Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1957, Blaðsíða 22
22
deildarinnar: Tilraunabú frá grunni (kaupa land og byggja)
með öllum byggingum og tækjum, rannsóknastofur og skrif-
stofur, með aðstöðu fyrir kennslu o. fl. Fjárhagslega er hug-
myndin um að flytja Búnaðardeildina að Hvanneyri því
enganvegin óhagstæð. — Ég endurtek því það, sem ég sagði
1951:
„Ef leiðandi menn fengjust til þess að athuga þetta mál
með víðsýni og af gaumgæfni, efast ég ekki um, að þeir kom-
ist fljótlega að þeirri niðurstöðu, að flutningur Búnaðar-
deildarinnar að Hvanneyri hafi svo margt til síns ágætis, að
agnúarnir á slíkum flutningi eru smámunir einir á móti
því, sem vinnst."
Og við þetta vil ég bæta, og segja við búvísindamenn-
ina og aðra, sem finnst það vera of mikill útlegðardómur
að ætla vísindamönnum að vinna „upp í sveit“ — á Hvann-
eyri: Vér erum ekki að ræða um augnablikslausn á smámáli,
vér erum að ræða um framtíð stórra hluta.
Vér erum að ræða um hlutina og viðhorfin eins og þau
blasa við þegar ungur búvísindamaður, sem nú er að taka
til starfa, er búinn að vinna vel og lengi. Og hvað blasir
þá við? — Þjóðin er orðin yfir 300 þúsund manns. Höfuð-
borgin Reykjavík er orðin 125—150 þúsund manna borg,
Akranes, í 40 mínútna fjarlægð frá Hvanneyri, 15 þúsund
manna bær. Borgarnes, í 20 mínútna fjarlægð frá Hvann-
eyri, 5—10 þús. manna þorp, og Hvanneyri með umhverfi
1000 manna þéttbýli. Frá flugvellinum á Hvanneyri verður
þá 15 mínútna flug á heimaflugvöllinn í miðri Reykjavík
o. s. frv.
Til þess að átta sig á þessu máli, þarf svo sem ekki að
hugsa stórt né horfa hátt, það þarf ofur einfaldlega aðeins
að hugsa rétt og horfa beint fram.