Morgunblaðið - 08.05.2002, Síða 40
MINNINGAR
40 MIÐVIKUDAGUR 8. MAÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ
✝ Bjarni Sigur-steindórsson
fæddist í Reykjavík
11. nóvember 1917.
Hann lést á Landspít-
alanum við Hring-
braut 30. apríl síðast-
liðinn. Foreldrar
hans voru þau Sigríð-
ur Jónsdóttir, frá
Káragerði í V-Land-
eyjum, f. 20.6. 1878,
d. 14.7. 1969, og Sig-
ursteindór Eiríksson,
ættaður undan Eyja-
fjöllum, f. 4.7. 1886,
d. 12.8. 1958. Bróðir
Bjarna er Ástráður Sigurstein-
dórsson, f. 10.6. 1915. Kona hans
er Ingibjörg Jóelsdóttir. Börn
þeirra eru Valgeir, var kvæntur
Aðalheiði Hjartardóttur, d. 10.1.
1997, er nú kvæntur Emilíu B.
Möller, Sigurður,
kvæntur Guðnýju
Bjarnadóttur, og
Herdís, gift Þorvaldi
Sigurðssyni.
Bjarni starfaði
lengi við Haraldar-
búð og síðan Heild-
verslun Haraldar
Árnasonar. Íþrótta-
hreyfingunni var
hann tengdur frá
unga aldri og gerðist
starfsmaður við
Laugardalsvöll og
Laugardalshöll, þar
sem hann starfaði
um árabil. Hann var virkur fé-
lagsmaður í KR og heiðraður fyr-
ir störf sín þar.
Útför Bjarna verður gerð frá
Laugarneskirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 14.30.
Góður drengur er fallinn frá.
Bjarni á hjólinu eins og margir
þekktu hann er dáinn.
Ég kynntist Bjarna fyrst niðri í
Laugardal, bæði í Laugardalshöll og
á Laugardalsvellinum þar sem leiðir
okkar lágu saman. Þar var hann við
dyravörslu en ég að horfa á kapp-
leiki eða að fara á æfingu. Á þessum
árum kynntist ég konunni minni. Á
heimili hennar hitti ég Bjarna aftur.
Ég minnist þess er við hittumst
fyrst í Sigtúninu, báðir jafn undr-
andi. „Ert þú hér?“ sagði Bjarni.
Hann var mér mikill styrkur í fyrstu
fjölskylduboðunum. Við gátum alltaf
talað saman. Íþróttir voru þar efst á
baugi og körpuðum við oft um hvort
KR eða Fram væri betra félag, um-
kringdir KFUM fjölskyldunni þar
sem áhrifa sr. Friðriks og Vals gætti
mikið.
Bjarni var mikill KR-ingur og er
mér sagt að hann hafi fyrst sagt
áfram KR í fótbolta við bróður sinn
á Framnesveginum í gamla daga.
Eftir að Bjarni fór á eftirlaun
hjólaði hann oft við hjá mér í vinn-
una og þáði kaffi. Það brást aldrei að
þegar KR hafði unnið sigur var
hann mættur morguninn eftir með
hátíðarvindil sem reyktur var KR til
heiðurs. Hann var alltaf stoltur af
sínum mönnum.
Frá því að við Herdís bróðurdótt-
ir Bjarna fórum að búa var Bjarni
heimilisvinur hjá okkur. Alltaf var
gaman að fá Bjarna frænda í heim-
sókn. Oftast kom hann hjólandi og
ekki mátti nefna að sækja hann á
bíl, en eftir að hann hætti að geta
hjólað mátti ég koma og sækja hann.
Bjarni lenti í slæmu umferðar-
slysi fyrir nokkrum árum og náði
hann sér aldrei almennilega eftir
það. Hjólinu var lagt og löngum
tíma eytt á sjúkrahúsum. Hann
eignaðist notalegt heimili á Dal-
braut 27 þar sem hann bjó í um 3 ár.
Þar sá hann Laugardalsvöllinn út
um gluggann, hafði sjónvarpið sitt
hjá sér og fylgdist grannt með öllum
íþróttaviðburðum hérlendis sem er-
lendis. Ég er þess fullviss að Bjarni
væri enn hjólandi ef hann hefði ekki
lent í þessu slysi.
Bjarni hafði mjög fastar skoðanir
á flestum hlutum. Sjálfstæðismaður
var hann mikill alla tíð. Nokkrum
dögum fyrir andlátið var hann að
ræða um pólitík við manninn í næsta
rúmi. Skildi ekki af hverju sá ætlaði
að styðja R-listann.
Bjarni var trúaður maður og var
félagi í KFUM. Þar mættust einnig
okkar lífsskoðanir. Ég varð þeirrar
gæfu aðnjótandi að fá að taka þátt í
bænastund með Bjarna skömmu
fyrir andlátið og skynja þannig
traust hans til Drottins. Fyrir það er
ég þakklátur.
Fyrir kynni mín af Bjarna Sig-
ursteindórssyni vil ég þakka. Þar
fór góður drengur. Við Herdís þökk-
um honum langa og góða samfylgd.
Hann auðgaði líf okkar og við mun-
um sakna hans. Við tökum undir
með sr. Friðrik Friðrikssyni og ger-
um orð hans að okkar og Bjarna þar
sem hann segir:
Til himinssala mín liggur leið.
Þar ljúft er heima að búa
þar sorg er engin, ei synd né neyð
þar sé ég vinanna grúa.
Þar hlotnast gleðin sem hef ég mist
því heim mig langar að fara
þar hitti ég vin minn hinn hvíta Krist
og helgan útvaldra skara.
Þorvaldur Sigurðsson.
Hann Bjarni frændi okkar er dá-
inn. Nærvera hans hefur fylgt okkur
alla tíð. Bróðir hans afa, sem átti
heima í kjallaranum hjá afa og
ömmu í Sigtúninu. Aldrei haldin há-
tíð á heimili okkar án þess að Bjarni
væri þar með. Kom hann þá til okk-
ar á hjólinu sínu, en það var hans
samgöngutæki þar til hann lenti í
slysi fyrir um 5 árum þar sem keyrt
var á hann hjólandi á Sundlaugaveg-
inum. Náði hann sér aldrei almenni-
lega upp úr því.
Það fór ekki mikið fyrir Bjarna
frænda en hann hafði ákveðnar
skoðanir, var mjög fróður og fylgd-
ist vel með öllu. Við systur munum
eftir honum á Laugardalsvellinum
við hliðið og var gott að eiga hann að
þar. Íþróttaáhugi hans var ótak-
markaður. KR-ingur af lífi og sál og
reyndi hann að gera okkur öll að
KR-ingum. Í herbergi Davíðs Inga
hangir veggspjald sem Bjarni útbjó
og gaf honum, „saga ensku knatt-
spyrnunnar“ með merki allra
breskra liða ásamt staðsetningu
þeirra. Hann var líka sjálfstæðis-
maður af lífi og sál, og minnumst við
þess hversu mikilvægt var fyrir
hann að hlusta á forsætisráðherra
flytja áramótaræðu sína.
Bjarni var trúaður maður og var
hann afar þakklátur þegar beðið var
með honum og lesið úr Biblíunni. Nú
er þrautagöngu hans lokið og hann
hefur fundið frið á himnum þar sem
við munum hitta hann síðar.
Enginn þarfaað óttast síður
en guðs barna skarinn fríður,
fugl í laufi innsta eigi,
ekki stjarna á himinvegi
Svo er enda ógn og stríðin,
upp mun renna sigurtíðin,
oss þá kallar heim til hallar
himna Guð er lúður gjallar.
(Þýð. Friðrik Friðriksson.)
Ástríður Elsa, Theódóra og
Davíð Ingi Þorvaldsbörn.
Kveðja frá KR
Ætli Bjarni Sigursteindórsson sé
ekki farinn að hjóla um „Riddara-
garðinn í Nangijala“ eins og hann
gerði hér á jörðu. Allar sínar ferðir
fór hann á hjólinu sínu og mengaði
hvorki umhverfi né samskipti við
fólk því hann var kurteis maður.
Þessi ágæti KR-ingur fæddist í
Vesturbænum fyrir liðlega 80 árum
og gekk snemma í félagið. Hann
varð ekki þekktur sem mikill
íþróttamaður, heldur góður stuðn-
ingsmaður. Ungur fór Bjarni að
vinna hjá Verslun Haralds Árnason-
ar, en þar voru „jaxlarnir“ Kristján
L. Gestsson og Sigurður Halldórs-
son og hafa þeir örugglega gert
Bjarna að enn meiri KR-ing en hann
var í upphafi. Það var sama hvar
hann var á Melavellinum, en þar
vann hann síðar á lífsleiðinni, Laug-
ardalsvellinum, gervigrasinu í Laug-
ardal eða Íþróttahöllinni. Alstaðar
kom hann sér vel og var alltaf ein-
ægur KR-ingur sem fékk sér góða
vindla ef það unnust stórir sigrar
hjá félaginu.
Með Bjarna er horfinn góður vin-
ur okkar sem fékk gullmerki KR
fyrir störf sín. Aðstandendum eru
sendar samúðarkveðjur.
Kristinn Jónsson, formaður KR.
Hann Bjarni vinur minn og sam-
býlingur í Sigtúni 29 í yfir 20 ár var
frekar óvenjulegt eintak. Hann var
ekki allra og það áttu ekki allir upp
á pallborðið hjá honum.
Við Bjarni bjuggum í sama húsinu
alla mína æsku og fram yfir tuttugu
ára aldur og svo aftur í nokkra mán-
uði eftir að ég flutti í húsið að nýju
eftir þrettán ára viðveru í næsta
hverfi.
Okkur Bjarna varð vel til vina,
þótt vissulega sé hann ekki til frá-
sagnar um það lengur. Hann veifaði
til mín langar leiðir þar sem hann
fór upp eða niður götuna okkar á
hjólinu sínu, sem var eins og hluti af
honum. Það hvarflaði að manni í
æsku að hann hefði fæðst á hjólinu.
Svo mikill hluti af honum var hjólið
hans. Eldri maður á hjóli um Laug-
arneshverfið. Hlý minning um sér-
stakan mann, litríka, en samt afar
hljóða persónu sem fór sínar leiðir.
Hann var dyntóttur og blandaði
ekki geði nema við þá sem honum
líkaði.
Oft tókum við spjall saman og var
þá aðallega rætt um fótbolta eða
handbolta. Bjarni var inni í öllu er
viðkom þeim íþróttagreinum. Það
var því gott fyrir ungan áhugamann
um fótbolta og handbolta að fá að
ræða við einhvern, sem skildi mann,
um mál er tengdust íþróttafélögun-
um, einstökum leikmönnum, úrslit-
um leikja eða stöðunni í deildinni,
hvort KR ætti einhverja möguleika
og svo framvegis. Meiri og einlægari
KR-ingur var ekki til og veit ég að
þeir eru þó allnokkrir ansi heitir.
Það að fá að ræða þessi helstu
áhugamál sín sem barn við fullorð-
inn mann sem eitthvað óútskýran-
lega dulúðlegt og spennandi var við,
var mikið mál því frekar fáir full-
orðnir voru eins inni í þessum
áhugamálum barnsins og Bjarni.
Þótt ég hafi að sjálfsögðu aldrei
fylgt KR að málum frekar en aðrir
austurbæingar, sýndi Bjarni því yf-
irvegaðan skilning og kom fram við
barnið af þolinmæði og uppörvun.
Bjarni spilaði stórt og ómetanlegt
hlutverk í því að mér gafst kostur á
að fylgjast með nánast hverjum ein-
asta leik bæði á Laugardalsvellinum
og í Höllinni í mörg ár. Þessir staðir
voru nánast eins og mitt annað
heimili og á Bjarni stóran þátt í því
að svo var. Ég hafði nefnilega,
sennilega einn mjög fárra, sérstakt
leyfi hans til að smeygja mér fram
hjá honum við vallarhliðið án þess að
hafa endilega alltaf miða í höndun-
um. Myndir þessu tengdar úr æsku
minni eru mér dýrmætar og mun ég
varðveita þær með mér alla mína
daga.
Verra var þegar fjöldinn allur af
vinum og kunningjum, já og nánast
strákum sem ég vissi varla haus né
sporð á komu til Bjarna við hlið vall-
arins og sögðust þekkja mig og
spurðu hvort þeir mættu ekki fara
inn. Hvort Bjarni lét það viðgangast
í einhver skipti skal ekki rifjað upp
hér en hann hafði manndóm og
ákveðni til að stöðva slíka misnotk-
un með sinni dularfullu festu sem
naut sín vel á slíkum stundum.
Ég á aðeins eitt líf,
það er mér mjög dýrmætt.
Ég reyni að lifa því
og ég vanda mig.
Samt veikist ég,
verð fyrir vonbrigðum og særist.
Að lokum slokknar á líkama mínum,
hann deyr og verður að moldu.
Ég á aðeins eitt líf,
en það gerir ekkert til,
ég sætti mig við það,
því líf mitt er í Jesú
og það varir að eilífu.
(Sigurbjörn Þorkelsson.)
Hann Bjarni var trúaður maður,
kemur kannski einhverjum á óvart,
ég veit það ekki en ég varð þess
áskynja með ákveðnum hætti sér-
staklega í seinni tíð. Hann sýndi
málefnum KFUM áhuga og spurði
um gang mála hjá félaginu, þar sem
hann var skráður félagsmaður frá
unglingsárum. Þá gaf ég honum
stundum fréttablöð Gídeonfélagsins
og 50 ára sögu þess. Fann ég að
hann kunni að meta þessar gjafir og
virtist hafa ánægju af. Spurði hann
út í starfsemi Gídeonfélagsins og
fylgdist með af áhuga eins og sönn-
um íþróttamanni sæmir. Þá man ég
hversu þakklátur hann var fyrir
Nýja testamentið með stóra letrinu
sem ég gaf honum um árið. Eins gaf
ég honum fyrstu tvær eða þrjár
bækurnar mínar sem honum fannst
athyglisverðar, sýndi áhuga og
spurði út í.
Hann Bjarni var eftir allt saman
dýrmætt eintak. Óvenjulegur maður
sem mun lifa í minningunni fyrir það
hversu sérstakur hann var. Og hvað
mig snertir, fyrir óvenjulega vináttu
barns og einfara sem náðu til hvors
annars á þann hátt sem þeir tveir
einir skildu, eða skildu kannski bara
alls ekki. Bara einhver óútskýran-
legur hluti af tilverunni. Bara eitt-
hvað sem var, átti að vera, var bara
sjálfsagt.
Ég sé Bjarna fyrir mér á himnum
hjólandi hægt en örugglega á hjól-
inu sínu haldandi á innkaupapoka í
annarri hendi sem í eru ávextir og
matarkex. En hvort þar eru KR-
ingar veit ég ekki. Skyldi þó aldrei
vera. Vin minn Bjarna kveð ég með
þessari bæn minni.
Ég bið þig góði Jesús
að vera hjá mér í nótt.
Gef ég heyri orð þín:
„Vinur sofðu rótt“.
Til þín er gott að flýja,
þú gefur mér krafta nýja,
svo hjarta mitt fái tifað,
og orð þitt í mér lifað.
(Sigurbjörn Þorkelsson.)
Vinarkveðja,
Sigurbjörn Þorkelsson.
Kæri frændi, nú hefur þú loks
fengið hvíldina eftir erfiða sjúk-
dómslegu og veikindi sem þú varst
samt svo sterkur í. Hefur þú loks
verið kvaddur.
Minningar um þig eigum við
margar og þú hefur alltaf verið
órjúfanlegur þáttur af stórfjölskyld-
unni. Ég get séð þig fyrir mér sitj-
andi í fjölskylduboðum í svörtum
jakkafötum með þverslaufu og bros-
ið þitt sem var sérstaklega vinalegt
og hlýlegt. Eitt af mínum fyrstu
minningarbrotum tengist Sigtúni 29
í Reykjavík. Þar bjuggu amma og
afi og þú bjóst á hæðinni fyrir neðan
þau. Okkur krökkunum fannst
spennandi að fara niðrí kjallara að
heimsækja Bjarna frænda og þú
varst þá mishrifinn af heimsóknum
okkar.
Löngu seinna flutti ég og fjöl-
skylda mín í Sigtúnið og bjuggum
með þér. Það var stór innrás fyrir
þig, sem hafðir búið einn í öll þessi
ár, að fá okkur inná þig með eitt
ungabarn. Við áttum þar dýrmætan
tíma saman og lærðum margt af
hvert öðru. Þá kynntist ég nýrri hlið
á þér og sá að þú varst með eindæm-
um barngóður. Með ykkur Valgeiri
Þór, sem þá var þriggja ára, þróað-
ist sérstakt samband og hefur það
haldist æ síðan. Eftir að við keypt-
um okkur íbúð í vesturbænum
varstu stoltur af litla frænda sem
byrjaður var að æfa með K.R. Þú
gafst honum KR-treyju og þá voru
tveir stoltir KR-ingar myndaðir
saman.
Síðustu ár ævi þinnar hafðir þú
búið við Dalbraut, því úr Laugar-
dalnum vildir þú ekki fara. Við töl-
uðum oft um hversu Reykjavík hefði
stækkað mikið og þú sagðir mér
sögur af því hvernig hún var á þín-
um yngri árum. Þú varst sannkall-
aður sagnabrunnur. Við fjölskyldan
sögðum stundum okkar á milli að
Bjarni færi ekki lengra en Elliða-
árnar. Þér fannst það skrítið að for-
eldrar mínir skyldu byggja hús upp
við Rjúpnahæð, þar sem pabbi þinn,
og langafi minn, höfðu smalað fénu.
Fyrir þér var það bara sveit. Ég
reyndi að segja þér að svona væri nú
Reykjavík orðin stór og þá hristir þú
bara hausinn og brostir. Enda
fórstu allra þinna ferða á hjóli og var
það með eindæmum að þú kominn á
áttræðisaldur skyldir hjóla í öllum
veðrum og vindum. Ég sagði stund-
um við þig í gríni að þú ættir bara að
koma til mín til Kaupmannahafnar
því þar gætir þú nú hjólað. Þá brost-
ir þú og við vissum jú bæði að þú
hafðir ekki hug á að fara út fyrir
landsteinana.
Ég talaði síðast við þig í síma á
sumardaginn fyrsta. Þá varstu
vissulega orðinn máttfarinn en oft
hafðir þú náð þér að mér fannst.
Eins og alltaf endaði símtalið okkar
á því að þú spurðir: „...hvenær kem-
ur þú svo heim, Guðný?“ Þér fannst
þetta orðinn langur tími á erlendri
grund.
Kæri frændi, við náðum ekki að
flytja heim áður en þú kvaddir, en
engu að síður eigum við um ókomna
tíð minningar um þig. Þegar ég
labba Laugardalinn í framtíðinni
með börnunum mínum segi ég þeim
frá þér og sögunum sem þú sagðir
mér. Hafðu þökk fyrir allt og allt.
Kær kveðja.
Guðný Valgeirsdóttir og
fjölskylda, Kaupmannahöfn.
BJARNI SIGUR-
STEINDÓRSSON
Sérfræðingar
í blómaskreytingum
við öll tækifæri
Skólavörðustíg 12,
á horni Bergstaðastrætis,
sími 551 9090.
LEGSTEINAR
Komið og skoðið
í sýningarsal okkar eða
fáið sendan myndalista
MOSAIK
Hamarshöfði 4, 112 Reykjavík
sími: 587 1960, fax: 587 1986