Dagblaðið Vísir - DV - 25.03.1991, Blaðsíða 25
MÁNUDAQUR 25..MA5jtS.l^
$
Menning
Vegferðin langa
Mikið hefur verið ritað og rætt um endur-
byggingu Þjóðleikhússins og sýnist sitt
hverjum. Nýinnréttaður áhorfendasalurinn
var vígður með pomp og prakt að viðstöddu
stórmenni síðastliðinn fimmtudag (þó að
margt sé ófrágengið enn) og á laugardaginn
fengu síðan tryggir áhorfendur og staðfastir
vinir Þjóðleikhússins í gegnum tíðina að
berja dýrðina augum.
Vonandi gengur jafn vel og greiðlega að
ljúka seinni áfanga verksins þ.e.a.s. þeim
nauðsynlegu viðgerðum og endurbótum á
húsinu, sem urðu tilefni alls rasksins, en því
miður er þar mikið verk óunniö.
En það bar fleira og um margt áhugarverð-
ara en andlitslyftingu á salnum fyrir augu í
Þjóðleikhúsinu því að þar gafst færi á að sjá
nýja leikgerð Péturs Gauts, sem þau Þór-
hildur Þorleifsdóttir leikstjóri og Sigurjón
Jóhannsson leikmyndahöfundur hafa unnið
eftir margfrægu leikriti Henriks Ibsen.
Það hendir sjálfsagt seint að allir verði á
eitt sáttir um túlkun og vinnslu á Pétri Gaut,
svo margslungið og margrætt sem verkið er.
En hver kynslóð hefur sínar forsendur og
sinn skilning á inntaki og eðli verksins og
það er fagnaöarefni að áhöfn Þjóðleikhússins
skuh nú, að loknu löngu hléi, leggja til atlögu
við stórvirki á borð við Pétur Gaut í skín-
andi þýðingu Einars Benediktssonar.
Ljóðmál hans lciftrar og sindrar en það er
ékki á allra færi að segja þann texta fram
svo að vel fari. Yfirleitt var framsögnin skýr
en ljóðformið var stundum óþarflega útflatt
og viðleitin við að færa textann til venjulegs
talmáls einungis til þess fallin að veikja þaul-
hugsaða byggingu textans.
Já, víst er verkefnið stórt og ögrandi og
ekkert til sparað svo að útkoman verði sem
glæsilegust fyrir augu og eyru. Þrátt fyrir
erfiðar aðstæður á æfingatímanum í hálf-
byggðu húsi er vel til sýningarinnar vandað
í hvívetna og hún blandast vel.
Þórhildur Þorleifsdóttir er eins og fyrr
sagði jafnframt leikstjóri og fylgir forsendum
leikgerðarinnar markvisst eftir í vinnslunni.
Hany Hadaya semur dansa sem falla vel
að framvindu verksins og Páll Ragnarsson
annast lýsingu sem skiptir mjög miklu máli
í sýningunni.
Sá Pétur, sem birtist í upphafi sýningar,
er öldungur, vegmóður víðfórh, sem snýr
heim á leið. Þegar hann horfist í aúgu við
endalokin renna upp, myndir og minningar.
Endurminningar eða órar?
Þar á milli eru vísast engin skýr skil, þegar
Pétur á í hlut.
Hugmyndina að leikritinu um Pétur Gaut
fékk Henrik Ibsen úr þjóösögum sem segja
frá þeim hraðlygna skálki, Peer Gynt. Hann
á sér frændur í sambærilegum sögnum víða
um lönd og þetta einfalda og alþekkta þjóð-
sagnaminni verður höfundi kveikja að ótrú-
lega margræðu og mögnuðu skáldverki.
Það fjallar um leit mannsins að sjálfum
sér, langa vegferð hans um refilstigu og haf-
villur í ólgusjó lífsins. En það íjallar líka um
Arnar Jónsson i hlutverki Péturs Gauts. Með honum á myndinni eru Örn Árnason, Jón
Símon Gunnarsson og Jóhann Siguróarson.
mannleg samskipti, verðmætamat, tilgang
lífsins og sjálfan kjarna tilverunnar. Og túlk-
unarmöguleikar eru óendanlegir.
Við vinnslu leikgerðarinnar hafa þau Þór-
Leiklist
Auður Eydal
hildur og Sigurjón sniðið efnið að þeim
grunnhugmyndum sem þau ganga út frá.
Að sjálfsögðu þarf þar bæði að velja og hafna
og vinsa úr þeim efnivið, sem fyrir liggur,
en eigi að síður stendur eftir um fjögurra
klukkustunda löng sýning.
Eins og fyrr segir verða menn sjálfsagt
ekki á eitt sáttir um úrvinnsluna en burtséð
frá því hvað er tekið með og hverju sleppt
stendur eftir mynd manns sem lítur yfir far-
inn veg og reynir að finna tilgang lífs síns -
og kjarnann í sjálfum sér.
Til þess að skerpa þessa mynd kljúfa þau
aðalpersónuna í tvennt, þegar kemur að
„endurminningaatriðunum" og skapa þann-
ig nýja vídd í vterkið. Þessi aðferð er vel þekkt
og hér gekk hún mæta vel upp. Stafkarlinn
Pétur Gautur stendur aðgerðalaus álengdar
í þessum atriðum og fyrir hugskotssjónir
hans renna atvik og minningar.
En þetta form er líka brotið upp og til að
létta það og tengja gamla manninn hinum
unga renna hugsnir og endurminningar
stundum saman og sögusvið blandast.
Leikgerð þeirra Þórhildar og Sigurjóns er
„klassísk“ í þeim skilningi að ekki er reynt
að þröngva upp á áhorfendur nútímasýn eða
einhæfum lausnum. Sjálf sagan fær að njóta
sín.
Stíllega séð fannst mér hins vegar of skörp
skil í sýningunni á milli upphafsatriðanna í
þessari leikgerð þar sem segir frá veraldar-
volki Péturs og endurminningaatriðanna
sem á eftir koma.
Þar hjálpast allt að, jafnt leikmynd og
leikstíll sem efnistök.
Þessi skil ollu því að verkið klofnaði í tvo
hluta sem ekki tókst nógu vel aö bræða sam-
an. Gneistandi kraftur og lífsorka seinni
hlutans bar fyrstu atriðin ofurliði og kæfði
þau, þannig að við samanburðinn virtist
fyrsti hlutinn sterill og lífvana, stundum lítið
meira en stílæfmgar, þrátt fyrir margar at-
hyglisverðar sviðslausnir.
í þessum fyrstu atriðum eru bylgjandi
slæður dregnar þvert fyrir sviðið og mynda
þær öldur og eyðimerkursand eftir atvikum,
eða þá bakgrunn, þar sem það á við. Þetta
var víða ansi „flott" t.d. í atriðinu „Á
rúmsjó", þar sem þetta kom sérlega vel út.
En ekki tókst nógu vel að stjórna slæðunum
í öllum tilfellum og lá við að þær yrðu leikur-
um að fótakeíli í bókstaflegri merkingu. Þá
truflaði það líka að aðstoðarmenn á sviðs-
vængjum sáust greinilega (af 8. bekk) þar
sem þeir tvíhentu stengur við stjórn slæð-
anna.
Sviðsmynd í seinni atriðum er í senn ein-
föld og margræð og nýtist framvindu verks-
ins á fyrirhafnarlausan hátt. Þar fer Sigurjón
Jóhannsson höfundur allt aðra leiö en í
fyrsta hlutanum. Báðar eru lausnirnar
feiknagóöar, en mjög ólíkar og skerpa enn
frekar þau skil sem eru í leikgerðinni.
Hljómlist Hjálmars Ragnarssonar þótti
mér falla Ijúft að verkinu og ekki saknaði
ég Griegs að marki nema þá helst í höll Dofr-
ans.
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir flutti falleg-
an söng Sólveigar af stökum yndisþokka og
öll túlkun hennar í hlutverkinu var bæði
heillandi og sterk. Hún er hin barnslega sak-
lausa stúlka sem þroskast og verður ást-
fangin og seinna sú goðumlíka vera sem ein
getur veitt vegmóðum hvíld. Steinunn tekst
hér á við margrætt og viðkvæmt hlutverk
og veldur því með prýði.
Kristbjörg Kjeld leikuf- Ásu og skapar heila
og sanna mynd af af þessari léttklikkuðu
móður, sem hverfur á vit ævintýranna, þeg-
ar raunveruleikinn gerist of þungbær. Krist-
björg hefur sjaldan eða aldrei leikið betur.
Hún kemur eins og ferskur gustur inn á svið-
ið og spilar allan skalann léttUega, allt frá
hrifningu til dýpstu örvæntingar.
Þeir Arnar Jónsson og Ingvar E. Sigurðs-
son leika Pétur Gaut eldri og yngri. Arnar
leikur einn í fyrsta hlutanum þar sem Pétur
hinn ungi kemur ekki við sögu. Hann túlkar
heimsmanninn, svallarann og lygalaupinn
léttilega og á svo ekki síður líka sterkan leik
í hlutverki öldungsins í seinni atriðum
verksins þar sem miklu meiri innri átök eiga
sér stað. Hann stendur álengdar, stafkarlinn,
og er löngum þögull áheyrandi á meðan
minningabrot flögra fyrir, og Pétur Gautur
hinn ungi ölast líf á sviðinu.
Ingvar E. Sigurðsson er allt að því demon-
ískur í sprettharðri túlkun á þessum ótamda
villingi sem angrar og heillar í senn. Ingvar
sannar hér enn að hann býr yfir ótrúlega
miklum krafti og mikilli breidd sem leikari
enda veitir ekki af öllu því sem til er í þetta
margræða hlutverk.
Þessi tvíhliða túlkun á Pétri Gaut skapar
eins og fyrr sagði nýja vídd og opnar túlkun-
armöguleika sem nýtast vel í sýningunni.
Margir leikarar taka þátt í sýningunni og
nokkrar smámyndir sérstaklega eftirminni-
legar. Bríet Héðinsdóttir í hlutverki farþega,
Edda Arnljótsdóttir, sem Ingunn, Edda
Björgvinsdóttir, Sá magri, Sigurður Sigur-
jónsson sem Dofrinn og Lilja Guðrún Þor-
valdsdóttir í hlutverki þeirrar grænklæddu.
Og Jóhann Sigurðarson lék afsprengið í
hreint ótrúlega afstyrmilegu gervi.
Það er auðvelt að lesa sígild mannleg sann-
indi út úr persónulýsingu Péturs og hann á
sér margar hliðstæður í dag sem fyrrum. Enn
hendir það margan manninn í kapphlaupi
um lífsins gæði að týna því sem dýrmætast
er í lífinu og uppgötva það svo ekki fyrr en
allt er um seinan.
Á sviði Þjóðleikhússins er nú fram reitt
eitt af stórverkum heimsbókmenntanna. Það
gerir kröfur til áhorfenda og nú er þaö þeirra
að láta ekki sitt eftir liggja.
Þjóðleikhúsið sýnir á Stóra sviði:
PÉTUR GAUTUR
Höfundur: Henrik Ibsen
Þýðlng: Einar Benediktsson
Leikgerð: Þórhildur Þorleifsdóttlr og Sigurjón Jó-
hannsson
Tónlist: Hjálmar H. Ragnarsson
Dansar: Hany Hadaya
Lýsing: Páll Ragnarsson
Leikmynd og búningár: Sigurjón Jóhannsson
Leikstjórn: Þórhildur Þorleifsdóttir -AE
Baldr
Sinfóníuhljómsveit æskunnar hélt tónleika
í Háskólabíói á laugardag undir stjórn Pauls
Zukofsky. Flutt var verkið Baldr op. 34,
músíkdrama án orða, eftir Jón Leifs og var
það frumflutningur. Söngsveitin Fílharmón-
ía tók þátt í flutningnum en kórstjóri hennar
er Úlrik Ólason. Ólafur Kjartan Sigurðsson
söng hlutverk Óðins og Jóhann Sigurðarson
leikari var í hlutverki skáldsins.
Þessi flutningur á Baldri var eins konar
konsertuppfærsla á verkinu. Frá hendi höf-
undar er þetta sviðsverk meö leiktjöldum,
leikurum og dönsurum. Nú þegar erlendur
maður hefur gengist fyrir frumflutningi tón-
listarinnar og fræðimenn í útlöndum kepp-
ast við að hefja hana til skýjanna fer ef til
vill að verða von til þess að leikhús borgar-
innar sjái sér fært að setja verkið upp í full-
kominni mynd.
Baldr er mikið verk að öllu leyti. Efnis-
ríkt, langt og mannfrekt. Það er líka misgott
verk og fyrir koma kaflar sem virðast lang-
dregnir. Hitt er þó miklu fyrirferðarmeira
sem gott er og fagurt. Sumir kaflarnir eru
svo listilegir og svo auðugir af hugmyndum
og djúpum tilfmningum að vart verður
lengra komist. Má nefna þar til dæmis upp-
haf verksins og kaflann um dauða Baldrs.
Hér fer saman fegurð og frumleiki með hætti
sem mjög sjaldgæfur er og gerir verkið að
ómetanlegum dýrgrip fyrir menningu ís-
lendinga. Það er fróðlegt rannsóknarefni að
Tónlist
Finnur Torfi Stefánsson
kryfja stíl Jóns Leifs. Hann var þýskmennt-
aður og þess sér merki. Wagner er áreiðan-
lega meðal þeirra sem Jón hefur orðið fyrir
áhrifum af. Hitt er þó mun meir áberandi
hve frumleg og sjálfstæð tónlistin er og og
tekur það til allra þátta hljómfræði, hryns,
forms og ekki hvað síst til útsetningarinnar,
sem oft er sérkennilega fögur.
Sinfóníuhljómsveit æskunnar og Paul Zy-
Paul Zukofsky sést hér stjórna Sinfóníuhljómsveit æskunnar þegar var veriö að æfa Baldr.
DV-mynd GVA
kofsky hafa vanist því að takast á við stór-
virki. Hér var stórvirki frumflutt og fylgja
því enn meiri kröfur en venjulega. Veröur
ekki annað sagt en að vel hafi til tekist og
verkið hafi í meginatriðum komist prýðileg
til skila. Zukofsky stjórnaði af nákvæmni og
innlifun eins og hann er vanur. Þá mátti
heyra ágæt tilþrif hjá ýmsum af hinu ungu
tónlistarmönnum sem of langt yrði upp að
telja. Ber að þakka öllum hlutaðeigandi
framtakið. Háskólabíó var þéttsetið og var
tónlistarfólkinu fagnað vel og innilega í lok-
in.