Morgunblaðið - 31.12.2002, Page 11
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 31. DESEMBER 2002 11
heldur ógeðfellt. Ég er ekkert að segja að
þetta eigi bara við um Framsóknarflokkinn.
Ég held að það sé nokkuð ríkt í stjórn-
málaflokkum og liggi að einhverju leyti í hefð-
um og eðli þeirra.
Á þetta líka við um Samfylkinguna?
Ég sá það nú fyrst og fremst inni í Fram-
sóknarflokknum. En ég geri ekki ráð fyrir að
það eigi bara við um hann, ég geri ráð fyrir því
að það sama eigi við um Sjálfstæðisflokkinn og
kannski hefur þetta í sjálfu sér ekkert með
nöfnin á þessum flokkum að gera. Þetta er
pólitísk menning og aðferðafræði sem hefur
þróast í þessum gömlu rótgrónu valdaflokkum.
Miðað við þetta, telur þú mögulegt að þú
myndir geta setið í ríkisstjórn með Halldóri
Ásgrímssyni?
Ég tel enga ástæðu til að ætla annað en það
geti gengið. Ég virði Halldór Ásgrímsson sem
stjórnmálamann, mér finnst Halldór hafa ver-
ið að flytja Framsóknarflokkinn meira inn í
nútímann og koma með erfið mál og setja þau
á dagskrá eins og Evrópumálin, sem er mjög
mikill kjarkur af honum í þeim flokki sem
hann tilheyrir. Ég á mjög góð persónuleg sam-
skipti við Halldór Ásgrímsson, mér finnst
hann traustur og heill maður.
Hverjar telur þú líkurnar á vinstristjórn nú
eftir orrahríð þína og samstarfsflokkanna í
R-listanum síðustu daga?
Ég tel að hún breyti engu í því samstarfi, að
líkurnar séu jafnmiklar og þær voru fyrir.
Muntu sækjast eftir ráðherraembætti ef
Samfylking kemst í ríkisstjórn?
Ég get a.m.k. orðað það þannig að það færi
svolítið eftir því hvernig ríkisstjórnin væri og
hvaða ráðherraembætti væri um að ræða, en
auðvitað er ég að gefa kost á mér í stjórn-
málum til að hafa áhrif og axla ábyrgð. Og ég
skorast ekkert undan því ef því er að skipta, en
það er ekki sama hvernig í pottinn er búið.
Þú hefur sagt að eitt af þínum meginmark-
miðum sé að koma Sjálfstæðisflokknum og
Davíð Oddssyni frá völdum. Felst í því og
þessum orðum þínum nú að þú munir ekki
taka sæti í ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæð-
isflokks?
Það liggur í augum uppi að það myndi vefj-
ast alvarlega fyrir mér að taka sæti í rík-
isstjórn undir forystu Davíðs Oddssonar.
Kemur til greina að þú sækist eftir því á
landsfundi Samfylkingar á næsta ári að leiða
flokkinn?
Nei, ég hef ekki hugleitt neitt slíkt.
Hver var það sem kom að máli við þig um að
þú myndir bjóða þig fram?
Það var formaður uppstillingarnefndar og
svo Össur Skarphéðinsson í kjölfarið.
Ummæli þín og Össurar Skarphéðinssonar
voru nokkuð misvísandi daginn sem þú til-
kynntir framboð. Meðan þú varst á fundi með
borgarfulltrúum sagði Össur að þú hefðir
ákveðið að gefa kost á þér. Var hann hræddur
um að þú myndir hætta við framboð?
Nei, það held ég ekki. Kannski hafa menn
ekki alltaf stjórn á atburðarásinni og það er
kannski það sem þarna gerðist. Þegar ég fékk
pata af því að fjölmiðlar hefðu fengið upplýs-
ingar um þetta þennan miðvikudagsmorgun
reyndu fjölmiðlar mikið að ná í mig og ég vildi
fá ráðrúm til að ræða við mitt fólk áður en ég
brygðist við fjölmiðlum. Ég var önnum kafin
alveg fram að þeim fundi [með borgarfulltrú-
um R-listans]. Þar gerði ég öllum borg-
arstjórnarfulltrúum grein fyrir þessu og sagði
að ég væri býsna ákveðin í þessari afstöðu
minni.
Þú varst þá ekki búin að taka ákvörðun? Var
hann að ýta þér út í að taka ákvörðun sem þú
varst ekki búin að taka?
Nei, það vil ég alls ekki segja. Ég var búin
að gera þetta upp með sjálfri mér.
Ertu óánægð með að hann hafi tilkynnt
þetta á meðan þú varst enn inni á fundi með
borgarfulltrúum?
Það var ekki á mínu valdi að stjórna því.
Engin sárindi?
Nei, nei. Ef atburðarásin hefði ekki tekið
völdin hefði kannski mátt hanna hana aðeins
betur. Það er þó ekki það sem meginmáli
skiptir.
Nú hélstu því mjög lengi til streitu að þú
ætlaðir að fara fram og ekki segja af þér sem
borgarstjóri. Hélstu að þeir myndu kikna?
Ég hafði trú á að við gætum náð sátt í þessu
máli. Ég var ekki að reyna að beygja þá undir
vilja minn. Það sem ég hef lagt áherslu á er að
Reykjavíkurlistinn hvatti fólk til að kjósa mig
sem borgarstjóra. Mér fannst sem þeir hefðu
ýtt þeim skyldum [að ég yrði borgarstjóri út
kjörtímabilið] dálítið fljótt til hliðar. Þar skuld-
bundum við okkur sameiginlega, flokkarnir
ekki síður en ég. Við hefðum átt að finna leið til
að við gætum staðið við það. Það sem ég skil
ekki eftir allt þetta er af hverju þessi mikli
þrýstingur var myndaður? Af hverju var þessi
mikla tímapressa? Það er langt til vors og það
eru ekki einu sinni komnir fram framboðs-
listar. Af hverju var alltaf verið að setja af-
arkosti og tímamörk í gegnum fjölmiðla? Af
hverju voru menn að spila málið svona mikið
út í horn?
Margir segja að velgengni R-listans sé ein-
mitt mikið til þinn persónulegi sigur og þú sért
sameiningartákn hans. Ertu ekki að taka
hagsmuni Samfylkingar fram yfir hagsmuni
R-listans með því að fara fram fyrir Samfylk-
inguna gegn Framsókn og Vinstri-grænum?
Nei. Reykjavíkurlistinn er náttúrulega bú-
inn til úr þessum þremur flokkum og flest okk-
ar sem eru starfandi eru flokksbundin og fólk
er að sinna sínum verkum úti í flokkunum. Ég
minni á að framsóknarmenn buðu upp á Árna
Þór Sigurðsson sem borgarstjóra. Árni Þór er
varaþingmaður í dag, fyrir Samfylkinguna.
Þeir hafa veifað því sverði yfir hausamótunum
á okkur að fara í samstarf með Sjálfstæð-
isflokknum, jafnvel þótt þar sitji Björn
Bjarnason og Guðlaugur Þór sem hafa til-
kynnt um framboð sitt til þings. Það að ég taki
sæti á lista vekur upp slíkt umrót að jörðin
skelfur.
Er staða þín hvað framboð varðar ekki
nokkuð önnur þar sem þú ert sameiningartákn
fyrir þrjá flokka en ekki einn?
Það getur vel verið og það er væntanlega
ástæða þess að þessi jarðskjálfti verður. Mér
finnst merkilegt þegar verið er að herma þessa
hluti upp á mig að menn skuli aldrei velta því
fyrir sér að í vor þegar listanum var stillt upp,
voru það flokkarnir þrír sem stilltu mér upp
sem borgarstjóraefni Reykjavíkurlistans. Síð-
an fóru þeir til borgarbúa og sögðu: Kjósið
Ingibjörgu Sólrúnu sem borgarstjóra. Þeir
kusu mig og gáfu mér ákveðið umboð. Hvaðan
kemur umboð flokkanna til að rjúfa þetta sam-
band? Þarf ekki að spyrja þá hvað varð um það
loforð sem þeir gáfu kjósendum í vor?
Hvað með ummælin í kosningabaráttunni
þegar þú sagðist ekki ætla að bjóða þig fram,
hvaða tilgangi þjónuðu þau?
Ég sagði að ég stefndi ekki á þingframboð.
Þegar við erum að tala um þingframboð, í
þeirri stöðu sem ég er, þá held ég að engum
blandist hugur um að þá er fólk að tala um það
að taka ákveðna forystu í framboði. Það
stefndi ég ekki á í kosningunum, það stefndi ég
ekki á í haust og það stefndi ég heldur ekki á
núna. Heldur að leggja mínu fólki í Samfylk-
ingunni lið, því mér finnst líka skipta verulegu
máli að þyngja pundið í þessari hreyfingu á
vinstri vængnum þannig að það skapist hreyf-
ing í kringum þessar kosningar. Mér sýndist
allt stefna í dálítið mikið vonleysi og ládeyðu í
kosningunum í vor.
Stefnir þú þá ekki á þingsæti?
Að sjálfsögðu geri ég það núna, nú stefni ég
alveg ótrauð á þingsæti en ég veit að það þarf
mikið til. Ég gældi ekki við þá hugsun með
fimmta sætið að það væri þingsæti, en að sjálf-
sögðu einhendi ég mér bara í það núna og svo
sjáum við hvað setur.
Ertu bjartsýn á að þú náir að komast inn á
þing?
Ég verð eiginlega að játa það að ég hef ekki
einu sinni reiknað líkurnar á því. Ég get hvorki
verið svartsýn né bjartsýn, ég bara beiti mér í
þessu og vinn að því.
Muntu nú, þegar þú ert laus allra mála,
halda fast við að taka 5. sætið á lista Samfylk-
ingarinnar í Reykjavík, eða sækjast eftir því
að fara ofar á lista?
Ég fer ekki að sækjast eftir sætum sem búið
er að raða öðru fólki í, það er af og frá.
Hvað ef þér yrði boðið sæti ofar á lista?
Það hefur ekki verið gert og ég hef þar af
leiðandi ekki velt því fyrir mér.
Þegar þú tókst þessa ákvörðun að bjóða þig
fram, varstu þá fyrst og fremst að hugsa um að
koma róti á landsmálin, eins og þú segir, en
ekki að koma þér á þing?
Ég var ekki bara að hugsa um að þyngja
pundið í Samfylkingunni heldur líka að setja
málefni borgarinnar á dagskrá í kosningunum.
Mér hefur fundist að það skorti umræðu og
skilning hjá ráðamönnum á mikilvægi borg-
arinnar fyrir þjóðfélagsþróunina og Ísland á
þessari öld. Ég vildi setja þessi mál á dagskrá
og gera ákveðna kröfu um að það yrði rætt í
þessum kosningum. Það hefur gefist vel áður
að setja mál á dagskrá með þeim hætti, ég
minni á Kvennalistann forðum. Það þarf oft
einhverja nærveru í kosningabaráttunni til að
menn taki málin alvarlega til umfjöllunar. Þá
hefði ég gert ráð fyrir því að hinir flokkarnir
hefðu líka tekið upp þessa umræðu.
Þessi rök um að koma borgarmálunum á
dagskrá, falla þau ekki um sjálf sig þegar þú
ákveður að láta af störfum sem borgarstjóri?
Nei. Ég er í borgarstjórn eftir sem áður. Ég
er borgarfulltrúi í meirihluta í Reykjavík, ég
þekki býsna vel málefni borgarinnar og ég
mun örugglega halda þeim á lofti, ég þarf ekki
að vera borgarstjóri til þess.
Nú kom fram hugmynd frá samstarfsflokk-
unum um að Árni Þór yrði borgarstjóri. Hvers
vegna féllstu ekki á það?
Leiðarahöfundar og pólitískir skríbentar
hafa lagt ofuráherslu á að ég hafi hafnað Árna
Þór sem borgarstjóra. Málið snerist ekki um
persónu Árna Þórs, heldur um tilboðið í heild
sinni. Það fjallaði um að ég hætti sem borg-
arstjóri og ákveðnir menn tækju þar við og
þetta myndi gilda þar til annað væri ákveðið.
Algjörlega ótímasett með öllu, sem þýddi að
hver einstaklingur hefði haft ákveðið neit-
unarvald um þessa hluti. Mér fannst ekki
skynsamlegt, ef menn vildu hafa pólitíska for-
ystu í borginni, að leiða það til lykta í litlum
viðræðuhópi flokkanna á þessum tímapunkti.
Ég margtalaði um að fá Helgu Jónsdóttur
borgarritara til að gegna borgarstjórastöðu
tímabundið fram yfir kosningar og þá hefðu
menn getað tekið umræðu um hvernig þeir
vildu hafa forystuna í borginni, en sú tillaga
mín hlaut ekki hljómgrunn hjá einhverjum.
Þannig að þú lítur svo á að þú hafir ekki
hafnað Árna Þór heldur því að þú hættir í
embættinu á þeim tíma?
Já, og að það yrði valin einhver pólitísk for-
ysta með þessum hætti fyrir Reykjavíkurlist-
ann.
Hvaðan kom hugmyndin um Þórólf Árna-
son?
Í þröngum hópi bar ýmis nöfn á góma ef
þessi staða kæmi upp. Nafni Þórólfs Árnason-
ar var strax vel tekið og ég hringdi í hann um
hádegið á laugardegi fyrst og fremst til að full-
vissa mig um að ég mætti leggja nafn hans til
við þetta fólk. Ég var ekki að hringja í hann til
að ráða hann sem borgarstjóra eða ákveða að
hann væri arftaki minn.
Varstu búin að tala um þetta við Alfreð eða
hina oddvitana þegar þú hringdir í Þórólf?
Nei.
Hugmyndin er algjörlega þín.
Hún er mín.
Hvers vegna Þórólfur?
Ég þekki Þórólf að góðu einu, ég hef haft
samskipti við hann og samstarf. Hann verk-
stýrði stefnumótun Reykjavíkurborgar um
ferðamál, hann hefur verið í stjórn Aflvaka
fyrir okkur og hann hefur verið fulltrúi minn
varðandi tónlistar- og ráðstefnuhús. Við höfum
átt margvísleg samskipti í gegnum tíðina. Mér
finnst hann hafa ákveðinn stjórnunarstíl og
viðmót sem ég held að henti vel inn í þennan
kúltúr okkar sem við höfum verið að þróa,
ákveðin samræðustjórnun. Hann stjórnar með
fólki en ekki ofan frá. Hann hefur verið farsæll
í sínum störfum, hann var á lausu. Réttur mað-
ur á réttum stað á réttum tíma.
Þar sem þú hefur unnið að því að veita kon-
um brautargengi á embættistíð þinni í borg-
arstjórn, finnst þér verra að hafa ekki getað
fundið konu sem arftaka?
Mín fyrsta tillaga var að Helga Jónsdóttir
borgarritari tæki við tímabundið. En eins og
ég hef sagt hlaut sú tillaga ekki náð fyrir allra
augum. Það má kannski um Þórólf segja að
hann hafi verið réttur maður á réttum tíma.
Hvers vegna vildir þú óflokksbundinn borg-
arstjóra?
Ég vildi það ekkert sérstaklega, mér fannst
skipta máli að það væri ljóst þegar ég færi frá
hvernig stjórn borgarinnar væri háttað og ég
taldi að ef menn vildu fara í það að velja sér
pólitískan borgarstjóra úr hópi borgarfulltrúa
yrði það ekki gert fyrr en eftir kosningar. Það
þyrfti einfaldlega meiri tíma í það og það yrði
ekki útkljáð í einhverjum samtölum milli
þriggja manna. Þess vegna vildi ég þá milli-
lausn að borgarritari gegndi enbættinu fram
yfir kosningar og menn gætu þá tekið upp um-
ræður um hver gæti þá tekið við. Það féll ein-
faldlega ekki í kramið, þetta var lending mín í
því máli.
Óflokksbundinn borgarstjóri hefur einu
sinni áður farið með stjórnartaumana í vinstri
stjórn í borginni 1978–1982 og það þótti ekki
gefa góða raun. Óttist þið ekki að Þórólfur
komi til með að þurfa að bera öll mál undir
oddvitana þrjá eins og staðan var á þeim tíma?
Það er ekki hægt að bera þetta saman, þetta
er annað fólk og aðrir tímar. Nú starfar fólk í
einum borgarstjórnarflokki, þá voru það þrír
flokkar. Menn hafa lært af reynslunni þá og
það er engin ástæða til að ætla annað en menn
dragi af henni lærdóma. Þar að auki má alveg
eins leita skýringanna innan hins pólitíska
hóps, ekki í því að borgarstjórinn hafi verið
óflokksbundinn.
Má ekki segja að styrkur R-listans hafi legið
í því að hafa einn pólitískan forystumann?
Styrkur getur legið á mismunandi sviðum,
það er ekkert eitt sem gildir í því efni. Það
skiptir auðvitað máli líka að Reykjavík er
dreifstýrð og mér finnst eðlilegt, alveg eins og
í ríkisstjórn, að þeir sem fara með ábyrgð í
hverjum málaflokk fyrir sig séu málsvarar
þess málaflokks. Það megi alveg skipta því í
borginni, sem er orðin svo stór, eins og þetta
er gert hjá ríkinu.
Kæmi til greina að þú færir aftur í sæti
borgarstjóra, t.d. ef þú næðir ekki kjöri í þing?
Nei. Ég kvaddi og nú tekur annar við.
Þú hyggst sitja áfram sem borgarfulltrúi,
hefur þú hug á að sitja áfram í borgarráði?
Ég hef ekki velt því neitt fyrir mér sér-
staklega en ég held að það sé nú kannski ekki
skynsamlegt. Mér finnst að þegar nýr borg-
arstjóri tekur við eigi hann að móta þennan
vettvang og það fólk sem með honum starfar.
Er þetta síðasta kjörtímabil þitt í borginni?
Já, ég hef ekki trú á öðru, ég er búin að vera
viðloðandi borgina meira og minna í tuttugu
ár, það er kominn tími á mig.
Er einhver beygur í þér við hvaða áhrif
þessir síðustu dagar hafa haft á framtíð þína
sem stjórnmálamanns?
Nei það er enginn slíkur beygur í mér . Ég á
að baki langan feril og þegar menn skoða hann
og gera hann upp verð ég væntanlega vegin og
metin á þeim vogarskálum. Ég legg óhrædd í
nýjan leiðangur.
Þú hefur sagt að þú vildir ekki láta beygja
þig eða kúga. En mætti ekki segja að þú sért í
raun og veru að beygja þig með því að segja af
þér sem borgarstjóri?
Þetta er mín ákvörðun og hún er tekin
vegna þess að ég sá fram á það að Reykjavík-
urlistinn hékk á bláþræði og það var ekki að-
eins raunhæfur möguleiki heldur mjög nær-
tækur, að framsóknarmenn færu með
Sjálfstæðisflokknum. Reykjavíkurlistinn var
kjörinn til að stjórna borginni og ég ætlaði
með öllum þeim ráðum sem mér voru tiltæk að
koma í veg fyrir að sjálfstæðismenn, sem eru í
sögulegu lágmarki í borginni, hrifsuðu þann
sigur.
gjörlega óbundin
nina@mbl.is
’ Ég er algjörlega óbund-in, ég á mig sjálf núna og
hef ekki neinum form-
legum skyldum að gegna
við aðra flokka. Auðvitað
virði ég flokkana og það
fólk sem þar starfar og
kem fram við það af fullri
virðingu, en það á ekkert
inni hjá mér. ‘
’ Ég ætla ekki að skor-ast undan því að ég hafi
lagt þarna rangt mat á
stöðu mína og ég ber
fulla ábyrgð á mínum
gjörðum. En ég get ekki
borið ábyrgð á viðbrögð-
um annarra. ‘
’ Nú stefni ég alvegótrauð á þingsæti en ég
veit að það þarf mikið til.
Ég gældi ekki við þá
hugsun með fimmta sætið
að það væri þingsæti, en
að sjálfsögðu einhendi ég
mér bara í það núna og
svo sjáum við hvað set-
ur. ‘