Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1984, Blaðsíða 49
Austar í sýslunni eru fjöll ávalari og lægri, enda dalastefna
suðlæg. Á Geitafelli, sem landfræðilega tilheyrir Reykja-
hverfi, sést sól að nýju 3. febrúar og mér kom á óvart að
Breiðamýri í Reykjadal er það býli í framdölum sem lengst er
í forsælu, en þar kemur sól fram 22. janúar. Um það er til
eftirfarandi vísa:
Á Breiðumýri sést ei sól,
svört er myrkradorra,
fjórum vikum fyrir jól,
að fyrsta degi þorra.
Enn færri eru forsælubæir í N-Þingeyjarsýslu svo hér eru
aðstæður líkastar því sem er í V-Húnavatnssýslu. Á Daða-
stöðum í Núpasveit og Borgum við Kollavík sést sól aftur 3.
febrúar.
Ég hef sett niðurstöður þessarar upplýsingaöflunar saman í
töflu, þar sem haégt er að bera saman sólargang á einstöku
bæjum. Þá hef ég raðað þeim 20 bæjum á Norðurlandi sem
mér sýnast vera lengst í forsælu. Það skal tekið fram að þegar
neðar dregur í röðinni er upptalningin ekki tæmandi, og
finnast áreiðanlega bæir sem eru lengur án sólar en sá sem
síðast er talinn. Hins vegar hygg ég að síður muni vanta bæi
meðal þeirra sem efstir eru í röðinni.
Sólin er orkugjafi, þangað má rekja nær alla orku sem við
nýtum. Milliliðalaust notum við sólargeislana til að þurrka
heyið, og áður var þvottur og fiskur sólþurrkaður. Allir hafa
fundið fyrir þeirri orku sem býr í sólinni þegar hún skín inn
um stofugluggann og hitar húsakynnin. Ljóst er að forsælu-
bæirnir fara varhluta af geislaupphitun sólarinnar og gæti
húshitunarkostnaður þar verið hærri en á sólarbæjum.
Sumir menn segjast verða þunglyndari í skammdeginu (og
þá líklega léttlyndir í náttleysinu). Ég hef velt því fyrir mér
hvort ábúendur forsælubæjanna þjáist af slíku mislyndi um-
fram aðra menn. Sennilega eru þessir ábúendur bjartsýnni og
lífsglaðari en aðrir og líta í skammdeginu með eftirvæntingu
til sólarkomunnar. Margir viðhafa enn þann ágæta sið að
51