Morgunblaðið - 04.03.1983, Page 29
MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 4. MARZ 1983
29
Elvar Gísli Sigurðs
son — Minning
Fæddur 30. desember 1977
Dáinn 26. febrúar 1983
„Dularlög semur stjarnastjórinn
með stranga dóma í eigin sök.
Skammvinna æfi, þú verst í vök,
þitt verðmæti gegnum liTið er fórnin.
En til þess veit eilífðin alein rök.“ (E.Ben.)
Koma barns í þennan heim er
mikill viðburður. Grein hefur
bæst á ættarmeiðinn. Þannig
verða allir ríkari en áður, meðvit-
að eða ómeðvitað. Ófætt tendrar
barnið hið óráðna ljós. Fætt gefur
það svör og fegurstu vonir for-
eldra ganga undir þann dóm sem
svörin veita hverju sinni.
Elvar Gísli fæddist með skerta
möguleika til eðlilegra líkamlegra
framfara. Þrotlaus og kærleiksrík
barátta foreldra, lækna og náinna
ættingja virtist skila árangri sem
framar stóð jafnvel því mögulega.
Vonir og gleði við framför og
aukinn þrótt hans blunduðu í
hjörtum þeirra sem elskuðu hann.
Utanaðkomandi sjúkdómur lagði
hart að þessari annars veiku von
um unninn sigur og lífi hans var
lokið.
Elvar Gísli var fyrsta barn for-
eldra sinna, þeirra Guðrúnar
Gísladóttur frá Neðra Hálsi í Kjós
og Sigurðar Runólfssonar frá
Ólafsvík.
Á síðastliðnu sumri var þrennt
af ættmennum Guðrúnar borið til
grafar og um áramótin síðustu
andaðist einnig móðir Sigurðar.
Tvö systkini Guðrúnar hafa
einnig misst sín fyrstu börn. Það
hefur greinilega komið í ljós á öll-
um þessum raunastundum að af
sterkum stofni hafa þessar grein-
ar fallið. Við „eilífðar rökin“
stendur glíma þeirra með eftir
lifa, sem þeim ganga þeir til næsta
dags, svipmót hinna látnu fylgir
reisn þeirra og þannig verður það
eign okkar allra þó svona sé nú
komið. Framvinda lífsins hefur
margar rúnir rist, þessu fólki hef-
ur verið dæmdur þungur göngu-
vegur nú um hríð. Elskulegum for-
eldrum þessa litla drengs, sem nú
er kvaddur, sendi ég og fjölskylda
mín hjartans samúðarkveðjur, svo
og öllum þeim er einnig eiga um
sárt að binda.
Sú auðlegð sem andinn eignast
verður aldrei frá okkur tekin. Það
er huggun harmi gegn.
Nína
„Þeir sem guðirnir elska deyja
ungir,“ segir máltækið og því
verður maður að trúa þegar horft
er á eftir barni til annars lífs. Með
örfáum orðum langar okkur að
kveðja ungan vin og nágranna.
Við kynntumst Elvari og fjöl-
skyldu hans fyrir ári er við flutt-
um í íbúðina á móti. Það leið ekki
á löngu áður en góður og náinn
vinskapur tókst með Elvari og
dótturinni Hildi, og eyddu þau
mörgum stundum saman við leiki.
Það er erfitt fyrir hana að sjá á
eftir sínum besta vini, sem alltaf
reyndi að sjá björtu hliðarnar á
öllu, erfitt að sætta sig við að
dyrnar eigi ekki framar eftir að
opnast, inn komi lítill ljóshærður
snáði sem kallar: „Hildur, ég er
kominn." En enginn veit sína
ævina fyrr en öll er, og skyndilega
dregur ský fyrir sólu.
Við kveðjum Elvar að sinni með
von um að nú séu allar þrautir á
enda og þökkum honum fyrir þess-
ar yndislegu stundir sem við átt-
um saman á liðnu ári.
Stebbi, Tóta, Hildur
Kveöja frá starfsfólki
og börnum á Hvolpadeild,
Múlaborg
Elvar Gísli Sigurðsson kom á
sérdeildina á Múlaborg, Hvolpa-
deildina, þ. 8.12. 1981 og hafði því
verið rúmlega eitt ár hjá okkur
þegar hann lést. Á þessum tíma
tók Elvar miklum og gleðilegum
framförum þó að ekki tækist að
sigrast á þeim sjúkdómi sem hann
var haldinn af. Við minnumst þess
þegar hann fór að ganga einn og
óstuddur sl. haust og varð
skrafhreyfari og öruggari með sig
og kátari og hressari þrátt fyrir
að líkamleg líðan væri oft ekki
sem best. Elvar var byrjaður að
fara í langar heimsóknir inn á
aðrar deildir á Múlaborg, þar sem
var tekið vel á móti honum og
hann undi sér vel.
Þriðjudaginn 22. febrúar sáum
við Elvar Gísla síðast á Hvolpa-
deildinni og laugardagsmorguninn
26. febrúar var hann látinn. Eftir
eru margar góðar og skemmtileg-
ar minningar um fimm ára hrokk-
inhærðan glókoll. Foreldrum
hans, Guðrúnu Gíslasdóttur
hjúkrunarfræðingi og Sigurði
Runólfssyni, litlu systurinni Lilju
og öðrum aðstandendum, sendum
við okkar innilegustu
samúðarkveðj ur.
„Ég fel í forsjá þína
Guð faðir, sálu mína,
því nú er komin nótt.
l’m Ijósið lát mig dreyma
og Ijúfa engla geyma
öll börnin þín, svo blundi rótt.“
Matth. Jochumsson
Raforkuverð hefur meira en
tvöfaldast síðastliðin 4 ár
— segir í ályktun fundar Rafmagnsveitna ríkisins á Austurlandi
STARFSMENN Rafmagnsveitna ríkis-
ins á Austurlandi héldu fund í Vala-
skjálf, 16. febrúar síðastliðinn, á Egils-
stöðum. Voru fundarmenn alls 44.
Ályktun fundarins var á þessa leið:
„Fundurinn átelur harðlega það
öngþveiti sem raforkumál eru komin
í, þar sem verð raforku til almenn-
ingsnota hefur meira en tvöfaldast
síðastliðinn 4 ár miðað við rauntekj-
ur manna og verð orkuöflunaraðila,
þ.e. Landsvirkjunar, hefur nær þre-
faldast á sama tíma miðað við sömu
forsendur.
Þrátt fyrir þessar hækkanir, virð-
ist ekkert lát vera á enn meiri hækk-
unum, og er nú svo komið að menn
tala um raforkuverð sem drápsklyfj-
ar á almenningi, hvað þá verður ef
verðið verður enn hærra.
Verð raforku samkvæmt taxta
Rafmagnsveitna ríkisins til heimilis
og hitunar miðað við 4000 kWH/ár
til heimilisnotkunar og 36000
kWH/ár til hitunar er á núgildi
41.430 kr/ári, endurgreiðslur nema
6.120 kr/ári og notandi greiðir þá
mismuninn eða 35.310 kr/ári eða
rétt tæpar 6.000 kr. á 2ja mánaða
fresti.
Af heildarupphæð 41.430 kr/ári
fara ca. 29.200 kr. til Landsvirkjunar
sem orkuöflunaraðila miðað við
heildsölugjaldskrá Landsvirkjunar á
130 kV spennu og 5000 stunda
nýtingartíma og 7% taps í flutn-
ingskerfi RARIK. I verðjöfnunar-
gjald og sölusk. fara 2.880 kr. og af-
gangur 9.350 kr. er þá hlutur
RARIK.
Ef litið er 4 ár aftur í tímann, þá
nam hlutur Landsvirkjunar rétt
tæpum 2000 kr. af heildarorkureikn-
ingi þá 4.160 kr/ári miðað við sömu
forsendur. Af þessari upptalningu
má þá sjá, að orkuverð Landsvirkj-
unar er hreinar drápsklyfjar fyrir
landsbyggðina að búa við og á sjálf-
sagt eftir að valda fólksflótta á ný til
suðvesturhorns landsins, ef ekki
verður ráðin bót á.
Ríkisstjórnin hefur fundið upp
hugtakið niðurgreiðslur á raforku,
sem eru í raun og veru ekkert annað
en endurgreiðsla til notanda á hluta
af því okri sem á raforkuverð hefur
verið lagt, umfram almennar verð-
hækkanir síðastliðin ár.
Sú stefna að grípa til vaxandi
niðurgreiðslna á raforku til húshit-
unar getur tæplega leitt til annars
en vítahrings þegar fram líða stund-
ir, að teknu tilliti til öryggisleysis
sem af niðurgreiðslum stafar og að
hitun íbúðarhúsa er bara einn liður
af mörgum sem ráforka er seld til.
Verð raforku til hitunar annarra
húsa en íbúða er orðin ca. 20% hærri
en með hráolíu samkvæmt taxta
RARIK og enn meiri munur er ef
miðað er við svartolíu, þannig að bú-
ast má við að orkusala samkvæmt
þessum taxta leggist niður og að
menn snúi sér aftur að olíu til upp-
hitunar, í m.a. skólum, félagsheimil-
um og iðnaðarbyggingum, svo dæmi
séu nefnd.
Sú stefna að hverfa frá smærri
virkjunum í fjórðungunum, í stór-
virkjanir á Þjórsársvæði og byggða-
línur, hefur nú þegar sýnt ágæti sitt.
Ot úr þessu apparati kemur óseljan-
leg orka, sökum okurverðs, þótt ekki
sé minnst á allt öryggið, sem leiðir
af staðsetningu nær allra virkjana
landsins þar.
Eigi Rafmagnsveitur ríkisins, sem
nú hafa á hendi mikið og dýrt dreifi-
kerfi um hinar dreifðu byggðir þessa
lands, að geta þjónað sínu hlutverki,
verður mun ódýrari orka að koma
til. Hennar mun vera hægt að afla
heima í héraði með smærri virkjun-
um og ódýrara dreifikerfi.
Byggingartími smærri virkjana
þarf ekki að vera meiri en 2 ár, svo
að skaðlausu má hætta við byggingu
Suðurlínu og tilheyrandi aðveitu-
stöðvar, Sultartangastíflu og Kvísl-
arveitu.“
+
Innilegar þakkir færum viö öllum vinum okkar og kunningjum er
hjálpuöu okkur og sýndu okkur samúö sína vlö langvarandl veik-
indi og andlát konu minnar, móöur okkar, ömmu, dóttur og systur
FINNBORGAR S. JÓNSDÓTTUR,
Hlíöarvegi 5,
íaafiröi.
Sérstakar þakkir til lækna og starfsfólks kvennadeildar 21A
Landspítala fyrir sérstaka hjúkrun og umhyggju.
Friörik Bjarnason, börn og barnabörn,
Jón Steinþórsson, Sesselja Jónsdóttir,
Erlingur Jónsson, Svanborg Kristvinsdóttir
og aörir aöstandendur.
Ingibjörg Kristjáns-
dóttir — Minningarorð
Fædd 25. september 1892.
Dáin 25. febrúar 1983.
Þann 25. febrúar sl. lagði amma
okkar, Helga Ingibjörg Krist-
jánsdóttir, upp í langþráða ferð.
Þessa ferð hafði hún þráð frá því
afi dó fyrir rúmu ári síðan, en þau
höfðu verið þeirrar gæfu aðnjót-
andi að vera samvistum í meira en
60 ár. Þetta síðasta æviár hennar
reyndist henni erfitt. Eftir andlát
afa þurfti hún að flytjast búferl-
um frá Hátúninu, þar sem þau
höfðu búið undanfarin ár, og að
Droplaugarstöðum. Þar dvaldi
hún síðustu mánuðina og naut þar
góðrar umönnunar starfsfólks.
Amma hafði allt fram á síðustu
stundu lifandi áhuga á öllu því,
sem var að gerast I kringum hana.
Er okkur stelpunum það minnis-
stætt, hversu vel og náið hún
fylgdist með okkur í leik og starfi,
og varð þar engin breyting á, þótt
heilsan væri brostin. Hún var sér-
staklega vinnusöm, enda vön mik-
illi vinnu frá unga aldri. Amma
var listræn kona og lék allt í hönd-
um hennar. Ber handavinna henn-
ar þess glöggt vitni. Féll henni því
þungt, þegar hún vegna þverrandi
heilsu gat ekki sinnt því áhuga-
máli sínu lengur.
Amma og afi áttu ákaflega fal-
legt og hlýlegt heimili, sem alltaf
stóð opið öllum, sem til þeirra
komu, enda var þar ætíð gest-
kvæmt. Þegar við lítum til baka,
finnst okkur merkilegt hversu
góðan tíma hún hafði til að sinna
hverjum og einum, sem til hennar
leitaði. Við munum seint gleyma
þeirri óendanlegu þolinmæði, sem
hún sýndi, þegar hún var að kenna
okkur að sauma og prjóna, og litlir
klaufalegir fingur reyndu að leika
eftir listir hennar.
Nú þegar við fylgjum ömmu síð-
asta spölinn, er okkur efst í huga
þakklæti fyrir öll árin, sem við
fengum að hafa hana hjá okkur.
Það er von okkar og trú, að henni
verði vel tekið á nýjum slóðum og
biðjum henni Guðs blessunar.
Barnabörnin
Síðastliðið gamlárskvöld voru
30 ár liðin frá því að ég hitti nöfnu
mína og tengdamóður, Ingibjörgu
Kristjánsdóttur, er ég kom á
heimili þeirra hjóna Ingibjargar
og Guðlaugs, sem tilvonandi eig-
inkona Ásmundar. Mér er það efst
í huga hve vel þau tóku mér og
hvað viðmót þeirra var hlýlegt
sem seinna meir átti eftir að koma
enn betur í ljós við nánari kynni
og sambúð, því við bjuggum í
sömu íbúð um árabil þar til þau
fóru til dvalar að Hátúni 10 er
aldurinn var orðinn hár, heilsunni
farið að hraka og þau þurftu
hjálpar og hjúkrunar við.
Eftir lát Guðlaugs fékk Ingi-
björg frænku sína og æskuvin-
konu, Margréti frá Snorrastöðum,
til að dvelja hjá sér, og var það
henni mikil ánægja og léttir er
hún naut ekki Guðlaugs við leng-
ur. En svo kom að Margrét fór
vestur til sinna æskustöðva og
heimilis.
Ingibjörg flutti þá til dóttur
sinnar, Jóhönnu, til dvalar uns
hún fékk dvalarstað á Droplaug-
arstöðum. Þar naut hún bestu um-
önnunar sem fáanleg var og verð-
ur því fólki sem þar vinnur seint
þakkað hve vel þær önnuðust
gömlu konuna, því oft var hún
mikið veik og var þá skipst á að
vera hjá henni af börnum og
vandafólki og oft þurfti að hringja
og fá aðstoð hjá hjúkrunarfolkinu
og aldrei mætti maður öðru en
elskulegheitum hvort sem var á
nóttu eða degi.
Þessi fátæklegu orð mín ná
skammt til að minnast þessarar
fjölhæfu konu, því margt var
henni til lista lagt, sem ekki kom
fram í daglegri umgengni. Hún
var mjög handlagin og varla var
til það mynstur á dúk eða útprjón
á peysu að Ingibjörg gæti ekki
fundið út hvernig það var, þótt
uppskriftin væri ekki til. Sama
átti við um handavinnu og sauma-
skap, allt lék í höndum hennar.
Ung var hún er hún byrjaði að
sauma fyrir sitt heimili og einnig
fyrir frændur og vini, því hún var
ákaflega greiðvikin og hafði mikið
yndi af. Ekki þýddi fyrir mann að
ætla að fela galla á flík, ef ekki fór
vel hjá manni, hún var fljót að sjá
það og laga, það var ekkert mál að
rekja upp og byrja á nýjan leik.
Einnig hafði hún yndi af blóm-
um, og gular rósir voru það falleg-
asta sem hægt var að gefa henni í
blómavendi. Nú er ég kveð tengda-
móður mína, hef ég svo margt að
þakka fyrir, t.d. pössunina á dótt-
ur okkar, Þórunni, sem fékk svo
lengi að njóta þess að eiga heima
hjá afa og ömmu, sem alltaf áttu
tíma fyrir hana meðan hún var
lítil, og eins eftir að hún fór að
búa á sínu eigin heimili, er litli
sonurinn, Ásmundur Jón, var
kominn í heiminn. Afi og amma
fylgdust náið með litlu stelpunni
sinni, hvernig henni gengi móð-
urstarfið, því þau voru sínum
börnum góðir foreldrar, enda naut
gamla konan mikillar umhyggju
barna sinna, eftir að hún var orðin
ein og lasburða.
Að lokum vil ég aðeins segja, ég
vona að Guðlaugur hafi nú fengið
ósk sína uppfyllta um endurfundi,
því mig dreymdi að honum fannst
að erfiðlega gengi að fá hana til
sín. Ég vona einnig að þau eigi
eftir að taka á móti okkur þegar
við birtumst hinum megin móð-
unnar miklu, með sínu elskulega
viðmóti.
Inga
Afmælis- og
minningargreinar
ATHYGLI skal vakin á því, að afmælis- og minn-
ingargreinar verða að berast blaðinu með góðum
fyrirvara. Þannig verður grein, sem birtast á í mið-
vikudagsblaði, að berast í síðasta lagi fyrir hádegi á
mánudag og hliðstætt með greinar aðra daga. í
minningargreinum skal hinn látni ekki ávarpaður.
Þess skal einnig getið, af marggefnu tilefni, að frum-
ort ljóð um hinn látna eru ekki birt á minningar-
orðasíðum Morgunblaðsins. Handrit þurfa að vera
vélrituð og með góðu línubili.