Morgunblaðið - 28.03.1984, Blaðsíða 45

Morgunblaðið - 28.03.1984, Blaðsíða 45
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 28. MARZ 1984 45 Anna Tómas- dóttir — Minning Fædd 10. október 1903 Dáin 21. mars 1984 { dag verður gerð frá Hafnar- fjarðarkirkju útför Önnu Tómas- dóttur, Álfaskeiði 64, Hafnarfirði en hún andaðist í St. Jósepsspítala miðvikudaginn 21. þ.m. Anna Tómasdóttir var fædd að Helludal í Biskupstungum. For- eldrar hennar voru hjónin Tómas Guðmundsson og kona hans Stein- unn Magnúsdóttir, sem þar bjuggu þá, en fluttu síðar að Gegnishólum í Ölfusi. Auk Önnu áttu þau hjón 3 börn, Magnús, Guðmund og Guðrúnu. Æsku- og uppvaxtarár sín lifði Anna heitin þannig í sveitinni. Þeir er síðar kynntust Önnu, þurfa naumast að fara í grafgötur um það, að þar hafi hún snemma tekið til hendi við hversdagsleg störf og gengið notadrjúg og undanbragða- laust til hinna fjölbreytilegu og erfiðu starfa, sem sveitabú- skapurinn, ekki síst í þá daga, gerði kröfu til. Ekki verður hér rakin sú saga enda greinarkorni þessu ekki ætl- að það hlutverk að vera ævisaga hinnar látnu heldur miklu frekur fáein kveðju- og þakkarorð eftir langa og einkar góða og eftir- minnilega vináttu við greinarhöf- und og fjölskyldu hans alla um nærfellt 40 ára skeið. Ung mun Anna hafa flutst úr sveitinni og þá fyrst til Reykjavík- ur en í Hafnarfirði átti hún heim- ili mestan hluta ævi sinnar. Ekki skal hér farið út í það, af hvaða ástæðum hún tók sig upp og flutti úr heimahögum, greinarhöf- undi er ekki kunnugt um það, en þeim sem þekktu Önnu kæmi ekki á óvart að þar hafi ráðið löngun hennar til þess, á sem sjálfstæð- astan hátt, að takast á við lífið á eigin ábyrgð, duga eða drepast, jafnan fremur sem veitandi en þiggjandi í víðtækum skilningi. Mun hún smemma hafa tileiknað sér þau sannindi að í sveita síns andlits skyldi hver síns brauðs neyta. Eftir að Anna flutti úr sveitinni fékkst hún við hin margvíslegustu störf, bæði framleiðslu og þjón- ustu við aðra. í Hafnarfirði vann hún við fiskverkun, í þvottahúsi og nú síðast í Efnalaug Hafnarfjarð- ar. Þar starfaði hún fjölda ára, enda þótt endurtekin eiganda- skipti hafi orðið að því fyrirtæki. Sýnir það ljóslega hvert orð hún hefur fengið hjá fyrri eigendum og húsbændum sínum. Af ummælum margra atvinnuveitenda hennar, sem greinarhöfundur þekkti vel, kom það og skýrt fram hversu trú- verðugur, traustur og vandvirkur starfsmaður Anna var í öllum til- vikum. Ávallt var svikalaust geng- ið til starfa og það jafnt þótt hún ekki, af ýmsum ástæðum, gengi alltaf gengið heil til skógar og ýmsir hefðu tekið sér frí þess vegna. En óhætt er að fullyrða að meira en lítið mátti vera að, ef ekki var mætt til vinnu, svo sem ekkert hefði í skorist. Þennan dóm hlaut hún hjá húsbændum sínum hverjum af öðrum og var áreiðan- lega vel að honum komin, svo kröfuhörð og óvægin við sjálfa sig, sem hún jafnan var. Anna var vel greind kona og fylgdist vel með almennum mál- um. Myndaði hún- sér ákveðnar skoðanir um menn og málefni og var enginn tækifærissinni í þeim efnum frekar en öðrum. Ef hún hafði tekið afstöðu á annað borð, þá þekki ég engan, sem fengi þok- að henni frá sannfæringu hennar. Sem dæmi um einbeitni Önnu og viljafestu má geta þess að á efri árum eignaðist hún bifreið sem happdrættisvinning. Ákvað hún þegar að læra að aka og naut þess til hinstu stundar að eiga bílinn og geta gripið til hans til daglegra þarfa. Svo sem að líkum lætur, sé litið til lífsferils hennar, var Anna ein- dreginn sjálfstæðismaður, stuðn- ingsmaður Sjálfstæðisflokksins og félagi í „Vorboðanum", félagi sjálfstæðiskvenna. Nú er komið að þvl, sem fyrst og fremst skyldi vera tilefni og inn- tak greinarkorns þessa, en það eru persónuleg kynni mín, konu minn- ar og fjölskyldu allrar, af hinni merku konu og einstaka tryggða- trölli, sem Anna reyndist okkur alla tíma eða um 40 ára skeið. Upphaf þessara kynna voru þau af einhverju sinni, er við hjónin leituðum að aðstoðarmanneskju á heimili okkar, sem þá var á Hverf- isgötu 3, var okkur bent á að reyn- andi væri að ræða við Önnu í þessu augnamiði. Gerði það ágæt- is vinafólk hennar og okkar úr fjölskyldu Jóns Gests Vigfússon- ar. Átti ég svo skömmu síðar stutt spjall við Önnu upp í Sléttuhlíð, þar sem hún var stödd í sumar- bústað Jóns Gests. Hikandi færði ég þetta í tal við hana. Var því ekkert tekið opnum örmum í fyrstu og hvarf ég frá án sýnilegs árangurs, en þó ekki með öllu vonlaus um að málið yrði eitthvað athugað nánar. Að skömmum tíma liðnum kom Anna, sannfærði sig um að mér hefi verið alvara, og tjáði mér að það mætti svo sem reyna þetta. Nokkru síðar var hún svo komin, flutti í hús okkar og var hjá okkur um árabil. Enda þótt vist væri slitið, entist tryggð hennar og vinátta, ekki að- eins við okkur hjónin heldur og við fjölskyldu alla, börn, tengdabörn og barnabörn, allt til dauðadags. Öll þessi samskipti, en Anna var nær daglega á heimili okkar og þá sem ein úr fjölskyldunni allar göt- ur svo lengi sem heilsa leyfði og jafnframt kær gestur á heimilum barna okkar, voru okkur einkar kærkomin. Jafnan dvaldi Anna hjá fjölskyldu okkar á hátíðum og tyllidögum okkar og barnanna. Kom hún þá jafnan færandi hendi. Oft komu þá úr pökkum hennar til þeirra yngri haglega gerðir vettl- ingar, sokkar eða annað prjónles. Bar þetta einkar glöggan vott um snyrtilegt handbragð, fyrirhyggju og góðan hug. Öll þessi tryggð Önnu og kynni við hana láta eftir sig ljúfar minn- ingar, sem seint munu fyrnast né fullþakkaðar verða. Ekki verður skilist svo við þessi kveðjuorð að ekki sé minnst á heimili eitt hér í bæ, þar sem Anna átti lengi heimili, þ.e. Suð- urgötu 13. En fjölskylda Bjarna Jóhannessonar og konu hans, Stefaníu Magnúsdóttur, var mikið og traust vinafólk Önnu. Fór það ekki fram hjá neinum að sú fjöl- skylda var Önnu einkar kær og mikilsmetin. Vinátta hjónanna gekk og í arf til barnanna, sem reyndust Önnu ómetanlegir vinir. Verður ekki framhjá því gengið hversu dóttirin, Margrét Bjarna- dóttir Flygenring, reyndist henni alla tíð og þá ekki síst í þeim veik- indum Önnu er drógu til þeirra endalykta merkrar ævi, er nú eru orðnar. Þar hefði engin dóttir get- að sýnt meiri ástúð og umhyggju en þá er Margrét sýndi og aðdáun vakti þeirra er til þekktu. Naut Anna jafnan einlægrar vinsemdar hjónanna í Tungu, Margrétar og Kristjáns Flygenring, en þau hjón mat hún mjög mikils og leyndi sér aldrei hverja þakkarskuld hún taldi sig eiga þeim að gjalda. Stóð heimili þeirra henni jafnan opið og naut hjun þess sér til mikillar ánægju. Hér verða eigi fleiri orð við höfð en hinni látnu færðar að lokum þakkir fyrir störf öll og óbrigðula vináttu í þeirri von að hún megi nú reyna sannindi þeirra orða „að svo sem menn sái svo muni þeir og uppskera". Blessuð sé minning Önnu Tóm- asdóttur. Stefán Jónsson Minning: Þorsteinn Guðmunds- son frá Reynivöllum „Æ, ertu kominn blessaður," varð honum að orði í síðasta sinni sem fundum okkar bar saman. Um stund bar hann full kennsl á mig, en svo hvarflaði honum minni. Hann hafði þá um skeið gist hjúkrunarheimilið á Höfn, farinn að heilsu og kröftum, enda hátt á níræðisaldri. Hinn 8. apríl nk. er 21 ár liðið síðan fundum okkur Þorsteins bar fyrst saman. Ég var þá staddur í smiðju sem Sveinbjörn Sverrisson átti og rak á Höfn. Þangað kom Þorsteinn að dytta að bíl sínum ágætum, en það var herjeppi, sem hann keypti 1945 og ók auðvitað norður og austur til síns heima, enda engar brýr þá framan lands. Þorsteinn var hagur ágæta vel á tré og járn, þó einkum járn, enda hafði hann lagt stund á þá iðn hjá Jóhanni Hanssyni á Seyðisfirði eystra í ungdæmi sínu, þótt eng- um prófum lyki hann. Þann dag tókst með okkur kunningsskapur og síðan vinátta einhver sú hin verðmætasta sem undirritaður hefir eignazt. Það varð strax að ráði að Þor- steinn stýrði kynnisferð fyrir mig í Suðursveit daginn eftir, og var Sveinbjörn með í för. Þar með hófst sú leiðsögn um hérað og mannlíf í Suðursveit, sem stóð uppstyttulaust í hálfan annan áratug, aldrei sjaldnar en einu sinni á ári og stundum oftar. Minnisstæð er fyrsta ferðin að Reynivöllum apríldaginn 1963. Þorsteinn hafði brugðið búi árið áður og flutzt til Hafnar í Hofna- firði. Allt stóð þá með sömu um- merkjunum á Reynivöllum og bar vitni hagleiksmanninum, sem um hafði sýslað. Hinn 1. maí þetta vor lóssaði Þorsteinn mig á fyrsta framboðs- fundinn á Hofi í öræfum. Við tíndum svartbaksegg á Breið- amerkursandi, Kvískerjamenn ferjuðu okkur yfir Jökulsá og gist var í Svínafelli hjá Magnúsi bónda Lárussyni. Lárus var þá mjög gamlaður og langt kominn að berja nestið. Þó var í honum mik- ill pólitískur hugur og bað hann mig þess lengstra orða að jafna reikningana ærlega við Framsókn. Smám saman síaðist inn í hug- ann land og fólk og viðhorf í þess- ari merkilegu og sérstæðu veröld. Fyrir eyrum hljómar hin lifandi frásögn af mönnum og málefnum, mælt fram með fágætu tungutaki og framandi á stundum. Þegar leiðbeinandinn er allur sækja minningarnar á og væri margt í frásögur færandi. Það verður að bíða annarra tíma. Aðeins ein dagsstund rifjuð upp. Eitt sinn sem oftar lá leiðin að Hala til Steinþórs mágs Þorsteins, en kona Steinþórs var Steinunn systir Þorsteins. Þegar við ókum á jeppanum góða fram hjá Kálfa- felli er þar að ganga við fé Bene- dikt bróðir Steinþórs og hafði birkilurk ólítinn að staf. Ég segi við Þorstein að nú sé ráð að bjóða Benedikt í kynnisför suður yfir Sand. Þetta varð að ráði, og tók Benedikt boðinu. Ég hafði aldrei hitt hann áður, en verið sagt að maðurinn væri kátur og skemmtinn. Nú brá hinsvegar svo við, að Benedikt mælti varla orð af vörum og tjóaði ekki þótt Þor- steinn reyndi að spreka honum til. Á þessu gengur suður yfir Steina- vötn, sem þá voru óbrúuð. Skyndi- lega snýr Benedikt sér að mér og segir: „Sverrir, ég vil að þú vitir að ég er sósíalisti." „Já, segi ég, það er mér kunnugt um.“ Að svo búnu tók Benedikt gleði sína og hélt henni þaðan í frá. Hann vildi taka af tvímæli um þetta við ókunnug- an frambjóðanda úr allt annarri átt. Þegar að Hala kom var Steinþór rúmfastur. Hafði fengið þursabit í bak og fylgdi þessvegna ekki föt- um. Hann sat þó upp við dogg og var málreifur ágæta vel. Hann dró upp pyttlu og dreypti á gestina, en sjálfur var hann enginn vínmaður, enda bauð hann af sömu flöskunni árið eftir. Upphófst nú sá dagur listfengr- ar frásagnar og orðmenntar meiri en fundin verður þaðan í frá. Steinþór sagði frá, en bróðirinn og mágurinn gengu lengst af um gólf og mátti þá heyra nið aldanna á bastofuloftinu á Hala í Suðursveit einn vordag fyrir tveimur tugum ára. Þorsteinn var fæddur á Skála- felli, austasta bæ Suðursveitar, 29. júli 1895, og var því á áttugasta og níunda aldursári er hann lézt hinn 20. þ.m. Foreldrar hans voru Guð- mundur Sigurðsson, bóndi þar, og kona hans Sigríður Aradóttir, en þeim mun hafa orðið 12 barna auðið. Þegar Þorsteinn var 12 ára að aldri brugði foreldrar hans búi. Fór Þorsteinn þá vistum að Reyni- völlum neðri, syðsta bænum í Suð- ursveit, til Eyjólfs hreppstjóra Runólfssonar, bónda þar. Dvaldi hann þar um hríð, en réðst síðan til Hafnar á útveg Þórhalls Daní- elssonar og var síðan til sjós aust- ur um firði, þar til hann ræðst til Jóhanns Hanssonar, vélsmiðs frá Seyðisfirði, að gera að góðu strandi á skaftfellskum sandi. Með Jóhanni ræðst hann svo aust- ur og tók að nema smíðar í smiðju hans á Seyðisfirði, sem fyrr getur. Það mun sennilega hafa verið um áramótin 1924 —25, að Þor- steinn gerðist ráðsmaður hjá Elínu á Reynivöllum, en í desem- ber 1924 ferst Þorsteinn móður- bróðir hans voveiflega í snjóflóði. Hinn 23. júlí 1927 gengur Þor- steinn að eiga heimasætuna á Reynivöllum, frændkonu sína Arelí Þorsteinsdóttur. Bjuggu þau þar góðu búi í tvíbýli við Sigurjón bróður Arelí um þriggja áratuga skeið, eða þar til Sigurjón bregður búi og flyzt til Hafnar og þau hjón svo síðar eða árið 1962, sem fyrr segir. Þorsteini og Arelí varð þriggja sona auðið: Sigurður, járnsmiður í Reykjavík, ókvæntur. Þorsteinn, vélgæzlumaður á Höfn, kvæntur Olgu Meckel, þýzkri konu að ætt- erni. Eiga þau þrjú uppkomin börn. Yngstur var Ingimundur, en hann lézt á fermingaraldri 1948. Þorsteinn var ekki margorður um eigin hagi, en þeim mun grein- arbetri um aðra menn og málefni. Hann mun hafa verið góður for- sjármaður í sinni sveit og manna- sættir. Var honum borin hin bezta saga af öllum sem nánust kynni höfðu af honum haft. Þorsteinn var af léttasta skeiði er kynni okkar hófust, en vel á sig kominn, glaðbeittur og góðmann- legur. Hann var ungur í anda og leitandi allt til þess að elli mæddi hann og minnið tók að bregðast. Sjófróður sögumaður um skaft- fellska hagi og velti fyrir sér af miklum áhuga ýmsu fræðilegs eðl- is, sérstaklega um merkingu orða og sérheita í heimahéraði. Rakti hann ýmislegt af því greindarlega til norskrar arfleifðar. Hann var vandaður maður til orðs og æðis, en kíminn og kerskinn í græsku- leysi. Þorsteinn var vinfastur og í því sem öðru fastheldinn en enginn íhaldsmaður. Hann var mikill au- fúsugestur í húsi okkar Gretu, þegar leið lá um, sem var alltof sjaldan. Með Þorsteini Guðmundssyni er genginn fyrir ætternisstapa góður vinur og skemmtilegur. Prýðilegur maður úr sérstæðu og merkilegu samfélagi. Mér er ekki hryggð í huga, því góð er gömlum og þreyttum hvíld- in. En sakna mun ég sérlega þeirra dýrðardaga er mér voru bezt lesin hin austur-skaftfellsku fræðin. Fari vel minn gamli vinur. Sverrir Hermannsson Hilmar Helga son — Kveðja „Frændi þegar fiðlan þegir fuglinn krýpur lágt að skjóli, þegar kaldir vetrarveggir villa sýn á borg og hóli. Sé eg oft í óskahöllum, ilmanskógum betri landa, ljúflíng minn, sem ofar öllum íslendíngum kunni að standa, hann sem eitt sinn undi hjá mér eins og tónn á fiðlustreingjum, eilíft honum fylgja frá mér friðarkveðjur brottu geingnum. Þó að brotni þorn í sylgju, þó að hrökkvi fiðlustreingur, eg hef sæmt hann einni fylgju: Óskum mínum hvar hann geingur. (Halldór Laxness) Ég ætla ekki að rekja lífsferil Bóa, en þakka fyrir að hafa fengið að vera honum samferða í lífinu, síðasta æviár hans. Ég bið alla góða vætti að fylgja honum á leið hans til Ijóssins. Rut

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.