Morgunblaðið - 16.02.2002, Síða 44
SKOÐUN
44 LAUGARDAGUR 16. FEBRÚAR 2002 MORGUNBLAÐIÐ
FYRIR nokkrum árum varð ís-
lenska þjóðarsálin fyrir alvarlegu
áfalli. Þær fréttir bárust frá Ameríku
að þar hefði Íslendingur unnið millj-
arða í lottói. Síðar kom í ljós að frétt-
in byggðist á misskilningi – og Ís-
lendingar gátu tekið gleði sína á ný.
Íslendingar ætluðu að rifna af
stolti þegar Björk skaut upp á
stjörnuhimininn. Í kjölfarið birtust
fréttir af himinháum tekjum stúlk-
unnar. Þá fór í verra.
Það voru ótrúleg og gleðileg tíð-
indi þegar fréttist af íslenskum lækni
í Ameríku sem boðaði stofnun alþjóð-
legs stórfyrirtækis á Íslandi um
erfðarannsóknir. Þetta var hrein
bylting í atvinnulífi þjóðar sem hafði
sett saltfiskinn í skjaldarmerki sitt.
Þegar hlutabréf fyrirtækisins fóru í
áður óþekktar fjárhæðir, á íslenska
vísu, var friðurinn úti.
Útgerð hafði um áratugaskeið ver-
ið að sliga íslensk sveitafélög og fyr-
irtæki. Ungir athafnamenn á Akur-
eyri keyptu ryðgaðan og langstaðinn
togara frá Hafnarfirði fyrir lítið. Það
varð upphafið að stórveldi þeirra
Samherjafrænda. Þarna voru komn-
ir vaskir menn sem kunnu til verka.
Að því kom að einn þeirra seldi sinn
hlut. Þjóðin urraði af vandlætingu.
Fyrir tæpum 15 árum fékk fullorð-
inn verslunarstjóri reisupassann eft-
ir áratuga farsælt starf hjá lands-
kunnu fyrirtæki þegar það hætti í
smásöluverslun. Störfin lágu ekki á
lausu fyrir þennan „eldri borgara“
svo hann fékk fjölskylduna í lið með
sér til að opna einfalda matvöruversl-
un með lágri álagningu. En það var
lítið til af peningum. Vörubirgjar,
sem þekktu gamla verslunarstjórann
að góðu einu, samþykktu að lána
honum eina afgreiðslu gegn því að fá
þá næstu staðgreidda. Viðskiptavinir
kepptust við að kaupa inn til heimilis-
ins á lægra verði en nokkru sinni.
Það var ekki sami munaður og áður
að reka heimili á Íslandi. Keppinaut-
arnir reiknuðu út „tap“ þeirra feðga
og töldu dagana þar til lokað yrði.
Smám saman varð ljóst að þeim feðg-
um hafði beinlínis tekist að græða á
því að selja ódýrt. Og þá styttist nú í
að þeir „Bónusfeðgar“ fengju að vita
hvar Davíð keypti ölið.
Martröð verður að ævintýri
Mig langar að fara með lesendum
aftur til ársins 1990. Á því ári birtist
viðtal í tímaritinu Þjóðlífi við einn af
okkur virtustu hagfræðiprófessorum
við Háskóla Íslands, Þráin Eggerts-
son. Þar sagði hann m.a.: „Það eru
töluverðar líkur á því að um næstu
aldamót verði Ísland eitt fátækasta
ríki Evrópu og þótt víðar væri leit-
að.“ Samkvæmt opinberum skýrsl-
um var Ísland um aldamótin í hópi
auðugustu þjóða heims. Nánar til-
tekið 5. ríkasta þjóðin í Evrópu (pr.
íbúa) og sú 7. ríkasta í heiminum öll-
um. Hvað gerðist? Hvað breyttist?
Stiklum á stóru:
Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hef-
ur haldið styrkri hönd um stjórnvöl-
inn. Hún hefur skapað fyrirtækjum
þau skilyrði sem þurfa að vera fyrir
hendi til að þau nái að blómstra.
Við fengum ábyrga leiðtoga í
verkalýðshreyfingu og samtökum at-
vinnurekenda sem fundu leið til
samninga.
Við fengum Samherjafrændur og
fleiri slíka í sjávarútveginn.
Bónusfeðgarnir komu fram á sjón-
arsviðið, eins og áður segir. Þeir
sameinuðust Hagkaup og mynduðu
keðju matvöruverslana sem unnu að
lækkuðu vöruverði.
Innflutningsfyrirtæki hafa sam-
einast og um leið náð stóraukinni
hagræðingu í innflutningi, sbr. Danól
og fleiri.
Bolli og Svava í Sautján hafa með
stórhug og útsjónarsemi unnið stór-
virki í að færa verðlag á innfluttum
fatnaði niður í „Glasgow-verð“.
Það hefur verið innleidd frjáls
samkeppni í lyfjaverslun sem hefur
leitt til stórfelldra verðlækkana á
lyfjum. Björgólfur Guðmundsson og
sonur hans Björgólfur Thor, hafa náð
glæsilegum árangri á
alþjóðlegum markaði á
sviði lyfjaframleiðslu.
Áður höfðu þeir nánast
hrökklast úr landi eftir
minnisstæðar trakter-
ingar íslenskra stjórn-
málamanna, fjölmiðla
og samkeppnisaðila
Hafskips. Þeir eignuð-
ust gosdrykkjaverk-
smiðjuna Sanitas í
stuttan tíma og seldu
Ölgerðinni, án véla.
Þeir voru skuldbundnir
til að henda vélunum –
eða selja þær úr landi!
Þeir fóru með vélarnar
til Rússlands og með þeim lögðu þeir
grunninn að því viðskiptaveldi sem
nú hefur verið selt Heineken-verk-
smiðjunum fyrir dágóðan skilding.
Það er kátlegt að hugsa til þess að
fyrir söluverðið gætu þeir feðgar
keypt öll fyrirtæki „Kolkrabbans“
sem á sínum tíma kokgleypti Haf-
skip. Já, og nokkur af öðrum stærstu
fyrirtækjum landsins í leiðinni. Og
eiga ennþá eftir alla lyfjasamstæð-
una!
Össur hefur á undraskömmum
tíma orðið leiðandi fyrirtæki í heim-
inum í hönnun og framleiðslu gervi-
lima og stoðtækja. Með framleiðslu
sinni hefur Össuri tekist að bæta líf
milljóna manna og hagur hluthaf-
anna hefur heldur ekki orðið útund-
an.
Svipaða sögu er að segja af mörg-
um íslenskum fyrirtækjum, eins og
t.d. Bakkavör, Marel, Þyrpingu, Ís-
landsbanka og Kaupþingi, en öll eru
þau í fremstu röð fyrirtækja á sínu
sviði í heiminum.
Unga fólkið
Í öllum þessum fyrirtækjum, sem
og tugum annarra íslenskra fyrir-
tækja, hefur verið innleiddur nú-
tímalegur rekstur af hæfum stjórn-
endum og vel menntuðu ungu fólki.
Unga fólkið hefur innleitt nýja og
gagnrýna hugsun í stjórnun fyrir-
tækja. Það hefur tileinkað sér alþjóð-
lega hugsun og vinnubrögð. Að
græða er ekki lengur glæpur heldur
skylda stjórnenda gagnvart hluthöf-
um. Lækkun vöruverðs með lækkun
tilkostnaðar er leið til aukinnar veltu
og aukins hagnaðar. Það hefur tekist
að sameina reynslu þeirra eldri og
menntun hinna yngri. Aukið frjáls-
ræði í verslun og viðskiptum hefur
gjörbreytt öllu starfsumhverfi at-
vinnurekstrar á Íslandi.
Frjáls verslun – hvenær?
Við teljum að verslun á Íslandi hafi
verið gefin frjáls 1. apríl árið 1855.
En þó verslun væri gefin frjáls vor-
um við áfram afar fá og smá. Við
guldum fyrir smæð okkar í viðskipt-
um úti í hinum stóra heimi.
Til skamms tíma fór töluverður
hluti innflutnings okkar í gegnum
danskar heildsölur sem voru með
„umboð“ fyrir Ísland, Grænland og
Færeyjar. Ótrúlegir þessir Danir.
Það leika ekki margir að verða ríkir
án auðlinda. Þessi milliganga Dana
kostaði íslenska neytendur verulegar
fjárhæðir. Það var ekki óalgengt að
varan hækkaði um 25% „í hafi“ sem
fóru í að bæta danskan efnahag en
ekki íslenskan.
Þá höfðu stjórnvöld ofurtrú á af-
skiptum ríkisvaldsins af „frjálsri“
verslun. Fyrirtækjum var skömmtuð
fastákveðin álagningarprósenta.
Stjórnvöld sáu ekki fram fyrir nef
sér í hagsmunagæslu fyrir neytend-
ur. Það var lítill akkur í því fyrir fyr-
irtækin að afla ódýrrar vöru þegar
álagningin var lögboðin prósenta.
Íslendingar féflettir
Sú var tíðin að erlendir framleið-
endur gátu verðlagt vörur sínar til
Íslands nánast að eigin geðþótta.
Sum lönd og fyrirtæki nutu ein-
hverra hluta vegna betri kjara en
önnur. Alræmt er dæmið af Levı́s
gallabuxunum þar sem upplýst var í
fjölmiðlum að Íslendingar væru látn-
ir greiða tvöfalt-þrefalt
það verð sem banda-
rískir kaupendur þurftu
að greiða. Og það voru
svo sannarlega ekki að-
eins gallabuxur sem
komu hingað á upp-
sprengdu verði. Svo
annað dæmi sé tekið af
handahófi þá er ekki
langt síðan Gillette rak-
vélablöð voru margfalt
dýrari á Íslandi en í
Englandi. Fjölmargar
tegundir matvöru og
annarra heimilisnauð-
synja hafa lækkað um
ævintýralegar fjárhæð-
ir á síðustu árum vegna vægðar-
lausrar samkeppni og mikillar elju
íslenskra innflytjenda.
Sameining Bónuss og Hagkaups
fyrir 10 árum leiddi til aukinna
magninnkaupa. Þeir sniðgengu iðu-
lega íslenska heildsala þegar hægt
var að kaupa vörur beint að utan á
lægra verði en íslenskir heildsalar
gátu boðið upp á. Þegar menn báru
bækur sínar saman sáu íslensku
heildsalarnir að Bónus og Hagkaup
voru að fá vöruna á kannski 20–30%
lægra verði en þeim sjálfum stóð til
boða. Þeir tóku að sjálfsögðu næstu
flugvél út, hittu sína umbjóðendur og
lögðu spilin á borðið. Verðið var
„leiðrétt“ á stundinni. Auðvitað kost-
ar það mikinn slag að standa í frjálsri
samkeppni en svona ganga nú hlut-
irnir fyrir sig. Með þessari linnu-
lausu baráttu íslenskra fyrirtækja, í
heilsölu og smásölu, hefur smám
saman tekist að jafna að hluta þau
kjör sem Íslendingum standa til boða
við það sem tíðkast hjá stærri þjóð-
um.
Niðurgreiðsla á
landbúnaðarvörum
Í umræðunni hafa oft verið teknar
út einstakar vörutegundir og gert
mikið úr því að verslanir Baugs láti
neytendur ekki njóta góðs af hag-
stæðum vöruinnkaupum. Lögð hafa
verið fram gögn sem sýna, svo ekki
verður um villst, að meðalálagning
verslana Baugs er sambærileg við
það sem gerist hjá þeim verslunum
erlendis sem hvað bestum árangri
hafa náð. Og að sjálfsögðu er það að-
alatriðið en ekki hvernig álagningu á
hverri einstakri vöru er hagað. Það
er t.d. ekkert leyndarmál að verslun
stórmarkaðanna með ferskar kjöt-
vörur er beinlínis rekin með tapi
vegna mikillar rýrnunar. Spurður
um afkomu kjötborðsins, sagði einn
talsmaður þekktrar matvörukeðju
með mikla áherslu á gott kjötborð, að
menn þar á bæ „vildu ekki vita það“.
Til að standast samkeppni verða fyr-
irtækin að hafa ferskar kjötvörur á
boðstólum en það er engu að síður
verið að niðurgreiða verð þeirra með
annarri sölu.
Hlutur ríkisins
Það er oft gerður samanburður á
verðlagi á Íslandi og í nágrannalönd-
unum og íslenskri verslun kennt um
það sem á okkur hallar. Tvö atriði
skekkja þennan samanburð verulega
fyrir utan flutningsgjöldin sem ætíð
munu verða okkur íþyngjandi. Í
fyrsta lagi er verðlag landbúnaðar-
vara mjög stór liður í matarkörfu
heimilanna. Íslenskar landbúnaðar-
vörur eru góðar en átakanlega dýrar
miðað við það sem gerist erlendis. Og
að skilgreina svína- og kjúklingaeldi í
stórum skemmum sem landbúnað
hefur þann eina sýnilega tilgang að
halda uppi verði á lambakjöti. Fjöl-
margir, algengir vöruflokkar í mat-
arkörfu heimilanna eru hressilega
tollaðir af ríkissjóði: Kaffi, te, sykur,
kartöfluflögur, franskar kartöflur,
kex, súkkulaði, frosnir tilbúnir réttir
og ís. Allt eru þetta vöruflokkar sem
bera há vörugjöld og tolla, auk virð-
isaukaskattsins. Þannig nema t.d.
beinir tollar ríkisins af hverjum lítra
af innfluttum ís lítið lægri fjárhæð en
íslensku fyrirtækin eru að fá alls fyr-
ir sína framleiðslu.
Þetta heitir að sjá flísina í auga
náungans en ekki bjálkann í eigin
auga.
Dvergur eða risi
Með sameiningu Hagkaups og
Bónuss árið 1992 fannst mörgum
vera orðinn til íslenskur risi í vöru-
innkaupum – en íslenski risinn er
dvergur á alþjóðamarkaði. Með milli-
liðalausum innkaupum og öðrum
þrýstingi á vörubirgja fékkst veruleg
lækkun á verði. Reikningar Baugs
sýna að þegar á heildina er litið þá
skilar þetta lækkaða verð sér beint í
vasa neytenda.
Með miklum uppgangi Bónuss og
Hagkaups þótti mörgum sem tæki-
færin blöstu við í verslun með mat-
vöru. Við munum Miklagarð og við
munum Grundarkjör. Og þeir voru
fleiri sem freistuðu gæfunnar. Það
hrikti í stoðum innflytjenda og iðn-
rekenda þegar þessar stóru verslanir
fóru hver af annarri á hausinn.
Hundruð milljóna, ef ekki milljarðar,
glötuðust í gjaldþrotum matvöru-
verslana á fáum árum. Skellurinn
lenti að mestu á íslenskum innflytj-
endum og framleiðendum. Það tók
fyrirtækin mörg ár að ná sér á strik
að nýju, þ.e. þau sem náðu að þrauka.
Haustið 1998 kom kaupfélagsarm-
urinn með sitt útspil í harðri sam-
keppni um neytendur á höfuðborg-
arsvæðinu þegar KEA opnaði Nettó í
Mjóddinni. Eins og við mátti búast í
því stríði fór álagningin niður að ýtr-
ustu sársaukamörkum – og sennilega
gott betur. Það gleymdist að huga að
afkomu fyrirtækjanna. Frjáls versl-
un tryggir neytendum bestu afkomu
– en hún þarf eðlilega um leið að
tryggja eigin afkomu. Það er greini-
legt að í umræðu síðustu vikna og
mánaða er oft verið að bera saman
verðlag mismunandi tímabila, þ.e.
annarsvegar þegar verðstríð hefur
geisað og hinsvegar í eðlilegu ástandi
þegar menn þurfa að horfa til beggja
handa.
Það eru mikil átök og sviptingar
sem fylgja frjálsum viðskiptum. Það
sama má segja um allar framfarir og
þróun. Það er eðlilegt að sakna kaup-
mannsins á horninu. En hann var
einfaldlega barn síns tíma. Rétt eins
og iðnaðarfyrirtækið sem ég vann við
með skólanum. Það flutti inn brill-
íantín í tunnum og eldri kona mokaði
því í krukkur. Þetta kallaðist iðnaður
og naut mikillar tollaverndar. Það
var að sjálfsögðu ekkert vit í þessu
frekar en svo mörgu öðru sem þá var
gert.
Fyrirtækjum þarf að vegna vel
Enskt orðtak hljóðar svo: It costs
money to make money. Þegar til
lengdar lætur verða fyrirtæki að
hafa fjárhagslegan styrk til að
standa sig í stykkinu. Þau verða að
geta borgað góðu fólki gott kaup.
Þau þurfa að halda úti sérhæfðu fólki
í vöruinnkaupum sem hefur vakandi
auga á hverjum fingri. Þau verða að
geta keypt vörur í miklu magni til að
njóta bestu kjara í innkaupum. Þau
þurfa að geta staðið af sér sveiflur í
efnahagslífinu. Af miklu skeytingar-
leysi og ósanngirni hefur spjótum
verið beint að Baugi. Reikningar fyr-
irtækisins, sem öllum eru opnir, sýna
þó svo ekki verður um villst að fyr-
irtækið er vel rekið af frábæru
starfsliði og þjónar neytendum vel.
Afkoman af matvörunni er í lægstu
mörkum. Við, litlu guttarnir, fengum
ákúrur í sveitinni í gamla daga ef við
vorum að eltast við hænurnar. Þá
datt niður varpið. Sama var ef við
vorum að atast í kúnum, þá fór úr
þeim nytin. Íslenskir neytendur
hljóta að vænta þess að stjórnmála-
menn hætti að atast í þessari gull-
hænu íslenskra heimila. Við megum
ekki við því að hún hætti að verpa.
Uppskrift að lækkun
vísitölunnar
Nú stendur íslensk þjóð í heilögu
stríði við verðbólguna. Það er ljóst af
umræðu síðustu vikna að nú þykja
góð ráð dýr. Mig langar að gefa les-
endum einfalda uppskrift að því
hvernig hægt er að lækka neysluvísi-
töluna um heil 2,6%. Með slíkri lækk-
un vísitölunnar lækkum við (verð-
tryggðar) heildarskuldir heimilanna
og fyrirtækjanna í landinu um hátt á
þriðja tug milljarða. Um leið lækkum
við vaxtagjöld sömu aðila um röska
tvo milljarða á ári.
Uppskriftin er þessi:
Verslum öll í Bónus!
Rökin eru þessi: Verðlag matvöru
er u.þ.b. 17% af neysluvísitölunni.
Verðlagið í Bónus er u.þ.b. 15% fyrir
neðan „vísitöluverðlagið“ á matvöru.
Það hefur verið tregða hjá Hagstof-
unni að taka verðlagið í Bónus sem
viðmið við vísitöluútreikninga. Þeir
segja að þar sé þjónustustigið lægra!
Ef þjóðin öll kaupir matvöru hjá
Bónus þá ætti að vera sjálfgert og
eðlilegt að lækka vísitöluna um 2,6%.
Nú kynni einhver að malda í móinn
og spyrja hvað verði þá um allar aðr-
ar matvöruverslanir. Við ættum ekki
að þurfa að hafa áhyggjur af því frek-
ar en af kaupmanninum á horninu
áður fyrr.
Nú er það að sjálfsögðu réttur
hvers og eins að versla þar sem hon-
um þykir henta. En í ljósi mikillar
umræðu um stöðu matvöruverslunar
á Íslandi og stór orð ráðamanna um
fákeppni er ekki úr vegi að á það sé
bent hvað neytendur geta í raun og
sann haft mikil áhrif á vísitöluna með
innkaupum sínum. Ég er enginn aug-
lýsingastjóri hjá Bónus en stundum
velti ég því fyrir mér hversvegna fólk
kaupir matvöru á 10.000 (jafnvel
11.000) krónur sem það getur fengið
á 8.500 krónur í Bónus.
Frjáls verslun svínvirkar
Mér kemur í hug saga: Prestur
gekk framhjá manni sem bölvandi og
ragnandi reyndi árangurslaust að
„snúa“ bílnum sínum í gang. Prest-
inum blöskraði talsmátinn og stakk
upp á að maðurinn reyndi nú að snúa
bílnum í gang „í Guðs nafni“. Mað-
urinn kvaðst skyldu reyna og sneri
sveifinni aftur „í Guðs nafni“. Bíllinn
hrökk í gang á fyrsta snúningi. „Nei,
hver djö…“ hrökk þá upp úr presti.
Sjálfstæðisflokkurinn boðar lausnir
einkaframtaksins og frjálsrar sam-
keppni – en formaðurinn virðist samt
ekki trúa sjálfur á þessar lausnir. En
mig langar að fullvissa Davíð um að
boðskapurinn svínvirkar! Mér finnst
reyndar að af mörgum góðum séu
Davíð og Bónus/Baugur maður og
fyrirtæki síðasta áratugar. Við meg-
um hvorugt missa og bæði eiga hinu
margt gott að launa. Aðeins hefur
hvarflað að mér að þessar uppákom-
ur Davíðs gagnvart Baugi séu útspil
foringja sem vill „hafa aga á hernum“
eins og hann komst sjálfur eitt sinn
að orði. En það réttlætir ekki högg
undir beltisstað.
Frjáls verslun þarf ekki á stjórn-
málamönnum að halda – aðeins að
hafa frið fyrir þeim. Hún þarf hins-
vegar viðskiptavini og það eru þeir
sem stjórna því með daglegum inn-
kaupum sínum hverjum vegnar best.
Og í lokin skal talinn einn ómetanleg-
ur kostur þess að vera frjáls og óháð-
ur: Þá ráða menn með hverjum þeir
borða í hádeginu!
Hvergi betra að búa
Sem fullorðinn fjölskyldufaðir
hlaut ég að velta því fyrir mér árið
1990 (þegar aðvörunarorð prófess-
orsins birtust) hver framtíð biði
barna minna og barnabarna í þessu
volaða landi sem virtist ganga allt í
móti. En hvílík viðbrigði á röskum 10
árum. Og það erum við sjálf sem eig-
um allan heiður skilið: Íslenskur al-
menningur, íslenskir atvinnurekend-
ur, íslensk stjórnvöld. Það er
vanþakklæti að segja annað en að líf-
ið leiki við okkur. Það er hvergi betra
að búa en á Íslandi.
ÁRATUGUR Í LÍFI ÞJÓÐAR
Ragnar Tómasson
Frjáls verslun þarf ekki
á stjórnmálamönnum að
halda, segir Ragnar
Tómasson, aðeins að
hafa frið fyrir þeim.
Höfundur er lögmaður.