Morgunblaðið - 25.11.2001, Page 18
18 SUNNUDAGUR 25. NÓVEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
þið ekki að bregða ykkur á skemmt-
unina í Íslendingafélaginu í kvöld?“
„Það held ég varla,“ svarar Steinn
dauflega. „Við erum blankir.“
„Kannski ég geti hjálpað ykkur
um smáræði,“ tuldrar sendiráðsrit-
arinn, tekur upp veski sitt og réttir
þeim sinn hundraðkallinn hvorum.
Þeir kveðja þakksamlega og halda
á brott léttstígir og glaðir.
„Blessaður karlinn,“ segir Steinn.
„Þetta hefðu sumir látið ógert.“
Á skemmtun Íslendingafélagsins
ber það til tíðinda, að prófessor Sig-
urður Nordal gengur tvisvar fram
hjá borðinu, þar sem Steinn situr –
án þess að heilsa, en með þeim voru
löngum litlir kærleikar. Þá telur
Steinn tímabært að gera vart við sig
svo að um muni, miðar glasi á Nor-
dal og fleygir því af alefli þvert yfir
salinn – en hæfir annan mann sem
góðu heilli verður ekki meint af. Eft-
ir þessa misheppnuðu tilraun til að
vekja á sér athygli verður Steinn
gagntekinn ólund og sársaukafullri
reiði, fær sér að vísu annað vínglas,
en áhugi hans á mannfagnaðinum
„virtist hafa slokknað,“ skrifar
Hannes, „um leið og Sigurður sneri
við okkur baki og hóf spaklegar við-
ræður við annan prófessor, Jón
Helgason skáld...“ Fyrr um kvöldið
hafði Jón flutt ræðu við ákafan fögn-
uð landa sinna.
Maðurinn sem varð óvart fyrir
skeytinu var Þorsteinn Stefánsson
rithöfundur, en hann hefur lengi
verið búsettur í Danmörku og fékk
bókmenntaverðlaun kennd við H. C.
Andersen fyrir skáldsöguna Dalur-
inn (Dalen) 1942.
Hann tvístígur lengi við borðið,
hikandi og ráðvilltur, en hleypir loks
í sig kjarki og ávarpar árásarmann-
inn:
„Fyrirgefið,“ segir hann. „Þér
fleygðuð í mig glasi. En er þetta
ekki Steinn Steinarr?“
„Nei,“ svarar Steinn hryssings-
lega. „Þetta er Aðalsteinn Krist-
mundsson frá Miklagarði í Dölum!“
Undir vökulu auga
„Hallgrímur lítur yfir hópinn áður
en við stígum upp í flugvélina. Hann
er kempulegur maður, vanur fjalla-
ferðum og augun spegla birtu jökla;
vindurinn leikur í gráum lokkum
hans. Þarna er Steinn að kveðja Ást-
hildi konu sína með kossi. Okkur er
sagt að fara um borð...“
Þannig hljóðar upphaf bókarinnar
Kallað í Kremlarmúr eftir Agnar
Þórðarson en hún fjallar um kynnis-
för til Sovétríkjanna sem Steinn
Steinarr tók þátt í sumarið 1956.
Sjaldan hefur ferðalag orðið fræg-
ara hér á landi; um það voru ekki
einasta skrifaðar blaðagreinar og
viðtöl heldur einnig heilar bækur,
svo að heimildir skortir ekki.
Merkust er bók Agnars en um
hana segir hann í formála: „Ég sendi
nú þessa pistla frá mér með Stein
Steinarr efstan í huga, enda hefur
hann verið það jafnan, þegar ég hef
minnst þessarar ferðar og ber
margt til þess. Við vorum herberg-
isfélagar alla þá ferð, og ég kynntist
Steini miklu nánar en áður, þó að
hann léti sig lítið uppi persónulega,
en hitt er nú veigamest að Steinn
Steinarr hefði orðið sjötugur á þessu
ári (1978), og finnst mér vel til fallið
að bókin komi út af því tilefni.“
Kristinn E. Andrésson hafði veg
og vanda af slíkum ferðum og valdi
til þátttöku að þessu sinni Hallgrím
Jónasson kennara, sem var farar-
stjóri, Ísleif Högnason forstjóra,
Jón Bjarnason, fréttastjóra Þjóð-
viljans, og listamennina Jón Óskar
skáld, Leif Þórarinsson tónskáld,
Agnar og Stein.
„Í svona ferð á ekki að velja nema
einfaldar sálir,“ sagði Steinn við
Agnar og brosti. „Það hefði hann
Kristinn minn átt að vita.“
Og nú er lagt af stað í þessa „her-
ferð“ sem Steinn nefndi svo á stund-
um. Vegabréf hans er stimplað við
brottför 15. júlí 1956. Flugvélin hef-
ur sig á loft, og Hallgrímur er þegar
byrjaður að yrkja:
Þá er hafin þessi för,
þreytum flugið lon og don...
Menn eru glaðir og reifir, eins og
tilheyrði í flugvélum á þessum tíma,
rjóðir í vöngum og roggnir með sig
þegar þeir lauma hver að öðrum
seðlum með splunkunýjum kveð-
skap. Agnar hafði verið í samkvæmi
fram á nótt daginn áður og svaf því
nær alla flugferðina. Af því tilefni lét
Steinn hann hafa svohljóðandi stöku
á miða:
Liggur kauði einn og oft
yfir hauður borinn,
Agnar dauður upp í loft
eins og sauður skorinn.
Á hafnarbakkanum í Leníngrad,
sem áður bar nafn Péturs mikla, bíð-
ur friðarnefnd borgarinnar ásamt
túlkum til að fagna þessum fjarlægu
gestum sem borist höfðu norðan úr
ballarauga. Farið er með þá á gisti-
hús í miðri borginni, þar sem far-
arstjóri allvígalegur tekur á móti
þeim. Galína hét hún, miðaldra
kona, rauðbirkin og búlduleit;
kraftalegur kvenmaður með sterk-
lega kjálka og einbeittan svip. Agn-
ar segir að upp frá því hafi þeir verið
„allan tímann í Sovétríkjunum undir
sívökulu auga Galínu. Var sem þau
Hallgrímur og Galína hefðu tekið
upp á sína arma heldur óstýrilátan
barnahóp sem þau vildu umfram allt
koma til nokkurs þroska.“ Galína lét
þá félaga heyra það hvað eftir annað
að þeir væru ekki þangað komnir til
að skemmta sér, heldur til að fræð-
ast. Hún var vel undir það búin að
taka að sér vanþakklátt móðurhlut-
verk, og þegar í ljós kom að hún
hafði stjórnað samyrkjubúi austur í
Síberíu á valdatíma Stalíns, hvíslaði
Steinn að Jóni Óskari og Agnari:
„Hvað skyldi hún hafa mörg
mannslíf á samviskunni?“
Öllum næsta degi var varið í að
skoða Leníngrad. Steinn virti lengi
fyrir sér myndastyttu af Pétri mikla
á hestbaki, og ekki síður aðra af
Katrínu annarri ásamt friðlum sín-
um, en hún var svo frek til holdsins
að annálað var. Sú saga er sögð af
henni að á stundum hafi komið yfir
hana svo mikil lostaþrá að hún varð
að svala henni á stundinni – jafnvel í
miðri máltíð!
Um kvöldið var farið með nætur-
lest til Moskvu, og vart hafði lestin
numið staðar morguninn eftir þegar
heyrðist kallað:
„Er her nogle islandske venner?“
Þar var komin ljóshærð kona á
miðjum aldri, Nína Krymova að
nafni. Hún var þýðandi bóka Hall-
dórs Laxness, og þegar hún var
kynnt fyrir skáldunum og rithöfund-
unum Steini Steinarr og Agnari
Þórðarsyni varð henni að orði:
„Ef þið hafið skrifað skáldsögur á
borð við Atómstöð Laxness, skal ég
snara þeim á rússnesku á auga-
bragði!“
Um kvöldið var Nína borðdama
Steins, en Hallgrímur og Galína sátu
hlið við hlið í öndvegi og fór svo vel á
með þeim að engu var líkara en þau
hefðu verið ástvinir í æsku.
Nína Krymova lagði fast að Steini
að segja nokkur orð í veislunni, og
að lokum reis hann á fætur og sló í
glas sitt.
„Steinn byrjaði á því að þakka fyr-
ir góðar móttökur, sem Rússar væru
reyndar víðfrægir fyrir,“ skrifar
Agnar. „Þá sagðist hann lengi hafa
vitað að rússneskar konur væru
miklar hetjur. Hann hefði lesið um
það á barnsaldri í sveit á Íslandi en
síst væri það ofsagt – og nú stæði til
boða daginn eftir að sjá mikla og
merkilega landbúnaðarsýningu.
Hann sagðist oft hafa heyrt að Rúss-
ar héldu stórkostlegri sýningar en
flestir aðrir, og væri þessi sýning
áreiðanlega mjög merk og lærdóms-
rík.
Þó væri það nú svo, að það sem
hann helst hefði hug á að sjá myndi
ekki fyrirfinnast þar – nefnilega lítið
kapítalískt hænsnabú! Því að svo
væri mál með vexti að hann og kona
hans hokruðu með nokkrar pútur
fyrir utan höfuðborgina, og ættu
þau í smá erfiðleikum með sumar
hænurnar, þó að hann vildi ekki vera
að klaga þær fyrir ókunnugum, en
óneitanlega virtust þær vera komn-
ar í hálfgert verkfall með að verpa
og myndu því allar leiðbeiningar frá
sérfræðingum vera þakksamlega
þegnar. En sem sagt væri um að
ræða kapítalískt hænsnabú og því
ekkert ráð við þessum vandkvæðum
að finna á þeirri stórkostlegu sýn-
ingu sem gestum stórveldisins væri
boðið að skoða á morgun!“
Eftir að landbúnaðarsýningin
hafði verið skoðuð í krók og kima
tók ekki betra við. Þá var hópnum
boðið að heimsækja gasstöð og
fylgdi fyrirlestur á eftir. Þeir Jón
Bjarnason og Steinn sátu hlið við
hlið og kepptust báðir við að skrifa
upp eftir fyrirlesaranum.
Þegar komið var út undir bert loft
seint og um síðir sneri Jón frétta-
stjóri sér að Steini og spurði: „Hvað
varst þú að skrifa allan tímann?“
Steinn svaraði: „Ég skrifaði
hundrað sinnum Hallgrímur Jónas-
son!“
Það er steikjandi hiti og Steinn
tekinn að þreytast á þessum eilífu
skoðunarferðum og gerir sér til
dundurs að erta og stríða hinum
sanntrúuðu félögum sínum, Ísleifi
og Jóni Bjarnasyni.
Þegar komið er í fyrirmyndareld-
hús nýrrar verkamannaíbúðar er Ís-
leifur fullur aðdáunar og segir:
„Hérna er nú ísskápur!“
„Hann er úr timbri,“ segir Steinn.
Við nánari athugun kemur í ljós
að ísskápurinn að tarna er mun
frumstæðari en hann sýndist í
fyrstu, svo að Steinn hafði skorað
fyrsta markið í kappleiknum.
Ísleifur vill ekki una ósigri og
reynir að snúa vörn í sókn:
„Og hérna er krani,“ segir hann
hróðugur, „alveg ljómandi fallegur
krani með rennandi vatni.“
„Það kemur áreiðanlega ekkert
vatn úr honum,“ fullyrðir Steinn.
„Við skulum nú sjá til,“ andmælir
Ísleifur vonglaður.
En hvernig sem hann skrúfar og
skrúfar kemur ekki einn einasti
dropi vatns úr krananum.
Steinn glottir við tönn; hann hefur
skorað öðru sinni.
Ísleifur vill ekki una þessum
óhagstæðu úrslitum, kallar á fylgd-
armann sér til hjálpar, en allt fer á
sömu leið. Ekki kemur deigur dropi
úr krananum.
Það verður uppi fótur og fit meðal
Rússanna út af þessu neyðarlega at-
viki og linnir ekki látum þar til
hverfisstjórinn er kvaddur á vett-
vang. Hann upplýsir að vandlega at-
huguðu máli að verið sé að vinna við
vatnslögn í hverfinu, og vatnið hafi
verið tekið af um stundarsakir.
„Vissi ég ekki,“ segir Jón Bjarna-
son glaðhlakkalega. „Svona verða
þær til, lygafréttir Morgunblaðsins
um Sovétríkin.“
Hallgríms ríma og Galínu
Farið er með fljótaferjunni Max-
im Gorkí til Rostov við Don. Allur
þorri farþega er á öðru farrými, en
íslenski hópurinn þilfari hærra;
hann lifir þar í bílífi um borð, þar
sem landið líður hægt hjá, blómleg-
ar byggðir til að sjá, sveitaþorp og
snotur býli.
Siglingin reynist lengri en búist
var við, en bjart veður er og heiður
himinn, svo að menn taka að fækka
fötum og baða sig í sólinni – allir
nema Steinn sem kveðst enginn
vera sóldýrkandi og líða illa í mikl-
um hita. Brátt er hann orðinn leiður
á að rölta um þilfarið og ekki bætir
úr skák að bjórinn er moðvolgur. Við
þessar aðstæður yrkir hann sína
kunnu vísu:
Ömurleg er gerskra grund,
gjálpar skólp í mýri.
Raula ég fyrir rauðan hund
rímur úr ævintýri.
Þegar hann er að því spurður
hvaða rímur hann eigi við kveðst
hann í bernsku hafa „lesið ævintýri
um Galínu nokkra, mikinn kvenkost
og eftirsóttan af frægum riddurum
og slitur af rímum hefði hann séð
sem hétu Rímur af Hallgrími og
Galínu, en nú myndi hann ekki nema
nokkrar hendingar úr rímunum, en
hann væri alltaf að velta því fyrir sér
hvernig þær hefðu verið; kannski
skyti þeim upp í huga honum...
Galína hafði sólbrunnið dálítið í
kinnum og á handleggjum um dag-
inn og fór snemma inn til sín. Hall-
grímur var sömuleiðis ekki vel fyrir
kallaður. Þá mundi Steinn eina vísu
úr rímunni...:
Galína okkar gengur ber,
glansar lend og magi.
Háttatími Hallgríms er
heldur í fyrra lagi.“
Fleiri vísur úr rímunni er að finna
í lítilli blokk sem Steinn krotaði sitt-
hvað í úr Sovétferðinni:
Þá mun til einnar áttar
útréttast limur hver,
þegar Hallgrímur háttar
hana sem með oss er.
Hallgrímur, sá herjans kall,
holdsins syngur messu.
Séð hef ég margra syndafall,
en samt er ég hissa á þessu.
Vinirnir Hannes Sigfússon og Steinn
Steinarr. Myndin er tekin í Kaup-
mannahöfn 1947.
Steinn og Ásthildur Björnsdóttir um það leyti sem þau
giftu sig 1948.
Steinn var einn af hagyrðingum Sveins Ásgeirssonar í hinum vinsælu útvarps-
þáttum Já eða nei. Hér er hópurinn á leið til Kaupmannahafnar, en þar var einn
af bestu þáttunum tekinn upp. Talið frá vinstri: Sveinn, Helgi Sæmundsson,
Guðmundur Sigurðsson, Steinn og Karl Ísfeld.
Ein af síðustu myndunum sem tekin var af Steini Steinarr. Matthías Johann-
essen situr við rúm skáldsins á heimili hans við Sléttuveg í Fossvogi. Ragnar í
Smára tók myndina.
Olíumálverk af Steini Steinarr eftir
Þorvald Skúlason, gert 1943. Eigandi:
Þorvaldssafn, Listasafni Háskóla
Íslands.
Svipmynd af herbergisfélögunum Steini og Agnari Þórð-
arsyni rithöfundi í Sovétförinni frægu.
Bókin Leit að ævi skálds er síðari hluti
ævisögu Steins Steinars. Höfundur er
Gylfi Gröndal. Bókin er gefin út af JPV-
útgáfu og er 351 bls. að lengd.