjörður". Það er líkt farið með sálarrannið eða heilabú manna, að þar eru innréttingar og vistarver- ur af margvíslegustu og furðuleg- ustu gerðum og stærðum líkt og þau fjölmörgu húsakynni og íbúð- ir, sem afmælisbarnið hefir reist um dagana af dugnaði, eljusemi og fyrirhyggju. Hjá Árna sjálfum er andlega innréttingin af vandaðri og dýrari gerðinni. Vistarverur eru margar, þar sem bæði er hátt til lofts og vítt til veggja. Skonsur eru fáar að undanskildu einu smá-kamesi, sem nálgast að vera myrkrakompa eða skammarkrók- ur — þar á ég við ættfræðigeymsl- una, sem er bæði lítil og tóm hjá skagfirðingi að vera. Árna er annað betur gefið en ættfræði- stagl. Því veit ég minna um uppruna og rætur múrmeistarans en skyldi. Þó þekki ég suma bráðskarpa frændur hans og veit deili á öðrum, sem gefa þingeying- um sízt eftir. Af ofanskráðu kjammsi má sjá, að ég er sjálfur tekinn að líkjast þingeyingum í mati á mannfólki með aldrinum. Árni er fæddur í Viðvík í Skaga- firði þann 18. júlí 1919. Foreldrar hans voru hjónin Guðmundur bóndi í Smiðsgerði í Kolbeinsdal Benjamínssonar bónda á Ingveld- arstöðum Friðfinnssonar. En móðir hans var eyfirzk (Kjarna- ætt), Anna Jónsdóttir bónda And- réssonar á Syðri-Bægisá í Öxna- dal. Eiginkona Árna er Anna Guðmundsdóttir Sveinssonar á Litla Lóni á Snæfellsnesi. Börnin eru: Guðrún gift í Danmörku. Róbert Trausti stjórnmálafræð- ingur og útvarpsþulur, kvæntur Klöru Hilmarsdóttur forstjóra Sigurðssonar í Kötlu. Anna Mar- grét við iðnnám í bókbandi og Sigríður Ólöf í barnaskóla. Árni hefir verið múrari og verktaki í Reykjavík um langt og farsælt skeið. Hann hefur stuðlað að vexti og viðgangi höfuðborgar- innar með yfirumsjón með bygg- ingu mannvirkja, stórhýsa og allskyns húsa. Hann kom beint úr Skagafirði eins og þingeyingurinn Skúli fógeti faðir Reykjavíkur og líkt og við öll, svokölluðu „að- skotadýrin", sem streymdum að úr öllum áttum og tókum þátt í sköpun og uppbyggingu þessarar snyrtilegu borgar, bráðum gleymt fólk úr strjálbýlinu, sem tók með sér vissa menningu, siði og stór- hug, og mun renna saman í sterk- an stofn. Hér inn af Laugardaln- um í næsta nágrenni beitti Árni sér fyrir að reisa fjölbýlishús fyrir fleiri tugi févana fjölskyldna. Þótti framkvæmdin takast með þeim ágætum, að háhýsið var nefnt Árnasafn í virðingarskyni við verktakann og frumkvöðulinn. Svo mætti lengi telja. Menn hafa leitað til hans og falið honum mikil og vandasöm verkefni, sem hann hefir leyst af hendi með stakri prýði. Ekki hefir hann heldur brugðizt trausti manna. Þó að Árni standi nú á sextugu svellur honum enn móður til nýrra og meiri átaka. En meðan mönn- um er refsað fyrir dugnað og framtak í gapastokki eða rass- skellimaskínu kerfisins í formi nýrra og æ þyngri álaga og skatta siglir múrmeistarinn nauðugur undir hálfum dampi eins og allt of margir athafnamenn og dugnað- arforkar í dag. Máttarstólparnir svokölluðu eru að hrynja saman. Það hlakkar eflaust í mörgum. En hvað fáum við í staðinn? Hálaun- aða og duglausa kerfisdrauga, sem hjálpa til við að múra upp í kjaftinn á okkur og höggva á útréttar rithendur. Árni kom févana og umkomulít- ill sveitapiltur til Akureyrar til að nema iðn sína. Brátt komst hann í kynni við óréttlæti heimsins í þessum friðsæla og fagra bæ, þar sem allir sátu ekki við sama borð eins og á Sæluviku skagfirðinga. Lífið er „töff" eins og þar stendur og engin samhangandi sæluvika, sízt hjá lítilsmegandi iðnlærling- um fyrir stríð, sem oft á tíðum þoldu svipaða meðferð og kaup- lausir þrælar. Árni sigraðist á öllum erfiðleikum og flaug yfir alla hindrunarmúra af eigin rammleik. Mótbyrinn stælti hann og efldi. Hann vann sig brátt í álit og endaði sem einn af dugmestu verktökunum hér syðra í harðri samkeppni. Nú horfir hann beiskjulaus til lærlingsáranna nyrðra, þar sem hann hefði sum staðar að ósekju mátt mæta meir. réttlæti. Eftir að hafa kynnzt mörgum mætum iðnaðarmönnum, einkanlega prenturum og bóka- gerðarmönnum, er ég ekki lengur forviða á hversu margir af mestu og beztu forsætisráðherrum Dana hafa komið úr röðum iðnaðar- manna, allt frá Thorvaldi gamla Stauning, sem var vindlagerðar- maður að iðn. Hvorki skorti múr- arann’, afmælisbarnið, hæfni né getu ef hugurinn hefði sveigzt inn á svipaðar brautir. Hann hefði að minnsta kosti kunnað að múra upp í brestina og getað fellt stein við stein í uppbyggingu með öðru en steinlími og sandi til jákvæðra framkvæmda og framfara. Flest okkar hefðum getað orðið eitthvað annað en við urðum, en óvíst er hvort við hefðum að sama skapi orðið hamingjusamari. Ætli það sé ekki ein af mörgum orsökum vansælu mannskepnunnar, að óska sér að vera annað en raun er á og spenna óskirnar of hátt, svo að reynt sé aftur að gerast spakur og þingeyskur í hugsun. Árni hefir aldrei verið haldinn slíkum hugar- órum né óskadraumum, sem aldrei rætast. Því hefir hann ekki orðið vonsvikinn, vansæll og óham- ingjusamur. Honum hefði eflaust opnazt margar dyr ef hann hefði gengið menntaveginn, sem hefði reynzt honum greiðfær. En í þann tíð skorti fleiri efnismenn en Árna skotsilfur og sjóði til langskóla- náms. Árni er ánægður með hlut- skiptið og sæll með sinn lífsferil og hefir ærna ástæðu til. Nú getur hann litið glaður og ánægður yfir farinn veg. Eg árna honum allra heilia á þessum dýrðar degi með þökk fyrir skemmtileg kynni, að ó- gleymdri þrautsegju og þolinmæði í fyrirsetu er ég reyndi mitt ýtrasta til að eilífga afmælisbarn- ið i olíu á striga, allt til síðustu yfirferðar og fínpússningar kúnstverksins. Örlygur Sigurðsson Margra mánaða bið að fá síma fluttan milli húsa í Bolungarvík Bolungarvík, 16. júlí. HELDUR eru Bolvíkingar óhressir yfir þeim þjónustuhætti Pósts og síma, sem snýr að viðhaldi og viðgerðum símkerfis hér í Bolungar- vík. Þessa þjónustu hafa forráða- menn Pósts og síma ekki séð ástæðu til að flytja hingað í bæinn heldur hafa þeir þjónað þessum þætti frá ísafirði og má segja að sú þjónusta sé fyrir neðan allar hellur. Það reynir á þolinmæði manná að þurfa að bíða eftir að fá síma fluttan svo mánuðum skiptir. Dæmi eru um að menn hafi þurft að bíða eftir síma- flutningi síðan í janúar á þessu ári og til dagsins í dag. Nú standa yfir miklar fram- kvæmdir á vegum bæjarins í gatna- kerfi bæjarins. Það fer ekki hjá því að símastrengir og aðrar lagnir í þessum götum eru í hættu, þegar slíkar jarðframkvæmdir eiea sér stað og hafa þeir, sem þarna búa, orðið að vera símalausir svo dögum skiptir án þess að svo mikið sem litið sé á skemmdirnar. Sjálfvirka stöðin hér er 400 númer og mætti ætla að það væri fullt starf að sinna viðgerðum og viðhaldi í þessum bæ en þess í stað má segja að símavið- gerðarmennirnir frá ísafirði séu frekar sjaldséðir gestir hér. — Gunnar \M 09 fritt fyrír börn mnan 10 ára. Bestu kjörin, hagkvæmasta veröiö. Benidorm einn veöur- sælasti staöur Spánar. Ferðamiðstöðin hf. Aöalstræti 9 Reykjavík. Símar: 11255—12940. Næsta brottför 1. ágúst. Beint leiguflug. Reyndir fararstjórar Seljum farseöla á hag- kvæmasta veröi um allan heim.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.