Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1984, Blaðsíða 60
hringnum, hafa gefið tilefni til sögunnar um Þórdísi sækonu,
sem dregin var á öngul.
Séra Jónas segir söguna af sækonunni svipað og gert er í
þjóðsögum, en getur þó ekki um nafn hennar. Segir hana hafa
verið „með snældu í hendi, og rauðan toga á handleggnum“,
er hún dróst. Tólf áttu kýrnar að vera, sem gengu á land, „en
höndluðust ekki nema mjög fáar.“ Ekki getur hann um neitt
naut í flokknum.
Að lokum má geta þess til gamans, að til er alllangt kvœði
um atburðinn í Höfða, er fjallar þó aðallega um viðskipti
sækonunnar og prestsins, en getur sækúnna ekki. Kvæðið er
birt í Heima er bezt, 26. árg. 2. hefti, 1976, og heitir„Presturinn
á Höfða í Höfðahverfi“. Var það sungið undir alkunnu lagi, og
virðist hafa verið vel þekkt í Eyjafirði og Skagafirði.
4. Sækýr undir Eyjafjöllum.
Á íslandskorti Guðbrands biskups Þorlákssonar, sem prentað
var fyrst árið 1595, í hinni frægu kortabók Orteliusar, og síðar
í ýmsum ritum og útgáfum, er mynd af kúm undir Eyjafjöll-
um, og stendur þar þessi skýring: Vaccœ marinœ, þ.e. sœkýr.
Telur Einar Ól. Sveinsson, það benda til að Guðbrandur hafi
heyrt þaðan einhverjar sækúasögur á 16. öld (E.Ó.S.: Um ísl.
þjóðsögur, bls. 77), en það gæti þó verið tilviljun, að sækýrnar
voru teiknaðar þarna.
Geta má þess, að í Mýrdal og Eyjafjallasveit var mikið um
huldukýr, og eru þaðan runnin sum bestu kúakyn landsins.
Hefi ég fengið þaðan nýlegar og óskráðar huldunautasögur.
5. „Nykurkýr“ á Suðurlandi.
Eftirfarandi frásögn er að finna í „Dulrænum smásögum“,
skráðum af Þorsteini Þórarinssyni, í tímaritinu Inn til fjalla, I,
bls. 21, 1949. Sýnir hún hvað mjótt getur verið á mununum
milli nykra og sænauta eða vatnakúa, að sumra áliti, og má
segja að það styrki þær dulrænu skýringar, sem reifaðar voru í
niðurlagi greinar minnar í síðasta hefti Ársritsins. Nykrar eru
annars algengir um landið allt.
62