Morgunblaðið - 11.03.1984, Blaðsíða 2

Morgunblaðið - 11.03.1984, Blaðsíða 2
50 MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 11. MARZ 1984 SVIPMYND Á SUNNUDEGI GARYHART Stjórnmálaferill Gary Harts öldungadeildarþingmanns hófst fyrir þrjátíu árum þegar hann bauð sig fram til forseta skólafélagsins og tapaði. Skóla- félagar hans rifja upp, að hann hafi orðið gramur vegna ósigurs- ins og átt erfitt með að sætta sig við hann. Hart — sem þá hét Gary Hartpence — ákvað að bjóða sig fram aftur árið eftir. Hann skipulagði, gerði áætlanir og í það skiptið náði hann kjöri. Og hann hefur ekki oft beðið ósigur síðan. Þeir sem þekkja hann segja að hann sé einarður og afdráttar- laus og hann hafi hæfileika til að sjá málin í víðara samhengi og af hærri sjónarhóli en flestir aðrir. Hann sé sjálfum sér sam- kvæmur og haldi sínu striki, ef hann trúir á málstaðinn. Ekki þarf að fjölyrða um hversu mjög hefur komið á óvart velgengni hans í þeim forkosn- ingum sem hafa farið fram í Bandaríkjunum þegar þetta er skrifað. Þó að varla verði spáð um framhaldið eru menn farnir að taka framboð hans alvarlega og ekki sízt hefur Walter Mond- ale, sem flestir töldu sigur- stranglegan sem frambjóðanda demókrata á móti Ronald Reag- an, orðið illilega hlessa. Utan Bandaríkjanna var Gary Hart lítt þekktur áð- ur en sigurinn í New Hampshire kom til. Því hafa menn keppzt við að afla sér upplýsinga um fortíð þessa spútniks, sem boðar „nýtt lýðræði" og vitnar gjarnan til þeirra Roosevelts og Kenne- dys sem báðir hafi komið fram með nýjar hugmyndir og nýjar stefnur, þegar bandarískt þjóð- félag hafi verið að staðna. Þess- ar nýju hugmyndir hafi þá hleypt nýju blóði í þjóðina og vakið þjóðerniskennd og metnað. Þessi málflutningur hefur ber- sýnilega fengið hljómgrunn, enda maðurinn gjörvilegur og glænýr. Hart hefur hamrað á því sjálfur að Mondale sé fulltrúi „gamla tímans" þótt aldursmun- ur þeirra sé ekki ýkja mikill. Aðrir eru þeir sem segja að hug- myndir Harts séu fjarri því að vera nýjar, hvað þá frumlegar. Og í raun og veru beri ekki ýkja mikið á milli í skoðunum þeirra Walter Mondales hvað varðar afstöðu til ýmissa innanríkis- og utanríkismála eins og vikið verð- ur að síðar í þessari grein. Hins vegar benda þeir á að það sé ekki hægt annað en viðurkenna að Gary hart hafi tekizt fram að þessu að klæða gamlar hug- myndir í nýjan búning og það sé skýringin á sigurgöngu hans í þeim forkosningum sem eru af- staðnar. Hvað sem gagnrýnisröddum líður á Hart það til dæmis sameiginlegt með John F. Kenn- edy á sínum tíma, að hann hefur náð til yngri kynslóðarinnar. Hann er slyngur áróðursmaður og margir trúa því að hann sé eini frambjóðandinn sem gæti hugsanlega borið sigurorð af „gamla refnum" sem situr í Hvíta húsinu nú. Hart kemur þekkilega fyrir í sjónvarpi og á þessum fjölmiðlatímum skiptir það miklu. Mondale geldur þess augsýnilega í þessari kosninga- baráttu að honum er ekki jafn sýnt að vekja hrifningu á per- sónu sinni og málflutningi og Hart. Og svo virðist sem gæti löngunar hjá handarískum kjós- endum að boðberi hins nýja lýð- ræðis fái brautargengi og marg- ir álíta að það gæti aukið veg Bandaríkjanna ekki sízt á alþjóðavettvangi. Bandaríkja- menn hafa í forsetatíð Ronald Reagans sætt vaxandi gagnrýni og þetta fólk telur að það sé fyrir æði mörgum forsetum síðan, að Bandaríkjamenn hafi gegnt því forystuhlutverki í samfélagi vestrænna ríkja sem þau hafi alla burði til. Þessu vilja yngri menn snúa við. Reagan hefur verið umdeildur vegna afskipta af málum utan Bandaríkjanna, hvort sem er í Mið-Ameríku eða Miðausturlöndum. Gary Hart er fæddur í Ottawa í Kanada þann 28. nóvember 1936. Foreldrar hans fluttust síðan til heimaríkis síns, Colorado. Hann hét Gary Hart- pence fram eftir árum, en lét breyta því í Hart fyrir æði löngu. Hann hefur engar skýr- ingar gefið á því og hann hefur heldur ekki útlistað af hverju hann er skráður fæddur 1937 í uppsláttarritum. Hann segir að allt slíkt sé þvílíkt smámál að hann nenni ekki einu sinni að ræða það. Raunar er það íhugun- arefni, hversu einkalíf og ýmis prívatmál Harts hafa verið lítið til umræðu í fjölmiðlum, að minnsta kosti fram að þessu. Gary Hart giftist Olethu Lee Ludwig, skólasystur sinni árið 1958 og þau hafa eignazt tvö börn. Hart hafði byrjað nám í guðfræði en sneri sér svo að lög- um og lauk prófi í þeirri grein og þau hjón fluttu til Denver, þar sem Hart opnaði lögfræðiskrif- stofu. Þegar George McGovern reyndi að ná útnefningu demó- krata í forsetakosningunum 1972, fylltist Hart ákefð á bar- áttumálum hans, gekk til liðs við hann og varð síðan aðalkosn- ingastjóri hans. Eins og marga rekur minni til tapaði McGovern kosningunum á móti Nixon með meiri atkvæðamun en áður hafði þekkzt. En framganga Harts þótti tápleg og hann gekk ei heill þeirri hildi frá. Árið 1974 bauð Hart sig fram til öldungadeild- arinnar fyrir Colorado og vann sigur á fulltrúa repúblikana, Peter Dominick, sem var þing- maður ríkisins. Hann vakti fljót- lega á sér athygli í öldungadeild- inni fyrir einarðan og skeleggan málflutning. Hann barðist gegn verðlagseftirliti á eldsneyti, studdi að lækkaðir yrðu skattar á einkarekstri og aukin heldur þótti hann töluvert athafnasam- ur „fyrirgreiðslupólitíkus" fyrir Colorado. Hann var endurkjör- inn sex árum síðar með innan við tuttugu þúsund atkvæða meirihluta. Samtímis því vann Ronald Reagan forsetakosn- ingarnar og yfirburðasigur í vesturríkjunum. Hart fylgdist þá með talningu í hópi stuðningsmanna sinna og þegar sýnt var að hann hefði náð kjöri vitnaði hann í orð Churchills og sagði: „Ekkert jafnast á við þá æsilegu tilfinningu að verða fyrir því að það sé skotið á mann — og skotið geigi." Hart hefur mikið yndi af bókalestri og heimspeki höfðar alveg sérstaklega til hans. Hann er vel lesinn í Kirkegaard að sögn fróðra og segist hafa til- einkað sér aðskiljanlegar kenningar hans. Hann hef- ur dálæti á rússneskum í bókmenntum 19. aldar og fyrri hluta þeirrar tutt- ugustu og sagður kunna „Stríð og frið“ Tolstojs nánast eins og faðirvorið. Hann hefur fengizt við skriftir sjálfur og áður en hann fór á fulla ferð í kosningabar- áttu nú voru þeir William S. Cohen öldungadeildar- þingmaður byrjaðir að vinna saman að bók. Efni hennar er býsna fýsilegt: það er njósna- Eins og áður segir hefur einkalíf Harts ekki verið neitt aðal- efni blaða eins og títt hefur verið í slík- um kosning- um. Þó hefur hjónaband hans og Olethu Lee ekki verið með öllu kyrrt. Þau slitu samvistir fyrir fimm árum, tóku upp sambúð meðan kosn- ingabaráttan 1980 stóð yfir og eftir að hann náði kjöri tilkynnti talsmaður skrifstofu hans að þau hjónin ætluðu að sækja um skilnað. Hart flutti síðan inn til vinar síns, blaðamannsins Bob Woodward hjá Washington Post. En ekki var sótt um skilnað og þau hjón eru nú saman á ný og kona hans fylgist af kappi með ferðalögum hans og tekur þátt í baráttu hans að því er sagt er af hinum mesta fjálgleik. Þegar menn nú velta fyrir sér hver sé helztur stefnu- munur hjá þeim keppinautum Mondale og Hart kemur upp úr dúrnum að í mörgum mikilvæg- um málum er ekki ýkja mikill skilsmunur þar á. Hart og Mon- dale vilja báðir draga úr kostn- aði við heilbrigðiskerfið, Mon- dale vill hærri framlög til menntamála, umhverfismála og í matvæla- og næringarfræði- rannsóknir þar sem Hart leggur megináherzlu á að bæta vega- kerfið, auka framlög til áveitna og orkuvera og hann kveðst bera mjög fyrir brjósti að staða ör- yrkja og efnalítilla verði styrkt. í varnarmálum hefur Mondale talað um að auka þurfi framlög til þeirra um 4% en Hart um ögn meira eða 4,5—5%. Báðir eru andvítir B-l-sprengjuvélinni og MX-eldflaugakerfunum. Mon- dale vill meiri afskipti ríkisins af stefnunni í iðnaði en Hart vill að markaðurinn ráði. Þeir eru báðir talsmenn þess að draga úr kjarnorkuvígbúnaði og styðja al- gera frystingu kjarnorkubúnað- ar ef hún yrði sannanlega gagn- kvæm. Varðandi afstöðu til af- skipta Bandaríkjanna erlendis eru þeir báðir á móti hernaðar- aðstoð við Nicaragua og E1 Salvador við óbreyttar aðstæður og þeir eru sammála um að bandarískar hersveitir eigi ekki að vera í Hondúras. Báðir styðja þeir Israel heils hugar. Hvað varðar félgsleg mál myndu þeir báðir teljast frjálslyndir og jafn- réttislega sinnaðir og vilja launajafnrétti kynja, almenn mannréttindi og eru báðir hlynntir því að fóstureyðingar verði heimilaðar með ákveðnum skilyrðum þó. Af þessu má ráða að það er kannski fleira sem þeir Mondale og Hart eru sammála um en hitt. Því spyrja ýmsir hvort ekki væri þá öllu ráðlegra að veita Mon- dale brautargengi vegna reynslu hans. Stuðningsmenn Harts gefa að sjálfsögðu lítið fyrir þá rök- semd. „Valið stendur milli for- tíðar og framtíðarinnar" er slag- orð Harts. Og telur sig eiga þar við þá báða Mondale og Reagan. Hvað sem öðru líður verður ákaflega forvitnilegt að fylgjast með framvindunni í forkosning- unum á næstu vikum og síðan mánuðum. Hart hefur fengið ótrúlegan byr í seglin og fjár- magn og kosningavél Mondales hefur alltjent fram að þessu ekki dugað langt. (Heimildir: Kconomisl, AP, Poliliken o.fl.) Jóhanna Kristjónsdóttir Föstumessur í Fríkirkjunni ÞRJÁR fijstumessur verða sungnai í Fríkirkjunni í Reykjavík fram til páska. Hin fyrsta þriðjudagskvöldið 13. mars, næsta 27. mars og hin síð- asta 10. aprfl, allar á þriöjudags- kvöldum og hefjast kl. 20.30. Kór og söfnuður syngja úr Passíusálmum síra Hallgríms Péturssonar, safnaðarprestur flyt- ur hugleiðingu og tónar Lítaníu síra Bjarna Þorsteinssonar og frú Ágústa Ágústsdóttir syngur ein- söng, í öll þrjú skiptin bænina „Vertu Guð faðir, faðir minn“ við mismunandi sálmalag hverju sinni: fyrst gamalt danskt lag, þá lag Þórarins Guðmundssonar og loks lag Jóns Leifs. Organisti og söngstjóri er Pavel Smíd. í föstumessunum verður skart- að hinum stórfallega kirkjuskrúða frú Unnar Ólafsdóttur. Föstumessa er alveg ómissandi þáttur í guðsþjónustu og tilbeiðslu hvers kristins safnaðar. Síðustu jarðvistardögum Jesú, frelsara okkar, eru gerð mjög ítarleg skil á síðum guðspjallanna og ekki að ófyrirsynju. Kristnir menn hafa frá öndverðu lagt þá merkingu í handtöku, réttarhöld, dauða og upprisu Jesú Krists, að þar hafi farið fram úrslitabarátta, þar sem hátign Guðs bar sigurorð af öllum illum öflum, mannkyni til eilífs hjálpræðis. Þessa þýðingarmestu frásögn allra tíma hefur snilling- urinn Hallgrímur Pétursson endursagt í Passíusálmum sínum, einhverju dýrlegasta listaverki heimsbókmenntanna samanlagð- ra. Finnumst í Fríkirkjunni þriðju- dagskvöldið 13. mars kl. 20.30 og eignumst saman kvöldstund, borna uppi af íhugun og bæn og þakkargjörð til Guðs fyrir frelsar- ann eilífa. Gunnar Björnsson, fríkirkjuprestur. Vann tvo bfla í bingói: Kannað verði hvort brögð voru í tafli íþróttafélagiö Leiknir í Reykjavík hefur farið fram á við Rannsókna lögreglu ríkisins, að rannsakað verði hvort brögð hafi verið í tafli þegar Reykvfkingur vann tvo bfla í bingói á vegum félagsins. Maðurinn vann bílana á sama spjaldið með stuttu millibili. Hann hefur verið ótrúlega hepp- inn í bíngóum, sem haldin hafa verið í Reykjavík og spunnust miklar sögur um svindl í kjölfarið á vinningunum í bingói Leiknis. Arnar Guðmundsson, deildar- stjóri í RLR, sagði í samtali við Mbl., að enn sem komið væri benti ekkert til að maðurinn hefði haft rangt við.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.