Morgunblaðið - 29.11.1983, Blaðsíða 2
50
MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 29. NÓVEMBER 1983
Steinar J. I.úrtvíksson
Fimmtánda
bindi Björg-
unar- og sjó-
slysasögu
íslands
BÓKAÚTGÁFAN Örn og Örlygur
hf. hefur gefið út bókina „Þraut-
góðir á raunastund" eftir Steinar
J. Lúðvíksson. Bókin er 15. bindið í
þessum mikla bókaflokki um
björgunar- og sjóslysasögu Is-
lands og fjallar hún um atburði
áranna 1962 og 1963, en í fyrri
bókum bókaflokksins hefur verið
fjallað um atburði frá aldamótum
1900 fram til 1962, auk þess sem
ein bókanna var helguð brautryðj-
endum á sviði slysavarna á ís-
landi.
I frétt frá útgefanda segir: „í
bókinni er getið margra sögulegra
atburða er urðu á árunum sem
bókin fjallar um. Þar er m.a. fjall-
að um það er togarinn Elliði frá
Siglufirði fórst út af Öndverðar-
nesi í febrúar 1962, strandi vél-
bátsins Hafþórs og frækilegri
björgun áhafnar hans, strandi
vélbátsins Helga Hjálmarssonar
við Reykjanes, mannskaðaveðrinu
í apríl 1963, björgun þýska togar-
ans Trave við Vestmannaeyjar en
káputeikning bókarinnar er unnin
út frá þeim atburði. Allmargar
ljósmyndir eru í bókinni m.a. af
skipum og bátum sem koma við
sögu.“
„Innlegg í baráttuna
gegn kjarnorkuvopnum“
- segir P.C. Jersild um bók sína
„Eftir flóðið‘%
sem komin er út í íslenskri þýðingu
Sænski rithöfundurinn Per Christian Jersild, sem
var hérlendis á dögunum í boði Norræna hússins og
Máls og menningar, er talinn einn af merkari núlifandi
rithöfundum á Norðurlöndum. Fáir norrænir rithöf-
undar eiga sér í dag stærri lesendahóp en hann. Jersild
er læknir að mennt en hefur helgað sig ritstörfum
undanfarin sex ár.
Nýjasta bók hans, Eftir flóðið,
er komin út hjá Máli og menn-
ingu í þýðingu Njarðar P. Njarð-
vík. Bókin kom út hjá Bonniers í
Stokkhólmi í fyrra og varð mest
selda bókin í Svíþjóð 1982; um
áttatíu þúsund eintök seldust á
fyrstu tveimur mánuðunum. Síð-
an hefur hún komið út víðar á
Norðurlöndum. Sagan gerist
rúmlega 30 árum eftir gereyð-
ingarstyrjöld. Aðalpersónan er
ungur maður, sem fæðist
skömmu eftir stóra stríðið. Segir
frá nokkrum mánuðum í lífi
hans í ómennskri veröld og bar-
áttu þeirra fáu, sem enn tóra,
fyrir lífi sínu í óbyggilegum
heimi og frá „síðustu fjörbrotum
deyjandi mannkyns. Bókin er
óhugnanleg framtíðarsýn en
jafnframt ógleymanlegt lista-
verk,“ eins og segir í kynningu
Máls og menningar.
Blaðamaður Mbl. hitti Jersild
að máli stuttlega áður en hann
hélt af landi brott og spurði
fyrst hvort líta ætti á söguna
Eftir flóðið sem innlegg í þá
friðarumræðu, sem nú væri efst
á baugi.
„Sagan er fyrst og fremst inn-
legg í baráttuna gegn kjarnorku-
vopnum," svaraði dr. Jersild.
„Frið'ur er afstætt hugtak. Fyrir
mér vakir aðallega að vekja at-
hygli á kjarnorkuvopnaógninni
en ekki að tala um friðarmálin
almennt. Þá værum við komin út
í aðra sálma.“
— Trúir þú því að við eigum
eftir að horfa upp á kjarnorku-
stríð?
„Nei, því vil ég ekki trúa. Það
hafa þó verið gerðar ýmsar at-
huganir á möguleikum þess og í
Svíþjóð telja menn almennt að
líkurnar á kjarnorkustríði fyrir
aldamót séu 50:50. Það er vita-
skuld ágiskun, sem ekki er hægt
að dæma um — það eina sem
maður getur sagt er að það er
ákveðin hætta fyrir hendi,
hætta, sem ekki er hægt að láta
sem vind um eyru þjóta. Það er
erfitt að nefna tölur í þessu sam-
bandi.“
— Eftir flóðið lýsir köldu og
miskunnarlausu samfélagi, nán-
ast tiifinningalausu. Erum við
kannski á leið með að skapa slík
samfélög á Norðurlöndum í dag?
„Ja, ef kemur til kjarnorku-
stríðs, þá held ég að samfélagið
verði eins ogég hef lýst því í bók-
inni. Reynsla okkar og rann-
Morgunblaðid/Rax.
Per ('hristian Jersild: Förum var-
lega í að nota orð eins og lögreglu-
ríki og einræði um Norðurlönd-
in ...
sóknir á meiriháttar náttúru-
hamförum, flóðum og þess hátt-
ar, hefur leitt ýmislegt í ljós um
hvernig fólk bregst við slíkum
ógnaratburðum ... Ef þú átt við
hvort við séum á þessari leið án
þess að komi til kjarnorkustyrj-
aldar, þá held ég það ekki. Það
hefur verið umræða í gangi í
Svíþjóð að undanförnu um að
samfélagið þar sé að verða eins-
konar „1984“ en það tel ég að sé
mjög ýkt. Maður skal fara var-
lega í að nota orð eins og „lög-
regluríki" og „einræði" um Norð-
urlöndin. Það finnst mér rangt
að gera. Víst er skrifræðið í Sví-
þjóð mikið og erfitt að stýra því
en það er langt í frá að þar sé
ofríki."
— En hefur ekki Svíþjóð sér-
stöðu meðal Norðurlandanna —
ég er að hugsa um það sem Dan-
ir kalla „Forbuds-Sverige"?
„Já, það er rétt en það á sér
margar orsakir. Ein er sú, að í
Svíþjóð er margra alda hefð
fyrir skrifræði eða allt síðan á
sextándu öld. Svo erum við mikl-
ir móralistar, ekki satt? En ef
maður getur ekki sætt sig við
ýms vandamál í nútíma samfé-
lagi, eins og t.d. drykkjusýki, þá
verður að gera eitthvað í málinu.
Þá geta boð okkar og bönn virst
nokkuð undarleg. Maður getur
hlegið að sænskri áfengismála-
stefnu en þegar maður kemur til
íslands má ekki drekka bjór og
það getur líka þótt furðulegt,
jafnvel þótt maður skilji hugs-
unina á bak við þá afstöðu ykk-
ar.“
— Ef við förum út í aðra
sálma: hvernig er heilsufar bók-
menntalífs ykkar í Svíþjóð?
„Það hefur orðið nokkur
breyting þar á. Undanfarin
fimmtán ár hafa skáldsögur og
leikbókmenntir mikið fjallað um
pólitísk og félagsleg viðfangs-
efni. Þetta hefur greinilega
breyst nýverið, þannig að yngri
rithöfundar eru farnir að skrifa
um aðra hluti, ópólitíska."
— Hefurðu haft tækifæri til
að kynna þér íslenskar nútíma-
bókmenntir?
„Nei, ég veit afskaplega lítið
um íslenskar bókmenntir. Það er
fyrst og fremst vegna þess að ég
get ekki lesið íslenskan texta. Ég
reyni að fylgjast með í Dan-
mörku og meðal sænskumælandi
Finna, enda get ég lesið það, en
íslensku get ég ekki lesið nema
með miklum erfiðismunum."
— Hvað ertu að fást við þessa
dagana?
„Nú skrifa ég leikhúsverk. Ég
þarf að fara heim á morgun
vegna þess að þar næsta verður
frumsýndur eftir mig kabarett í
Stokkhólmi."
— Það er talsverður munur á
kabarett og tortímingarsögu á
borð við Eftir flóðið, ekki satt?
„Jú, vissulega — en mér þykir
gaman að fást við ný viðfangs-
efni.“
Byltingarkenndar hugmyndir í landi sólarinnar:
Hönnun á 500.000 manna
„flotborg“ lokið i Japan
Það kann að hljóma eins og
hluti af vísindaskáldsögu, en allt
frá því dr. Kiyohide Terai, einn
færasti tæknifræðingur póst- og
símamálastofnunarinnar í Japan,
skýrði frá hugmynd sinni hefur
síminn ekki stoppað hjá honum
eitt augnablik. Hugmynd hans er
enda óvenjuleg. Terai vill leysa
fólksfjölgunarvandann, sem Jap-
anir eiga við að glíma, með bygg-
ingu flotborgar.
I samvinnu við nokkra af
helstu iðnjöfrum Japan hefur
Terai lagt fram áætlun, sem
miðar að byggingu flotborgar
fyrir a.m.k. 500.000 manns.
Hugmyndin er ekki einugis sú,
að fólk eigi þar samastað, held-
ur stundi þar og störf sín.
Flotbórg þessi yrði tengd við
land og stæði, þar sem dýpi er
nú allt að 200 metrum.
í hugmynd Terai er gert ráð
fyrir að borgarstæðið verði 33
ferkílómetrar að flatarmáli.
Kostnaður við byggingu borg-
arinnar er áætlaður 4 milljarð-
ar dollara, eða sem svarar 110
milljörðum íslenskra króna.
Helmingur þess fjár er talinn
munu fara í það eitt að koma
fyrir um 10.000 stólpum, sem
bera eiga borgina uppi. Tak-
markið er, að byggingu borgar-
innar verði Iokið innan áratug-
ar.
Þótt hugmynd Terai kunni að
hljóma sem fjarstæðukennd
voru starfsbræður hans svo
hlynntir henni, að ekki hvarfl-
aði annað að þeim en taka hann
alvarlega. Þeir, sem þegar hafa
ákveðið að leggja honum lið við
framkvæmd hugmyndarinnar
eru m.a. forstjóri Sony-raf-
eindafyrirtækisins, Akio Mor-
ita, og forstjóri NTT, Hisahi
Shinto, auk fulltrúa ýmissa
þekktra stórfyrirtækja, t.d.
IBM.
Útþensla iðnaðar í Japan
hefur verið mjög ör á undan-
förnum árum og landrými er
því orðið af skornum skammti.
Fólk hefur safnast saman á til-
tölulega þröngu svæði á milli
fjalls og fjöru frá Tókíó og allt
til Osaka og skortur á landrými
er orðinn tilfinnanlegur.
í hugmynd Terai er gert ráð
fyrir að hver fermetri í flot-
borginni verði seldur iðnfyrir-
tækjum á 4—8.000 dollara
(110—220.000 ísl. krónur). Þessi
verðhugmynd er talin óraun-
hæf af mörgum, en Terai bend-
ir á, að fyrirtæki þutfi í dag að
greiða 2.500 dollara (tæpar
70.000 fsl. króna) fyrir hvern
fermetra í úthverfum Tókíó. Að
áratug liðnum muni þessi upp-
hæð hafa tvöfaldast. Aukin-
heldur muni nýting rýmis í
flotborginni verða miklu betri
en gerist á þurru landi, eða
100% í stað aðeins 40%. Á landi
þurfi að hafa ákveðið rými á
milli bygginga vegna eldhættu,
svo og til að auðvelda flutning
aðfanga og framleiðslu. Elds-
voða segir Terai ekki verða
neitt vandamál i flotborginni.
Sjó er dælt upp og slökkvistarf
því ákaflega auðvelt.
Flotborgina hyggst Terai
byggja á fjórum hæðum. Á
efstu hæðinni verða bústaðir
fólks, á næstu hæð fyrir neðan
allt flutningskerfi borgarinnar,
þá vinnustaðir og á neðstu hæð-
inni verða leiðslur og lagnir,
svo og rými fyrir sorp og annan
úrgang.
I fjarskiptum verður notast
við nýjustu kapaltækni, en orku
á að fá m.a. með nýtingu sjáv-
arfalla svo og frá kjarnorku-
veri, sem hugmyndin er að
verði aðskilið frá sjálfri flot-
borginni. Ekki aðeins er gert
ráð fyrir fullkomnu flutnings-
kerfi í þessari nýju borg, heldur
er og ætlunin að þar verði
flugvöllur, opinn allan sólar-
hringinn. Þar eiga meira að
segja hljóðfráar þotur að geta
lent og hafið sig til flugs.
Þótt borgin verði byggð á
stólpum segir Terai hættuna á
skemmdum af völdum jarð-
skjálfta og annarra náttúru-
hamfara verða sáralitla. Hver
stólpi um sig verður búinn sér-
stökum útbúnaði, sem gerir
honum kleift að bregðast við
með tilliti til aðstæðna. Tölvu-
búnaður stýrir dælingu vatns
inn í stólpana og út úr þeim
aftur til þess að auka styrkleika
þeirra eða minnka eftir því sem
þurfa þykir.
Komi til jarðskjálfta mun
sérstakt viðvörunarkerfi fara
af stað og allt vatn verður tæmt
úr stólpunum og borginni þar
með lyft upp upp af hafsbotni.
Til þess að sjá við flóðbylgjun-
um, sem oft fylgja í kjölfar
skjálfta, verður nægilega miklu
vatni hleypt inn í stólpana á ný
til að þeir nemi við hafsbotn.
Þannig eykst mótstöðuafl
þeirra og þeir eru jafnframt
betur undir það búnir að mæta
flóðbylgju.
íbúar flotborgarinnar munu
ferðast á rafmagnsbílum innan
borgarinnar og aka eftir sér-
staklega hannaðri braut. Fjöldi
bifreiðastæða verður við hverja
götu flotborgarinnar og í
hverju þeirra rafmagnstengill,
þar sem hlaða má geyma bif-
reiðanna að nýju.
Hvort íbúar þessarar fram-
tíðarborgar sætta sig við að
geta ekki farið neitt út úr henni
á bílum sínum og hvort verka-
fólk sættir sig við hið ómann-
úðlega umhverfi, sem því er
ætlað á vinnustöðum sínum, er
svo aftur á móti nokkuð, sem
dr. Terai og fylgismenn hans
virðast ekki hafa gefið gaum.