Morgunblaðið - 21.02.2001, Side 50
FÓLK Í FRÉTTUM
50 MIÐVIKUDAGUR 21. FEBRÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ
Á SAMA tíma og stöðugt fleiri
„sjálfshjálparbækur“ koma út hefur
orðið mikil fjölgun á bókum sem
fjalla með misbeinum hætti um við-
skiptalífið. Sennilega er sterkt sam-
hengi þarna á milli en kannski hefur
bara allt aukist til muna undanfarið.
Í Funky Business koma þessar
tvær tegundir bóka að nokkru leyti
saman. Hún fjallar öðru fremur um
hnattvæðinguna og nýja hagkerfið
en er líka hugsuð sem leiðarvísir
handa einstaklingum um kaotískt
heimsþorpið. Samkvæmt höfundun-
um býr fólk nú í heimsveldi mark-
aðarins þar sem stjórmálunum hef-
ur verið ýtt til hliðar og samkeppnin
er svo grimmileg að aðeins þeir
taugaveikluðu lifa af. Upplýsinga-
byltingin ryður öllu áfram og ein-
staklingar verða að símennta sig og
sérhæfa til að sitja ekki eftir. Ekk-
ert er heilagt lengur en allt til sölu
og þeir sem halda í gömlu gildin eru
þar með að dæma sjálfa sig úr leik.
Aðeins þeir sem þora að brjóta síð-
asta tabúið ná langt. Hin eiginlegu
verðmæti felast í hugviti, frumleika
og hugmyndum en það sem er hægt
að snerta er sennilega lítils virði, í
heimi Jonasar og Kjells.
Í einum áhugaverðasta kafla bók-
arinnar eru einstaklingar og fyrir-
tæki hvött til að endurskoða afstöðu
sína hvort gagnvart öðru. Bent er á
að í nýja hagkerfinu sé stöðugleik-
inn miklu minni og líftími fyrirtækja
miklu styttri. Einstaklingurinn eigi
ekki lengur að líta svo á að hann ráði
sig í vinnu hjá nýju fyrirtæki heldur
sé að taka að sér það verkefni að ná
hámarksgróða út úr því áður en það
lognast út af aftur. Á móti verði
stjórnendur að gera ráð fyrir því að
fyrirtækið sé bara stoppistöð starfs-
manna en ekki eitthvað til að eldast
inn í. Hraðinn og tækifærin séu orð-
in svo mikil og samkeppnin
það hörð að gamla hug-
myndin um fyrirtækið sem
er byggt upp á löngum tíma
sé einfaldlega orðin of þung-
lamaleg.
Sýn höfundanna er bæði
falleg og ógeðfelld í senn.
Einstaklingurinn er í fyrir-
rúmi en hann má hafa sig
allan við og sennilega er
skelfilegt að eldast í þessari
veröld þeirra. Helsti galli
bókarinnar er sá að Svíarnir
endurtaka sig mikið og eiga
til að fara full töffaralega frá
staðhæfingum. Á móti kem-
ur að þeir taka sjálfa sig
hæfilega alvarlega. Funky
Business er skemmtileg bók
og ýmsir erlendir fjölmiðlar
töldu hana með því merki-
legra sem kom út á síðasta
ári.
Jonas Ridderstråle og
Kjell Nordström starfa sem
hagfræðiráðgjafar auk þess
sem þeir kenna við Stock-
holm School of Economics.
Hraður
heimur
Funky Business – Talent Makes
Capital Dance Jonas eftir
Ridderstråle & Kjell Nordström.
Útgefandi Bookhouse Publishing,
2000. 256 blaðsíður. Bókin fæst í
Eymundsson og kostar 4.495 kr.
Huldar Breiðfjörð
MARGT ER þess eðlis að ekki er
hægt að spauga með það, slys ým-
iskonar, ótímabær andlát og alls-
kyns djúpstæð óhamingja. Vestur í
Bandaríkjunum sendi rithöfund-
urinn og teiknarinn Edward Gorey
aftur á móti frá sér hverja bókina af
annarri þar sem biksvört kímni réði
ríkjum; bók um börn sem deyja
hvert af öðru hræðilegum dauð-
daga, blautlega frásögn um af-
brigðilegheit með steikarpönnu, og
svo má telja.
Dæmigerð Gorey-bók er sagan af
lítilli stúlku sem elst upp hjá fyr-
irmyndarforeldrum en lendir í klón-
um á drykkjurafti sem kvelur hana
og pínir. Þegar hún loks kemst und-
an verður hún fyrir vagni sem faðir
hennar ekur og svo illa er hún farin
af hungri og illri meðferð að hann
áttar sig ekki á því að þetta sé dótt-
ir hans.
Vissulega ókræsilegt efni og eins
og komið úr kvikmynd eftir Lars
von Trier, en þegar sagan er sögð
með pennateikningum og í umhverfi
seinni hluta nítjándu aldar í Bret-
landi verða hörmungarnar hæfilega
fjarlægar og þvert ofan í almennt
siðgæði og viðurkennda smekkvísi
kímir lesandinn með sjálfum sér
þegar hann les um Leo litla sem
gleypti teiknibólur eða Victor sem
kramdist undir lest eða Fanny sem
var þurrsogin af iglu.
Glaðvær og lífsglaður
Bandaríkjamaður
Það er algengt að menn haldi að
Edward Gorey sé þunglyndur Breti
og að hann hafi dáið snemma á öld-
inni. Hið rétta er að hann var
bandarískur, ekki er nema ár síðan
hann lést 75 ára að aldri og að því
er vinir hans segja var hann glað-
vær og lífsglaður maður.
Edward Gorey byrjaði að gefa út
furðubækur sínar 1953 og þær urðu
90 alls. Hann ætlaði sér að verða
rithöfundur en leiddist smám saman
út í að gefa út litlar myndabækur,
en einnig teiknaði hann leiktjöld og
setti upp leikverk, en síðustu árin
bjó hann á Þorskhöfða og stýrði þar
leikflokki sem setti á svið sögur
hans á leiksviði og með brúðum.
Byrjaði á strengjalausri hörpu
Fyrstu bækur hans komu síðar út
undir heitinu Amphigorey, Amph-
igorey, Too og Amphigorey Also, á
áttunda áratugnum. Ekki er svo
langt síðan endurútgáfa hófst á
helstu eldri bókum hans og þar á
meðal er fyrsta bókin, Strengja-
lausa harpan, The Unstrung Harp,
en í kjölfar þeirrar útgáfu, og svo er
hann var allur, vildu margir telja
hann með fremstu rithöfundum
Bandaríkjanna, þó ferilinn hafi ver-
ið sérstakur.
Það er ákveðið vandamál að meta
hverjum bækur Goreys eru ætlaðar.
textinn er fágaður og tálgaður, hálf
súrrealískur á köflum, sumar bæk-
urnar eru reyndar eins og safn af
súrrealískum hækum, orðfærið er
fornt og torskilið nema fyrir ensku-
fræðinga, myndirnar eru skreyttar
með art nouveau-kenndum teikn-
ingum og innihaldið oftar en ekki
eins og endursögn á grimmdarleg-
ustu Grimms-ævintýrum. Fyrir vik-
ið vissu útgefendur ekki hvaðan á
sig stóð veðrið þegar Gorey birtist
með handrit, hvort sem það var
stafrófskver með börnum sem öll
deyja voveiflega eða frásögn af
morðóðu pari sem leggst á börn.
Alinn upp á hryllingssögum
Gorey fæddist í Chicago 1925,
sonur blaðamanns. Foreldrar hans
skildu þegar drengurinn var
ellefu ára og tóku saman aft-
ur þegar hann var 27 ára, en
í millitíðinni hélt faðir hans
við þekkta leikkonu. Í viðtali
við Gorey fyrir nokkru kom í
ljós að hann las hryllings-
sögur sem barn, Drakúla og
Frankenstein á aldrinum
fimm til sjö ára.
Gorey byrjaði snemma að
teikna en entist ekki nema
eina önn í teikninámi áður
en hann gekk í herinn og
starfaði við tilraunir á
sprengiefni og eiturgasi.
Þegar hann kom út hernum
hóf hann nám í frönskum
bókmenntum í Harvard,
varð mikill vinur ljóðskálds-
ins Frank O’Hara, sem sag-
an segir að Gorey hafi komið
upp á bragðið með afkára-
lega hegðan og meinfýsni.
Þeir Gorey og O’Hara
héldu mikið upp á breskar
bókmenntir síðari hluta
nítjándu aldar og fyrri hluta
þeirrar tuttugustu, sem
skýrir stemmninguna sem
einkennir teikningar Goreys, lásu
Oscar Wilde, Ronald Firbank og
Ivy Compton-Burnett, skreyttu
herbegi sín afkáralega og notuðu
gamlan legstein sem sófaborð.
Að skrifa bækur er
óskemmtileg iðja
Eftir að námi var lokið settist
Gorey að í New York og hafði ofan
af fyrir sér með bókakápuskreyt-
ingum. Hann var þó ekki kominn í
það starf sem hann helst óskaði,
langaði í fyrstu til að eiga bókabúð,
þá að verða bókavörður og loks út-
gefandi, en á endanum sneri hann
sér að því að skrifa bækur, eins
óskemmtileg iðja og það er ef
marka má fyrstu bók hans, áð-
urnefnda Strengjalausu hörpuna
sem segir frá Clavius Frederick
Earbrass. Earbrass er rithöfundur
og hefur fyrir sið að byrja á nýrri
bók 18. nóvember annað hvert ár.
Hann velur titil úr lítilli grænni
minnisbók, en sagan hefst þar sem
hann er að fara að skrifa nýja bók
og hefur ekki hugmynd um hvað
hún á að vera. Á endanum tekst
honum þó að skrifa bókina, en eftir
því sem verkinu vindur fram verður
lífið óbærilegra og þegar hann lýkur
við verkið reikar hann um í rænu-
leysi dögum saman, búinn að fá
slíkt ógeð á verkinu að hann er að
velta því fyrir sér að varpa því í
Thames til að losa heiminn við ann-
an eins óskapnað.
Settist að á
Þorskhöfða
1983 keypti Gorey sér hrörlegan
bóndabæ á Þorskhöfða í Massa-
chusetts og bjó þar með katta-
mergð. þeir sem komu í það hús
sögðu það hafa verið fullt af alls-
kyns dóti sem hann sankaði að sér,
aðallega frá Edward- og Viktoríu-
tímanum í Englandi, en þrátt fyrir
mikinn áhuga sinn á Englandi og
öllu ensku kom Gorey aðeins einu
sinni til útlanda og það var til Orkn-
eyja, Hjaltlands og Hebrideseyja.
Edward Gorey lést í apríl síðast-
liðnum eftir hjartaáfall. Bækur hans
má fá í Máli og menningu, til að
mynda Gashlycrumb Tinies, sem er
stafrófskverið hræðilega, The
Unstrung Harp, fyrstu bók hans, og
The Haunted Tea-Cosy, sem er sér-
kennileg útgáfa hans á Jólasögu
Dickens.
SÉRFRÆÐINGUR Í GRIMMÚÐLEGUM ÖRLÖGUM
Biksvört kímni
Þrjú ólánsöm börn úr stafrófskverinu hræðilega.
Kápa stafrófskversins hræðilega Gashlycrumb Tinies.
Forvitnilegar bækur
EKKI ER langt síðan fréttatíma-
ritið Time valdi lagið Strange Fruit
lag aldarinnar, en þó nokkrir hafi
orðið til að flytja það og taka upp,
miðaðist valið við ógleymanlegan
flutning Billie Holiday. Svo var lagið
reyndar tengt Holiday að margur
heldur vísast að hún hafi samið það
að öllu eða einhverju leyti, enda sagði
hún svo sjálf í sjálfsævisögu sinni, en
það voru ekki einu ósannindin sem
var að finna í þeirri bók.
Á árunum fyrir stríð var mikil
vakning meðal vinstri manna í
Bandaríkjunum og sósíalísk sjónar-
mið voru sífellt algengari, ekki síst
þar sem sósíalistar lögðu blökku-
mönnum lið í réttindabaráttu þeirra.
Meðal þeirra menntamanna sem
lögðu sitt af mörkum með greina- og
ljóðaskrifum var kennari i New York,
Abel Meeropol, sem var gyðingur
eins og nafnið ber með sér. Meeropol
var áhrifa- og afkastamikill á sínum
tíma og var meðal annars góðkunn-
ingi Ira Gershwin og Kurt Weill, auk-
inheldur sem Thomas Mann skrifaði
eitt sinn meðmælabréf fyrir hann.
Hann var baráttumaður fyrir aukn-
um réttindum blökkumanna og tók
meðal annars þátt í þeirri baráttu að
fá Bandaríkjaþing til að setja sérstök
lög til að stöðva aftökur á svertingj-
um án dóms og laga sem voru nokkuð
algengar í Suðurríkjunum. Liður í
þeirri baráttu var ljóðið Strange
Fruit sem hann skrifaði undir
skáldanafninu Lewis Allan, um tor-
kennilegan ávöxt sem yxi á suðræn-
um trjám sem vökvuð voru og
skreytt af blóði.
Billie Holiday sagði gjarnan að
lagið hefði verið samið fyrir hana, á
milli þess sem hún sagðist hafa samið
það sjálf, en það var víst hálfgerð til-
viljun að lagið barst til hennar.
Hvernig sem það vildi til, og reyndar
rakið ítarlega í bókinni sem hér er
gerð að umtalsefni, þá söng hún það
svo frábærlega að á meðan hún lifði
var það ekki á færi annarra að flytja
það.
Textinn í ljóðinu er áhrifamikill og
átakanlegur, svo átakanlegur reynd-
ar að iðulega var Holiday bannað að
syngja lagið og með tímanum var það
síðasta lagið á dagskránni, því ekkert
lag gat komið þar á eftir. Ádeilan er
hörð í ljóðinu, en þó kunnu margir
blökkumenn illa að meta það, fannst
það gera úr þeim of mikil fórnarlömb,
og margir djassskríbentar gáfu lítið
fyrir lagasmíðina, þótti það klén sam-
setning og textinn uppskrúfaður.
Mjög eru deildar meiningar um
hversu vel Holiday sjálf skildi hvað
hún var að syngja og víst að framan
af var hún ekki vel með á nótunum,
eins og Margolick rekur í bókinni, þó
hann sé að reyna að klóra í bakkann.
Strange Fruit hafði mikil áhrif á þá
sem heyrðu og Margolick tínir til
vitnisburði fjölda manna, sem eru
margir hverjir reyndar frekar að
monta sig af að hafa heyrt í Billie
Holiday, en þó nokkrir sneru sér að
pólitík eftir að hafa heyrt lagið og
aðrir sáu heiminn í nýju, öllu kulda-
legra ljósi.
Forvitnilegar bækur
Ávöxtur
illskunnar
Strange Fruit, bók eftir David
Margolick. Running Press gefur út.
160 síður innb., kostaði 2.299
í Máli og menningu.
Árni MatthíassonÚr fyrstu bók Goreys, The Unstrung Harp.