Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1965, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1965, Blaðsíða 9
Eftir Rabindranath Tagore IVIini litla, dóttir mín, er fimm ára gömul og getur ekki þagað stundinni lengur. Ég held ég skrökvi ekki miklu til, þó að ég fullyrði, að hún hafi ekki það sem af er ævinnar viljandi eytt einni einustu mínútu í að þegja. Þetta enda- dausa mas fer oft í taugarnar á móður hennar, sem fegin vildi að Mini litla væri ögn stilitari, en það vildi ég ógjarn- an. Það er henni Mini minni svo óeðli- legt að vera stillt, að ég held ég gæti ekki þolað það lengi. En einmitt af þess- um sökum eru samræður okkar Mini minnar alltaf mjög fjörlegar. Það var nú til dæmis einn morgun- inn, þegar ég var í miðju kafi að skrifa eautjánda kaflann í nýju skáldsögunni minni, að Mini stakk höfðinu inn um gættina, kom svo hlaupandi til mín, stakk litlu hendinni sinni í greip mér og sagði: Pabbi, veiztu bara hvað? Hann Ramdayal, dyravörðurinn, þú veizt, hann kann ekki að segja „kráka“ al- mennilega — finnst þér hann ekki vit- laus? Áður en ég gæti útskýrt það fyrir henni, að ekki töluðu allir menn sömu tungu í þessum stóra heimi og til væri það sem kallaðist mállýzka, var Mini tekin til við annað efni og engu ómerk- ara: —■ Veiztu hvað, pabbi! Bhola segir að það sé fíll uppi í skýjunum, sem blási vatni úr rananum og af því stafi rign- ingin! Ég sat kyrr augnablik og reyndi að finna svar við þessu, en Mini var óðara komin út í aðra sálma: Pabbi, hvernig er mamma eiginlega skyld þér? Þá gafst ég upp, setti upp alvörusvip og sagði: Mini mín, þú sérð að ég er önnum kafinn, farðu nú og leiktu þér við Bhola. Glugginn á vinnuherberginu mínu enýr út að götunni. Barnið hafði setzt niður við fætur mér, rétt hjá borðinu, lék sér ósköp hljóðlega og sló taktinn é hnjám sér. Ég var í óða önn með sautjánda kaflann minn, þar sem Prataph Sing, söguhetjan, hefur einmitt gripið hina fögru Kanchalötu í fang sér og er í þann veginn að flýja með hana í fanginu út um kastalaglugga, þrjár mannhæðir frá jörðu, þegar Mini litla allt í einu tók viðbragð, hentist á fætur, hjóp að glugganum og hrópaði: Kabuliwallah! Kabuliwallah! Maður frá Kabúl! Og mikið rétt, þarna niður göt- una okkar gekk maður frá Kabúl og fór eér í engu óðslega. Hann var klæddur eð hætti síns fólks, óhreinum fötum, er féllu hvergi að líkamanum og hafði háan vefjarhött á höfði. Á bakinu bar hann pokaskjatta og kassa af vinberjum í höndum sér. Ekki veit ég hvað dóttur minni gekk til, en hún kallaði ákaft á manninn. Hana nú! hugsaði ég, nú kemur hann hingað og ég kemst aldrei til þess að ljúka við þennan ólukkans sautjánda kafla! í því leit maðurinn frá Kabúl við og upp í gluggann til barnsins. Þegar hún sá framan I hann, greip hana ógnar felmtur og hún hljóp sem óðast fram til móður sinnar til að fela 6ig. Hún trúði því nefnilega statt og Stöðugt, hún Mini mín, að í pokanum, eem þessi hávaxni maður bar á bakinu, væru án efa tvö eða þrjú börn á borð við hana sjálfa. Farandsalinn gegndi kalli hennar, kom inn um dyrnar og kastaði á mig kveðju brosandi. 24. desember 1965 S öguhetjurnar mínar I sautjánda kaflanum voru í þeim ógöngum, að mér var efst í huga að hætta bara rétt sem snöggvast og kaupa eitthvað af honu.n í flýti, fyrst Mini hefði endilega þurft að vera að kalla á hann. Ég keypti því af honum eitthvað smávegis, en svo fórum við að tala um Abdur Rah- man, um Rússa og Englendinga og um stefnuna í landamæramálinu. í því er hann kvaddi, spurði hann: Hvað varð annars um litlu stúlkuna, herra? Mér datt þá í hug, að rétt væri að fá Mini mína ofan af þessari kjána- legu hræðslu sinni og lét senda eftir henni. Hún hélt sig fast við stólinn minn Og horfði á manninn frá Kabúl og pokann hans stóra. Hann bauð henni hnetur og rúsínur en hún lét ekki freist- ast og hélt bara enn fastar í mig og var vissari um það en nokkru sinni fyrr, að það væru börn í pokanum. Þannig fór um þeirra fyrsta fund. Nokkrum dögum seinna varð mér gengið út einn mor.guninn og sá þá, mér til mikillar undrunar, Mini mína sitja á bekk rétt hjá dyrunum, hlæjandi og óðamála, en við fætur henni manninn frá Kabúl. Hún dóttir mín litla hafði augsýnilega aldrei á sinni lífsfæddri ævi átt eins þolinmóðan áheyranda, utan kannske föðurómyndina sína. Og í vas- anum á sarínum sínum átti hún þegar töluverðar birgðir af möndlum og rúsínum, sem gesturinn hafði fært henni. — Hvers vegna eruð þér að gefa barn- inu þetta? sagði ég, stakk hendinni í vasann, tók upp átta-anna skilding og rétti honum. Maðurinn tók við peningn- um án þess að hreyfa mótmælum og stakk honum í vasa sinn. E n þegar ég svo kom heim aftur að klukkustundu liðinni, sá ég að skild- ingurinn sá arna hafði svo sannarlega gert rækilegan óskunda í mínum hús- um. Því að maðurinn frá Kabúl hafði gefið Mini minni hann, en móðir hennar svo komið auga á hann í fórum hennar, svona skínandi og kringlóttan, og innt hana eftir því, óblíð á manninn, hvaðan henni kæmi slíkur gripur. — Maðurinn frá Kabúl gaf mér hann! sagði Mini kát og sannleikanum samkvæmt. — Gaf maðurinn frá Kabúl þér hann? sagði mamma hennar, yfir sig hneyksluð. — Mini þó, hvernig gaztu tekið við honum! Það var þá sem mig bar að, Mini minni til björgunar og tók þegar til við ýtar- lega rannsókn allra málavaxta. Ég komst að þvf að þetta var hreint ekki í fyrsta eða annað skiptið sem þau höfðu hitzt, skötuhjúin. Maðurinn frá Kabúl hafði sigrazt á fyrsta ótta barns- ins með þvi að múta henni hæfilega með hnetum og rúsínum og þau voru nú orðin perluvinir. Þau áttu saman margar skrítlur og marga illskiljanlega fyndni, sem þau böfðu af mikið gaman. Stundum settist Mini andspænis honum og horfði niður á risann með allri þeirri virðingu sem hún átti ráð á í sínum smávaxna líkama og upphóf sína raust, með andlitið allt í broshrukkum og sagði: Ó, Ka- buliwallah, Kabuliwallah, hvað hefur þú í pokanum þínum, þú maður frá Kabúl? Og hann svaraði, nefmæltur eins og þeirra fjallabúa er háttur: í pokanum " mínum hef ég fíl, heillin góð! Kannske var þetta utanaðkomandi ekki svo óskaplega fyndið, en mikið skelfing höfðu þau sjálf gaman að þessu. Sjálf- um hefur mér alltaf þótt eitthvað undar- lega töfrandi við svona tal lítils barns við fullorðinn mann. Þá tók maðurinn frá Kabúl til máls svo ekki hallaði á hann í orðræðunum og sagði: Jæja, litla stúlka, hvenær ertu eiginlega að hugsa um að fara til húss tengdaföður þíns? Það er rétt ég taki það fram hér, að langflestar litlar stúlkur í Bengal þekkja af afspurn hús tengdaföður síns löngu áður en þær hafa aldur á við Mini mína, en við vorum ekki svo forn i háttum og höfðum leynt barnið þessum málum. Spurningin hlýtur þess vegna að hafa komið dálítið flatt upp á Mini mína. En hún lét ekki á neinu bera og spurði á móti: Ert þú kannske að fara þangað? N ú vissi maðurinn frá Kabúl það mætavel, eins og flestir af hans sauða- húsi, að orðin „hús tengdapabba" geta haft aðra merkingu en þá er að ofan greinir. Þau eru oft notuð um fangelsið, stað, sem séð er vel um okkur á, án þess að það kosti okkur nokkuð. Og þennan skilning lagði farandsalinn í orð dóttur minnar er hann svaraði henni og sagði, um leið og hann steytti hnef- ann framan í ósýnilegan lögregluþjón: Hann skal sannarlega fá að kenna á því, hann tengdafaðir minn! Mini sá fyrir sér vesalings tengdaföðurinn bar- inn til óbóta og var skemmt og skellti upp úr, svo að vinur hennar tók undir. Þetta var að haustlagi, á þeim tíma árs, sem konungarnir til forna lögðu oftast upp í landvinningaferðir sínar, og úr herberginu mínu heimsfjarri í göt- unni okkar heima í Kalkútta lét ég hug- ann reika víða vegu. Ég þurfti ekki annað en heyra getið einhvers framandi lands, þá var hugurinn óðara floginn þangað. Sæi ég útlending á götu úti, spann heili minn um hann ótal sögur — ég sá fyrir mér fjöllin, dalina og skógana í fjarlægu heimalandi hans, kof- ann hans í rjóðri þar og frjálst og sjálf- stætt fólkið og óbyggðirnar handan skóganna.Kannske stóð þetta mér ennþá skýrar fyrir hugskotssjónum einmitt af því að ég lifi svo einstaklega fábreyti- legu lífi hérna í Kalkútta að væri mér allt í einu gert að taka til við að ferð- ast, held ég mér yrði ámóta um og væri ég lostinn eldingu. Þegar maðurinn frá Kabúl var ein- hvers staðar nærri, fannst mér um hæl sem ég væri kominn að rótum hrjóstr- ugra fjallatinda, þar sem þröng fjalla- * skörðin undust í ótal krókum milli svim- hárra klettaveggjanna. Ég sá fyrir mér úlfaldalestirnar með varning sinn og vefjarhattaða kaupmennina, suma með fornfálega byssuhólka, aðra búna spjót- um, á leið niður til byggða. Ég sá fyrir mér .... En þá var það ósjaldan, að móðir Mini greip fram í fyrir þessum hugrenningum mínum og bað mig í hamingjubænum að gæta nú fyllstu var- úðar, þegar þessi ma'ður væri annars vegar. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 9

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.