Morgunblaðið - 26.08.1982, Side 34
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 26. AGUST 1982
34
Karitas Jónsdóttir
— Minningarorö
í dag kveð ég hinstu kveðju,
mína kæru vinkonu Kaju, eða
Karitas Jónsdóttur. Vinskapur
okkar hefur staðið í fjölmörg ár og
hefur jafnan einkennst af hlýju og
gestrisni. Við Kaja kynntumst
fyrir tilstilli eiginmanna okkar,
Hagbarðs Karlssonar og Axels V.
Tuliniusar, sem voru systkina-
synir. Á meðan fjölskylda mín bjó
úti á landi, héldum við sambandi
með árlegum heimsóknum og
utanlandsferðum saman. Voru
þessar heimsóknir okkur hjónum
til mikillar ánægju og ekki síst
dætrum okkar fjórum, en þær
vildu ekki fara til Reykjavíkur, án
þess að koma við hjá Hadda
frænda og Kaju. Þannig skipuðu
þau sér fljótt ákveðinn sess í hug-
arheimi þeirra og urðu ekki ein-
ungis okkar vinir, heldur þeirra
líka.
Ferðir okkar Kaju eru mér sér-
staklega hugstæðar. í fyrstu ferð-
uðumst við hjónin með þeim hjón-
um, en síðar að eiginmönnum
okkar látnum ferðuðumst við tvær
og reyndist Kaja mér ávallt ein-
stakur ferðafélagi. Margar góðar
minningar á ég frá þessum ferð-
um.
Samband okkar Kaju varð nán-
ara með árunum, sérstaklega eftir
að Axel lést skyndilega, en þá
reyndist hún mér mjög vel og var
mér mikill styrkur að vináttu
hennar. Upp frá því urðum við
óaðskiljanlegar. Ef heimsóknum
varð ekki viðkomið, þá hringdum
við daglega hvor í aðra. Sóttum
við leikhús saman, ásamt tveimur
vinkonum okkar. Hvar sem við
hittumst eða eyddum stundum
saman, var mér ætíð ljóst, að í
Kaju átti ég bæði tryggan og kær-
an vin. Og þó að á móti blési í lífi
okkar, hélt hún jafnaðargeði og
var lagið að sjá hinar broslegu
hliðar lífsins. Því Kaja hafði góða
kímnigáfu og átti þá oft til að
grínast við okkur mæðgur og tala
beint út um hug sinn. Lífsgleði
fannst mér einkenna Kaju og gat
ekki að gert að hrífast af. Sam-
band hennar og Hagbarðs byggð-
ist á gagnkvæmu trausti, virðingu
og ást, en slíkt má telja helstu
einkenni vináttu þeirra við okkur í
fjölskyldunni sem og aðra nána
vini þeirra.
Mér er það mikill harmur að sjá
á bak þessari konu og orð fá því
ekki lýst, hve dýrmæt vinátta
hennar var mér og mínum. Ég og
dætur mínar vottum aðstandend-
um hennar okkar dýpstu samúð.
Með Kaju er gengin afbragðs
kona, sem við erum þakklátar
fyrir að hafa kynnst og munum
geyma í minningunni um ókomna
tíma.
Áslaug Tulinius
Mig langar til að kveðja mág-
konu mína, Karítas Kristínu Jóns-
dóttur, með nokkrum orðum nú,
þegar hún er horfin sjónum okkar
á vit hins óþekkta.
Leiðir okkar Karítasar hafa leg-
ið saman frá því að hún giftist
frænda mínum og uppeldisbróður,
Hagbarði Karlssyni, hinn 21. maí
1936, þá aðeins 19 ára.
Hagbarði var ekki gjarnt að
flíka tilfinningum sínum, en þó
duldist okkur ekki, uppeldissystk-
inum hans og fjölskyldu, að hann
var ákaflega hrifinn af ungu, lag-
legu stúlkunni, sem hafði fallist á
að gerast lífsförunautur hans. Og
eftir því sem árin liðu, varð okkur
æ ljósara, að til þess hafði hann
ærna ástæðu, því að tryggari og
betri lífsförunaut hefði hann vart
getað valið sér. Karítas reyndist
einnig föður mínum góð tengda-
dóttir og okkur systkinunum hin
ágætasta mágkona.
Karítas fæddist í Vestmanna-
eyjum hinn 3. febrúar 1917. For-
eldrar hennar voru Helga Sigur-
björnsdóttir og Jón Benediktsson,
og ólst Karítas upp hjá þeim
ásamt systkinum sínum, Hansínu,
Jóni og Benedikt. Auk þess átti
hún eina hálfsystur, Þorbjörgu.
Eru systkinin öll á lífi og búsett
hér í Reykjavík.
Sautján ára gömul lagði Karítas
leið sína til Reykjavíkur og réðst
til starfa hjá Brjóstsykursgerð-
inni Nóa hf. Þar hafði Hagbarður
einnig nýlega hafið starf, að af-
loknu námi í sælgætisgerð hjá
hinu þekkta, danska fyrirtæki,
Galle & Jessen. Þarna kynntust
þau Karítas og Hagbarður, og ör-
lög þeirra voru þar með ráðin
fyrir lífstíð.
I fyrstu bjuggu ungu hjónin við
fremur kröpp kjör, eins og títt er
um ungt fólk, sem er að hefja
búskap. En Hagbarður var stór-
huga, og innan fárra ára réðst
hann í að stofna sína eigin sæl-
gætisgerð, Opal. Rak hann hana í
fyrstu einn, en fljótlega gerðust
þeir Björn Jóhannsson og Jón
Guðlaugsson félagar hans um
fyrirtækið. Síðar, eftir lát Björns,
ráku þeir Jón verksmiðjuna í fé-
lagi.
Þau Karítas og Hagbarður eign-
uðust eina dóttur barna, Hrefnu,
sem gift er Ólafi Ingimundarsyni,
kaupmanni og eiga þau tvö börn,
Hagbarð og Karítas Kristínu. Þau
hjónin, Karítas og Hagbarður,
voru bæði fremur hlédræg og sótt-
ust ekki eftir fjölmenni. En þau
voru tryggir vinir vina sinna.
Bæði höfðu þau mikla ánægju af
ferðalögum og útiveru. Sumar-
bústað áttu þau við Elliðavatn og
dvöldu þar mjög oft á sumrum,
Karítas einnig eftir lát Hagbarðs
og þá með dóttur sinni og fjöl-
skyldu hennar. Yfirleitt hafði
Karítas mikið yndi af náttúrunni,
dýravinur var hún mikill, og í
garðinum sínum átti hún margar
ánægjustundir, enda var hann
ætíð sérlega fallegur og vel hirtur.
Hún var bráðmyndarleg húsmóð-
ir, smekkleg og reglusöm, eins og
heimili hennar bar glöggt vitni.
Þær mæðgur, Karítas og
Hrefna, voru ávallt mjög sam-
rýndar, og ekki held ég, að neitt
það hafi verið til, sem Karítas
vildi ekki gera fyrir barnabörnin
sín, enda var hún þeim mjög kær.
Eitt barnabarnabarn eignaðist
hún fyrir nokkrum mánuðum, og
var það henni til mikillar gleði.
Hagbarður lést hinn 28.
marsl971, aðeins 57 ára að aldri.
Var það Karítasi mikið áfall, en
hún tók því með aðdáunarverðri
skapstillingu og æðruleysi. Var þó
söknuður hennar að sjálfsögðu
mjög sár, enda var Hagbarður ein-
hver mesti öðlings- og drengskap-
armaður, sem ég hefi kynnst um
ævina.
Eftir lát Hagbarðs varð sam-
band Karítasar við dóttur sína,
tengdason og barnabörn jafnvel
enn nánara, og voru þau henni
mikil stoð á þeim erfiðu tímum.
Síðustu æviár Karítasar var
heilsa hennar ekki góð, og fyrir
rúmu ári kenndi hún þess sjúk-
dóms, sem nú hefir dregið hana til
dauða. Sýndi hún þá enn hvílíka
skapstillingu hún hafði til að bera,
því að aldrei heyrðist frá henni
nokkurt kvörtunarorð, né heldur
lét hún í ljós nokkurn kvíða, enda
þótt hún vissi vel, hvers hún gæti
vænst.
Að síðustu vil ég, fyrir hönd
okkar hjónanna, þakka Karítasi
innilega fyrir samfylgdina og ótal
ánægjustundir, sem við höfum átt
saman. Ég votta Hrefnu, dóttur
hennar, Ólafi og barnabörnunum
innilega samúð, svo og öðrum ætt-
ingjum.
Guðrún Arnalds
Karitas Jónsdóttir var fædd í
Vestmannaeyjum 3. febrúar 1917,
dóttir hjónanna Helgu Jónsdóttur
og Jóns Benediktssonar, sem
starfaði þar við lifrarbræðslu
ásamt Hákoni, sem fluttist með
Jóni frá Noregi og dvaldist á
heimili Jóns og Helgu til dauða-
dags.
Kaja eins og hún var kölluð var
næst yngst fjögurra barna þeirra
Jóns og Helgu, elst var Hansína,
gift Karli Einarssyni, verkstjóra,
svo Jón, giftur Veru Ólafsdóttur
og Benedikt, sem dvelur á heimili
Jóns. Eina hálfsystur átti Kaja,
Þorbjörgu að nafni.
Kaja fór ung frá Vestmannaeyj-
um eins og títt var um unglinga á
þeim árum. Hún dvaldi á heimili
systur sinnar, Hansínu og manns
hennar Karls og reyndust þau
henni mjög vel. Hún fór að vinna í
Sælgætisgerðinni Nóa og þá var
þar ungur og efnilegur maður
verkstjóri, sem hét Hagbarður
Karlsson. Þau felldu hugi saman
og giftust, eignuðust efnilega dótt-
ur, Hrefnu, sem gift er Ólafi Ingi-
mundarsyni, börn þeirra eru tvö,
Hagbarður og Karitas Kristín og
eitt barnabarn, Hrefna að nafni.
Það mátti segja, að Kaja væri
gæfumanneskja í sínu einkalífi.
Hún átti ágætis mann, dóttur,
sem var henni góð. Þær voru mjög
samrýndar, og Kaja átti barna-
börn, sem hún hafði yndi af. Á
seini árum komust þau í góð efni.
Hagbarður setti upp Sælgætis-
gerðina Ópal ásamt öðum manni
og ráku þeir hana af myndarskap
og dugnaði þar til Hagbarður lést
aðeins 57 ára að aldri. Það mátti
segja það um Kaju vinkonu mína,
að hún var bæði trygg og raungóð,
mátti það best sjá, hvað hún
reyndist drengnum mínum vel,
sem ég varð að senda frá mér
vegna upplausnar heimilis míns.
Þau sendu honum góðar gjafir á
jólunum, sem glöddu hann mjög,
og sem ég efast ekki um, að þau fái
launaðar á himnum.
Eins reyndust þau mér mjög vel,
þegar ógæfan dundi yfir heimili
mitt og sýndu þá best mannkosti
sína og mannkærleika. Fyrir þetta
allt vil ég nú þakka þeim.
Ég kveð kæra vinkonu með
þessum fátæklegu línum. Vonast
til að við eigum eftir að hittast
aftur og eiga ánægjulegar stundir
eins og við áttum saman.
JK
ctíJlP^ l ^
hal^ "Jr (nW^'d
Jaf tmr og ^
Aðalkennari
er Þorgerður Gunnarsdóttir (Hogga)
nýútskrifaður danskennari frá
Rockford College í Bandaríkjunum
5 vikna námskeiö hefst miðvikudaginn 1. sept.
Innritun og upplýsingar í síma 76350 kl. 10—12 f.h. og 17—19 e.h.
Afhending skírteina aö Skúlatúni 4, fjórðu hæð, þriðjudaginn 31. ágúst kl. 17—20 e.h.
Líkamsþjál fíin
Bal lettskóla
Eddu Schevíng
SKÚLATÚNI 4 — SÍMAR 25620 og 76350
Afmœlis- og
minningargreinar
ATHYGLI skal vakin á því, að afmælis- og minn-
ingargreinar verða að berast blaðinu með góðum
fyrirvara. Þannig verður grein, sem birtast á í mið-
vikudagsblaði, að berast í síðasta lagi fyrir hádegi á
mánudag og hliðstætt með greinar aðra daga. í minn-
ingargreinum skal hinn látni ekki ávarpaður. Þess
skal einnig getið, af marggefnu tilefni, að frumort
ljóð um hinn látna eru ekki birt á minningarorðasíð-
um Morgunblaðsins. Handrit þurfa að vera vélrituð
og með góðu línubili.