Árbók Landsbókasafns Íslands - 01.01.1957, Blaðsíða 188
188
STEINGRÍMUR J. ÞORSTEINSSON
Síðan lauk hann háskólaprófum í fæðingarborg sinni, meistaraprófi 1939 og
lísenzíatprófi 1943. Þá varð hann sendikennari í sænsku við Háskóla íslands um
þriggja ára skeið, 1944—47, og hefur síðan, frá haustinu 1947, haldið námskeið í
íslenzku, fornri og nýrri, við Gautaborgarháskóla. En þar varð hann dósent í bók-
menntum 1951, er hann hafði varið þar við doktorspróf hina miklu þriggja binda rit-
gerð sína, Natursymboler i svensk lyrik jrán nyromantiken till Karljeldt. Það sumar og
hið næsta kom hann enn til Islands vegna bókmenntarannsókna, og vorið 1955 dvaldist
hann í Finnlandi, þar sem hann kenndi bókmenntasögu í boði háskólans í Abo. —
Hann hefur verið sæmdur riddarakrossi fálkaorðunnar íslenzku.
Ritverk Peters Hallbergs eru mikil að vöxtum, bæði frumsamin — mestmegnis fræði-
rit varðandi Norðurlandabókmenntir frá fjarskyldustu tímum — og þýðingar. Þær eru
aðallega á sögum Halldórs Laxness og útgáfurnar um 20 talsins — með smásögum,
brotum og endurprentunum (sbr. ritaskrána hér að aftan) — en meðal þessa eru stór-
virki eins og til að mynda sögubálkurinn af Ólafi Kárasyni Ljósvíkingi, sem Hallberg
þýddi ásamt fyrri konu sinni, Rannveigu Kristjánsdóttur frá Dagverðareyri við Eyja-
fjörð, en hana missti hann 1952 eftir 7 ára hjúskap og er nú kvæntur systur hennar,
Kristínu.
Það var árið 1946, sem Hallberg birti bæði fyrstu þýðingu sína á sögu eftir Kiljan
og fyrstu ritgerðir sínar um hann. Þær eru nú orðnar um eða yfir 30 talsins, flestar
á sænsku, og er meginefnið af því öllu saman komið í tveimur miklum bókum, Den
store vávaren (1954) og Skaldens hus (1956), sem nema báðar saman um þúsund
blaðsíðum. Þarna er á rækilegan hátt rakin ævi og einkum skáldskaparsaga Halldórs,
reist á traustum gögnum, svo sem dagbókum hans og minnisblöðum og gömlum sendi-
bréfum frá honum, viðræðum og bréfaskiptum við hann, blaðagreinum hans og ritgerð-
um og.þó aðallega á athugun skáldverka hans, sem eru auðvitað mergurinn málsins, og
hefur Hallberg haft undir höndum og kannað handritin að sumum sögunum, allt frá
fyrsta uppkasti til hreinrits, og borið gerðirnar saman, svo að sjálf tilurðarsagan er
rakin stig af stigi til hins fullskapaða verks, eins og ritgerðin hér að framan ber með
sér. En hún er ekki þýdd úr sænsku, heldur frumsamin á íslenzku, og má af því ráða,
hvílíkt vald höfundur hefur á málinu, enda talar hann íslenzku bæði rétt og reiprenn-
andi. Rit Hallbergs um Laxness eru annars engan veginn einskorðuð við sköpunarsögu
skáldverkanna — þótt þessi ritgerð hans og fleiri víki einkum að henni — heldur
fjalla þau einmitt mjög um inntak sagnanna og stefnu, einkenni þeirra og list. í heild
sinni eru þetta undirstöðurannsóknir á ævi og verkum Kiljans, gerðar af áhuga og
virðingu fyrir verkefnunum, elju og fræðimannlegri samvizkusemi, nærfærni og skiln-
ingi — og hafa framtíðargildi. Ber okkurlslendingum að gjalda dr. Peter Hallberg
miklar þakkir fyrir þann ágæta skerf, sem hann hefur með þessu og öðru lagt menntum
okkar, og er vonandi, að þeim störfum hans sé ekki lokið.