Morgunblaðið - 28.03.2002, Side 8

Morgunblaðið - 28.03.2002, Side 8
8 D FIMMTUDAGUR 28. MARS 2002 MORGUNBLAÐIÐ Á FYRRI hluta síðustualdar var William Rand-olph Hearst án efasterkasta aflið í fjöl-miðlaheiminum, aðal- lega vegna útgáfu fjölda dagblaða og tímarita, en síðar einnig í framleiðslu kvikmynda og rekstri útvarps- og sjónvarpsstöðva. Sem sonur millj- ónamærings og fyrrverandi þing- manns beitti blaðakóngurinn þessu afli sínu ekki síst á sviði stjórnmála, og taldi sig hafa haft afgerandi áhrif við val tveggja forseta Bandaríkj- anna, fyrst Theodore Roosevelt, og síðar Franklin D. Roosevelt. Hann er almennt talinn upphafsmaður svo- nefndrar gulrar fréttamennsku. Þá var kvikmyndin Citizen Kane með Orson Wells í aðalhlutverki, sem margir telja bestu kvikmynd allra tíma, að hluta byggð á lífi hans. Hann fæddist í Kaliforníu 1863 og lést þar háaldraður 1951. Í hinni mögnuðu bók sinni Höll minninganna segir Ólafur Jóhann Ólafsson sögu manns, sem yfirgaf fjölskyldu sína og fyrirtæki á Ís- landi, og gerðist á árunum 1921-1937 einkaþjónn bandaríska blaðakóngs- ins William Randolph Hearst (1863- 1951), og þá fyrst og fremst í „kast- ala“ hans í San Simeon, Kaliforníu. Þar er þess getið, að skammt frá kastalanum var rekinn sérstakur flugvöllur Hearsts, en hann var m.a. nýttur við flutning kvikmynda- stjarna eða annarra gesta, þegar blaðakóngurinn og sambýliskona hans, Marion Davis (1897-1961), héldu sínar frægu veislur. Þá var einnig flogið daglega til flugvallarins með eintök þeirra dag- blaða, sem Hearst þá gaf út, þannig að honum gæfist kostur að glugga í þau og gagnrýna. Flugvöllurinn var meðal þeirra fyrstu í Bandaríkjun- um, sem bauð upp á blindaðflug- skerfi. Meðal frægra flugmanna þess tíma, sem heimsóttu hann, voru Amelia Erhart, Charles Lindbergh og Howard Hughes. Þess er að geta að flugvöllurinn er enn í eigu Hearst Corporation og afkomenda blaða- kóngsins, og er aðeins opinn fyrir einkaafnot þeirra. Við lestur bókarinnar minntist ég jólafrís í lok desember 1993 og byrj- un janúar 1994, þegar við fjölskyldan dvöldust í St. Petersburg, Florída. Þá tók ég eftir því að rauð og hávær tvíþekja flaug þar af og til yfir ströndinni, – og síðar rakst ég á litla auglýsingu um hana við inngang matvörubúðar. Þar kom fram að um væri að ræða Waco flugvél, sem leigð væri til útsýnisflugs frá Albert Whitted-flugvellinum við Tampa-fló- ann. Á þessum tíma hafði ég starfað að flugmálum á fjórða áratug, og þrátt fyrir að hafa ekki sérstaklega lagt mig eftir „söfnun“ mismunandi gerða loftfara, hafði ég þá þegar flogið í samtals 133 tegundum. Þar af voru 102 mismunandi gerðir flug- véla, 26 svifflugur, fjórar þyrlur og einn heitaloftsbelgur. Í þessu safni voru aðeins tvær tvíþekjur, og báðar tveggja-hreyfla. Í þeirri fyrri, De- Havilland „Dragon-Rapide“, hafði ég flogið árið 1962, en hinni síðari, Scottish Aviation „Twin-Pioneer“ flugvél Björns Pálssonar, TF-LOA, árið 1964. Hún var sérstaklega gerð fyrir flug um stuttar flugbrautir, og hafði sæti fyrir 16 farþega og tvo flugmenn. Í flugi frá Vestmannaeyj- um til Reykjavíkur hafði Björn leyft mér að stýra henni mestan hluta leiðarinnar. Ég hafði því aldrei flogið í lítilli eins-hreyfils tvíþekju, og fannst því áhugavert að geta prófað slíkt. Meg- inatriðið var hins vegar það, að hér var um að ræða Waco-tvíþekju, svip- aða þeirri, sem Flugfélag Akureyrar pantaði árið 1937. Ég hafði um 18 ára skeið starfað náið með Agnari Kof- oed-Hansen flugmálastjóra og heyrt margt athyglisvert frá honum um þá flugvél. Það var einmitt Agnar, sem árið 1937 átti frumkvæði að stofnun Flugfélags Akureyrar og pöntun nýrrar Waco flugvélar. Hann hafði áður kynnst þessari flugvélagerð hjá Wideröe flugfélaginu í Noregi, en þeir Wideröe bræður, Arild og Viggo, höfðu jafnframt Evrópuum- boðið fyrir Waco. Waco-flugvélar Waco-flugvélaverksmiðjan í Troy, Ohio, var stofnuð af flugáhugamönn- um árið 1920. Nafnið var í reynd upphaflega skammstöfun úr Weaver Aircraft Company, nefnt í höfuðið á George „Buck“ Weaver, sem var þekktur flugmaður þeirra ára, og fyrstu tvö árin meðeigandi verk- smiðjunnar. Fyrsta tvíþekja þeirra kom fram árið 1923, og fram til stríðsbyrjunar 1939 var þessi verk- smiðja talin leiðandi í smíði slíkra flugvéla. Á stríðsárunum hannaði hún hins vegar og framleiddi CG-4 „Hadrian“ hersvifflugur, en hver þeirra gat auk tveggja flugmanna flutt á vígvöllinn 13 hermenn og búnað þeirra, eða jeppa með fallbyssukerru. Þessar flutningasvifflugur gegndu því í síð- ari heimsstyrjöldinni svipuðu hlut- verki og nú er sinnt af stærri her- þyrlum. Samtals voru framleiddar um 14.000 slíkar Waco svifflugur, þar af 1.074 hjá Waco, en hinar hjá 15 öðrum verksmiðjum. Meðal þeirra var Ford, sem smíðaði sam- tals 4.190, og Boeing, sem framleiddi 750 í verksmiðju sinni í Wichita sem undirverktaki Cessna. Hver slík sviffluga kostaði að meðaltali um $25.000. Í stríðslok átti Waco aðeins til- búna hönnun einnar nýrrar flugvél- ar, „Aristocraft“, sem var háþekja smíðuð úr málmi. Hún reyndist hins vegar ekki samkeppnisfær við aðrar nýjar og betri gerðir svo sem Beech- craft Bonanza og Ryan Navion. Waco hætti því alfarið smíði flugvéla árið 1946. Waco á Íslandi Fyrsta Waco flugvél Flugfélags Íslands var af gerðinni YKS-7, rað- númer hennar var 4.683, og fyrsta reynsluflug og afgreiðsludagur 6. desember 1937. Eftir flutninginn til Íslands í þremur stórum kössum, var hún sett saman af þeim Birni Ol- sen og Gunnari Jónassyni, sem höfðu áður starfað sem flugvirkjar hjá Flugfélagi Íslands nr. 2 (1928-1931). Þeir höfðu haustið áður farið til Nor- egs til að kynna sér viðhald þessarar gerðar, og hreyfils hennar, sem var af gerðinni Jacobs L-4, 225 hestöfl. Flugvélin fékk hér skráningar- stafina TF-ÖRN. Fyrsta reynsluflug hennar á Íslandi var 29. apríl 1938, og þremur dögum síðar, 2. maí, var flogið til Akureyrar með póst. Þann 4. maí fór hún síðan í fyrsta áætl- unarflug sitt milli Reykjavíkur og Akureyrar. Þá átta mánuði ársins 1938, sem flugvélin var í rekstri, flutti hún samtals 750 farþega í 358 flugum, eða að meðaltali um tvo farþega í hverju flugi. Til Akureyrar var flogið 60 sinnum, og til Siglufjarðar 61 sinni. TF-ÖRN var fyrstu tvö árin á flot- holtum, enda hér lítið um nothæfa lending- arstaði á landi, en frá 9. júlí 1940 var hún á hjólum. Hún skemmdist töluvert í þremur slysum á ár- unum 1940 og 1941, en gereyðilagðist síð- an í misheppnuðu flugtaki 14. apríl 1942. Rekstrartími hennar hér á landi var því ekki nema tæp fjögur ár. Í mars 1940 ákvað bæjarstjórn Reykja- víkur að framtíðar- flugvöllur Reykjavík- ur skuli vera í Vatnsmýrinni, – og í sama mánuði ákvað stjórn Flugfélags Ak- ureyrar að breyta nafni félagsins í Flug- félag Íslands, og höf- uðstöðvar þess yrðu fluttar til Reykjavík- ur. Nokkru áður hafði stjórn flugfélagsins ákveðið að panta aðra nýja Waco tví- þekju, og flaug Örn Ó. Johnson henni fyrsta reynsluflugið hér á landi 6. júlí 1940. Hún var af gerðinni ZKS-7 og hafði raðnúmerið 5.237. Hér fékk hún skráningarstafinu TF- SGL, og nefnd Haförninn. Rekstr- artími hennar hér á landi varð enn styttri en þeirrar fyrri, eða ekki nema um þrjú og hálft ár, því hún stórskemmdist í flugtaki í Horna- fjarðarósi 3. desember 1943, og flaug ekki eftir það. Að lokum er þess að geta að vet- urinn 1979-1980 gekkst Íslenska flugsögufélagið fyrir fjársöfnun til kaupa á Waco flugvél. Fyrir valinu varð flugvél af gerðinni YKS-6 með raðnúmer 4.505, upphaflega smíðuð árið 1936 fyrir Western Flying Serv- ice í Denver, en hafði síðar verið end- urbyggð af Ted Trevor árið 1973. Hún kom til Íslands vorið 1980, og er nú í gagngerri endurbyggingu áhugasamra félaga Flugsögufélags- ins, sem stefna að því að koma henni að nýju í flughæft ástand. Sögufræg Waco Eftir þetta stutta innlegg um sögu Waco flugvéla á Íslandi er rétt að víkja aftur til dvalarinnar í Florida, – og er nú komið að brottför okkar frá St. Petersburg. Var ákveðið að líta við á Albert Whitted flugvelli, og kanna hvort hægt yrði að fara í flug á rauðu Waco tvíþekjunni. Þegar þangað var komið, blasti flugvélin við á afmörkuði stæði, en eigandi hennar og flugmaður, Tom Hurley, hafði þar aðstöðu í húsvagni. Um var að ræða fjögurra-sæta Waco tvíþekju af gerðinni UIC, sem hafði verið smíðuð árið 1933 fyrir Piedmont Land & Cattle Co., San Simeon, Kaliforníu, – en það var fyr- irtæki í eigu blaðakóngsins William Randolph Hearst. Á kynningar- spjaldi Tom Hurleys stóð: „This aeroplane was originally owned by William Randolph Hearst and flew between the Hearst Castle at San Simeon and Old Mexico“. Hún bar enn sömu upphaflegu skráningar- stafina, NC13562. Listaverð hennar árið 1933 var $5.985. Ég ákvað að óska eftir hálftíma flugi með Tom, og bauð með mér í það Kristjáni Magnússyni tengda- föður og Magnúsi syni mínum, sem þá var tæplega 11 ára. Tom spurði hvort ég kynni að fljúga, og ég svar- aði til að ég ætti skráða um 560 flug- tíma, en reyndar væri meiri hluti þeirra, eða um 360 klst., í svifflugi. Hann sagðist þá myndu sjá um flug- takið og lendinguna, en að öðru leyti mætti ég fljúga. Þessari flugvél virtist vera afskap- lega vel við haldið, og að öllu leyti með ekta Waco búnað að öðru leyti en því að bætt hafði verið í hana nýj- um fjarskiptatækjum. Aðeins eitt stýrishjól var í henni, og mér kom á óvart hversu stórt það var, þ.e. líkara því sem þá tíðkaðist í bílum. Reynd- ar var þarna ýmislegt annað, sem minnti meira á hönnun bíla en flug- véla, var t.d. hægt að skrúfa niður hliðarrúðurnar með sveifum. Stýris- hjólið myndarlega var af svonefndri „throw-over“-gerð og því hægt að nota það við bæði flugmannssætin. Við gestirnir vorum nokkuð undr- andi yfir hinum mikla hávaða í flug- klefanum þegar 210 hestafla Cont- inental R-670 hreyfillinn, sem þessi flugvél var búin, hafði verið ræstur. Eftir upphitun hans lögðum við af stað, og eftir flugtakið sveiflaði Tom stýrishjólinu yfir til mín, og beygði sig síðan niður til að fiska óvænt upp úr gólfinu mín megin annað sett af hliðarstýrispedölum! Fyrir utan há- vaðann var þetta flug mjög þægilegt í alla staði, og mér kom skemmtilega á óvart hversu lipur þessi flugvél var í beygjum og almennt í flugi okkar út að og yfir strönd St.Petersburg. Það rifjaðist þarna upp fyrir mér að við val Flugfélags Akureyrar á Waco tvíþekju árið 1937 hafði sér- stakt tillit verið tekið til þægilegra flugeiginleika, mjög lítils lendingar- hraða, og að þessi gerð gæti notast við tiltölulega stuttar og frumstæðar flugbrautir. Að flugi okkar loknu, og eftir að ég hafði sagt Tom sögu Waco flugvélanna tveggja á Íslandi árin 1938-1943, gaf hann mér áhugaverða bók „Waco, the Versatile Cabin Ser- ies“ (1981), þar sem skráð er saga þessara Waco flugvéla, þ.á m. fram- leiðsluskrár þeirra árin 1931-1942. Í einkaflugvél W.R. Hearst Fyrsta Waco-tvíþekjan, sem kom til Íslands, fyrir tilstilli Flugfélags Akureyrar 1937. Vélin var flutt til Íslands í þremur stórum kössum og síðan sett saman af þeim Birni Olsen og Gunnari Jónassyni, en hún gereyðilagðist í misheppnuðu flugtaki nokkrum árum síðar. Leifur Magnússon brá sér í flugferð með Waco-tvíþekju, sem verið hafði einka- flugvél blaðakóngsins William Randolph Hearst. Mjög vel varðveitt fyrrverandi einkaflugvél William Randolph Hearst á flugvelli í Flórída í janúar 1994. Að loknu fluginu. Leifur Magnússon, Magnús Leifsson og Kristján Magnússon með Tom Hurley, flugmanni og eiganda Waco UIC, NC13562. Loksins við stýrið á Waco-tvíþekju – og óvænt í fyrrverandi einkaflugvél W.R. Hearst. Mælaborðið í Waco UIC-tvíþekju, ár- gerð 1933. Höfundur er fv. framkvæmdastjóri hjá Flugleiðum hf.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.