Morgunblaðið - 22.11.1980, Blaðsíða 34

Morgunblaðið - 22.11.1980, Blaðsíða 34
34 MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 22. NÓVEMBER 1980 Iþessum síðasta úrdrætti úr sögunni af Ingrid Bergman heldur áfram upprifjun Ingmar Berg- man, Liv Ullman og Ingrid Bergman á samstarfi þeirra við kvikmyndina Haustsónötu, en margir telja hana einhverja mögnuðustu mynd síðari ára. Ingmar: í Haustsónötu er atriði — miðnætursamtalið — þar sem móðirin er gjörsigruð. Tilfinn- ingalegar sviptingar mæðgnanna hafa gengið svo nærri henni, að hún á ekki um annað að velja en uppgjöf og segir: „Ég þoli þetta ekki lengur. Hjálpaðu mér. Snertu mig. Geturðu ekki reynt að láta þér þykja ofurlítið vænt um mig? Geturðu ekki reynt að skilja?" Hún segir þetta áherzlulaust. Hún er berskjölduð. Við æfðum þetta í Stokkhólmi áður en kvikmynda- takan hófst í Osló, og við Ingrid fundum bæði, að hún átti bágt með að ráða við þetta atriði. Þegar komið var að kvikmynda- tökunni og við vorum búin að koma fyrir myndavélum og ljósa- útbúnaði, tókum við okkur kaffi- hlé. Þá birtist Ingrid allt í einu. Hún stillti sér upp fyrir framan mig og hreytti út úr sér: „Ingmar, þú verður að útskýra þetta atriði fyrir mér. Þú getur ekki skilið mig svona eftir eins og fisk á þurru landi. Þú verður að útskýra það fyrir mér.“ Hún var æf af reiði. Ég man ekki hvað ég sagði. Ég held, að það hafi ekki verið neitt merkilegt, en það sem gerðist var raunverulega það, að Ingrid beitti skapofsanum til að skilja tilfinn- ingar Karlottu og forsendur sam- talsins. Það var einfaldlega aðferð hennar til að lifa sig inn í hlutverkið. Ingrid: Ég man vel eftir þessu upphlaupi. Ég kom og æpti á Ingmar: „Ég get ekki leikið þetta atriði. Þú ert ekki búinn að segja mér hvers vegna ég ætti að gera það.“ Liv sat við hliðina á honum, og hún stóð upp og flýtti sér í burtu. Hún kom strax til baka og dauft bros lék um varir hennar. Hana hafði bara langað til að sjá, hvað hann léti mig komast upp með. Hann stökk á fætur og rásaði til mín. Hann var blóðillur, en ég fann að hann skildi mig. Og það sem hann sagði varð til þess, að ég tók sönsum: „Ef þú hefðir verið í fangabúðum, mundir þú skilja, að maður getur sagt hvað sem er til að biðja um hjálp." Ég skildi hann samstundis. Ég skildi vonleysið, örvæntinguna og ósigurinn. Já, fangabúðir, þetta gat ekki líkzt neinu öðru. Nú gat ég leikið þetta atriði. Ingmar elskar leikkonur og leik- ara. Hann hefur verið í leikhúsinu alla ævi, og hann fer með þetta fólk eins og litlu börnin sín. Hann langar svo til þess að þau verði hamingjusöm. Maður finnur líka, að hann þjáist með manni og fyrir mann. Þegar maður er að kljást við erfitt atriði, veitir hann hjálp. Úr augum hans má lesa: „Þetta var ekki nógu gott, en svona væri það betra." Og svo stendur hann þarna með tárin í augunum. Hann lætur kannski falla nokk- ur orð til leiðbeiningar, en hann er ekki eins og sumir leikstjórar, sem gefa ýtrustu fyrirmæli um hvern- ig hlutverkið skuli leikið og fara sjálfir yfir öll samtök, þangað til maður er kominn á þá skoðun, að það sé bezt að þeir sjái alveg um þetta. Ingmar bregður gjarnan upp óljósri mynd, gefur manni hugmynd, sem skilar sér aftur á þann hátt sem hann ætlast til. Hann þreytir mann ekki að ástæðulausu. Ef manni líður ekki nógu vel, er hann fljótur að koma auga á það og frestar kvikmynda- tökunni til að athuga hvað sé að. Og hann hækkar aldrei róminn — að minnsta kosti gerði hann það aldrei á meðan unnið var að þessari mynd. Aðall Ingmar Bergmans er sá, að hann kemst svo nálægt persón- unum, sem hann er að búa til. Hann skyggnist svo djúpt í hug- skot þeirra. Allt er tekið í nær- mynd, þannig að minnstu svip- brigði skila sér á filmuna. Smá- hreyfing, til dæmis þegar lyft er augabrún eða auga er hvarflað, veitir túlkunarmöguleika. Þetta var að sumu leyti nýtt fyrir mér. Ég hafði verið svo lengi á leiksviði, þar sem maður verður allan tím- ann að muna eftir fólkinu, sem situr á efri svölum. Ég hafði tamið mér umsvifamiklar hreyfingar og var orðin vön því að brýna raust- ina. Þegar fólk er búið að kaupa sig inn á sýningu, á það kröfu á að fá eitthvað fyrir aurana sína. Það sér mann kannski ekki nógu vel, en það er hægt að tryggja, að það heyri hvað sagt er á sviðinu. Samt var mér ljóst hvaða möguleika nærmyndin hefur. Með nærmynd er meira að segja hægt að búa til blekkingu, sjónhverfingu, sýna eitthvað, sem alls ekki er þarna. í Casablanca voru mörg atriði þar sem ég notaði alls engin svip- brigði, en samt las áhorfandinn úr andliti mínu það sem hann hélt að ég væri að túlka. Hann ímyndaði sér hugsanir mínar, eins og hann vildi að þær væru, þannig að raunverulega var það hann — áhorfandinn — sem lék fyrir mig. Ingmar: Smám saman varð mér ljóst, að Ingrid hafði gífurlega þörf fyrir öryggi, hlýju og nálægð. En hún þekkti mig ekki nógu vel til að geta treyst mér fuilkomlega. Ég varð að gera henni ljóst, að henni væri óhætt að treysta mér, og það gat ég ekki gert á annan hátt en þann að sýna henni í verki hvaða tilfinningar ég bæri til hennar. Þetta var yfirþyrmandi, því að ég hafði það á tilfinning- unni, að ég þyrfti ekki lengur að sýna henni kurteisi. Ég sá heldur ekki ástæðu til að beita kænsku í umgengni við hana. Ég þurfti ekki að vera þjáll eða gætinn í orðum. Svo ég ákvað að afhjúpa mig. Þegar ég reiddist lofaði ég reiðinni að ólga upp á yfirborðið. Það kom fyrir, að ég væri ruddalegur, stundum var ég jafnvel mjög ruddalegur, en um leið lét ég hana finna hvað mér þótti óumræðilega vænt um hana. Það var bara í upphafi sem við misskildum hvort annað — meðan á æfingunum stóð, í tvær vikur. Eftir það voru engir erfiðleikar, engar flækjur. Við vorum búin að opna okkur hvort fyrir öðru, og tilfinningarnar flæddu óhindraðar milli okkar, þannig að það voru engin vandamál. Svo held ég líka, að hún hafi öðlast nýstárlega lífsreynslu á þessu tímabili. Margt kvenfólk starfaði við töku myndarinnar, og ég held, að hún hafi — í fyrsta skipti á kvikmyndaferli sínum — stofnað til systurlegra tengsla við konur, fyrst og fremst Liv. Það held ég, að hafi orðið til að efla öryggistilfinningu hennar. Sjálfur hef ég raunverulega þekkt Ingrid í aðeins þrjú ár, en samt finnst mér eins og við höfum alltaf þekkzt. Við tölum um hvort annað eins og bróðir og systir, ekki aðeins í gamni, heldur af því að stundum er eins og við séum raunverulega systkini. Stundum finnst mér hún vera eins og litla systir mín, sem mér ber að vernda, og stundum er hún eins og stóra systir, sem er skynsöm og setur ofan í við mig sem óþekkan yngri bróður. I einkalífinu er hún svo gjör- samlega laus við grímur, og það er stórkostlegt, en þegar hún er að leika, setur hún stundum upp grímur, sem fara henni ekki mjög vel. Ástæðan er sú, að hún hefur slíka nautn af að leika, að hún á iðulega bágt með að leyna því, og það er ekki gott. En hún veit af þessu. Hún veit þetta allt, en ef leikstjórinn lætur hana komast upp með það, verður hún ævareið. Það er erfitt að gera sér grein fyrir afleiðingum þess að hún hefur ævinlega leikið á erlendu tungumáli. Ég hef alltaf hallazt að því, að leikari geti ekki sleppt fram af sér beizlinu ef hann þarf að tala annað mál en móðurmálið. Þegar Ingrid tekst vel upp, er undravert hvernig hún getur kom- ið því á framfaeri sem hún þarf að segja — hún fær það til að hljóma eins og það hafi aldrei verið sagt fyrr. Samt sem áður — hversu fullkomið vald sem maður hefur á erlendu tungumáli, jafnvel þann- ig, að ekki sé hægt að greina minnsta hreim — þá er alltaf glerhjúpur eða himna milli manns og þessa tungumáls, og þótt þessi hindrun geri það ekki að verkum að manni vefjist tunga um tönn, þá útilokar hún að ótalmörg smá- atriði komist til skila, hún truflar hljómfall tungunnar. Hvað Ingrid áhrærir verður þetta auðvitað bara til að sanna hvað hún hefur gífurlegan töframátt, þann mátt sem hefur gert þennan alþjóðlega feril á kvikmyndatjaldinu mögu- legan. Það hefur verið sagt um Ingrid, að hún sé gift kvikmyndavélinni, og að kvikmyndavélin elski hana. Þetta er rétt. Kvikmyndavélin elskar alvöru kvikmyndaleikkon- ur, kvikmyndavélina þyrstir í and- lit þeirra, tilfinningar og hreyf- ingar. Kvikmyndavélin gerir sér mannamun, og er ósegjanlega grimm við þá sem henni líkar ekki við. Þetta er svona, en enginn veit hvers vegna. Ingrid: Tveimur árum síðar, eða sumarið 1979, fór ég til að hitta Ingmar aftur á eynni hans og hann sýndi mér langa heimilda- kvikmynd, sem hann hafði tekið meðan á töku Haustsónötu stóð. Ég er hvort sem er alltaf um- kringdur ljósamönnum og kvik- myndatökumönnum, og iðulega sér maður ekki einu sinni kvik- myndavélina. Ég sá sjálfa mig eins og ég hafði aldrei séð mig áður. Það var makalaust. Ég sagði við Ingmar, að ég vildi hafa séð þessa mynd áður en við hófum töku Haustsón- ötu. Þá hefði ég kannski verið ofurlítið auðveldari viðfangs. Ég hefði ekki trúað, að ég gæti verið svona erfið. Ég tala viðstöðulaust. Ég rífst stanzlaust. Ég er fyrir neðan allar hellur. Kannski maður hafi gott af því að sjá sig eins og maður raunverulega er. Eg vona, að ég hafi verið skárri þegar ég var yngri, en ég efast samt um það. Heimildamyndin hefst þar sem Ingmar situr uppi á borði, hvílir fæturna á stól og heilsar öllum. „Gaman að fara að vinna með ykkur aftur", segir hann. Síðan förum við að lesa saman, og um leið byrja ég að skammast: „Þetta er það langdregnasta sem ég hef nokkru sinni lesið. Hryllileg lang- loka. Eða þá þetta! Ég skil nú ekki einu sinni hvað átt er við“. Þá er kvikmyndavélinni beint að andliti konu, sem vinnur við fram- kvæmdastjórnina, og hún einblín- ir á mig, eins og hún ætli að myrða mig með augnaráðinu, eins og hún vilji segja: Ef hún á að vera með þá verður aldrei hægt að ljúka við þessa mynd. Ég gat ekki áfellzt manneskjuna. Fyrst ég lét svona fyrstu fimm mínúturnar, hverju mátti þá búast við næstu sex vikurnar? (Síðar sagði hún mér að hún hefði ekki hugsað illa til mín. Hún var bara svona undrandi á því að einhver skyldi voga sér að-byrja á því að tala svona við Ingmar Bergman.) Ingmar er ákaflega hughreyst- andi. „Allt í lagi, allt í lagi, Ingrid. Þegar við komum að þessu atriði, þá förum við yfir það og sjáum hvernig gengur. Við skulum halda áfram og ræða þetta síðar." Svo erum við komin út á gólfið, þar sem búið er að merkja hvar hver og einn á að vera, og ég held áfram að kvarta og kveina: „Ha? Liggja á gólfinu? Til hvers í ósköpunum? Ertu kolvitlaus? Á þetta að verða eitthvert aðhlát- ursefni?" Þegar kemur að því að kvik- myndatakan hefst, þá er ég greini- lega farin að skána töluvert. Liv: Eitt, sem kom mér mjög á óvart þar sem Ingrid var annars vegar, var það, að þrátt fyrir þessi löngu eintöl þá rak hana aldrei í vörðurnar, ekki í eitt einasta skipti. Hún stundaði sama skemmtanalíf og við hin, horfði á kvikmyndir og fór í veizlur, og var með í öllu, sem Ingmar-hópurinn er vanur að taka sér fyrir hendur utan hins eiginlega vinnutíma. Hún dró sig ekki í hlé til að liggja yfir lexíunum, en samt þurfti aldrei að endurtaka atriði af því að hún kunni ekki rulluna. Ég dái hana og mér þykir óskaplega vænt um hana. Eigin- lega finnst mér kvenfrelsisbarátta snúast um þetta — og sennilega er það þetta sem ég sækist eftir þegar kvenfrelsi er annars vegar — að ég sé þess umkomin að dást að öðrum konum og vera stolt af þeim. Ég segi ekki að ég hefði kosið að eiga hana fyrir móður eða systur, en ég vildi óska, að í æsku hefði ég átt hana að vini, þannig að ég hefði orðið fyrir áhrifum af henni þá. Slíkar eru tilfinningar mínar í garð Ingrid Bergman.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.