Morgunblaðið - 21.11.2002, Síða 36

Morgunblaðið - 21.11.2002, Síða 36
MENNTUN 36 FIMMTUDAGUR 21. NÓVEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ E kki er hægt að bæta samfélagið eða samfélagsleg vandamál með því að hver og einn einstaklingur bæti sitt einkalíf,“ var haft eftir Pierre Bourdieu fé- lagsfræðingi, sem nú er látinn. (Lesbók, 26.10. 02 – bls. 7.) Það er m.ö.o. ekki nóg að breyta sjálfum sér; einstaklingurinn verður að teygja út hönd sína í aðra til að breyta samfélaginu. Það er erfitt að breyta sam- félaginu, en það er líka erfitt að breyta sjálfum sér. Hugrökk von er, að mínu mati, forsenda breyt- ingar og leitarinnar að nýjum möguleikum í lífinu. Það þarf kjark til að brjótast úr viðjum vanans; hætta að hjakka í sama farinu. Sá sem er óánægður með sjálfan sig á að hætta að gera það sem hann er vanur, og gera eitthvað nýtt. Hann á að taka áhættu og prófa, því hann hefur allt að vinna. Samkvæmt gangi lífsins mæta allir hindrunum – en lykillinn að árangri er að láta örvæntinguna gagnvart þeim ekki yfirbuga sig. Höfuðatriðið er að gefast hvorki upp né snúa önugur við, heldur eflast í baráttunni til að ná því sem vonast er eftir. Aðeins þann- ig getur breytingin átt sér stað. Sá sem vill ekki staðna endur- skoðar stöðu sína reglulega og gerir nýjar tilraunir. Hann þarf að skoða hindr- unina með þolinmæði og spyrja sig t.d. hvort markmiðin hafi verið of há og hvað hafi farið úr- skeiðis. Málið er að örvænta ekki eða fyllast gremjublöndnu von- leysi. Að breyta sjálfum sér er fyrst og fremst að gera það sem mann langar mest, dæmir rétt og er jafnframt raunhæft markmið. Maðurinn verður það sem hann gerir: Hann áformar; fram- kvæmir eða hættir við. Hann verður ekki það sem hann vill nema með því að hrinda áform- um sínum í framkvæmd. En til þess þarf æðruleysi og kjark til að breyta því sem hægt er að breyta. Þótt ekki sé nóg að breyta sjálfum sér, þá er engin önnur byrjun til. En hvers vegna ætli of fáum takist að breyta sjálfum sér? Ég held að meginástæðan fyrir því sé örvæntingin. Vegur breytingarinnar getur verið langur og örvæntingin kviknar um leið og vonin um ár- angur dofnar. Hún er ekki ósig- urinn sjálfur heldur tilfinningin um að sundin séu að lokast. Ör- vænting er að telja sig nánast yf- irbugaðan og fastan í aðstæðum sínum. Hinn örvæntingarfulli sér illa í glætunni og honum finnst eins og það borgi sig ekki að bíða eft- ir morgunskímunni. Hann hikar við að leggja á djúpið, og ef hann gerir það ferst hann sennilega með (hugar)skipinu vegna þess að hann man ekki eftir björg- unarbátnum. Örvæntingin er m.ö.o. nei- kvætt mat á framtíðinni. Hún snýst um að tækifærið sé sloppið úr greipum. Hún kemur þegar trúin á að geta náð viðráðan- legum markmiðum dofnar. Hún er vörn gegn sigurvon og tryggir tapið. Allt virðist ómögulegt og of hættulegt til að skipta um siglingaleið. Sá sem ætlar að breyta sjálf- um sér verður því að gera ráð fyrir örvæntingunni. Hann eygir von um hið nýja og hefur kjark og vilja til að breyta, og lætur ekki tímabundna erfiðleika villa sér sýn. Hann verður að þora að gera nýjar tilraunir og trúa að hindranir séu til að stökkva yfir. Örvæntingin er nefnilega óvin- urinn en ekki hindrunin. Skuggahlið örvæntingarinnar er tilhneigingin að eyða því sem sóst var eftir. Þegar örvæntingin ein er eftir vill hún stundum eyða því sem átti eftir að rætast fremur en að vita áfram að möguleikanum. Stundum býr hún jafnvel til óvin úr því sem áður var fýsi- legur kostur. Hún gefst ekki bara upp heldur stígur skrefið til baka með því að rústa öllum tækifærunum til að ná því sem vonast var eftir. Hún hefur kraft til að eyðileggja. „Að vera eða vera ekki“ í bókstaflegri merk- ingu er vígorð hennar. Sá sem fyllist þessari skuggahlið ör- væntingarinnar stendur fjær markmiðum sínum en áður. Lík- urnar á því að hann breyti sjálf- um sér til betri vegar verða því ekki miklar. Þegar hindrun vekur þessa til- finningu er voðinn vís. Sá sem er gripinn henni getur lagt fæð á það sem hann áður þráði heitt. Hann bölvar því og reynir að sverta mynd þess. Ef hann hefur t.d gert misheppnaða tilraun til að verða listamaður bregst hann við með því að finna verkum listamanna allt til foráttu, og verður ósanngjarnasti gagnrýn- andinn. Leiðin til að breyta sjálfum sér er að forðast þessa örvænt- ingu og gremju yfir stöðu sinni. Hún felst í því að hætta að líta á sjálfan sig sem fórnarlamb ör- laganna, hætta að vorkenna sér og byrja að horfast í augu við ábyrgðina og möguleikana sem ávallt standa til boða. Það er viðráðanlegt verkefni að breyta sjálfum sér, þótt það geti verið erfitt og krefjist dá- góðs skammts af hugrekki. Ég er aftur á móti sammála því að fátt gerist í samfélaginu þótt maður breyti sjálfum sér. Samt er næsta hugmynd á eftir því að breyta sjálfum sér, hugmyndin að breyta öðrum eða samfélag- inu. Það er vissulega erfiðara verkefni og færri hafa eflaust raunverulegan áhuga á því. Aft- ur á móti er það verðugt verk- efni, því í því felst langtíma- hugsun – pæling langt inn í framtíðina. Hugsjón um betra samfélag handa öðrum en manni sjálfum. Áðurnefndur Bourdieu taldi reyndar að hugsjónin um betra samfélag væri enn á dagskrá í lýðræðissamfélögum. Og að hver sá sem leiddi hugann að þeim vanda sem hrjáir samfélög sam- tímans myndi á endanum leggja sitt af mörkum. Ég trúi því líka. Að bæta samfélagið Næsta hugmynd á eftir því að breyta sjálfum sér er hugmyndin að breyta öðr- um eða samfélaginu. Það er vissulega erfitt verkefni, sem fáir hafa áhuga á. VIÐHORF Eftir Gunnar Hersvein guhe@mbl.is STUNDUM er erfitt að komasér að verki, og stundum ererfitt að ljúka verkefni sembyrjað hefur verið á. Þetta getur bæði átt við um verkefni dag- legs lífs og að reisa mannvirki eða breyta stjórnskipulagi fyrirtækis; að laga til í geymslunni eða að reisa sumarbústað. Lögmálin eru hliðstæð og færnin til að leysa verkefni er lærð. „Færni í að stjórna slíkum verkefnum og hvetja fólk til góðra verka og hafa um leið góða stjórn á eigin gerðum er áunnin að stórum hluta,“ er a.m.k. mat Hauks Inga Jónassonar guðfræðings og sál- greinis, Helga Þórs Ingasonar véla- og iðnaðarverkfræðings og Tryggva Sigurbjarnarsonar ráðgjafaverk- fræðings. En þeir hafa skipulagt nýtt nám í verkefnastjórnun og leið- togaþjálfun sem hefst á næstu önn hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. Homo faber og economicus Hugmynd þeirra er að spyrða saman verkefnastjórnun og leiðtoga- þjálfun, hin efnislegu og andlegu verkefni, og telja þeir að hér sé um nýjung að ræða. Ætlunin er að nem- endur auki færni sína í verkefna- stjórnun og þroski leiðtogahæfileika sína. Sú þekking og færni á svo að gagnast í stjórnun fyrirtækja, stofn- ana, og félagasamtaka, og síðast en ekki síst í daglegu lífi þeirra einstak- linga sem sækja munu námið. „Verkefnastjórnun er undirgrein verk- og stjórnunarfræða og byggist á öguðum vinnubrögðum og á hug- myndum um hinn verksækna mann eða homo faber og hinn hagræna mann eða homo economicus,“ segir Haukur Ingi, þ.e. þeim mannskiln- ingi að maðurinn geti með meðvit- uðum hætti tekið ákvarðanir og komið í framkvæmd þeim verkefn- um sem auka munu hagsæld hans. Gengið er í verkefnið með hlutlæg- um hætti, áhersla er lögð á góðan undirbúning og skilið er á milli stjórnunar verkefnisins og verkefn- isvinnunnar. Þetta er gagnlegt og mikilvægt en tekur í reynd takmarkað tillit til veruleika sem getur, leynt eða ljóst, haft áhrif á hvernig til tekst eða hins huglæga veruleika þess sem verk- efninu stjórnar, að mati kennara námskeiðsins. Að velja verkefni Öll verkefni eiga á einhvern hátt upphaf í stefnumótun, framtíðarsýn, greiningu á styrkleika og veikleika, tækifærum og viðsjám. En hvers vegna er ráðist í eitt verkefni fremur en annað? „Að ráðast í tiltekið verk- efni getur útilokað önnur verkefni,“ segir Haukur, „og því er nauðsyn- legt að spá í kostnað og fórnarkostn- að, ávinning og áhættu og meta síðan vænlegasta kostinn.“ Þegar búið er að ákveða í hvaða verkefni verður ráðist þarf að vanda til undirbúnings. Mikilvægt er að skilgreina verkefnið vel, greina þá þætti í umhverfinu sem hafa áhrif á það og ákvarða áfangaskiptingu, áhersluatriði í verkefnastjórnun, stjórnskipulag og hlutverk allra þeirra sem þátt taka, o.s.frv. Óþarfi er að tíunda hér þekkta þætti verk- efnastjórnunar sem kenndir verða á námskeiðinu, en það sem Haukur og samkennarar hans ætla einnig að taka fyrir eru hin huglægu verkefni þeirra sem vilja koma hlutum í verk. Sjálfið og leiðtoginn „Sjálfið er sá veruleiki sem gerir einstaklingnum kleift að hafa tilfinn- ingu fyrir sjálfum sér,“ segir Hauk- ur. „Það er þessi veruleiki sem glím- ir samtímis við verkefni innra lífs og verkefni ytra lífs, kemur hlutum til leiðar og gerir breytingar mögu- legar.“ En það er líka þessi veruleiki sem getur átt erfitt með að koma sér að verki, getur skort frumkvæði og hugmyndaauðgi. Það er þessi veru- leiki sem getur bæði brugðist, efast og jafnframt styrkst. Verkefni sjálfsins eru sérstaklega mikilvæg þeim sem tekur að sér forystuhlut- verk, að mati Hauks. Leiðtogi er sá sem tekur frum- kvæði í að gera það sem gera þarf. Hann getur verið stjórnandi í fyr- irtæki, yfirlæknir á spítala, mann- réttindafrömuður, stjórnmálamaður og allt þar á milli. Hann sýnir frum- kvæði og er lykilaðili í samstarfi með öðru fólki. Hann þarf að búa yfir sjálfsþekkingu, hafa grundaða af- stöðu til þeirra verkefna sem hann sinnir og vita fyrir hvað hann stend- ur. Hann þarf að þekkja veikleika sína og styrkleika og vita hvað er við- eigandi að gera, hvenær og hvað ekki. Haukur bendir, til að gefa dæmi um tengsl verkefnastjórnunar og leiðtogaþjálfunar, á verk Rudolf Giuliani eftir árásina á World Trade Center þar sem verkefnið var við- bragð við ógn og sorg, skipulagning hjálparstarfs og enduruppbygging New York borgar. Einnig má nefna verk Mahatma Gandhi í frelsisbar- áttu Indlands þar sem verkefnið var „frelsun Indlands með friðsömum hætti“. „Markviss verkefnastjórnun, sjálfsþekking og hæfni til samstarfs eru lykilþættir góðra stjórnenda, og þessa færni má tileinka sér,“ segir Haukur. Tamin sjálfsstjórn Haukur Ingi segir að þegar leið- beint er um hvernig takast megi á við hin huglægu verkefni þurfi að gera það bæði með krefjandi og skapandi vinnu og leikjum, í einstak- lingsvinnu og í samstarfi: Fyrst er að setja niður fyrir sér verkefnið „ég“, undirbúning þess, verkefnisáætlun, markmið og leiðir, eftirlit og eftir- fylgni. Næst er að skoða það sem víkur að sjálfstjórn svo sem tíma- stjórnun, verkskipulag, hollustu og lífsstíl. Hér er um auðugan garð að gresja þar sem sækja má í smiðju bæði sígildra sjálfsstjórnaraðferða og í ýmsar hagnýtar sálfræðikenn- ingar. Markmiðið er að temja sér sjálfsstjórn og aga sig til betra lífs. En það er ekki nóg, hér þarf líka að þekkja ómeðvitaða þætti í fari leið- toga og hvernig þeir geta haft áhrif til uppbyggingar og niðurrifs. Hér þarf að skoða einbeitingu, einbein- ingu hugarfars, sjálfsmynd, sjálfs- skilning, ómeðvitaða varnarhætti, draumóra og ímyndunarafl, skap- andi sjálfsvinnu, sjálfsrýni, drauma o.fl. Hér koma dæmi um sjálfsvinnu þekktra leiðtoga að góðu gagni. Í framhaldi af þessari sjálfsskoð- un þarf að gefa gaum að samstarfinu við aðra. Þar þarf ýmislegt að læra eins og að skerpa skapandi hugsun, siðræna hugsun og gagnrýna hugs- un. Fólk þarf að tileinka sér ákveðna vinnutækni og virka hlustun sem tækni og aðferð til að ná árangri. „Með virkri hlustun má mæta þörf- um annarrar manneskju og sýna hluttekningu, en hæfileiki til virkrar hlustunar er eitt af aðalsmerkjum góðs verkefnastjórna og leiðtoga,“ segir Haukur. „Þessi hæfileiki getur haft úrslitaáhrif á gæði hópstarfs, niðurstöðu samningaviðræðna og er einn lykilþáttur deilustjórnunar.“ En hópstarf er ekki bara gleði, það á sér sína skuggalegu hlið, það getur nefnilega verið erfitt að vinna með fólki. Innsýn inn í sálfræði hópa, meðvitaða og ómeðvitaða þætti sem hafa áhrif á hópstarf og upplifun ein- staklinga innan hóps er því mikil- væg. „Til að tileinka sér þessa þætti í einstaklingnum í reynd nauðsyn að kynnast því af eigin raun hvernig vindar blása í hópstarfi og fá að kynnast kostum sínum og takmörk- unum innan hóps,“ segir Haukur. Hann segir að þeir sem hafi unnið á alþjóðavettvangi hafi innsýn í ólík- an skilning fólks á sjálfu sér og við- fangsefnum sínum eftir því hver uppruni og bakgrunnur þess er. Þar komi í ljós ólíkar aðferðir og vinnu- lag eftir aðstæðum. Gildi góðra funda Samkennd fólks í hópi og styrkur liðsheildar í samstarfi eru mikilvæg- ir þætti, að mati hans, og hæfni í að virkja fólk til samstarfs og verka getur skipt sköpun um það hvort ár- angur næst. Ef fundir eru vel und- irbúnir, vel stjórnað og fylgt eftir geta þeir orðið að gagnlegu stjórn- tæki. En hér skiptir líka máli að geta komið fram, haldið framsögu og komið vel fyrir. Leiðtogi þarf líka að þekkja til helstu aðferða í samninga- tækni. Leiðtogi þarf að geta beitt sér við lausn ágreiningsmála en það er grundvallarmunur á því að vera aðili að deilu eða koma að henni sem þriðji aðili. Hér verður ekki talið upp allt það sem þarf að prýða góðan leiðtoga, en námið er fyrir þá sem þurfa eða ætla að stíga fram fyrir skjöldu og koma stórum verkefnum í höfn. Námið verkefnastjórnun – leið- togaþjálfun er samtals 240 stundir á tveimur misserum fyrir fólk í starfi og er metið til 12 eininga á háskóla- stigi. Umsóknarfrestur er til 25. nóv- ember næstkomandi en námslok eru í árslok 2003. Þátttökugjald er 230 þúsund krónur. Leiðtogar/ Hvernig má læra að vera góður leiðtogi sem vinnur verkin vel, kann að starfa með hópum og að velja og hrinda verkefnum í framkvæmd? Á næsta misseri geta verkefnastjórar sótt námskeið í Endurmenntun HÍ. Sjálfsskoðun og verksvit leiðtogans Morgunblaðið/Jim Smart Markviss verkefnastjórnun, sjálfsþekking og hæfni til samstarfs eru lykil- þættir góðra stjórnenda. Haukur Ingi, Helgi Þór og Tryggvi. TENGLAR ..................................................... http://www.endurmenntun.hi.is/ leit_flokk.asp?ID=960 guhe@mbl.is

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.