Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1930, Side 75
75
13. Úr lýsingu Hraungerðis-sóknar eftir séra Sigurð G.
Thorarensen, 1841.
Austur-við Hróarsholtslæk, og gagnvart Hjálmholti, stendur Mikla-
holtshellir; er bærinn kenndur við holtið, er hann stendur á. í Mikla-
holti eru 2 hellirar; annar innar-af bænum, hinn í suðurenda holts-
ins; taka þeir 100 fjár hvor.
■14. Úr lýsingu Hruna- og Tungufells-sókna eftir séra
Jón Steingrímsson, 1840.
Engir eru hér hellirar, svo eg viti, að frá-teknum fáeinum smá-
skútum, sem brúkaðir eru sauðfé til skýlis.
15. Úr lýsingu Torfastaða-, Haukadals-, Bræðratungu- og
Skálhoits-sókna eftir séra Björn Jónsson, 1840.
í Fellsfjalli er lítill hellir í Fells-Iandi og annar í Vörðufelli í
Fjalls-landi, sem brúkaðir eru til að láta sauðfé liggja inní.
16. Úr lýsingu Miðdals- og Úthlíðar-sókna eftir séra
Pál Tómasson, 1840.
Við Reyðarmúlann, í þessu hrauni (Barma- eða Reyðarmúla-
hrauni) er hellir einn langur, er liggur frá Iandnorðri til útsuðurs, með
mörgum opum, og brýr á milli; er hann nefndur Stelpuhellir.
Hellrar eru hér öngvir nafnkenndir, utan Laugarvatns-hellrar.
Þeir liggja suðaustan-undir Reyðarmúla, í móbergsklöpp. Annar þeirra
er stór, og dyr á, vænar. Suður-af honum er hinn minni, með litl-
um dyrum. í hann er innangengt úr þeim stærri. Veggir hins stóra
eru útskornir með fangamörkum þeirra, sem hafa reist á seinni tím-
um, því hellrarnir liggja nálægt þjóðvegi; og að því leyti mega þeir
einnig merkilegir heita, að þeir eru brúkaðir fyrir fjárhús á viss-
um árstímum.
17. Úr lýsingu Klausturhóla- og Búrfeils-sókna eftir séra
Jón Bachmann, 1840.
Klausturhólahellir, — í sjálfu sér er (hann) ekkert, nema hraun-
skúti, til einskis brúkanlegur, fyrir leka og aðfenni, en nafnkendur af
traditióninni, sem segir, að annar endi hans eigi að liggja, með dyr-
um á, niður í Flóa, og liggur hann þá drjúgum dýpra Hvítár-farvegi;
en enginn veit að segja, hvar helzt í Flóanum þessar dyr séu, og
greinir mikið á um það. Skal kálfur, eftir sögninni, einhvern tíma í
fornöld hafa villzt inn í hann, enn komið eftir nokkra daga fram
suður í Flóa.