Morgunblaðið - 17.10.1981, Blaðsíða 26

Morgunblaðið - 17.10.1981, Blaðsíða 26
26 MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 17. OKTÓBER 1981 Foringi, flokkur og pólitísk feigð Eftir Vilmund Gylfason, alþm. Sumarið 1980 urðu einu sinni sem oftar miklar umræður um verkalýðsmál í þingflokki Aiþýðu- flokksins. Var meðal annars rætt um skipulagsmál verkalýðshreyf- ingarinnar. Þá var meðal annars rædd sú hugmynd að ein megin- ástæða bágra kjara verkafólks og skrifstofuólks væru skipulagsleg- ar rústir verkalýðssamtakanna — umdeildanleg skoðun en sannar- lega þess virði að hún sé rædd. Eftir þessar umræður í þing- flokknum tók undirritaður að sér það verk að semja itarlegt frum- varp til laga, þar sem gert er ráð fyrir þeirri meginbreytingu að vinnustaðurinn sé grundvallarein- ing, þegar samið er um kaup og kjör. Margt mælir með þessari breytingu. Á pappírnum er þetta yfirlýst stefna Álþýðusambands íslands frá því fyrir tuttugu árum. I stóriðjufyrirtækjum er að nokkru leyti samið eftir þessu kerfi, og þykir gefast nokkuð vel. Samið var ítarlegt frumvarp til laga, og því fylgdi greinargerð upp á einar fjörutíu blaðsíður, þar sem bæði er gerð grein fyrir sögu máisins, og tíunduð rök, raunar bæði með og á móti. í Alþýðuflokknum var þetta mál rætt á fjölmörgum fundum, bæði í þingflokki, með verkalýðsmála- nefnd flokksins, og með sérstökum kunnáttumönnum, sem leitað var til, eins og gert er, þegar menn vilja vanda vel til frumvarpa. Áuðvitað hefði mátt við því bú- ast, að þegar svo vel hafði verið vandað til frumvarps, þá hefði þetta orðið flokksmál, flutt af nokkrum þingmönnum flokksins. Svo fór þó ekki. Þingmenn flokks- ins vildu ekki vera með, vildu hugsa sig um, athuga málið betur. Á miðnætti kvöldið áður en frum- varpið var lagt fram lét sá síöasti vita. Hann myndi ekki vera með. Það var við þessar aðstæður, freistandi að leita til þingmanna annarra flokka, til þess að kanna viðbrögð. Það hefði auðvitað getað þýtt verulegar breytingar á frum- varpinu, eins og lög gera ráð fyrir. Það var ekki gert, heldur stóð und- irritaður einn að flutningi frum- varpsins. Allmiklar umræður urðu sl. vet- ur um efni þessa frumvarps, og það hefur verið kynnt víða, bæði á fundum og á vinnustöðum. Þykist ég þess fullviss að almennt launa- fólk gerir sér æ betur ljóst, hversu miklu skipulagsmál launþega- hreyfingarinnar varða, þegar launamál eru annars vegar. Einnig í Alþýðuflokknum Flutningsmaður þessa frum- varps hafði af því veruleg óþæg- indi meðal flokkseigenda í Al- þýðuflokknum, að hafa flutt þetta frumvarp, á almennum fundum, og á flokksþingi, þar sem margir gagnrýndu þessi „ósæmilegu af- skipti af málefnum verkalýðs- hreyfingarinnar". „Þetta er eins og skottið ætli að fara að dilla hundinum," sagði einn verkalýðs- rekandinn, smekkmaður mikill. En viti menn. í byrjun október er haldin ráðstefna um verka- lýðsmál að undirlagi forustu Al- þýðuflokksins. Þar er gerð sam- þykkt þar sem lýst er eindregnum stuðningi við hugmyndina um vinnustaðafélög. Þar er því einnig lýst að ráðstefnan styðji einhverja þingsályktunartillögu, sem þing- flokkur Alþýðuflokksins muni leggja fram um málið. Tillagan er að vísu bæði ósamin og óflutt. Samt var lýst yfir stuðningi við hana. Það var hins vegar ekki minnst einu orði á frumvarp til • laga um sama efni, sem einn af alþingismönnum Alþýðuflokksins hefur lagt fram á Alþingi fyrir réttu ári! Miklir menn erum vér, Hrólfur minn. Síðan gerist það, þegar Al- þingi kemur saman, að menn stinga saman nefjum um mál, sem flytja skuli. Augljóst er að frum- varp það um verkalýðsmál, sem mikil vinna var lögð í fyrir réttu ári, verður meðal fyrstu mála sem lagt verður fram. Einn alþingis- maður Alþýðuflokksins hefur á orði, við flutningsmann, að hann vilji verða meðflutningsmaður. Því var auðvitað fagnað mjög. Á sunnudagskvöld, kvöldið áður en frumvarpið er afhent skrifstofu Alþingis, hef ég síðan samband við Sighvat Björgvinsson, for- mann þingflokks Alþýðuflokksins, eins og menn gera áður en frum- vörp eru lögð fram, segi honum að frumvarpið sé á leiðinni, hverjir verði flutningsmenn, og ef fleiri þingmenn jafnaðarmanna vilji vera með að þessu sinni, þá sé auð- vitað af því mikill styrkur. En ekki var það svona auðvelt. Þing- maðurinn, hinn væntanlegi með- flutningsmaður, hefur samband við mig eftir tvo tíma, segir að fyrir orð Kjartans Jóhannssonar, geti hann ekki verið meðflutnings- maður, „vegna óvissrar stöðu Vilmundar Gylfasonar í þing- flokki Alþýðuflokksins". Ég flyt frumvarpið því einn, en hinn hugmyndaríki þingflokkur mun áreiðanlega flytja, einhvern tímann seinna, þingsályktunartil- lögu um máliö, enda nýtur hann til þess stuðnings heillar ráð- stefnu. Einsdæmi Ég hygg hins vegar að það sé einsdæmi í „lýðræðislegum" stjórnmálaflokki, að formaður flokksins hafi ekki annað merki- legra við tíma sinn að gera en að svæla þingmenn í flokki sínum út af frumvörpum, sem einn af þing- mönnum flokksins flytur, og er raunar orðið ársgamalt. — Þessir forustumenn virðast ekki hafa þrek til neins, nema ef vera skyldi að berjast við sína eigin menn. En af hverju gerist þetta? Af hverju eru þessir menn að gera Alþýðuflokkinn að farsa? Af hverju? Við skulum reyna að útskýra: I forustu Alþýðuflokksins sitja menn, sem valda ekki verkefnum sínum. Þeir vita þetta sjálfir, og allur flokkurinn veit þetta. Þeir leita auðvitað logandi ljósi að skýringum alls staðar annars staðar en hjá sjálfum sér. Sig- hvatur Björgvinsson skýrir hrak- legar niðurstöður fyrir Alþýðu- flokkinn í skoðanakönnunum, í viðtölum við Dagblaðið: „Þeir at- burðir, sem urðu hjá okkur í Al- þýðuflokknum í sumar, og fæstir okkar hafa staðið að, (svo!) hafa valdið flokknum stórtjóni." Hér er hann væntanlega að ráðast að Kjartani Jóhannssyni fyrir það að hafa sent menn að næturlagi í prentsmiðju til þess að loka Al- þýðublaðinu, sem vitaskuld var ótrúlega heimskulegt af Kjartani. En Kjartan Jóhannsson er varla sammála Sighvati um það, að hann hafi valdið flokknum stór- tjóni með aðförinni að Alþýðu- blaðinu. Þeir félagar geta síðan notað veturinn til þess að þrasa um það í blöðum, hvað sé Kjartani að kenna og hvað ekki. En Kjartan hefur eitt sér til varnar. Niður- stöður í skoðanankönnunum í vor voru nokkurn veginn alveg eins. Það var áður en hann fór í auglýs- ingaherferðina fyrir Alþýðublað- ið. Hann á náttúrulega að svara Sighvati fullum hálsi, og benda honum á þessa staðreynd. Dýpri skýringar Fólk sem ekki fylgist gjörla með, kann að undrast þau „átök“ sem orðið hafa í Alþýðuflokknum að undanförnu. Þau átök eru hins vegar ekki undarleg, heldur ofur eðlileg. í Alþýðuflokknum, eins og raunar í öðrum flokkum, er flokkseigendafélag, örfáir tugir manna og kvenna. Þetta fólk er um margt vel gert og vel mein- andi. Það stóð í slagnum miðjum, þegar niðurlæging Alþýðuflokks- ins var sem mest, og við lá að flokkurinn þurrkaðist út. Því finnst það „eiga“ flokkinn, með húð og hári — og oft finnst því að flokkurinn skuldi sér. Þegar niðurlæging flokksins var sem mest, voru líka gerðar róttækustu breytingarnar, bæði í stefnuskrá, í málflutningi og í flokkskerfi. Flokkurinn var opnaður upp á gátt, meðal annars með lögbundn- um, opnum prófkjörum. Þúsundir og aftur þúsundir gengu til liðs við flokkinn. Þetta varð auðvitað ann- ar flokkur en verið hafði, miklu stærri, miklu öflugri. En það sem fólk sem fyrir utan stendur skilur ekki nógsamlega, er að það er langt í frá að allir hafi fagnað þessum breytingum. Hjá sátu gömlu flokkseigendurnir, sem fannst að nýir menn, fjölmiðla- menn, hálfgerður skríll, hefði komið að næturlagi og „stolið" gamla góða flokknum. Allt var breytt. Það var ekki lengur hringt. Það var ekki róið í flokkseigend- unum með sama hætti og áður. Hinn almenni maður hafði fengið meiri völd. Að sama skapi hafði dregið úr völdum flokkseigend- anna. Þeir, til dæmis, „áttu“ ekki þingmennina með sama hætti og áður. Þetta var raunar meira en óánægja. Þetta var ólga. Þegar stór og nýkjörinn þing- flokkur kom saman að afloknum kosningum 1978, þá sat áttatíu manna flokksstjórn, sem kjörin hafði verið 1976. Eftir á að hyggja er næstum því ótrúlegt hvernig þeir fundir fóru fram. Einn eftir annan stóðu flokksstjórnarmenn upp og helltu sér yfir hina nýju þingmenn, sögðu þeim að þeir vissu ekkert og gætu ekkert, skildu enga pólitík, þekktu ekkert fólk. Andrúmsloftið var hat- rammt. Sá sem svaraði flokks- stjórnarmönnum fullum hálsi, og útskýrði fyrir þeim, að nú væru breyttir tímar, prófkjör og aukið lýðræði, hefði breytt stjórnmálun- um í landinu, var ekki, merkilegt nokk, sá sem þessar línur ritar, heldur Sighvatur Björgvinsson. Ég held þeir hafi enn ekki fyrir- gefið honum. Og það sem meira var, það var þessi flokksstjórn sem sendi þingflokkinn, nauðugan viljug- an, inn í ríkisstjórn haustið 1978, og klúðraði þar með kosningasigri á einu kvöldi. Vilmundur Gylfason „Ég hygg hins vegar að það sé einsdæmi í „lýð- ræðislegum“ stjórnmála- flokki, að formaður flokksins hafi ekki annað merkilegra við tíma sinn að gera en svæla þing- menn í flokki sínum út af frumvörpum, sem einn af þingmönnum flokksins flytur og er raunar orðið ársgamalt. Þessir forystu- menn virðast ekki hafa þrek til neins, nema ef vera skyldi að berjast við sína eigin menn.“ Nokkrir tugir Þessir flokkseigendur eru, sagt og skrifað, nokkrir tugir manna og kvenna. Þó þetta sé flest ágætis fólks, þá hugsar það eftir eigin kerfi. Þetta er fólkið sem nýtur góðs af valdaaðstöðu, til dæmis stjórnarþátttöku. Þetta er fólkið, sem áður ákvað, hverjir færu í framboð, og átti því hönk upp í bakið á þingmönnum og sveitar- stjórnarfólki. Margt af þessu fólki hefur alltaf verið sárt og reitt vegna þeirra breytinga sem gerðar voru á Alþýðuflokknum, og hefur nú tekið illa tillögum sem liggja fyrir flokksþingi seinna í þessum mánuði, um útvíkkun flokksins. Þetta þrönga kerfi velur for- mann og varaformann og aðra í _æðstu stjórn flokksins. Og því er það svo, að jafnvel þó svo Kjartan - Jóhannsson vildi nota góðar gáfur sínar sem alvörustjórnmálamaður væri, sem hann efalaust hefur vit til, þá getur hann það ekki. Hann á allt sitt í þessu þrönga kerfi. Litli flokkurinn, sem er hræddur við að verða stór, sem í raun og veru var andvígur opnum prófkjör um, og þeim „skrílmennum" sem honum fannst slíkt kerfi geta af sér, hefur tekið formanninn til fanga. Efalítið ræða þeir nú, að „loka“ prófkjörum eins og Sjálf- stæðisflokkurinn. Að fara með Al- þýðuflokkinn aftur á steinaldar- stigið. Það væri í stíl við annað. Þetta er aðalatriði málsins, að því er varðar þessi „átök" í Al- þýðuflokknum. Þessi „átök“ milli „flokkseigendanna" annars vegar og „lýðræðissinnanna" hins vegar, hafa verið lengi að grafa um sig. Þau eru vaxtaverkir flokks, sem hefur enn ekki áttað sig á því að pólitík snýst öðrum þræði um at- kvæði, fólk. Án atkvæða er stjórn- málaflokkur ekkert. Flokkskerfið er fárveikt. Þetta vita auðvitað allir, sem um það vilja vita. Þetta flokkskerfi lagðist eins og úlfur á Benedikt Gröndal, sem þó hafði haft forustu um það að smíða nýjan flokk, nýtt flokkskerfi, og hafnaði honum á þeirri forsendu að hann væri ekki nógu „sterkur". En hvað gerðist svo? Það kaus forustu, sem var miklu veikari en hin, sem það hafði losað sig við. Þetta veit allt Alþýðuflokksfólk, sem vill svara slíkum spurningum ærlega. Og hvað svo? Allan sl. vetur var Alþýðuflokkurinn í lamasessi. Það var lítið um þingmál, og þau sem þó voru, voru mál einstakra þing- manna, en ekki flokksins. Flokk- urinn fékk, eins og efni stóðu til, mjög bága útkomu í skoðanakönn- unum. Þetta var áður en Kjartan Jóhannsson hóf auglýsingaherferð sína í þágu Alþýðublaðsins, svo honum einum verður ekki kennt um, þó svo Sighvatur reyni að skella skuldinni á hann. Hins vegar gerist það í sumar, að Alþýðublaðið tekur verulegan fjörkipp, hefur sókn í fjölmörgum málum, til dæmis að því er varð- aði Frakkland og í verkalýðsmál- um. Þá kom gamli sjúkdómurinn í ljós. Þó svo Alþýðublaðið sé ekki nema í 2200 eintökum, þá er það feykisterkt innan Alþýðuflokks- ins, vegna þess að aðrar stofnanir flokksins eru svo veikar. Forustan þoldi ekki kraftinn í Alþýðublað- inu, og réðst lokst til atlögu við blaðið að næturlagi, með alkunn- um afleiðingum. Allt á sér þetta sömu rætur. Fámennur hópur flokkseigenda hefur aldrei þolað þau öfl í flokkn- um, sem hafa efni á því að sækja kjörfylgi, hugmyndir og annað það, sem til þarf í pólitík, eitthvað annað. Kjartan Jóhannsson hefur, kannske óvart, gengið erinda þessa fólks. Flokkur, sem verið hafði steindauður frá þvi á flokks- þingi sl. haust, vaknaði skyndilega til lífsins til þess að reyna að rústa einn af þingmönnum sínum. Þá, allt í einu, tók líkið kipp. En af hverju? Vegna þess að það var bú- ið að grafa um sig árum saman spenna milli fólksins, sem fannst flokknum hafa verið stolið frá sér, og hinna, sem áttu að hafa stolið honum. Þeirra erinda gekk Kjart- an Jóhannsson i sumar, þegar hann hóf sína umdeilanlegu aug- lýsingaherferð, og þeirra erinda hringir hann í þingmann Alþýðu- flokksins, og svælir hann út af frumvarpi, sem hann hefur ætlað að gerast flutningsmaður að. For- usta Alþýðuflokksins er í heilögu stríði inn á við. Hana varðar ekk- ert um aðra þætti þjóðmála. Mín niðurstaða er einfaldlega þessi: Forusta flokks, sem lítur einfaldlega á sig sem forustu nokkurra flokkseigenda, sem vaknar þá fyrst til lífsins, þegar barið skal niður innan flokks, en sefur þess á milli rótt, er auðvitað engin forusta. Menn geta kallað þetta persónulegar árásir ef þeir vilja. En þetta eru ekki persónu- legar árásir. Þetta er kalt pólitísk mat. Þessir menn eru að breyta Alþýðuflokknum í pólitíska sjálfsmorðssveit. Menn geta neit- að þessu ef þeir vilja. Þeir tala þá gegn betri vitund. Hátíðarmessa í Nýju postulakirkjunni SUNNUDAGINN 18. okt. verð- ur hátíðarmessa í Nýju postula- kirkjunni að Háaleitisbraut 58. Hefst messan klukkan 11 f.h. Auk safnaðarprestsins, séra Lennart Hedins, mun að þessu sinni prédika séra Álbert Löschnig frá Kanada. Veitingar verða bornar fram að iokinni messu. Sú trúarhreyfing, sem Nýja postulakirkjan spratt upp af, hófst í Skotlandi og Englandi um 1830. Þaðan breiddist hreyfingin út til Þýskalands og þar var hin Nýja postula- kirkja formlega stofnuð 1863. Síðan hefur kirkjan unnið merkilegt starf víða um heim. Utbreiðsla hennar og viðgang- ur hefur farið sívaxandi á seinni árum, ekki síst í löndum hins þriðja heims. Kærleiks- og friðarboðskapur Nýju postulakirkjunnar á vissulega erindi til fólks í heimi nútím- ans, ásamt áherslunni á ein- faldleik helgisiða og fagurt líf- erni. Þess vegna eru allir ávallt velkomnir í húsakynni kirkjunnar og í messur henn- ar. (Frétt frá Nýju postulakirkj- unni.)

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.