Morgunblaðið - 02.07.1985, Blaðsíða 49
MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 2. JÚLl 1985
49
Minning:
Wilhelm Norðfjörö
í dag er kvaddur hinztu kveðju
Wilhelm Norðfjörð kaupmaður.
Hann var félagi í Oddfellow
reglunni í hartnær 40 ár og vann í
anda reglunnar og að hugsjónum
hennar meðan honum entist
heilsa.
Mjög er misjafnt hvaða áhrif
menn hafa á umhverfi sitt og
hvernig þeir móta það. Þessi áhrif
ráðast af persónuleika eða per-
sónutöfrum manna, uppeldisáhrif-
um, skapfestu og metnaði. „Sterk-
ur persónuleiki" eins og sá er oft
nefndur, sem hefur áður nefnda
eiginleika í ríkari mæli en aðrir,
skilur eftir sig dýpri spor og var-
anlegri minningu en aðrir.
Wilhelm Norðfjörð var i hópi
sterkra persónuleika. Hann skar
sig úr fjöldanum fyrir margra
hluta sakir, en þó ekki sízt fyrir
nákvæmni og virðuleik i allri
framkomu og fyrir hjálpfýsi við
alla, sem stóðu höllum fæti í lífs-
baráttunni og voru hjálpar þurfi.
Wilhelm Norðfjörð var einn
stofnenda st. nr. 9 Þormóðs goða,
leiðtogi hennar um skeið og dygg-
ur stuðningsmaður allra góðra
málefna, sem stúkan hefur unnið
að. Þann hug hans fundu vinir og
stúkufélagar löngu eftir að heilsu
hans fór að hraka og aftraði hon-
um frá beinni þátttöku í starfinu.
Hann var um árabil í stórn þess
sjóðs Oddfellow reglunnar, sem
stærstum grettistökum hefur lyft
til aðstoðar við þau fjölmörgu
líknarmál sem reglan hefur stutt.
Þegar leiðir skilja um stund er
Wilhelm Norðfjörð kvaddur
þakklátum huga.
Fyrir hönd Þormóðs bræðra
votta ég Guðrúnu Norðfjörð, eftir-
lifandi eiginkonu hans, sonum
þeirra og fjölskyldum svo og öðr-
um ástvinum dýpstu samúð.
Blessuð verði minning Wilhelms
Norðfjörð.
Atli Steinarsson
Wilhelm Norðfjörð hefur kvatt
þennan heim. Langi á Víðimel eins
og hann var ávallt nefndur á
heimili mínu. Sú nafnbót var
stytting á langafatitlinum sem
honum hlotnaðist fyrir tæpum tíu
árum. Það er erfitt að sætta sig
við það að hann sé ekki lengur í
okkar hópi, en á móti því verður
ekki mælt. Hann hefur hlotið þau
örlög sem bíða okkar allra.
Það eru ekki nema nokkrir dag-
ar frá því að ég heimsótti Wilhelm
á Borgarspítalanum þar sem hann
var vegna veikinda sinna. Hann
tók vel á móti mér og var hress í
bragði, þó fárveikur væri. Mér er
ofarlega i minni brosið sem hann
brosti og hversu glaður hann var
þegar ég sagði honum frá atburð-
um sem voru að gerast fyrir utan
veggi spítalans. Eg sagði honum
m.a. frá þingstörfunum sem ég,
vegna starfs míns, fylgdist með þá
stundina. Wilhelm hlustaði og
brosti við þegar ég sagði honum
frá hinum ýmsu uppákomum
þingmannanna á síðustu dögum
þingsins. Þær virtust reyndar ekki
koma honum á óvart. Þetta voru
okkar síðustu fundir í þessu lífi.
Það eru reyndar ekki mörg ár
síðan ég varð þeirrar gæfu aðnjót-
andi að kynnast Wilhelm Norð-
fjörð og konu hans Guðrúnu. Þau
kynni hafa ekki valdið mér von-
brigðum. Þau voru göfug hjón.
Wilhelm var athyglisverður
maður. Ég kynntist ekki nema
hluta af honum. Hann kom víða
við á ævi sinni og stundaði ekki
neina meðalmennsku þar sem
hann staldraði við.
Það hefur alltaf verið notalegt
að heimsækja löngu og langa á
Víðimel. Þangað hafa alltaf allir
verið velkomnir hvenær sem er.
Mér er minnisstæðast þegar við
Wilhelm sátum inni í stofu og
ræddum um atburði líðandi stund-
ar eða það sem hugurinn reikaði
að. Á meðan léku Oddur og Atli,
barnabarnabörn Wilhelms, sér að
leikföngunum í skúffunni í eldhús-
inu. Skúffan í eldhúsinu var engin
venjuleg skúffa. Hún er vel þekkt
af öllum ungum afkomendum
Wilhelms og Guðrúnar. Þar eru
geymd gömul og girnileg leikföng,
sem öll nútíma börn falla strax
fyrir. Þetta voru góðar stundir
sem allir nutu.
Ég get ekki látið hjá líða að
minnast á einn veikleika, ef kalla
má svo, sem Wilhelm hafði og við
ræddum oft um í gamansömum
tón. Því var nefnilega þannig farið
að Wilhelm hafði mikla óbeit á
lauk og lét hann ekki inn fyrir sín-
ar varir í hvaða formi sem hann
var. Wilhelm kvartaði oft yfir því
að matseld nú til dags væri orðið
þannig að ekki væri hægt að elda
mat án þess að setja lauk út í
hann. Þetta þótti Wilhelm miður.
Hann gat ekki notið þess að hér
hafa sprottið upp matsölustaöir á
hverju horni. Þar var allt morandi
í lauk að hans sögn. Hann rifjaði
oft upp með söknuði minninguna
um gömlu matsölustaðina sem
seldu venjulegan íslenskan mat
þar sem laukur kom hvergi við
sögu. Hann vildi gefa mikið fyrir
það ef einhver myndi opna mat-
sölustað sem aðeins seldi ekta ís-
lenskan mat.
Wilhelm Norðfjörð fæddist 19.
ágúst 1916 og lést 25. júní sl. Hann
var sonur hjónanna Asu Jónsdótt-
ur og Jóhannesar Norðfjörð. Wil-
helm kvæntist Guðrúnu Sæ-
mundsdóttur, ungur að aldri og
lifðu þau hjón saman í farsælu
hjónabandi alla tíð. Þau eignuðust
þrjá syni, Árna, Kjartan og Wil-
helm.
Ég votta Guðrúnu samúð mína
og óska henni góðrar gæfu i fram-
tíðinni og vona að ég og fjölskylda
mín eigi eftir að heimsækja löngu
oft i komandi framtið.
Arnar Páll
Vinur okkar Wilhelm Norðfjörð
er látinn. Við þessi þáttaskil, er
við lítum yfir farinn veg, finnum
við hve mikið er misst þegar Villi
er horfinn af sviðinu. Á fjórða
áratug höfum viö þekkst og aldrei
borið skugga á vinsamleg sam-
skipti okkar. Yfir tuttugu ár vor-
um við hvert sumar veiðifélagar
við Bakkaá í Hrútafirði. Það voru
góðir og glaðir dagar og við fund-
um vel hve Villi naut í ríkum mæli
sumaryndis sem þar var í boði. Á
þeim stundum var hann barn
náttúrunnar rór og hlýlyndur,
enda virtist hann hverjum manni
vel er til hans þekkti. Þegar slíkir
menn hverfa úr vinahópnum verð-
ur skarð þeirra vandfyllt og aldrei
svo að ekki sjáist merki eða eftir
standi ör.
Áratuga vinátta skilur eftir
minningar sem verða raunabót á
döprum dögum.
Þessar línur eru ekki hugsaðar
sem æviminning athafnamanns,
heldur kveðjuorð og þakkir frá
okkur hjónum til góðs vinar sem
nú hefur stigið yfir móðuna miklu,
fótmál sem bíður okkar allra við
leiðarlok. f vitund okkar bærist
strengur söknuðar og trega.
Guðrún, við vottum þér og öll-
um vinum og vandamönnum Villa
samúð. Við eigum saman bjartar
minningar um samverustundir
þar sem Villi var glaðastur af öll-
um glöðum. í huganum blessum
við þær minningar og biðjum hon-
um fararheilla.
Inga og Jói
Kvedja frá Leikfélagi
Reykjavíkur
f dag er til moldar borinn Wil-
helm Norðfjörð, einn helsti vel-
unnari Leikfélags Reykjavíkur um
hálfrar aldar skeið. Wilhelm gekk
í Leikfélagið árið 1940, en hafði þá
þegar leikið nokkur hlutverk í
sýningum félagsins. Hann lék með
Leikfélaginu svo til samfellt á
árabilinu 1936 til 1952, alls á
þriðja tug hlutverka. Fyrsta hlut-
verk hans var Meisel í gamanleik
Arnold og Bach Spanskflugunni
og oftar en ekki voru honum falin
gamansöm hlutverk þar sem hóf-
stillt en beitt skopskyn hans naut
sin best. Ékki verða hér talin upp
fleiri hlutverk og þótt þau væru
ekki ætíð meðal hinna veigamestu,
þótti Wilhelm á þessum árum
traustur og áreiðanlegur leikari,
einbeittur og hófsamur í leik sín-
um, gat gripið bæði til hörku og
hlýju og sem fyrr segir var skop-
skyn hans ríkulegt. Hann gat sér
einnig gott orð sem revíuleikari og
frægur er revíuþáttur hans og
Ingu Þórðardóttur, þar sem þau
léku nútímaútgáfu á Fjalla-Éy-
vindi og Höllu í rafmagnsleysi og
basli. Síðasta hlutverk Wilhelms
hjá Leikfélaginu mun hafa verið
Carson í leikriti Guðmundar
Kamban, Marmara. Það var upp
úr 1950, skömmu eftir að stór hóp-
ur leikara þeirra, sem starfað
höfðu með Leikfélaginu, hvarf til
starfa við hið nýja Þjóðleikhús.
Wilhelm Norðfjörð var í hópi
þeirra félagsmanna, sem ákváðu
að láta þennan mikla missi ekki
verða til þess, að starfsemi Leikfé-
lags Reykjavíkur legðist niður.
Hann sneri sér því að félagsstörf-
um innan félagsins i vaxandi
mæli, sat í stjórn félagsins bæði
sem varaformaður og gjaldkeri og
átti síðar sæti i ýmsum nefndum
og ráðum Leikfélagsins. Hann sat
m.a. í fyrstu framkvæmdanefnd
Húsbyggingarsjóðs og allt frá því
voru byggingarmálin og hið nýja
Borgarleikhús honum mjög hug-
leikin.
Wilhelm var hógvær maður, en
gjafmildur og göfuglyndur og lét
oft af hendi rakna góðar gjafir til
Leikfélagsins. Hann fylgdist
grannt með félagsstarfinu allt til
hinstu stundar, þótt hann hefði þá
fyrir nokkru sjálfur dregið sig í
hlé frá stjórnar- og ábyrgðarstöð-
um í félaginu.
Wilhelm Norðfjörð var gerður
að heiðursfélaga Leikfélags
Reykjavíkur árið 1973. Félags-
menn sjá nú á bak dyggum félaga
og traustum samstarfsmanni um
árabil.
Éiginkonu hans og fjölskyldu
sendum við okkar innilegustu
samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning hans.
Leikfélag Reykjavíkur
UMBOÐSMENN KENWOOD UM LAND ALLT:
JL HÚSIÐ, Hringbraut 121, Reykjavík
RAFHA HF., Austurveri, Reykjavík
RAFÞJÓNUSTA SIGURD., Skagabraut 6, Akranesi
HÚSPRÝÐI, Borgarnesi
HÚSIÐ, Stykkishólmi
VERSLUN EINARS STEFÁNSSONAR, Búðardal
KAUPFÉLAG SAURBÆINGA, Skriðulandi, Dalasýslu
PÓLLINN HF„ tsafirði
VERSLUN EINARS GUÐFINNSSONAR, Bolungarvík
VERSLUN SIGURÐAR PÁLMASONAR, Hvammstanga
KAUPFÉLAG HÚNVETNINGA, Blönduósi
KAUPFÉLAG SKAGFIRÐINGA, Sauðárkróki
RAFSJÁ HF„ Sauðárkróki
KAUPFÉLAG EYFIRÐINGA, Akureyri
GRtMUR OG ÁRNI, Húsavík
VERSLUN SVEINS GUÐMUNDSSONAR, Egilsstöðum
ENNCO SF„ Neskaupstað
MOSFELL, Hellu
KAUPFÉLAG ÁRNESINGA, Selfossi
RADÍÓ- OG SJÓNVARPSÞJÓNUSTAN, Selfossi
KJARNI, Vestmannaeyjum
RAFVÖRUR, Þorlákshöfn
VERSLUNIN BÁRA, Grindavík
STAPAFELL HF„ Keflavík
HEIMILIS- OG RAFTÆKJADEILD
E
HEKIA HF
LAUGAVEGI 170-172 SÍMAR 11687 - 21240
ATHYGLI skal vakin á því, að afmælis- og minn-
ingargreinar verða að berast blaðinu með góðum
fyrirvara. Þannig verður grein, sem birtast á í mið-
vikudagsblaði, að berast í síðasta lagi fyrir hádegi á
mánudag og hliðstætt með greinar aðra daga. í minn-
ingargreinum skal hinn látni ekki ávarpaður. Þess
skal einnig getið, af marggefnu tilefni, að frumort
ljóð um hinn látna eru ekki birt á minningarorðasíð-
um Morgunblaðsins. Handrit þurfa að vera vélrituð
og með góðu línubili.