Morgunblaðið - 21.02.2001, Síða 23
ERLENT
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 21. FEBRÚAR 2001 23
ZARANA Papic er aðstoð-arprófessor í mannfræðivið háskólann í Belgrad oger þekkt á alþjóðavett-
vangi fyrir störf sín sem fræðimaður
og baráttukona. Hún kemur til Ís-
lands í lok mánaðarins, ásamt tveim-
ur öðrum fræðikonum frá Balkan-
skaga, þeim Vesnu Kesic frá
Króatíu og Kosovo-Albananum
Vjollcu Krasniqi. Þær verða sér-
stakir gestir á ráðstefnunni „Konur
og Balkanstríðin“, sem haldin verð-
ur á vegum Rannsóknastofu í
kvennafræðum við Háskóla Íslands.
Auk þeirra munu kvikmynda-
gerðarkonurnar Susan Muska og
Gréta Ólafsdóttir sýna brot úr heim-
ildarmynd um ástandið á Balkan-
skaga sem þær hafa unnið að und-
anfarin misseri og er nú á
lokastigum. Þau Irma Erlingsdóttir,
forstöðumaður rannsóknastofunn-
ar, og Valur Ingimundarson, sagn-
fræðingur, hafa skipulagt ráðstefn-
una, en meðal styrktaraðila eru
Háskóli Íslands, utanríkisráðuneyti,
menntamálaráðuneyti, Reykjavík-
urborg og Félag Sameinuðu þjóð-
anna á Íslandi.
Konurnar þrjár frá Balkanskaga
koma hingað til að ræða um pólitík,
þjóðernishyggju og femínisma á
Balkanskaga. Þær munu fjalla um
stríðsátökin og þýðingu þeirra fyrir
samfélagið, út frá ýmsum hliðum en
með áherslu á reynslu og margþætt
hlutverk kvenna í þeim. „Samvinna
okkar,“ segir Papic, „er dæmi um al-
genga samstöðu kvenna í fyrrum
Júgóslavíu þvert á landamæri, þjóð-
erni, tungumál og sögu. Þrátt fyrir
að Slobodan Milosevic sé farinn frá
völdum og stríðinu lokið er baráttan
gegn þjóðernishyggju hvergi lokið.
Við verðum að halda áfram, ráða
ráðum okkar, ræða málin.“
Eftirhreytur
þjóðernisstefnu
Þótt stríðsátökin á Balkanskaga
séu nú hjöðnuð, vonandi til frambúð-
ar, eru vandamálin á svæðinu frá-
leitt úr sögunni. Enn á eftir að tak-
ast á við eftirhreytur þjóðern-
isstefnu sem hratt af stað blóðugum
styrjöldum og olli sögulegu aftur-
hvarfi til gamallra kynhlutverka,
með karla í hlutverki stríðsherrans,
konur í hlutverki fórnarlambsins og
þess sem hjúkrar. Zarana Papic sér
nánustu framtíð ekki í hillingum
þrátt fyrir þær vonir sem margir á
Vesturlöndum hafa bundið við
stjórnarherrana í heimalandi henn-
ar, Serbíu.
Papic er höfundur þriggja bóka
og fjölda greina um mannfræði og
femínisma. Um þessar mundir vinn-
ur hún að rannsóknum á serbneskri
þjóðernishyggju, stríði og stöðu
kvenna í Austur-Evrópu eftir hrun
kommúnismans. Þjóðernishyggjan
styðst, segir Zarana Papic, við
kynjamismunun. Í nýlegum grein-
um sýnir hún m.a. hvernig rótgrón-
ar hugmyndir um eðlislæga eigin-
leika kvenna voru notaðar til að
réttlæta ofbeldi gegn þeim í Bosn-
íustríðunum. Papic hóf þegar þátt-
töku í kvennabaráttu þegar hún
barst til Júgóslavíu á áttunda áratug
síðustu aldar og var meðal skipu-
leggjanda fyrstu kvenréttindaráð-
stefnunnar í Austur-Evrópu sem
var haldin í Belgrad árið 1978. Hún
hefur m.a. unnið með hinni þekktu
kvenna- og friðarhreyfingu „Konum
í svörtu“, sem upphaflega var stofn-
uð í Ísrael árið 1988 til að mótmæla
hernámi Ísraela á Vesturbakkanum
og í Gaza. Baráttuað-
ferðir hópsins voru þá
mótaðar, en þær felast
m.a. í þöglum sorgar-
vökum svartklæddra
kvenna á almennum
vettvangi. Hópar sam-
takanna eru nú starfandi í nokkrum
löndum, en þær hafa einnig komið
sér upp umræðuvettvangi á Netinu.
Síðastliðin ár hafa Konur í svörtu í
London mótmælt loftárásum á Írak
og Persaflóastríðinu. Þær hafa einn-
ig sýnt andstöðu sína gegn hernað-
araðgerðum Bandaríkjamanna í
Súdan og Afganistan. Og þá hafa
þær unnið ötullega gegn stríðsátök-
um og þjóðernishyggju í löndum
fyrrum Júgóslavíu.
Þær Kesic og Krasniqi hafa sömu-
leiðis lagt sitt af mörkum í starfi
samtaka sem hafa
barist gegn stríð-
unum á Balkan-
skaga og í þágu
fórnarlamba. Kesic
hefur í skrifum sín-
um m.a. ransakað
ofbeldi gegn kon-
um í stríðsátökun-
um og samspil
þjóðernishyggju og
nauðgana. Hún
hefur viðamikla
reynslu af sál-
fræðiráðgjöf við
stríðsfórnarlömb
og var, árið 1994,
stofnandi B.a.B.e.-
kvenfrelsis- og mannréttindasam-
takanna, fyrstu sinnar tegundar í
Króatíu. Fyrir þessi störf sín í
Króatíu hefur hún fengið margvís-
legar viðurkenningar. Krasniqi hef-
ur rannsakað stöðu kvenna í Kosovo
og er nú að vinna að bók um Kosovo-
stríðið og nauðungarflutninga, eink-
um út frá reynslu kvenna.
Staða kvenna
á Balkanskaga
Það er að sögn Papic hægara sagt
en gert að gera sér grein fyrir því
hvort staða kvenna hafði batnað eða
versnað frá því að múrinn féll og
Austur-Evrópa gekk í
gegnum efnahags- og
stjórnarfarslega umbylt-
ingu sem hefur farið mis-
jafnlega friðsamlega fram
og er hvergi nærri lokið. Í
kennisetningum sósíalism-
ans gegndu konur þremur hlutverk-
um: þær voru allt í senn mæður,
verkamenn og duglegir sósíalistar.
Konur voru einfaldlega ekki í þeirri
aðstöðu að geta valið og jafnréttis-
stefna ríkisflokkanna einskorðaðist
við að tryggja skilyrði sem auðveld-
uðu konunni að sinna þessum hlut-
verkum. „Áður en gamla Júgóslavía
leystist upp vorum við undir gler-
þaki kommúnismans; við gátum
ekki verið virkar í stjórnmálum
vegna undirokunar einræðisstjórn-
anna,“ segir Papic. Nú segja konur
frá Austur-Evrópu að
ófullnægjandi reynsla
þeirra í baráttu fyrir póli-
tískum réttindum hafi síð-
an hamlað þeim í að sporna
við óhagstæðri þróun
sinna málefna við upphaf
stjórnarfarsbreytinganna
undir lok níunda áratugar-
ins. „Þegar stríðið braust
út, og fréttir bárust af
morðum og fjöldanauðgun-
um efldist starfið til muna
og tók breytingum. Við
börðumst ekki aðeins fyrir
kvenréttindum heldur al-
mennum mann- og borg-
araréttindum. Við reynd-
um að koma konum sem hafði verið
nauðgað til aðstoðar og unnum með
flóttamönnum,“ segir Papic.
Ein afleiðing átakanna á Balkan-
skaga var afturhvarf til hefðbund-
inna og frumstæðra kynhlutverka,
sem styrkti ríkjandi valdakerfi enn
frekar. Karlar tóku upp her-
mennsku og léku stríðshetjur en
konur voru ýmist og í senn fórnar-
lömb og hjúkrunarkonur. Og sam-
skipti kynjanna afskræmdust í
stríðinu: Skipulegar fjöldanauðgan-
ir, voru notaðar sem vopn. Eftir að
stjórnkerfi ríkissósíalismans liðu
undir lok í Austur-Evrópu voru það
leiðtogar pólitískra andófshópa og
mannréttindahreyfinga sem mynd-
uðu fyrstu lýðræðislega kosnu rík-
isstjórnirnar. Í ljósi þess að konur
voru stór hluti af þessum hreyfing-
um og í mörgum löndum áberandi í
fremstu röð er athyglisvert að þær
skiluðu sér ekki í teljandi mæli inn á
þing eða í stjórnunarstöður eftir
breytingarnar. Nýju stjórnkerfin
eru að sögn kvenna frá þessum lönd-
um lýðræði, þar sem karlar fara
með völd, og þó að löndin búi við
ólíkar þjóðfélagsgerðir og sögu virð-
ist þessi fullyrðing eiga við þau öll.
Stríðinu er lokið, en Papic segir
enn of snemmt að segja til um
hvernig gangi að styrkja stöðu
kvenna og vinna að jafnréttismál-
um. Kvenréttindasamtök hafi reynt
að koma á kvótakerfi á framboðs-
listum fyrir síðustu kosningar í
Serbíu, en aðeins þrír flokkar hafi
fallist á að taka það upp. Því fari
fjarri að andstæðingar Milosevic,
þeir sem nú séu komnir til valda, séu
allir á því að bæta réttindi kvenna,
jafnvel þótt kvennahreyfingin hafi
átt sinn þátt í að koma Milosevic frá
völdum. Enn sé margt ógert. Brýnt
sé að bæði kynin komi að þróun til
lýðræðislegra stjórnarhátta og eigi
aðgang að stjórnvaldinu. Papic
bindur vonir sínar við að í framtíð-
inni verði jafnréttissjónarmið sam-
þætt mikilvægum málaflokkum,
eins og til dæmis efnahagsmálum,
líkt og unnið er að í mörgum löndum
Vestur-Evrópu um þessar mundir.
Ekki hægt að aðskilja
þjóðerni og pólitík
Papic er hispurslaus kona sem
vísar þjóðernishyggjunni svo ræki-
lega á bug að hún afneitar þjóðern-
ishugtakinu, þótt hún sé samkvæmt
skilgreiningunni Bosníu-Serbi, en
hún er fædd í Sarajevó.
„Ef fólk spyr mig um þjóðerni,
eyði ég spurningunni, segist vera
femínisti, eitthvað annað. Ég vil
ekki láta kalla mig Serba því það er
pólitísk skilgreining. Á Balkanskaga
er ekki lengur hægt að aðskilja
þjóðerni og pólitík.“
Papic segist vera and-
þjóðernissinni en það þurfi
ekki að þýða að aðrar
kvenréttindakonur séu
það eða að femínismi sé
andstæður þjóðernis-
hyggju í eðli sínu. „Í sum-
um löndum Balkanskagans er þjóð-
ernishyggja þáttur í femínismanum.
Þjóðernishyggja fer til dæmis vax-
andi í Serbíu, þótt hún reyni að fara
dult. Hún tengist hinni serbnesku
þjóðarsál, hinni sameiginlegu arf-
leifð og hugsun. Því getur verið erf-
itt að standa gegn henni, einkum
þegar landið er í vörn.“
Í skrifum sínum hefur hún notað
hugtakið „fasismi“ til að lýsa því
kerfi, sem Milosevic kom á eftir að
Júgóslavía liðaðist í sundur. Hún
gerir sér grein fyrir því, að slík skil-
greining kann að vekja mótbárur.
Fasismi sé sögulegt hugtak, auk
þess sem um enga hreinræktaða
fasistahreyfingu hafi verið að ræða í
Serbíu. Milosevic var hluti af því
einræðiskerfi, sem kommúnistar
komu á fót; hann hafi síðan söðlað
um og tekið upp útþenslustefnu í
nafni þjóðernisstefnu. Papic telur þó
réttlætanlegt að styðjast við hug-
takið: Nýtt tímabil hófst árið 1989,
þar sem söguleg hugtök voru end-
urvakin og ný komu til sögunnar.
Engin ástæða sé til að forðast „stóru
orðin“ þegar verið er að lýsa póli-
tískum veruleika í þjóðfélagi þar
sem reknar voru fangabúðir, minni-
hlutahópar beittir kerfisbundnu of-
beldi, einföld fjölskyldugildi upphaf-
in og leiðtogadýrkun haldið fram.
Allt voru þetta einkenni „fasísks
samfélags“.
Við þær aðstæður var ekkert
rými fyrir umburðarlyndi og fjöl-
menningu, enda voru fjölmiðlarnir
ofurseldir stjórnvöldum. Papic segir
að markmiðið hafi verið að skerða
athafnafrelsi fólks, brjóta niður öll
skil milli opinbers lífs og einkalífs.
Vandamálið var – og er –, segir
Papic, að mjög margir hrifust af
boðskap Milosevics um Stór-Serbíu
og fyrirheitum hans um að ná fram
„hefndum“ fyrir þá sögulegu glæpi,
sem Króatar og aðrar þjóðir hefðu
unnið gegn Serbum. Stjórnvöld
hefðu kerfisbundið misnotað fjöl-
miðla til að ala á öfga-þjóðernis-
hyggju og hatri á Króötum og Ko-
sovo-Albönum með þeim
afleiðingum, að stuðningur við
stríðsstefnu hans hafi verið mikill.
Loftárásir NATO hafi síðan verið
notaðar til að afneita þjóðernis-
hreinsunum í Kosovo og draga upp
ofureinfalda mynd af Serbum sem
fórnarlömbum.
Hlutverk Kvenna
í svörtu
Að sögn Papic voru það í raun ein-
ungis stjórnmálakonur og femín-
ista- og friðarhópar, sem börðust
gegn stefnu Milosevics frá upphafi.
„Konur í svörtu“ hefðu verið eini
andstöðuhópurinn sem afneitaði
þeirri „nýskipan“, sem komið var á
og gekk út á að „normalisera“ kúg-
unarstefnu, túlka hana sem eðlilegt
ástand. Í stað þess að líta á aðrar
þjóðir og þjóðarbrot sem andstæð-
inga, eins og karlmönnum var inn-
prentað, hafi þær litið á albanskar,
bosnískar og króatískar konur sem
bandamenn.
Papic segir vandann sem Serbar
standi nú frammi fyrir m.a. þann að
átta sig á því hvað felist í því að vera
Serbi.
„Ég sé merki um nýja föðurlands-
hyggju og áframhaldandi viðhald
einsleits þjóðfélags. Þegar Milosevic
var við völd var nóg að vera á móti
honum, menn þurftu ekki að eiga
meira sameiginlegt. Nú eru and-
stæðingar hans komnir til valda og
þeir eru auðvitað af ýmsum toga. Nú
er grasrótin, sem andstaðan gegn
honum var sprottin úr, að breytast í
nýja heilaga þrenningu, sem er
kirkjan, herinn og Vojislav Kost-
unica, forseti Júgóslavíu. Serbía er
þjóðfélag sem stríðir við efnahags-
leg og siðferðileg vandamál. Um-
breytingin sem varð með kjöri Kost-
unica var sú eina sem við vorum
búin undir.“
Papic segir Serba nú verða að
gera upp við sig hvort þeir treysti
sér að takast á við erfiðar siðferði-
legar spurningar, sem tengist m.a.
ábyrgðinni á stríðinu í
Bosníu og Kosovo. Hún
kveðst ekki telja að
landar hennar séu
reiðubúnir til þess, enn
sem komið er. „Um-
bætur mega ekki að-
eins vera efnahagslegar og felast í
því að fólk fái tryggt rafmagn og
betri skó. Við verðum að vinna á
þjóðernishyggjunni, gegn sam-
þjöppun valds á fárra hendur – við
verðum að vinna að umbótum á okk-
ur sjálfum,“ segir Papic.
Ráðstefnunni „Konur og Balkan-
stríðin“ er ætlað að vekja athygli á
ástandinu á landsvæðum fyrrum
Júgóslavíu og ýta undir umræðu um
vandamál sem eru ekki jafn stað-
bundin og kann að virðast heldur
skiptir alla Evrópubúa máli.
Andþjóðernissinni
og femínisti
Reuters
Undir lokin á valdatíma Slobodans Milosevic mótmælti almenningur kröftuglega gegn honum á götum úti. Í
þeim mótmælum tóku þátt bæði konur og karlar. Ýmsum finnst hins vegar að hlutur kvenna nú sé ekki í sam-
ræmi við það sem þær lögðu af mörkum til að koma Milosevic frá.
Þrjár merkar fræðikonur frá Balkanskaga verða sérstakir gestir á
ráðstefnu sem haldin verður 2. mars nk. í Hátíðarsal Háskóla Ís-
lands. Urður Gunnarsdóttir ræddi við eina þeirra, Zarönu Papic,
sem um árabil hefur barist fyrir kvenréttindum og gegn þjóðern-
ishyggju á Balkanskaga, þar sem þjóðerni er orðið svo pólitískt
hugtak að hún vill ekki láta kenna sig við land sitt.
Zarana Papic
Ef fólk spyr
mig um þjóð-
erni eyði ég
spurningunni
Baráttunni
gegn þjóðern-
ishyggju er
hvergi lokið