Morgunblaðið - 22.12.2002, Qupperneq 5
um um megn eða hann lét það sem
vind um eyru þjóta, því strax í mán-
uðinum á eftir var Nóra enn og aftur
tekin fyrir drykkjulæti í bænum.
Í sögu Jörundar segir Jón Þorkels-
son eina sögu af hjónabandi Nóru og
Jörundar: „Þó vita menn að hann
kvæntist og að þeim hjónunum kom
illa saman. Einu sinni sýndi Jörundur
jafnvel konu sinni banatilræði. Svo
stóð á, að hann kom einu sinni heim
til sín um miðdegismatarleytið og
bjóst við því, að maturinn væri til, en
hitti svo á, að kona hans var að taka
kartöflur upp úti í garði. Jörundi leizt
illa á þetta, því hann grunaði að kart-
öflurnar væru ætlaðar til miðdegis-
matarins og mundi hann því ekki
standa á borðum. Hann hélt á byssu
og tók það bragðs í bræði sinni að
skjóta á konuna sína, en henni varð til
allrar hamingju lítið meint við skotið.
Svo segir Henry Elliot, sem sagt hef-
ir frá þessu, að Jörundur hafi komizt í
vandræði fyrir bragðið.“
Í október 1834 skrifaði Jörundur
landstjóranum í Tasmaníu og bað
þess að reynt yrði að hafa upp á tólf
ára gamalli stúlku, Mary Macdonald í
Kilfinny í Limerick á Írlandi. Móðir
stúlkunnar sé nú gift kona og vilji
freista þess að fá hana til sín. Nóra
hafði eignast dóttur, þegar hún var 17
ára heima á Írlandi. Barnið var tekið
frá henni og Jörundur taldi það geta
átt sinn þátt í þrautum Nóru, kannski
von í því að barnið myndi geta skotið
einhverjum stoðum undir líf móður
sinnar og hjónaband. Ekki verður séð
að yfirvöld hafi sinnt þessari beiðni.
En næsta ár markaði sérstök tíma-
mót í lífi þeirra hjóna. Jörundur hafði
sótt um náðun 1834 og í ágúst 1835
var hann náðaður og Nóra mánuði
síðar.
Þrátt fyrir frelsið fóru þau hvergi.
Má vera að þau hafi skort þrek til að
brjótast út úr þeim heimi sem fanga-
nýlendan var og/eða kjark til að tak-
ast á við nýjan heim á fornum slóðum.
Tíminn var flotinn frá þeim.
Næstu árin voru skrif Jörundar líf-
æð þeirra hjóna. Hann skrifaði bæk-
ur, blaðagreinar og fjölda bréfa til yf-
irvalda, nokkur fyrir sig, en tekjur
hafði hann af bréfaskriftum fyrir
aðra.
Þegar Jörundur kom til Tasmaníu
bjargaði það honum á bryggjunni að í
ljós kom að hann var bæði læs og
skrifandi. Þessi kunnátta átti oft eftir
að koma sér vel og þegar síðustu
bryggjunni var náð, bjargaði hún
honum enn og aftur.
Lífið lagði þeim Nóru og Jörundi í
Hobart town.
28. febrúar 1840 sagði bæjarblaðið
frá því, að þann morgun hafi, eins og
venjulega, legið straumur nafn-
greindra fyllibyttna um lögreglustöð-
ina; síðast en ekki sízt Nóra Jörgen-
sen og maður hennar. Reyndar
virðast hafa verið áhöld um hann, því
hann slapp einn manna við að greiða
sekt.
Í næsta mánuði skrifaði Jörundur
enn yfirvöldum og bað þau ásjár
varðandi Nóru. Hann fékk engar
undirtektir, því 29. maí skrifaði hann
aftur og sagði Nóru nú ekki viðbjarg-
andi. Hann myndi því yfirgefa hana
til að bjarga sjálfum sér.
En veraldleg yfirvöld þurftu ekki
að taka oftar í taumana hjá Nóru.
Þótt Jörundur hafi farið frá henni,
var annar sá, sem ekki yfirgaf hana;
nú kallaði himnafaðirinn þetta
þreytta barn sitt til sín. Nóra Corbett
Jörundarson andaðist 17. júlí 1840 og
var jarðsett í kaþólska kirkjugarðin-
um í Hobart Town.
Jörundur Jörundarson lifði konu
sína aðeins í hálft ár; hann dó 20. jan-
úar 1841 og fékk leg, þótt kaþólskur
væri hann ekki, með konu sinni í kaþ-
ólska kirkjugarðinum.
Hjónaband Nóru og Jörundar var
mikið örlagadrama. Líf þessa írska
blóms var aldrei neinn dans á rósum,
heldur þyrnum stráð. Sjálfsagt var
hún sem aðrir sinnar gæfu smiður, en
umhverfið og tíðarandinn sviptu hana
ráði og reisn fyrir allar aldir og full-
orðin virtist hún aldrei eiga sér við-
reisnar von. Dan Sprod getur hennar
vart í sögu Jörundar fyrir annað en
drykkjuskapinn.
Til eru þeir, sem halda á lofti for-
spánni um það, að í þessu hjónabandi
yrði fall Jörundar falið og að hann
hafi á endanum gengið uppgefinn í
áfengisbjargið til konu sinnar. En
menn mega ekki gleyma því, að Jör-
undur hafði löngu áður en hann
kynntist Nóru verið einfær um að
koma sér bak við lás og slá með fylliríi
og fjárhættuspili. Hann var enginn
engill frekar en Nóra við komuna til
Tasmaníu. En hann stóð henni betur
að manngrein og menntun.
Skassið varð aldrei tamið. En írsku
augun hafa ekki bara skotið gneist-
um. Þau hafa líka átt sín bros.
Þótt Nóru Corbett væri ekki annað
skapað en að tapa, má hún hafa fund-
ið einhverja hamingju í lífinu. Sam-
bandið við Jörund Jörundarson var
stormasamur kafli í lífshlaupi hennar
frá írskum æskuslóðum til kaþólsks
kirkjugarðs hinum megin á hnettin-
um.
Heimildir:
Anna Agnarsdóttir: Hundadagadrottningin
heldur út í heim 1812–1814. Kvennaslóðir –
Rit til heiðurs Sigríði Th. Erlendsdóttur
sagnfræðingi. Kvennasögusafn Íslands,
Reykjavík 2001.
Henry Holland: Dagbók í Íslandsferð 1810.
Íslensk þýðing og skýringar eftir Steindór
Steindórsson frá Hlöðum. Almenna bóka-
félagið 1960.
Jón Þorkelsson: Saga Jörundar hundadaga-
kóngs. Kaupmannahöfn – á kostnað Bóka-
verzlunar Gyldendals, 1892.
Indriði Einarsson: Síðasti víkingurinn eða
Jörgen Jörgensen. Bókaverzlun Guðmund-
ar Gamalíelssonar, Reykjavík 1936.
Agnar Þórðarson: Hundadagakóngurinn.
Helgafell 1969.
Andrew Wawn: Hundadagadrottningin –
Bréf frá Íslandi: Guðrún Johnsen og Stanl-
eyfjölskyldan frá Cheshire, 1814–16. Saga –
Tímarit Sögufélagsins XXIII – 1985. Sögu-
félag, Reykjavík 1985.
Dan Sprod: The Usurper – Jorgen Jorgen-
son and his turbulent life in Iceland and Van
Diemen’s Land 1780–1841. Blubber Head
Press, Tasmania 2001.
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 22. DESEMBER 2002 B 5
Mikið úrval af
tískuskartgripum
Laugavegi
s. 511 4533
Kringlunni
s. 533 4533
Smáralind
s. 554 3960
Skólavörðustíg 12, Bergstaðastrætismegin, sími 551 9090
Jól 2002
Öðruvísi
jólaskreytingar
Full búð af nýjum gjafavörum
Sjón er sögu ríkari