Morgunblaðið - 20.10.1983, Blaðsíða 33
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 20. OKTÓBER 1983
33
Guðrún Agnarsdóttir
Guðrún
Agnarsdóttir:
„A þeim bæ
væri lítiö
fé eftir til
mannræktar
og menntunar“
— Kafli úr þingræðu
Hér fer á eftir kafli úr þingræðu
Guðrúnar Agnarsdóttur (Kvl.), sem
flutt var við útvarpsumræöur sl. þriðju-
dag. Þetta var fyrsta þingræða hennar,
„jómfrúræða":
„Flestir eru sammála um, að efna-
hagsvandinn hafi verið þannig vax-
inn, að það þyrfti að grípa í taum-
ana. Það var ljóst, að þau áföll sem
þjóðarbúið hafði orðið fyrir kröfðust
leiðréttingar á þeirri skiptingu þjóð-
arteknanna, sem verið hafði. En það
er bæði ástæðulaust og ómannúðlegt
að þeir sem veikastir eru, skuli þurfa
að bera hlutfallslega langstærstu
byrðarnar. Hvers vegna þurfti að
ögra fólki með því að leggja á það
ófrelsi, svipta það samningsrétti?
Ekki örvar það samvinnu og sam-
hjálp. Það má ekki vanmeta velvilja
þjóðarinnar og það hve reiðubúin
hún er til samstöðu til að leysa
vandann, en fara verður með sann-
girni og sérhver verður að bera sinn
skerf af byrðunum. Hver hefur svo
forgangsröðin verið og hvar hafa
megináherslur verið lagðar? Hugsið
ykkur húsbónda á bágstöddu heimili,
þar sem matur er naumur: hvernig
litist ykkur á að vera í forsjá hans,
ef hann veiddi stærstu bitana handa
sjálfum sér, en skammtaði lítilræði
ofan í börnin og aðra lítilmagna?
Hvernig litist ykkur á hann á þreng-
ingartímum, þegar fjölskyldan berð-
ist í bökkum og ætti ekki fyrir nauð-
þurftum handa öllum, ef hann þá
tæki stórlán á næsta bæ til að snyrta
hlaðvarpann og byggja þar gríðar-
stóra flugstöð til að aðkoman að
bænum hans væri glæsilegri? Þegar
enn er sjóðþurrð til framkvæmda og
eyðsla á heimilinu, tæki hann aftur
stórlán á næsta bæ, þar sem þegar er
skuldað frá fyrri árum, sem nemur
60% af allri framleiðslu býlisins
þetta árið. Hvernig haldið þið að
heimilismönnum væri innanbrjósts,
ef það kæmi í ljós, að einn úr fjöl-
skyldunni varðveitti stóran seðla-
bankakistil fullan af peningum sem
hann vildi ekki nýta til að hlaupa
undir bagga á neyðartímum. Nei,
hann ætlaði að láta skerf úr honum
til að byggja stórt og myndarlegt
peningahús til að geyma þessa pen-
inga og aðra sem kynnu að bætast
við.
Hvernig litist ykkur á húsbónd-
ann, ef hann léti það viðgangast að
heimilisfénu væri eytt í að kaupa
stóra og skrautlega peningakassa til
að geyma þær fáu krónur sem fólkið
hefði undir höndum? Á þessum bæ
væri lítið fé eftir til mannræktar og
menntunar eða til að sinna þeim
sjúku og öldruðu, fötluðu og van-
máttugu, eða til að styrkja fram-
leiðsluhætti heimilisins. Þarna væri
ekki gott að búa, þá væri betra að
flytja á annan bæ. Þar er húsmóðir-
in vökul og meðvituð um þarfir og
getu heimilismanna. Hún leggur á
þá byrðar eftir þoli þeirra og þegar
að þrengir tekur hún ekki meira en
aðrir. Hún hugar að innri þörfum
heimilisins, þvi að hjá henni sitja
mannúð og mannrækt í fyrirrúmi.
Þess vegna er henni miklu meira
vert að nota fé til að tryggja börnum
sínum samfelldan skóladag með ger-
breyttu viðeigandi námsefni til að
búa þau betur undir lífið heldur en
að reisa stórhýsi í heimreiðinni. Hún
sýnir hófsemi í fjölda og búnaði pen-
ingakassa á heimili sínu og reynir að
telja heimilismanninn sem gætir
seðlabankakistilsins á það að hætta
nú við húsbygginguna en nýta sjóð-
inn í þágu heimilisins. Ef það gengur
ekki þá má vera, að hún gripi til
örþrifaráða eins og bráðabirgðalaga.
Hún beitir þeim ekki til að skerða
rétt vinnandi fólksins, heldur setur
þau um kistilinn og kemur í veg fyrir
að féö fari í byggingu peningahúss,
en renni heldur til framkvæmda á
heimilinu, svo að hún þurfi ekki að
taka fleiri lán á næsta bæ. Festa
hennar verður ekki að hörku, því að
hin nánu tengsl hennar við lífið hafa
gefið henni lífssýn og gildismat, sem
setur mannleg verðmæti ofar efnis-
legum, manngildi ofar auðgildi. Hún
veit hve mikilvægt það er að varð-
veita tengslin milli huga og hjarta,
þannig að hinir mannlegu þættir
gleymist ekki í ákafri sókn að
markmiði og hinir tæknilegu efnis-
kenndu þættir verði allsráðandi.
Hún veit að þessi tengsl eru nauð-
synleg til að meta lífið og manninn
og þegar þau rofna er hætta á því að
brotið verði gegn lífinu. Hún veit að
þegar þessi tengsl milli huga og
hjarta hafa rofnað, þá geta menn
farið í vinnuna sína og fundið upp
ennþá afkastameiri kjarnorku-
sprengjur í dag en I gær, án þess að
það trufli tilfinningar eða siðgæðis-
vitund þeirra. Hún veit að skylda
hennar er að hlúa að og rækta börn
sín og hún byggir yfir þau skóla og
vistheimili en ekki yfir peninga.
Eldri börn sín styður hún með náms-
lánum og ágóðann af fríhöfninni
sinni lætur hún renna til skólamála.
Hún metur framlag heimilismanna
að verðleikum og hjá henni finnast
ekki láglaunakonur, því að hún hefur
fyrir löngu orðið fyrir hugarfars-
breytingu, sem leiddi til þess að á
hennar bæ eru allir jafn réttháir án
tillits til kyns, aldurs, húðlitar eða
trúarbragða. Hún greiðir ekki minna
þeim sem annast lífið en þeim sem
annast vélarnar."
Jón Baldvin
Hannibalsson:
„Lífskjara-
fórnin að %
hlutum gjald-
fallnar van-
skilaskuldir“
Steingríms
og Svavars
— Kaflar úr þingræöu
Hér fara á eftir tveir kaflar úr þing-
ræðu Jóns Baldvins Hannibalssonar
(A) við útvarpsumræður sl. þriðjudag:
„Ætli það rynnu ekki tvær grímur
á þann áheyranda, sem hefði ekki
heyrt til forsætisráðherra síðan
fyrir kosningar 1979 þar til nú?
Myndi hann ekki spyrja sjálfan sig,
hvort þetta væri sami Steingrímur,
eða hvort hann hefði e.t.v. gripið
með sér vitlaust ræðuhandrit. Þess
vegna segi ég þetta, að haustið 1979
lýsti formaður Framsóknarflokksins
yfir stríði á hendur leiftursókn
Sjálfstæðisflokksins. Aðalatriði
voru afnám vísitölukerfis og niður-
skurður ríkisútgjalda. Gpfum
Steingrími, árgerð 1979, orðið:
„Þeir sjálfstæðismenn reyna að
telja fólki trú um, að þeir geti náð
verðbólgunni niður á það stig, sem er
i nágrannalöndum okkar á 100 dög-
um. Þessi boðskapur einn boðar ekk-
ert annað en kreppu.“ Tilvitnun lýk-
ur. Steingrímur, árgerð ’79.
Og áfram: „Þessum tillögum lætur
Sjálfstæðisflokkurinn fylgja mikinn
samdrátt í framkvæmdum. Þeir
vilja skera, skera, skera. Þessu mun
fylgja atvinnuleysi, en við framsókn-
armenn vísum því algerlega á bug,
að komið verði á atvinnuleysi til þess
að ná einhverjum áfanga 1 stríðinu
við verðbólguna." Tilvitnun lýkur.
Steingrímur, árgerð ’79. Heimild:
Dagblaðið Tíminn 13. nóv. 1979.
Arið 1979 hafnaði forsætisráð-
herra hvoru tveggja, stefnu núver-
andi ríkisstjórnar og stjórnarsam-
vinnu við Sjálfstæðisflokkinn. Það
sem helst hann varast vann, varð þó
að koma yfir hann, eins og sálma-
skáldið sagði.
Hvað hefur breyst? Ekkert. Það
var ekki heil brú í stefnu Framsókn-
arflokksins og er það reyndar ekki
enn. Ásamt með Steingrími er for-
maður Alþýðubandalagsins ómiss-
andi við vitnaleiðslur um gjaldþrota-
skipti síðustu ríkisstjórna. Hann
mun hér á eftir bíta í skjaldarrendur
og láta ófriðlega út af þeirri lífs-
kjarafórn, sem nú bitnar á launþeg-
um. Skyldu ekki vakna óþægilegar
spurningar í hugskoti áheyrenda? 1 5
ár hefur Alþýðubandalagið að eigin
sögn, málsvari sósíalisma, verka-
lýðshreyfingar og þjóðfrelsis, verið
Framsókn eins og síamstvíburi í
stjórn landsins. Hver er dómur
reynslunnar? Hinir þjóðlegu at-
vinnuvegir okkar voru sokknir í
skuldir. Efnahagslegt sjálfstæði
okkar var veðsett erlendum lánar-
drottnum; lífskjarafórn alþýðu var
orðinn hlutur. Og þótt félagi Svavar
bíti nú í skjaldarrendur, verður
hann að bíta í það súra epli í leiðinni
að lífskjarafórnin nú er að % hlut-
um gjaldfallnar vanskilaskuldir úr
sameiginlegu þrotabúi hans og for-
sætisráðherrans.
Báðir eru þessir flokkar því sið-
ferðilega dæmdir úr leik af verkum
sínum. Þeir fóstbræður geta nú tekið
undir með Vatnsenda-Rósu, þegar
hún kvað:
„M*n ég okkar fyrri fund,
forn þótl ántin réni;
nú er líkt og hundur hund
hitti á tófugreni.““
Síðar í ræðu sinni sagði Jón Bald-
vin Hannibalsson:
„Hvað viljum við jafnaðarmenn
gera? er spurt. Svarið er: Við viljum
gera það sem gera þarf til að tryggja
árangurinn til frambúðar. í fyrsta
lagi sögðum við fyrir kosningar, að
gamla vísitölukerfið hefði gengið sér
til húðar. Rökin fyrir því eru ná-
kvæmlega hin sömu og Þröstur
Ólafsson, núverandi aðstoðarmaður
hjá Dagsbrún, tilfærði í blaðagrein,
þegar hann sagði: Verðbótakerfið
tryggir viðgang verðbólgunnar. En
við viljum ekki láta launþega eina
færa fórnir. Sjálfvirka verðbólgu-
hringekju er víðar að finna. Þess
vegna viljum við í öðru lagi afnema
sjálfvirka viðmiðun búvöruverðs við
laun. Bændur eru atvinnurekendur
og afkoma atvinnurekenda ræðst af
öðrum þáttum, eftirspurn á markaði
og hagkvæmni í rekstri.
Við viljum í þriðja lagi afnema
lögbundna og sjálfvirka tryggingu
skattgreiðenda fyrir offramleiðslu í
landbúnaði.
1 fjórða lagi viljum við verja hluta
af því fé, nú 1,5 milljarði kr., sem fer
í styrki, niðurgreiðslur og útflutn-
ingsbætur, til þess að lækka tekju-
skatt á láglaunafólki.
Við viljum í fimmta lagi, til að
létta af linnulausum þrýstingi á
fiskverð og gengi, taka verstu
skuldakóngana í útgerð út úr gengis-
ákvörðunardæminu og finna Stein-
grímstogurunum önnur verkefni.
Þetta kallar á sérstakar aðgerðir til
að samræma veiðar og vinnslu.
Við viljum í sjötta lagi leggja
niður Framkvæmdastofnun ríkisins,
sameina fjárfestingarlánasjóði, fela
þá umsjá bankakerfisins og stjórna
fjárveitingum út frá venjulegum
arðsemissjónarmiðum. Þetta allt
viljum við gera til þess að koma í veg
fyrir, að áframhaldandi mistök I
fjármagnsstýringu eyðileggi jafnóð-
um og tímabundinn árangur í hjöðn-
un verðbólgu eftir öðrum leiðum.
Verði þessi leið farin, hygg ég, að
hægt sé að halda því fram, að enginn
geti haldið því fram, segi ég, að laun-
þegum einum væri ætlað að greiða
herkostnað verðbólgunnar. Á móti
kæmi að skattpíningu almennings
vegna milliliðakerfis í landbúnaði
væri aflétt, fjáraustri til skulda-
kónga væri hætt og það væri létt á
þrýstingi á linpulausar gengisfell-
ingar. Þar með væri bundinn endir á
aðstöðu fyrirgreiðslupólitíkusa til að
úthluta skjólstæðingum sínum
niðurgreiddum lánum og styrkjum.
Þar með hefði styrjaldartilefnum
milli verkalýðshreyfingar og ríkis-
valds fækkað. Það hefði skapast frið-
ur um nauðsynlegar viðreisnarráð-
stafanir, vegna þess að launþegum
hefði ekki einum verið ætlað að bera
byrðarnar. Þar með hefðu vonir
manna um varanlegan árangur í við-
ureign við verðbólgu styrkst.
Og eitt er víst, að lokum, herra
forseti. Alþýðuflokkurinn hefði aldr-
ei fallist á afnám samningsréttarins
við þessi skilyrði. Það var þarflaus
aðgerð og frámunalega heimskuleg. í
okkar augum er frjáls samningsrétt-
ur grundvallarregla, sem halda ber í
heiðri í lýðræðisþjóðfélagi. Og þegar
þjóðartekjur fara minnkandi, þá
verður að breyta tekjuskiptingunni
innbyrðis, ef ekki er unnt að auka
hlut launþega í heild. Þá er einmitt
sérstök ástæða til að láta reyna á
félagsþroska verkalýðshreyfingar-
innar í frjálsum samningum. Það er
réttlætismál, sem nú finnur djúpan
hljómgrunn um allt þjóðfélagið, að
hækkun lægstu launa hafi algeran
forgang í næstu samningum. Hvers
vegna þá að svipta verkalýðshreyf-
inguna ábyrgð og efna til ófriðar um
sjálfar leikreglur lýðræðisins? Þau
orð eru enn í fullu gildi, að ef menn
slíta í sundur lögin, þá slíta þeir og í
sundur friðinn."
Boreal er nýstárleg vegg-
klæðning, frumleg, falleg og
notadrjúg, framleidd úr
finnsku úrvalsbirki af heims-
þekktum framleiðanda.
Gæöi fara aldrei úr tfsku
KRISTJÓfl
SIGGEIRSSOÍl HF.
LAUGAVEGI 13,
SMIÐJUSTIG 6, SIMI 25870
Opid á fimmtudögum til kl. 21, á
föstudögum til kl. 19 og til hádegis
á laugardögum.