Morgunblaðið - 13.11.1983, Blaðsíða 47
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 13. NÓVEMBER 1983
47
faðir minn hefur ekki gert verr við
þennan dreng en okkur bræðurna.
Vafalaust hefur hann líka fengið
Omega-úr.
Þegar ég var að alast upp var
það alsiða að prestar þéruðu sókn-
arbörn sín en faðir minn var
áreiðanlega einn sá fyrsti sem
lagði það af. Hann þúaði alla, háa
sem lága, og mér er ekki grunlaust
um að þetta hafi átt sinn þátt í
vinsældum hans. Faðir minn fór
ekki dult með það að hann átti
móður minni mikið að þakka. Hún
var hans trausti lífsförunautur í
blíðu og stríðu og studdi hann
ómetanlega. Ég hygg að Mýrdæl-
ingar sem hana þekktu teldu mig
ekki segja of mikið þótt ég segði
að hún hafi verið góð og mikilhæf
kona. Hún var frá Litlu-Sandvík í
Flóa, dóttir Þorvarðar hrepp-
stjóra Guðmundssonar og Svan-
hildar Þórðardóttur. Ég er mjög
ánægður yfir því að vera dótturs-
onur þeirra merku og mætu hjóna.
Móðir mín lézt 1929, þá 55 ára.
Síðustu æviárin var faðir minn á
heimili okkar hjóna, í nær 15 ár.
Hann lézt 1948, þá 84 ára.
— Varstu alltaf trúaður, séra
Jón?
— Já, ég var það. Ég trúði því
statt og stöðugt að guð væri til og
hann myndi vel fyrir sjá. En ég
var gagnrýninn á æskuárum og
átti í erfiðleikum með sumt í
kenningum og trúarsetningum.
Þegar ég fermdist ætlaði ég ekki
að fást til að fara til altaris.
Ástæðan var sú að í ritningunni
stendur að sá sem óverðugur með-
taki líkama og blóð Krists verði
sekur. Og mér fannst ég vera
óverðugur. Móður minni tókst að
telja um fyrir mér og leiða mér
fyrir sjónir að ekki gengi nú að
sonur sjálfs prestsins neitaði að
fara til altaris. Þau voru engar
strangtrúarmanneskjur, foreldrar
mínir, og ég held það hafi verið
fjarri þeim að þröngva upp á
okkur trú. En trúuð voru þau-bæði
og ég held að börn trúaðra for-
eldra sem fræða börnin um hið
helga og háa búi að því alla ævi.
Ég las töluvert um spíritisma í
æsku og kom það sjálfsagt til af
því að faðir minn var í Sálar-
rannsóknafélagi íslands þótt hann
tæki af augljósum ástæðum ekki
virkan þátt í starfseminni. Tíma-
ritið Morgunn kom á heimilið og
það þótti mér athvglisverð lesn-
ing. í mínum huga hefur aldrei
ícomizt að efi um framhaldslíf og
ýmis dulræn fyrirbæri hafa vakið
athygli mína. Þó hef ég aldrei far-
ið á miðilsfund og aldrei fundið
hjá mér þörf fyrir að gera það. Ég
hef alltaf verið viss um að látnum
ástvinum mínum liði vel.
— Heldurðu að fólk sé almennt
trúað?
— Já, og trúaðra en það virðist
á yfirborðinu. Þótt tiltölulega fáir
séu kirkjuræknir þá held ég að
kirkjusókn sé enginn mælikvarði á
trúarlífið í þessu landi. Ég held að
flestir séu trúaðir í hjarta sínu.
Það kemur ekki sízt í ljós þegar
fólk verður fyrir áföllum og ást-
vinamissi. Eins og gefur að skilja
hefur það oft orðið hlutskipti mitt
að flytja sorgarfréttir og það eru
erfiðustu prestsverkin. Fyrstu
reynslu mína á því sviði hlaut ég á
fyrsta ári mínu sem prestur. Það
var á Akranesi. Þá fórst bátur
með fimm mönnum og það kom í
minn hlut að koma á sorgarheim-
ilin. Það voru þung spor. Það var
mín vígsla í heim sorgarinnar.
Þegar ég var farinn að þjóna í Vík
átti ég oft eftir að standa í sömu
sporum og að sjálfsögðu hér í
Reykjavík einnig.
— Kanntu skýringu á því hvers
vegna aðstandendum þeirra sem
farast í sjóslysum er svo mikið í
mun að hinar jarðnesku leifar
finnist? Svo getur virzt sem það
skipti ekki öllu máli úr því sem
komið er hvort hinzta hvílan er
vot gröf eða vígð mold.
— Vitanlega trúi ég því að lát-
inn lifi, hvort sem menn hljóta
hina votu gröf eða bálför eða
hinzta hvílurúmið sé gröfin. En ég
held að í þessu tilliti sé það fyrst
og fremst þörfin fyrir fulla vissu
sem máli skiptir. Ef skip ferst á
hafi úti er ólíklegt að hinn sjó-
í hátíðarsal Sjómannaskólans. Myndin er tekin skömmu eftir að barnastarfið í Háteigssókn hófst árið 1953.
drukknaða beri að landi. En ef
skip ferst við ströndina er sjálf-
sagt að leita hinna látnu. Það veit-
ir fróun og frið syrgjendum þegar
líkið finnst og jarðarför getur far-
ið fram. Árið 1941 varð stórslys í
Vík. Sex menn drukknuðu en einn
bjargaðist. Báturinn var í land-
róðri þegar slysið varð. Landróður
heitir það er bátur kemur að landi,
en á hinni sendnu strönd austur í
Vík fer bæði útróður og landróður
fram með nokkuð sérstökum
hætti. Það þarf að taka lag og má
oft engu skeika svo ekki fari illa.
Bandamenn gegna mikilvægu
hlutverki, skipverjar róa sam-
kvæmt skipunum formanns á
réttu augnabliki og að lokum kem-
ur báturinn upp í fjöruna og snýr
að henni annarri hliðinni. í það
skipti sem hér um ræðir hafði sjór
skyndilega versnað. Þá áttu marg-
ir um sárt að binda og í þeim hópi
var faðir sem bar þyngstu sorg-
arbyrði sem ég hef vitað nokkurn
mann bera.
— Hvernig hefur þú reynt að
hugga þegar svo er komið?
— Því er erfitt að svara. En það
er gott að syrgjendur finni mann-
lega hlýju og einlæga samúð
prestsins, en mín reynsla var sú að
fólk sýndi meiri sálarstyrk en ég
gat búizt við. Ég varð tíðum vitni
að huggandi og styrkjandi mætti
trúarinnar.
— Hvert er meginatriði trúar
þinnar?
— Jesús Kristur. Sjálfur kær-
leikurinn. Á honum byggist allt.
Ég hef alltaf trúað því að treysta
megi orðum hans skilyrðislaust og
það hefur aldrei brugðizt mér.
— Hvernig vildi það til að þú
gerðist prestur hér í Reykjavík
eftir að hafa verið prestur úti á
landi í öll þessi ár?
— Það er saga. Ég hlaut kandí-
datsstyrk árið 1935 og hann var
svo ríflegur að ég gat ferðast
nokkuð um Evrópu. Ég dvaldist
um tíma á Englandi, í Cambridge
og London, og skrifaði þar ritgerð
um ensku biskupakirkjuna. Síðan
lá leiðin til Svíþjóðar og Dan-
merkur. í Kaupmannahöfn kynnt-
ist ég presti einum og tókst með
okkur mikil vinátta. Þetta var
merkismaður en þegar þetta var
hafði hann látið af prestsskap.
Hreifst ég mjög af því uppbygg-
ingarstarfi sem hann hafði unnið í
sókn sinni. Þetta var stór söfnuð-
ur en þegar hann hafði komið að
embættinu var sóknin kirkjulaus.
Hann stóð þá fyrir því að keypt
var knæpa og henni breytt í guðs-
hús til notkunar fyrir söfnuðinn
þar til kirkja hafði verið reist.
Hann sýndi mér þetta allt og lýsti
því svo að ég sá það ljóslifandi
fyrir mér. Hann leiddi mig í sína
fyrstu „kirkju" sem nú hafði aftur
verið breytt í veitingahús, að
þessu sinni af virðulegra taginu.
Og þarna varð mér ljóst hvað ég
vildi gera: Vinna uppbyggingar-
starf. Byrja frá grunni og byggja
upp nýjan söfnuð. Leið nú og beið
þar til fréttist að stofna ætti nýja
sókn í Reykjavík, Háteigssókn.
Áður en auglýst var eftir umsókn-
um um prestsembættið var ég á
ferð í Reykjavík og fór þá að finna
Friðrik Olafsson, stýrimanna-
skólastjóra. Sjómannaskólabygg-
ingin var þá næstum ný og langt
frá því fullbúin. Friðrik leiddi mig
um hina glæsilegu byggingu, fyrst
um þann hlutann sem hafði verið
tekinn í notkun en síðan fórum við
í austurhlutann sem var skemmra
á veg kominn. Að lokum komum
við inn í stóran sal, ófullgerðan,
þar sem mikið var af timbri, auk
þess sem maður hafði þar smíða-
stofu sína. Ég sá strax fyrir mér
að þarna væri kominn salurinn
50 ára fermingarbörn í Akraneskirkju á hvítasunnudag 22. maí 1983 ásamt séra Jóni Þorvarðarsyni en
fermingarbörn hans 21. maí 1933 voru 31. Fremri röð frá vinstri: Lilja Ingimarsdóttir, Jóna Valdimars-
dóttir, Þorgerður Jóna Oddsdóttir, Jón Þorvarðarson, Þórey Magna Hannesdóttir, Halldóra Ingveldur
Ásmundsdóttir. Aftari röð: Magnús Kristófersson, Garðar Bergmann Benediktsson, Elías Jón Guðjóns-
son, Pétur Grétar Steinsson, Sigurbjörn Aðalsteinn Haraldsson, Ólafur Árnason.
sem söfnuður hinnar nýju Há-
teigssóknar þyrfti að fá fyrir
starfsemi sína, að minnsta kosti
fyrir barnastarfið, fyrst engin var
kirkjan. Ég nefndi það ekki við
Friðrik. Það var ekki tímabært.
Nokkru síðar var embættið aug-
lýst og ég sótti um, auk tveggja
annarra. í kosningunum fékk ég
fleiri atkvæði en ég hafði búizt
við, nokkru meira en helming
greiddra atkvæða. Salinn fékk ég
líka og hann kom í stað kirkju
fyrstu árin, eða þar til Háteigs-
kirkja var vígð árið 1965, og það
var ekki sízt að þakka velvild og
stuðningi Friðriks Ólafssonar. Og
þarna var ég búinn að fá það sem
ég hafði svo lengi óskað mér, söfn-
uð til að byggja upp og hús til að
gera það í.
— Og það tókst?
— Það er ekki mitt að dæma
um það en ég held ég megi segja
að sjálfur hafi ég ekki orðið fyrir
vonbrigðum. Síður en svo. Sóknar-
nefndin vann mikið og áhyggju-
samt starf, sérstaklega meðan Há-
teigskirkja var í byggingu. Og svo
studdist ég við blómlegt og öflugt
starf Kvenfélags Háteigskirkju.
Þar átti konan mín, Laufey Ei-
ríksdóttir, sinn stóra þátt en hún
var formaður kvenfélagsins fyrstu
átján árin. Og það hefur glatt mig
mjög að eftir því hefur verið tekið.
Hún hefur hlotið viðurkenningu
fyrir sitt starf ekkert síður en ég
fyrir mitt og þannig finnst m'ér
það eigi að vera.
— Hefur þú haldið sambandi
við fyrrverandi sóknarbörn þín?
— Já, það hef ég gert og það var
mér sérstakt ánægjuefni sl. vor að
hitta 50 ára fermingarbörn mín
við messu á Akranesi. Þetta voru
fyrstu börnin sem ég fermdi í
minni preststíð og það var einstök
tilfinning að standa þarna með
þeim í kirkjunni eftir öll þessi ár,
þeim sem komið gátu, en þau voru
31 sem ég fermdi.
— Hvað finnst þér skemmtileg-
ast að gera?
— Þetta er erfið spurning en
eins og þú sérð þá er píanó hér í
stofunni hjá mér. Ég fékk ungur
áhuga á tónlist og sá áhugi hefur
haldizt. Þegar ég var að alast upp
í Vík var þar ágætur tónlistar-
maður, Sigurjón Kjartansson.
Hann kenndi mér að meta tónlist
og hann kenndi mér að leika á
orgel. Þetta orgel á ég enn og þyk-
ir vænt um það, en þegar við fór-
um frá Vík gáfu Mýrdælingar
okkur þetta píanó að skilnaði. Og
á það leik ég oft, mér til mikillar
ánægju.
Viðtal: Áslaug Ragnars