Morgunblaðið - 23.08.2003, Side 38
UMRÆÐAN
38 LAUGARDAGUR 23. ÁGÚST 2003 MORGUNBLAÐIÐ
ÍSLENSKT MÁL
Jón G. Friðjónsson
9. þáttur
FJÖLMIÐLAR gerðusöngvakeppni evr-ópskra sjónvarpsstöðvanokkuð góð skil eins og
vert er. Einhverju sinni heyrði ég
í ríkisútvarpinu að rætt var um
lokaæfingu fyrir keppnina sjálfa.
Þar kom m.a. fram að tiltekinn
keppandi mætti ekki á æfinguna
og ?bar fyrir sig veikindum eins
og sagt var en átt var við að hann
hefði borið fyrir sig veikindi.
Orðasambandið bera e-ð fyrir sig
er algengt í beinni merkingu og
óbeinni, t.d. bera hönd fyrir höfuð
sér, bera fyrir sig skjöld og bera
fyrir sig (tímabundið) minnisleysi.
Í öllum tilvikum vísar orða-
sambandið til hreyfingar og því er
notað þolfall. Notkun þágufalls
(?bera fyrir sig veikindum) sam-
ræmist því hvorki málkerfinu né
málvenju en samt er hún býsna
algeng í talmáli. Ætla má að hér
sé um að ræða áhrif frá orða-
sambandinu bera e-u við (hann
bar því við að hann væri veikur;
ber við miklum önnum). Rétt er
að geta þess að einnig er kunnugt
afbrigðið berja e-u við (19. öld) en
það er naumast lengur notað og
skiptir ekki máli í þessu sam-
bandi. Íslenska er að því leyti
gagnsætt mál að málnotendur
eiga í flestum tilvikum auðvelt
með að átta sig á því hvaða líking
liggur að baki föstum orða-
samböndum. Ætla má að skilyrði
áhrifsbreytinga á borð við bera
fyrir sig veikindi > ?bera fyrir sig
veikindum sé einmitt það að orða-
sambandið er ekki lengur gagn-
sætt, tengslin á milli bera fyrir sig
skjöld (‘verja sig með skildi’) og
bera fyrir sig minnisleysi (‘afsaka
sig með minnisleysi’) eru ekki öll-
um augljós svo að dæmi sé tekið.
Ég rakst um daginn á annað
dæmi af svipuðum toga. Í dag-
blaði var rætt um samning og
sagt að ?hann bæri þess vitni að
samstarf væri gott. Venja er að
tala um að bera einhverjum gott
vitni, sbr.: Þeir [heimamenn og
nágrannar Hrúts] báru honum
gott vitni (Njála, 6.k.), og í sam-
ræmi við það væri eðlilegt að
segja að samningur beri því vitni
að samstarf sé gott. Hér gætir
trúlega áhrifa frá orðasamband-
inu e-ð ber þess merki en það er
notað í svipaðri merkingu og e-ð
ber e-u vitni, sbr. enn fremur
orðasambandið e-ð ber vott um
e-ð.
Loks skal minnst á orðatiltækið
binda enda á e-ð en þess gætir
talsvert að ekki sé farið rétt með
það. Ég las í blaði nýlega um
nauðsyn þess að ?binda endi á
stjórnmálaferil manns og í út-
varpi var sagt um átök í Monróvíu
að ?endir væri bundinn á óeirð-
irnar. Dæmi af þessum toga eru
fjölmörg en þau eru öll úr nútíma-
máli. Orðatiltækið binda enda á
e-ð á sér langa sögu í íslensku en
búningur þess og merking hefur
breyst allmikið í tímans rás. Elsta
myndin er gera enda á e-u og er
hún algeng fram á síðustu öld en
sjaldhöfð í nútímamáli. Afbrigðið
binda enda á e-u er einnig gamalt.
Þessar myndir (þgf.-myndirnar)
vísa til kyrrstöðu, þess er endi er
bundinn á bandi, þ.e. þess er
gengið er frá bandsenda. Í nú-
tímamáli er hins vegar ávallt not-
að þolfall (binda enda á e-ð), með
vísan til hreyfingar eða breyt-
ingar. Nútímamyndin er býsna
gömul, hana má rekja aftur til 17.
aldar. Hér
skiptir aldur
einstakra
mynda ekki
höfuðmáli held-
ur hitt hvernig
orðasambandið
er skilið. Sú lík-
ing sem að baki liggur leyfir ekki
notkun orðsins endir (?endir var
bundinn á deiluna; ?binda endi á
þrætuna) enda vant að sjá hvern-
ig sögnin að binda getur sam-
ræmst því orði. Það sem hér hefur
gerst virðist mér vera að orða-
tiltækið er ekki lengur öllum
gagnsætt, líkingin að baki þess er
tekin að blikna. Mér finnst hins
vegar sjálfsagt að nota orða-
tiltækið í samræmi við uppruna
og málvenju og rita því binda
enda á stjórnmálaferil manns og
tala um að endi sé bundinn á
óeirðir svo að dæmi séu tekin.
Úr handraðanum
Flestir munu þekkja orða-
sambandið klykkja út með e-u/(e-
ð) (‘enda tal sitt/ræðu með e-u’),
t.d.: Ræðumaður klykkti út með
tilvitnunum í Njáls sögu. Sögnin
að klykkja (skylt klukka, kvk.)
merkir í beinni merkingu ‘hringja
(kirkjuklukku)’. Í lok guðsþjón-
ustu er kirkjuklukkum hringt
(klykkt er út frá messu) og vísar
líkingin til þess, menn enda mál
sitt með einhverju (klykkja út
með e-u). Afbrigðið ?klykkja út
með e-ð er kunnugt í nútíma tal-
máli í nokkuð annarri merkingu
(‘með það fór hann’), þ.e. merk-
ingin vísar til hreyfingar og kallar
á notkun þolfalls. Við þessari
órökréttu notkun ber að vara.
Orðatiltækið
binda enda á
e-ð á sér
langa sögu í
íslensku
jon@hi.is
SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN
lagði mikla áherslu á það í síðustu
þingkosningum, að flokkurinn mundi
standa við þau kosn-
ingaloforð, sem hann
gæfi. Nýlega kom
fram í fréttum, að
flokkurinn mundi
ekki standa við kosn-
ingaloforðið um jarð-
göng milli Siglu-
fjarðar og
Ólafsfjarðar, svokölluð Héðinsfjarð-
argöng.
Framkvæmd þessa verks var boð-
in út fyrir kosningar. Hagstætt til-
boð barst frá Íslenskum að-
alverktökum, sem gerði ráð fyrir, að
framkvæmdir hæfust strax á þessu
ári og verkinu lyki 2006. En sam-
gönguráðherra hafnaði öllum til-
boðum í verkið og sagði, að vegna
hættu á þenslu í efnahagskerfinu
yrði að fresta gerð umræddra jarð-
ganga. Kosningaloforðið var því
svikið. (Ný áætlun gerir ráð fyrir, að
verkið verði boðið út á ný, og verkið
mun frestast í mörg ár miðað við
fyrri áætlanir.)
Nú hefur annað kosningaloforð
verið svikið, þ.e. loforðið um að taka
upp línuívilnun dagróðrabáta við
fiskveiðar strax í haust. Þetta var
eitt af þeim loforðum, sem Sjálfstæð-
isflokkurinn og ríkisstjórnin gaf
vegna mikillar gagnrýni á fisk-
veiðistjórnunarkerfið í kosningabar-
áttunni. Nú hefur sjávarútvegs-
ráðherra tilkynnt, að ekkert verði
gert í þessu máli fyrr en eftir eitt ár.
Kosningaloforðið um framkvæmdir í
haust er sem sagt svikið.
Áður hafði ráðherrann sagt, að
leggja yrði niður byggðakvóta um
leið og línuívilnun yrði tekin upp. Í
stjórnarsáttmálanum kemur hins
vegar skýrt fram, að auka á byggða-
kvóta samhliða því sem línuívilnun
verði tekin upp. Gerð verður krafa til
þess, að staðið verði við ákvæði
stjórnarsáttmálans í því efni. Krist-
inn H. Gunnarsson, þingmaður
Framsóknarflokksins og varafor-
maður sjávarútvegsnefndar alþingis,
hefur gagnrýnt sjávarútvegs-
ráðherra harðlega fyrir framgöngu
sína í þessu máli. Einkum hefur
Kristinn gagnrýnt ráðherrann harð-
lega fyrir að lýsa því yfir, að hann
hefði í hyggju að afnema byggða-
kvóta og taka í staðinn upp línuíviln-
un. Kristinn segir þetta skýlaust
brot á stjórnarsáttmálanum. Ekki sé
unnt að afnema byggðakvóta án
samþykkis Framsóknarflokksins. Og
Framsóknarflokkurinn hafi ekki
samþykkt það. Kristinn gagnrýnir
sjávarútvegsráðherra einnig harð-
lega fyrir að fresta línuívilnun þrátt
fyrir kosningaloforðin. Sagði Krist-
inn, að ef sjávarútvegsráðherra
stæði ekki við stjórnarsáttmálann í
þessu efni ætti hann að segja af sér.
Ljóst er, að það skortir vilja hjá
sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórn-
inni til þess að taka upp línuívilnun.
Það er léleg afsökun að segja, að
lagaheimild skorti. Það var vitað,
þegar kosningaloforðið var gefið, að
slíka heimild skorti. Það er auðvelt
að kalla þing saman og samþykkja
lög um línuívilnun. Það væri einnig
unnt að gefa út bráðabirgðalög um
málið í framhaldi af könnun um að
öruggur þingmeirihluti væri fyrir
málinu.
Kristinn H. Gunnarsson sagði, að
ríkisstjórnin hefði staðið tæpt í síð-
ustu þingkosningum og að líklegt
megi telja, að loforðin um línuívilnun
og aukningu byggðakvóta hafi tryggt
stjórninni meirihlutann. Þingmenn
Frjálslynda flokksins hafa látið í ljós
svipaðar skoðanir um þetta atriði og
sagt, að ef ríkisstjórnin standa ekki
við kosningaloforð sín í þessum efn-
um sé hún við völd á fölskum for-
sendum. Það má til sanns vegar
færa. Ríkisstjórnin var ekki spör á
kosningaloforðin í síðustu kosn-
ingum. M.a. lofaði stjórnin lagfær-
ingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu.
Ljóst er, að þau loforð verða svikin.
Sjávarútvegsráðherra sagði, þeg-
ar hann var að réttlæta frestun á lí-
nuívilnun, að hann hefði rætt málið
við formann Framsóknarflokksins,
og formaðurinn hefði ekki gert at-
hugasemdir við frestunina. Var ljóst,
að af þessum sökum taldi sjáv-
arútvegsráðherra mál þetta vera í
lagi. En Sjálfstæðisflokkurinn gaf
ekki Framsóknarflokknum loforð
um línuívilnun fyrir síðustu kosn-
ingar. Sjálfstæðisflokkurinn gaf
þjóðinni þetta kosningaloforð. Ef
sjávarútvegsráðherra vill komast hjá
því að efna þetta loforð verður hann
að spyrja þjóðina. Framsóknarflokk-
urinn hefur ekkert umboð þjóð-
arinnar til þess að samþykkja að
fresta línuívilnun. Það skiptir því
engu máli hvað formaður Framsókn-
arflokksins segir um málið. Það er
þjóðin, sem ræður í þessu máli.
Enn eru
kosninga-
lof-orð svikin
Eftir Björgvin Guðmundsson
Höfundur er viðskiptafræðingur.
Í LOK júlí s.l. kom eins og þruma úr
heiðskíru lofti sú umdeilda ákvörðun
háttvirts umhverfisráðherra Sivjar
Friðleifsdóttur að heimila ekki veiðar
á rjúpu næstu þrjú
árin. Það hefur lengi
loðað við þessar veið-
ar að vera umdeildar
og friðunarumræðan
er þekkt fyrirbæri allt
frá því snemma á síð-
ustu öld. Virðist hún
fylgja svipaðri sveiflu
og hin náttúrulega stofnsveifla rjúp-
unnar, nema bara í hina áttina þ.e.a.s.
þegar rjúpnastofninn er í lágmarki
nær friðunarumræðan hámarki og öf-
ugt.
Þetta er hálf broslegt þegar litið er
til þess að þessar stofnsveiflur eru full-
komlega náttúrulegar og eðlilegar og
þekkjast bæði á rjúpnastofnum ann-
arra landa og hjá öðrum skyldum
fuglastofnum. Sveiflurnar eru þó háð-
ar breytingum og aðstæðum og má
þar t.d. nefna norska rjúpnastofninn
sem sveiflast á 3-5 ára fresti á meðan
sá íslenski hefur verið í u.þ.b.10 ára
sveiflu. Það er ekki um það deilt að
rjúpan er í lágmarki um þessar mund-
ir. Það er heldur ekki um það deilt að
refastofninn er í algjöru hámarki og
hefur allt að þrefaldast frá 1980 ef tek-
ið er mið af veiðitölum en þess má geta
að rjúpan er stór partur af fæðu refs-
ins.
Það er líka staðreynd að minkurinn
er í miklum uppgangi og hefur fjölgað
að sama skapi og refnum.
Það er ekki ólíklegt að rjúpan hald-
ist í lægð þar til varginum fækkar.
Það væru eðlileg viðbrögð náttúr-
unnar.
Í framhaldi af því getur maður þá
spurt sig: Fyrir hvern er verið að friða
rjúpuna? Er það fyrir refinn og mink-
inn svo þeir hafi úr meiru að moða og
falli síður í niðursveiflu? Ýmsir sér-
fræðingar bæði innlendir og erlendir
hafa í gegnum tíðina gagnrýnt þá um-
fjöllun sem rjúpan fær og þá tilfinn-
ingasemi sem oft ræður ríkjum í um-
ræðunni frekar heldur en vísindalegar
niðurstöður.
Flestum ber þeim saman um að hóf-
legar veiðar hafi lítil sem engin áhrif á
rjúpnastofninn og alfriðun komi ekki í
veg fyrir stofnsveiflur og rjúpnaþurrð.
Má þarna nefna dr. Finn Guðmunds-
son sem stundaði viðamiklar rann-
sóknir um miðja síðustu öld á rjúpunni
og var meðal annars fenginn af alþingi
til að skila inn álitsgerð á rjúpnastofn-
inum og veiðum honum tengdum.
Einnig má nefna dr. Hans Chr. Pet-
ersen fuglafræðing sem stundað hefur
rannsóknir á rjúpum í Noregi. Hann
hélt hér fyrirlestur á vegum SKOT-
VÍS árið 1994 en í máli hans þar kom
fram að veiðar á íslenska rjúpnastofn-
inum væru langt innan þeirra marka
sem stofninn þyldi.
Af einhverjum ástæðum hafa skot-
veiðimenn lengi átt í vök að verjast
fyrir gagnrýniröddum svokallaðra
friðarsinna sem þykir það vægast sagt
ógeðfellt að menn séu enn að sinna
þessari frum-eðlishvöt sinni að veiða
sér til matar.
Æðandi upp um fjöll og firnindi með
drápsglampa í augum í stað þess að
fara bara út í búð og sækja bráðina
verkaða í lofttæmdum umbúðum í
frystinn eins og sönnum friðar- og
náttúruverndarsinna sæmir.
Sem betur fer er þessu ekki svona
farið, heldur eru flestir veiðimenn
heiðursmenn þegar kemur að veiði og
bera virðingu fyrir bæði bráð og nátt-
úru og bera hagsmuni beggja meira
fyrir brjósti en flestir aðrir.
Innan um eru þó alltaf svartir sauð-
ir eins og í öllum þjóðfélagshópum.
Samkvæmt tölum af heimasíðu veiði-
stjóra sem skipaður er af umhverf-
isráðherra er áætluð stofnstærð rjúp-
unnar sexhundruð til tólfhundruð
þúsund fuglar að hausti eftir því hvar
sveiflan stendur svo reikna má með að
miðað við að nú sé lágmark þá séu um
sexhundruð þúsund rjúpur á Íslandi
þetta haust. Árið 2001 voru veiddar
rjúpur rétt um 100.000 og reikna má
með að það hafi verið svipað á síðasta
hausti eða heldur minna. Þetta þýðir
að veiðimenn eru að skjóta u.þ.b. 15 til
20 af hverjum 100 fuglum að því gefnu
að stofninn sé í algjöru lágmarki. Með
styttingu veiðitíma og sölubanni mætti
auðveldlega minnka þessa tölu um allt
að helming eða niður í 10 af 100.
Maður spyr sig, hvað fær ráðherra
til að taka slíka einræðisákvörðun?
Rjúpan er ekki á válista yfir fugla í út-
rýmingarhættu, þetta er þvert ofan í
álit veiðistjóra s.l. haust þar sem hann
lagðist eindregið gegn veiðibanni,
þetta kippir fótunum undan best
marktæku upplýsingaöflun sem við
höfum í dag um rjúpnastofninn, þ.e.
veiðiskýrslunum sem gerðar hafa ver-
ið í góðu samstarfi milli veiðistjóra og
veiðimanna undanfarin ár, þetta eykur
veiðiálag á aðrar fuglategundir, eykur
fæðumöguleika refs og minks og tor-
veldar þar með fækkun þeirra stofna
og síðast en ekki síst er þessi ákvörðun
ekki byggð á niðurstöðu ráð-
gjafanefndar um villt dýr heldur þvert
ofaní þær niðurstöður sem þessi nefnd
komst að fyrir tæpu ári síðan, þar sem
aðeins tveir af sjö nefndarmönnum
greiddu atkvæði með alfriðun (Sam-
band dýraverndunarfélaga Íslands og
Bændasamtök Íslands). Þess má geta
að þessi nefnd á samkvæmt lögum nr.
64 frá 1994 að vera ráðherra til ráð-
gjafar en þar stendur meðal annars:
„Tillagna eða umsagnar ráð-
gjafanefndarinnar skal leitað við setn-
ingu reglugerða, leyfisveitinga, veit-
inga undanþága og við önnur
stjórnvaldsfyrirmæli um villt dýr.“
Þessu virðist ráðherra ekki hafa farið
eftir.
Rjúpnaveiðar hafa verið stundaðar
um aldir, jafnvel frá upphafi landnáms.
Það er réttur okkar veiðimanna að fá
að stunda þær áfram af hófsemi og
undir góðri stjórn. Ég skora á Siv
Friðleifsdóttur umhverfisráðherra að
endurskoða afstöðu sína og leita betri
leiða.
Áskorun á
umhverfis-
ráðherra!
Eftir Höskuld Ólafsson
Höfundur er flugvéltæknir og
starfar hjá Flugöryggissviði Flug-
málastjórnar Íslands.
SKULDIR Reykjavíkurborgar hafa aukist gífurlega í
valdatíð R-listans. Frá árinu 1993 hafa hreinar skuldir
borgarinnar aukist um rúm 1.000% og nú er svo komið
að hvert einasta mannsbarn í Reykjavík
skuldar sem samsvarar um 700.000 kr.
R-listinn hefur lengi reynt að fegra
fjárhagsstöðu borgarsjóðs með ýmiss
konar bókhaldsbrellum. Þannig hafa
4,6 milljarðar verið færðir úr sjóðum
Orkuveitu Reykjavíkur yfir í borg-
arsjóð til að hann líti betur út. Einnig
voru arðgreiðslur Orkuveitunnar til
borgarsjóðs stórauknar og voru í engu samræmi við
hagnað fyrirtækisins. Þannig hefur Orkuveitan greitt í
borgarsjóð arðgreiðslur sem nemur um 6 milljörðum
króna umfram það sem gert var á jafn mörgum árum
fyrir 1995.
En R-listinn getur ekki lengur slegið ryki í augu al-
mennings. Það er komið að skuldadögum.
Hærra orkuverð
Meirihluti stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur hækkaði ný-
lega verð á heitu vatni og rafmagni í annað sinn á þessu
sumri. Heildarhækkun er 10% fyrir heita vatnið og 5%
fyrir rafmagnið. Ástæða þessarar hækkunar er einföld.
Framangreindar tilfærslur úr sjóðum Orkuveitunnar
ásamt ævintýralegum fjárfestingum Orkuveitunnar í
t.d. Línu Neti, sem kostaði borgarbúa um þrjá millj-
arða, hefur gert það að verkum að fjárhagur Orkuveitu
Reykjavíkur hefur veikst mjög. Fyrirtækið er því ekki
lengur í stakk búið til að taka á sig sveiflur í verði eins
og verið hefur. Það kemur því í hlut Reykvíkinga að
opna budduna.
Skert þjónusta
Skuldasöfnun R-listans bitnar því miður ekki einungis
á Reykvíkingum í formi aukinna útgjalda. Reykjavík-
urborg neyðist nú til að skera niður ýmiss konar þjón-
ustu við borgarbúa til að borga fyrir gamlar syndir. Á
fundi borgarráðs í júní síðastliðinn samþykkti R-listinn
að spara alls 500 milljónir kr. í rekstri borgarinnar.
Þar af verða 311,5 milljónir kr. sparaðir í fræðslu-,
tómstunda- og félagsmálum. Slíkur sparnaður bitnar
verst á barnafjölskyldum og þeim sem minnst mega sín
í þjóðfélaginu.
R-listinn hefur staðið sig illa við stjórn fjármála
borgarinnar á undanförnum árum. Nú erum það við
Reykvíkingar sem súpum seyðið af því í formi aukinna
útgjalda og skertrar þjónustu.
Komið að skuldadögum
Eftir Margréti Einarsdóttur
Höfundur er lögmaður og varaborgarfulltrúi
Sjálfstæðisflokksins.