Morgunblaðið - 11.03.1984, Blaðsíða 40

Morgunblaðið - 11.03.1984, Blaðsíða 40
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 11. MARZ 1984 40____________________ Hjörtur Fjeldsted forstjóri, Akureyri Fæddur 8. desember 1930 Dáinn 4. mars 1980 Þann 4. mars sl. andaðist í Sjúkrahúsi Akureyrar okkar góði vinur Hjörtur Fjeldsted, langt um aldur fram, aðeins 53 ára gamall. Ekki ætlum við okkur að rekja æviferil hans hér, en langar með þessum fátæklegu orðum að þakka fyrir þau ár sem við vorum honum samferða. Kynni okkar hófust fyrir rúm- um 12 árum, þegar við fluttum til Akureyrar, hafa þau kynni ætíð haldist síðan, og óhætt er að segja að þar hafi aldrei fallið skuggi á, því Hjörtur var sannur vinur og félagi. Hjörtur var kvæntur heið- urskonunni Guðrúnu R. Sigurð- ardóttur, Heiðu, eins og hún ávallt er kölluð meðal vina, og eignuðust þau þrjú mannvænleg börn, Ing- veldi, Guðrúnu og Hjört. Hafa þau öll stofnað eigið heimili og eru for- eldrum sínum til sóma á allan hátt. Barnabörnin eru tvö, Guð- rún, 12 ára, sem verið hefur sól- argeisli afa og ömmu alla tíð, og Hjörtur Þór á öðru ári, sem alltof stutt fékk að njóta hlýjunnar hjá afa. Hjörtur var alltaf reiðubúinn að hjálpa öðrum og ætlaðist aldrei til neins í staðinn. Við minnumst þess með þakklæti þau fjögur ár sem við bjuggum fjarri og þurft- um á því að halda að dvelja í bæn- um, tóku þau öll okkur opnum örmum eins og við værum ein af fjölskyldunni. Nú þegar leiðir skilur um sinn viljum við færa Hirti þakkir okkar fyrir alla tryggð hans og vináttu. Heiðu, börnunum og aldraðri móður hans sendum við okkar bestu samúðarkveðjur. Megi góður Guð styrkja ykkur í ykkar miklu sorg. Asa og Asgrímur Karlmennska og æðruleysi eru eðliskostir sem áður voru í háveg- um hafðir og mættu enn metast meir en verið hefur í tízku um sinn. Því kemur mér þetta nú í hug, að ég kveð hér þann mann, sem ég hef þekkt einna ærðulaus- astan drengskaparmann um dag- ana. Kynni okkar voru ekki löng, en milli hans og föður míns voru löng kynni og góð, þar sem Hjört- ur hóf með honum sinn sjó- mennskuferil fyrir nærri fjörutíu árum á skipum afa síns og nafna. Framan af ævi stundaði Hjörtur sjó — lengst af á togurum Akur- eyringa. Hann var duglegur og óvílsamur þar sem í öðru, sem hann tók sér fyrir hendur. Eins og títt er um atorkumenn og fram- kvæmda langaði hann að fást við sjálfstæðan rekstur og hóf rekstur Skipaþjónustunnar fyrir 17 árum, sem hann átti síðan og stýrði til dauðadags og hafði gert að mynd- arlegu fyrirtæki. Það er þeim mun meira afrek sem hann gekk aldrei heill til skógar undanfarin ár. Má segja að hann hafi barizt í návígi við dauðann nú um nokkurra ára skeið. En honum var margt betur gefið en vol og víl. Ég hitti hann á götu nokkrum dögum fyrir andlát sitt — hressan og glaðan að vanda — þótt hann væri þá að koma úr erfiðri sjúk- dódmslegu. Hann var staðráðinn í að standa meðan stætt væri, og við höfðum uppi gamanmál um að gera okkur glaða stund í næstu viku með þessum venjulega for- mála okkar — ef við verðum báðir uppistandandi. Það er sálarbót að slíkum mönnum. Nóg er um sorta, víl og volæði í velferðinni og þeim mun meiri hressing af slíku fólki sem Hirti Fjeldsteð, sem aldrei lét erfiðleikana smækka sig, en stóð af sér alla sjói, nema þann sem hvern og einn okkar ber að síðustu burt héðan. Hjörtur var dulur um sjálfan sig og eigin hagi. Hann hafði þann skemmtilega kost að þykja flest merkilegra sem aðra henti en sjálfan hann. Hann var fjölfróður og greindur og hafði merkilega víða komið við í bókum, fljótur að nema og komast til botns í því, sem hann fékkst við Á umliðnum tíu árum áttum við margt saman að sælda í dagsins önn og á gleði- stundum. I mínum vinahópi er því skarð fyrir skildi, en dauðinn er umskipti — slík var okkar beggja trú. Sorg og söknuður Guðrúnar Heiðu — konu hans — sonar og dætra er mikil. Guð gefi þeim styrk í sorg þeirra. Eg votta þeim sem og öðr- um aðstandendum mína dýpstu samúð og bið vini mínum Guðs blessunar í eilífðinni. Bárður Halldórsson Mig setti hljóðan og mér fannst stórt tóm hafa myndast, er ég frétti lát æskuvinar míns, Hjartar Fjeldsted, forstjóra, á Akureyri. Hann andaðist við sólris hinn 4. mars, aðeins 53 ára gamall. Lát hans átti þó ekki að koma neinum er þekkti hann á óvart, því sjúk- dómur sá er leiddi hann til dauða, hafði þjáð hann árum og áratug- um saman. Á sjúkrahúsum þurfti hann að dvelja oft á ári hin síðari ár, stundum mjög sjúkur. En strax og heim var komið hóf hann vinnu sína á ný með sama áhuga og krafti og ætíð áður, því atorka var eðli hans. Hjörtur Fjeldsted fæddist 8. desember 1930. Móðir hans var Ingveldur Hjartardóttir Fjeld- sted, og faðir hans Gunnlaugur Jónsson, sem nú er látinn. Þau voru ógift. Móðir drengsins dvaldi erlendis öll hans æsku- og ungl- ingsár, og kom það í hlut afa hans og ömmu, Hjartar Lárussonar Fjeldsted, skipstjóra og útgerð- armanns á Akureyri, og Guðrún- ar, konu hans, að ala hann upp. Varð drengurinn brátt augasteinn þeirra og eftirlæti. Öll bjuggu þau á Stóruvöllum, en það hús stóð vestan Akureyrarkirkju og var kirkjan byggð á lóð sem þau heið- urshjón gáfu. Við Stóruvelli var Hjörtur jafnan kenndur í vinahópi og kallaður Lilli á Stóruvöllum. Við Lilli á Stóruvöllum gengum saman í barnaskóla og gagnfræða- skóla og þá hófst sú vinátta okkar, sem aldrei bar hinn minnsta skugga á öll þau ánægjulegu ár sem við áttum saman, sem börn og unglingar og síðan sem fulltíða menn. Við upphaf náms í gagnfræða- skólanum andaðist amma hans og var það þeim nöfnum báðum mik- ið áfall. Þremur árum síðar and- aðist Hjörtur Fjeldsted eldri. Var það Lilla erfið lífsreynsla því sam- band þeirra nafnanna hafði verið einstaklega fagurt. Hjörtur Fjeldsted eldri var ungum nafna sínum ekki aðeins sem faðir, held- ur einnig vinur og félagi. Eftir lát gamla mannsins flutti Lilli heim til mín og foreldra minna og eitt gekk yfir báða þang- að til við stofnuðum okkar eigin heimili þegar sá tími kom. Á ég margar fagrar og skemmtilegar minningar frá þeim árum. Ekki völdum við sama lífsstarf- ið, ég fór í iðnnám en Lilli í Stýri- mannaskólann og lauk þaðan meira-stýrimannaprófi 1952 og stundaði sjóinn mörg næstu árin, sem háseti.'stýrimaður, skipstjóri og útgerðarmaður. En milli skipa og vertíða vann hann oftast við veiðarfæragerð, en á því sviði afl- aði hann sér góðrar þekkingar. Árið 1967 stofnaði hann fyrir- tækið Skipaþjónustuna, sem er umboðs- og heildsöluverslun, sem annast hvers konar vinnslu á vír- um og tógum og alla fyrirgreiðslu til skipa. Þar hygg ég að Hjörtur Fjeldsted hafi verið á réttri hillu því hvers konar viðskipti voru honum eðlileg og mjög að skapi. Hjörtur Fjeldsted, forstjóri, var stór í öllu sem hann tók sér fyrir hendur og höfðingi að allri gerð. Svo vandvirkur var hann að hann vildi ekkert láta frá sér fara fyrr en hann gat ekki betur gert. Fyrir augum þeirra sem ekkert þekktu hann, gat hann virst kald- ur, en það var brynja. Undir henni sló heitt hjarta. Hann mátti ekk- ert aumt sjá án þess að reyna að bæta úr því og sparaði þá hvorki fé né fyrirhöfn. Árið 1953 kvæntist Hjörtur Fjeldsted eftirlifandi konu sinni, Guðrúnu Randheiði Sigurðardótt- ur, frá Svalbarði í Glerárþorpi. Hafði hann oft á orði, að sá dagur hefði verið einn sinn mesti ham- ingjudagur. Þeim varð þriggja barna auðið. Þau eru Ingveldur, sem gift er og búsett í Austurlönd- um, Guðrún sem er húsmóðir á Akureyri, og Hjörtur, sem er við nám í Kaupmannahöfn, og hefur stofnað eigið heimili. þau Hjörtur Fjeldsted og Guð- rún kona hans byggðu sér húsið Kringlumýri 6 skömmu eftir gift- inguna og bjuggu þar síðan. Heim- ili þeirra var glæsilegt innan dyra og utan, svo þar hallast ekki á. Þangað var gott að koma og þar var gott að vera. Hjörtur kunni vel að gleðjast með glöðum og var hrókur alls fagnaðar þegar það átti við. Ég veit ég mæli fyrir mun allra æskufélaganna, sem haldið höfum hópinn fram á þennan dag, er ég nú þakka ykkur hjónum ótaldar ánægju- og gleðistundir á heimili ykkar og annars staðar. Heiða mín, ég og konan mín sendum þér og börnum ykkar innilegar sam- úðarkveðjur. Við biðjum hinn hæsta um leiðsögn og blessun, Lilla til handa á hinum ókunnu leiðum. Það var bjartur og fagur blær yfir lífshlaupi hins látna. Guðbrandur Sigurgeirsson Guðmundur Magnús- son Hóli — Minning Fæddur 10. mars 1912 Dáinn 4. mars 1984 í gær var til moldar borinn frá Hólskirkju í Bolungarvík Guð- mundur Magnússon bóndi, Hóli. Guðmundur er fæddur á Hóli 10. mars 1912 og voru foreldrar hans þau Helga Olafsdóttir frá Minna- Hrauni í Skálavík og Magnús Tyrfingsson frá Hóli. Systkini hans voru 7. Eftirlifandi er Tryggvi, fyrrum bóndi að Hóli, og fóstursystir þeirra, Lilja Ketils- dóttir. Guðmundur ólst upp í for- eldrahúsum á Hóli, en missti ung- ur að árum föður sinn og bjó með móður sinni og systkinum á Hóli allt til ársins 1936, að hann keypti þann hlut jarðarinnar er þau höfðu búið á. Síðar varð hann eig- andi allrar jarðarinnar. Guðmundur hóf nám við Bændaskólann á Hvanneyri 1930, og útskrifaðist þaðan sem búfræð- ingur árið 1932. Alla tíð var Guð- mundur mikill náttúruunnandi, naut þess að rækta jörð sína, hlúa að skepnum og fegra sitt um- hverfi. Þótti félögum hans í bændastétt gott að leita til hans um ráð, einkum og sér í lagi hvað varðaði meðferð sjúkra dýra, sem hann var einkar laginn að fást við. Kynni okkar Guðmundar hófust fyrir um það bil þrjátíu árum, er við unnum saman við málun, dúk- lagningu og lokafrágang á Sjúkra- skýli Bolungarvíkur ásamt góðum vini okkar beggja, sem nú er lát- inn, Kristjáni Júlíussyni kennara. Var þar oft glatt á hjalla, og má vera að þau góðu kynni hafi síðar orðið hvati að búsetu minni í Bol- ungarvík. Leiðir okkar Guðmundar lágu síðar saman á öðrum vettvangi, en við vorum samstarfsmenn í bæj- arstjórn Bolungarvíkur um 16 ára skeið, svo og samkennarar við Grunnskólann í Bolungarvík í þrjú ár. Guðmundur Magnússon tók fyrst sæti í hreppsnefnd Hóls- hrepps árið 1962—1974, og í bæj- arstjórn frá 1974—1982, alls í sveitarstjórn í 20 ár, er hann kaus að gefa ekki kost á sér til endur- kjörs vegna aldurs. Öll árin sat Guðmundur í einni af mikilvæg- ustu nefnd Bolvíkinga, þ.e. Hafn- arnefnd, og lagði þar af mörkum drjúgt starf við vandasama upp- byggingu. Þá átti Guðmundur sæti í skólanefnd, bygginganefnd, var endurskoðandi Sparisjóðs Bol- ungarvíkur frá árinu 1974, auk fjölmargra annarra trúnaðar- starfa á vegum bæjarfélagsins. Guðmundur starfaði sem bóka- vörður bæjarbókasafns Bolung- arvíkur nú hin síðustu ár og gegndi því starfi er hann lést. Guðmundur var mikill félags- málamaður og tók virkan þátt í félagsstarfi hvers konar, var formaður Búnaðarfélags Hóls- hrepps frá 1960 til dauðadags, átti oft sæti á stéttarfélagsfundum bænda, gegndi stöðu fram- kvæmdastjóra fyrir byggingu Mjólkurstöðvarinnar á Isafirði. Hann var virkur og góður Lionsfé- lagi, formaður Lionsklúbbs Bol- ungarvíkur í eitt ár, formaður Framsóknarfélags Bolungarvíkur í 10 ár, og um tíma framkvæmda- stjóri fyrir ræktunarsamband Hóls-, Eyra- og Suðavíkurhrepps. Guðmundur var maður glæsi- legur á velli, hjartahlýr, augun brosmild, munnsvipurinn góðleg- ur, reyndar oft á tíðum stríðnis- legur, og gráa hárið gerði hann mildan að yfirbragði, og fas allt lýsti miklum mannkostamanni. Kynni manna verða hvað mest að mínu mati við vinnu, í viðskipt- um og þá þeir takast á við erfið- leika hvers konar. Ég bæði vann með Guðmundi Magnússyni, átti við hann viðskipti og sá fram á fjölmörg vandamál, sem við þurft- um í samstarfi við aðra að horfast í augu við og leita lausna á. Mér varð snemma ljóst, að gott var ráð til hans að sækja. Hann var mað- ur íhugull og gætinn í ákvarðana- töku, en fastur fyrir og ákveðinn þegar til baráttu kom og ákvörðun hafði verið tekin. Alla tíð tók hann svo afstöðu til mála i bæjarstjórn Bolungarvíkur, að heill bæjarfé- lagsins var ofar daglegu þrasi og smámunasemi. Það kom í minn hlut að eiga við Guðmund Magnússon samninga- viðræður f.h. bæjarsjóðs um kaup á jörðinni Hóli. í þeim viðræðum fann ég glöggt hversu mjög hann unni sínum átthögum, ég man að eitt sinn þá er viðræður okkar stóðu sem hæst, að við gengum um Hólstúnið, veður var eins og það getur orðið fegurst í Bolungarvík. Guðmundur leit yfir Djúpið, fram dalina og yfir byggðina og sagði: „Hvernig heldur þú nú að mér líði að hætta búskap, hverfa frá því sem mér hefur verið kærast um ævina, heldur þú að víða sé feg- urra á Vestfjörðum en hér á Hóli?“ Hann gat ekki hugsað sér annað en að stórbýlið Hóll yrði eign allra Bolvíkinga þá er hann hætti bú- skap, en það var á árinu 1977 sem undirritaður var kaupsamningur milli Guðmundar og bæjarsjóðs Bolungarvíkur um jarðarkaupin, þannig að hann verður að öllum líkindum síðasti ábúandi á höfuð- bólinu Hóli í Bolungarvík. Eitt er mér sérstaklega minn- isstætt, sem lýsir mjög vel skap- gerð og léttri lund Guðmundar Magnússonar. Hverfum 18 ár aft- ur í tímann. Það er laugardags- kvöld, árshátið Lionsklúbbs Bol- ungarvíkur er fyrirhuguð, og Fé- lagsheimilið opnað einni stundu fyrir hóf. Menn eru rétt að byrja að spjalla saman þegar brunaboð- inn glymur, skyldan kallar flesta á brott, nístandi hljómar brunaboð- ans skipta alla máli í litlu byggð- arlagi. Það er að brenna á Hóli. Töluverðan tíma tók að ráða niðurlögum eldsins, og eins og oft áður urðu logar eldsins sigurveg- arar, og húsið svo að segja allt brunnið að innan og algjörlega óíbúðarhæft. Síðar um kvöldið þegar hófið stóð sem hæst birtust þau hjónin Kristín og Guðmund- ur, tóku þátt í gleðinni og sungið var hárri raust: „Hvern þekkið þið kaldari kall en hann Gumma, Gumma á Hóli?“ Borðfélagar þeirra hjóna á þorrablótum eiga eflaust eftir að sakna Guðmundar þegar þessi söngur hljómar næst. Árið 1938 þann 24. sept. kvænt- ist Guðmundur eftirlifandi konu sinni, Kristínu Örnólfsdóttur frá Breiðabóli í Skálavík, elskulegri gæðakonu. Þau eignuðust fimm börn: Helgu, búsetta í Reykjavík, sem gift var Ragnarí Péturssyni, en þau slitu samvistum fyrir nokkrum árum, en börn þeirra eru Guðmundur, Kristinn og Arnar Þór; Margréti, sem gift er Karli Smith og eiga þau tvær dætur, Auði og Soffíu Björk, búsett i Reykjavík; Bárð, sem kvæntur er Svölu Hermannsdóttur, en þau eiga tvo syni, Hermann og Birki, búsett á Húsavík; Karitas, sem gift er Hólmari Finnbogasyni, þau eiga einn son, Heimi örn, búsett í Reykjavík; Örnólf, sem kvæntur er Málfríði Sigurðardóttur og eiga þau fjögur börn, Kristínu Berg- ljótu, Magnús Pálma, Mörtu Sig- ríði og örnólf Þóri, búsett í Bolungarvík. Ég vil fyrir hönd bæjarstjórnar Bolungarvíkur og bæjarstjóra færa Guðmundi Magnússyni látn- um bestu þakkir fyrir óeigingjörn störf hans að velferðarmálum Bol- ungarvíkur. Við sem nutum þess að vera samstarfsmenn hans í bæjarstjórn minnumst góðs vinar, sem gott var til að leita og eiga við samráð. Kristínu, börnum þeirra hjóna, barnabörnum og aðstandendum öllum sendi ég mínar dýpstu sam- úðarkveðjur og bið góðan Guð að styrkja þau við fráfall góðs eig- inmanns, afa, bróður og vinar. Olafur Kristjánsson forseti bæjarstjórnar Bolungarvíkur

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.