Þjóðviljinn - 03.02.1989, Blaðsíða 2

Þjóðviljinn - 03.02.1989, Blaðsíða 2
Guðbjörg útskýrir breytingar á flokka- kerfinu ÉG KÆRI ÞAÐ FYRIR JAFNRÉTT- ISRÁÐI Fimm þúsund Islendingar ná þrjátíu sjónvarpsdagskrám. DV AÐHALDSSEMI í EILÍFÐARMÁLUM Ellilífeyrisþegi, 82 ára gamall, leitar tilboða í ódýrustu jarðarför. Gert er ráð fyrir líkbrennslu og öskukeri í hvaða kirkjugarði sem vera skal. Auglýsing í þýsku blaöi HIÐ LJÚFA SAMHENGI TILVERUNNAR Skipti á illskiljanlegri bók um getnaðarvarnir og barnavagni. Auglýsing í þýsku blaði Ég, Skaði, hefi verið að velta fyrir mér þessu rauða villuljósi sem AA-formennirnir veifa nú framan í nýjungagjarnan lýðinn eins og einhverri sjaldgæfri bjórtegund. Þeir segjast ætla að sameina þessar flokkspíslir sínar og ég get ekki neitað því að eitthvað var ég að klóra mér í skallanum yfir þessu, því mér finnst ekkert fyndið ef aðrir flokkar færu að belgja sig eitthvað út og þykjast vera eitthvað í samanburði við minn Sjálfstæðisflokk sem er borg á bjargi traust eins og menn vita. Ég fór að tala um þetta við hana Guðbjörgu frænku mína sem kemur stundum í heimsókn og er með afar skæða Framsóknar- erfðastofna í blóðinu úr hinni ættinni. Og ég sagði eins og var að ég hefði nokkrar áhyggjur af þessu brölti í þeim Ólafi Ragn- ari og Jóni Baldvin. Iss, sagði Guðbjörg. Getið þið Sjálfstæðismenn ekki gert eitthvað svipað. Getið þið ekki sameinast Borgaraflokknum? Það tekur því ekki frænka, sagði ég. Albert farinn og allt það. Ekki getur Ijónið farið að giftast músinni. Jæja, sagði Guðbjörg. Þið um það. En þú skalt ekki vera smeykur við þessa AA-karla. Þar leiðir blindur vesælan, og þeir munu steyta á steini veruleikans og hrasa og fall þeirra verður mikið. Af hverju segirðu það frænka? spurði ég. Það er mjög einfalt. Helmingurinn af krötum þolir ekki komma og fer til ykkar í bili. Helmingurinn af kommum þolir ekki krata og flytur yfir á Kvennó og Framsókn. Afgangurinn sem ætlaði að verða stór flokkur verður svo lítill flokkur að hann tætist sundur í ásökunum um það hverjum það sé að kenna. Þú meinar það, sagði ég hugsi. Ég meira en meina það frændi, sagði Guðbjörg. Ég er forspá og framsýn eins og vera ber um dótturdóttur ömmubróður Jónasar frá Hriflu. Jæja, sagði ég si sona og lét ekki á því bera að mig langaði til að trúa á ruglið í kerlingunni. Já, sagði hún. Sameiningarbröltið í AA-flokkunum verður til þess að þeir sökkva báðir í kaf eins og hafskip. En það er eins og segir í fornu kvæði um Völuna, formóður mína: Upp sér hún koma, öðru sinni. Þegar einstaklingarnir úr þessum flokkum krafla sig í land eftir óveðrið, þá munu þeir sjá að á ströndu stendur Framsóknarflokkurinn og formaður hans Steingrímur, og hann breiðir út sinn breiða föðurfaðm og segir: Komið til mín, þið sem klofnir eru og tvístraðir og ég mun gjöra yður að einni hjörð. Þetta var allt á misskilningi byggt hjá ykkur vinir mínir, þið áttuð alltaf heima hér. Og SÍS mun steikja stykki úr kjötfjallinu (engin þörf á að slátra alikálfi eins og áður fyrr þegar glataðir synir sneru heim) og menn munu setjast niður og éta sig glaða og sátta. Heldurðu virkilega að þetta geti gengið, Guðbjörg? spurði ég. Það eru svo miklar andstæður og þverstæður í þessu liði, það er allt þvers og kruss, út og suður. Ég get sagt þér það frændi, sagði Guðbjörg: þær andstæður eru ekki til sem við Framsóknarmenn getum ekki brætt saman í æðri samhljóm. Allaballar eru á móti Könum og herstöðvum og markaðshyggju, kratar eru á móti byggðastefnu og pólitísku handafli í fjármálum. Smámunir væni minn, ekkert nema hég- ómi og vindgangur. Við Framsóknarmenn hyllum bóndann hvort heldur hann þraukar af hetjuskap í dreifbýlinu eða kemur til Reykjavíkur að hvíla sín lúin bein. Við erum hlynntir ábyrgri herstöðvapólitík þegar alminnilegir menn geta fengið einhver verkefni við hana, en við tökum ekki í mál að selja ísland Könum á uppboði. Við erum bæði með samkeppni og á móti henni því eins og Steingrímur veit þá getur hún verið bæði skynsamleg og óskynsamleg og þó ekki nema síður væri. Það er sama hvar þú berð niður, væni minn, við ráðum við þetta allt. Meira að segja kunnum við tökin á Austurlöndum nær: hefur ekki Steingrímur kennt ísraelum að rota verðbólguna og er hann ekki einkavinur Arafats í frægum hugskeytum sem skjótast um hið pólitíska andrúmsloft heimsins? Og svo, og svo kemur að ykkur, Skaði minn, sagði Framsóknarfrænkan með glettinni en þungri illkvittni í röddinni. Að okkur? spurði ég með uppgerðaráhyggjuleysi. Já, að ykkur. Framsóknarmenn allra flokka sameinist! Hehe- he. Mér varð hugsað til minna manna og ég skildi hvað hún átti við. Og mér varð ekki um hval... nei fyrirgefið: ekki um sel. JAFNVÆGI VERÐUR AÐ VERA Umferðarslysum fækkaði verulega á Akureyri í fyrra. Fleiri kynferðisafbrot og aukið tékka- misferli. Fyrirsögn í DV NÆST VERÐUR VÆNDIÐ ÞJÓÐNÝTT Samtök spilavítaeigenda í Frakklandi, sem eitt sinn var hinn ábatasamasti útvegur, hafa leitað ásjár hjá frönsku ríkis- stjórninni. Það eru ekki fjárhættu- spilarar sem eru að setja spilavít- in á hausinn heldur dræm að- sókn. Morgunblaðió EÐA EINS OG NJÁLGURí YFIRLIÐI? Og sjálft Samband íslenskra samvinnufélaga er nú eins og risaeðla í megrunarkúr. Morgunblaðið Æ HVAÐA SKRAMBI Hafa bækur af ýmsu tagi yfir- tekið þann litla tíma sem fólk virð- ist almennt eyða í bóklestur. Morgunblaðið AF KVENNAVELDI Hinn fullkomni hirðmaður for- sætisráðherrans (Margaret Thatcher) á að vera um fimmtugt. Hann á að vera sjarmerandi og kunna að slá gullhamra. Hann á helst að vera fallegur, gjarna með gráar strípur í hárinu. Hann verður að vera duglegur og vinnusamur, en ekkert endilega gáfaður. Umfram allt á hann að trúa á Guð, fjölskyldulíf, peninga og Margaret Thatcher.. og gjarna í öfugri röð. Alþýðublaðið 2 SÍÐA - NÝTT HELGARBLAÐ Föstudagur 3. febrúar 1989'

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.