Morgunblaðið - 29.08.2003, Blaðsíða 45
ÍÞRÓTTIR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 29. ÁGÚST 2003 45
„ÞAÐ er geysilega erfitt að kyngja þessum
úrslitum og maður er gráti næst. Það má
segja að reynsluleysi hafi orðið okkur að
falli. Strákarnir gerðust allt of gráðugir á
lokakaflanum. Þeim fannst greinilega svo
gaman að þeir gleymdu sér. Þeir seldu sig í
tæklingar og misstu einbeitingu en hefðu
þeir aðeins róað sig niður og haldið boltanum
hefðum við unnið og farið áfram,“ sagði
Bjarni Jóhannsson, þjálfari Grindvíkinga.
„Ég er annars mjög stoltur af liðinu. Eftir
leikinn úti sagði ég að við ættum ágæta
möguleika á að fara áfram og við vorum
hársbreidd frá því. Ég sá jöfnunarmarkið
ekki nógu vel og get því ekki alveg dæmt um
það en aðdragandinn að því var mjög sorg-
legur. Sjö til átta sekúndum áður en markið
kom var pressan hjá okkur slök og við
gleymdum þeirra mönnum. En strákarnir
lærðu mikið af þessum leikjum og þeir geta
staðið uppréttir og vel það eftir þá. Þeir
stóðu sig eins og hetjur,“ sagði Bjarni.
„Þetta var rosalega sárt og maður verður
nokkra daga að jafna sig. Við lögðum okkur
alla fram og það gekk nánast allt upp sem við
ætluðum okkur en því miður náðu þeir að
jafna með þessu heppnismarki. Það hefði
verið draumur ef markið sem ég skoraði
hefði fleytt okkur áfram. Ég sá að markvörð-
urinn var ekki á línunni og reiknaði með fyr-
irgjöf og því var ekkert annað að gera en að
skjóta. Ég hafði heppnina með mér, notaði
vindinn og sem betur fer reiknaði ég hann
rétt út,“ sagði Ray Anthony Jónsson.
Það er geysilega erfitt að
kyngja þessum úrslitum
„VIÐ vorum heppnir að skora mark og kom-
ast þar með áfram. Maður var að verða úr-
kula vonar. Bæði vorum við manni færri og
marki undir en leikurinn er aldrei búinn
fyrr en dómarinn flautar og við náðum sem
betur fer að að bjarga andlitinu,“ sagði
Helgi Kolviðsson, leikmaður Kärnten, við
Morgunblaðið eftir leikinn. Helgi var tekinn
af leikvelli á 84. mínútu og mátti bíða milli
vonar og ótta á varamannabekknum síðustu
mínúturnar.
„Við þurftum að taka áhættu og því var
ég tekinn út af og sóknarmaður settur í
staðinn. Annars spilaði ég mun aftar en und-
anfarið. Ég var farinn að sjá að við værum á
leið út úr keppninni, ömurlega flugferð
heim og að við þyrftum að sitja undir mikilli
gagnrýni heima fyrir en heppnin var með
okkur á örlagaríku augnabliki. Ég vissi vel
og var búinn að segja félögum mínum að í
vændum væri mjög erfiður leikur og það
kom svo sannarlega á daginn.
Grindvíkingarnir spiluðu virkilega vel.
Þeir voru mjög agaðir og þéttir fyrir og við
áttum erfitt með að finna glufur á vörn
þeirra. Strákarnir frammi, Óli Stefán og
Ray, voru mjög sprækir. McShane var sterk-
ur á miðjunni og þeir Ólafur Örn og Kekic
voru geysilega sterkir í vörninni. Mér fannst
liðsheildin yfir höfuð sterk hjá þeim og
þetta sýnir að íslensk knattspyrna er á upp-
leið. Ég ætla allavega að vona að félagar
mínir hætti nú að hlæja að íslenskri knatt-
spyrnu,“ sagði Helgi.
„Vona að félagar mínir hætti að
hlæja að íslenskri knattspyrnu“
HANNES Haubitz, þjálfari Kärnt-
en, sagði við Morgunblaðið að sínir
menn hefðu svo sannarlega haft
heppnina með sér í Grindavík.
„Grindavíkurliðið reyndist okkur
mjög erfiður mótherji og það mátti
engu muna að það stæði í okkar
sporum. Þetta er sterkt lið, agað og
með marga góða knattspyrnumenn
innanborðs. Ég var sérlega hrifinn af
leikmanni nr 14. (Ólafur Örn Bjarna-
son), og nr. 7 (Óli Stefán Flóvents-
son) og gæti vel hugsað mér að hafa
þá í mínu liði,“ sagði þjálfarinn.
HAUBITZ sagði ennfremur að
sem betur fer þyrfti hann ekki að
glíma við íslenskt lið í næstu umferð.
Hann kemst að því í dag hverjir mót-
herjar Kärnten verða í 1. umferð að-
alkeppninnar.
ÞURÍÐUR Einarsdóttir hefur
verið ráðin yfirþjálfari hjá Sund-
félagi Hafnarfjarðar, SH, til næstu
þriggja ára og tekur hún við starfi
Brians Marshalls sem hætti hjá SH í
sumar eftir átta ára farsælt starf hjá
félaginu.
ÞURÍÐUR er margreyndur þjálf-
ari. Hún starfaði um árabil að þjálf-
un sundmanna á Austfjörðum en frá
árinu 1995 hefur hún þjálfað yngri
sundmenn hjá SH auk þess sem hún
hefur þjálfað unglingalandsliðið.
Þá hefur SH gengið frá ráðningu á
þjálfurum fyrir yngri sundmenn fé-
lagsins og munu þau Sólveig Hlín
Sigurðardóttir og Halldór Kristen-
sen sinna því.
BOUDEWIJN Zenden, leikmaður
Chelsea, er líklega á leið til franska
liðsins Paris SG út tímabilið. Zenden
greindi frá þessu í gær en hollenski
landsliðsmaðurinn hefur áhuga á að
fara til Frakklands. „PSG er frábært
lið,“ sagði Zenden.
FÓLK
Glæsimark Ray Anthony Jóns-sonar á 74. mínútu virtist ætla
að fleyta Grindvíkingum áfram í
keppninni, sem hefði
fært Suðurnesjalið-
inu drjúgan skilding
í kassann, en smá-
einbeitingarleysi og
óskynsemi leikmanna Grindavíkur
gerði það að verkum að Kärnten
tókst að jafna og til að bæta gráu of-
an á svart jafnaði óvinsælasti leik-
maðurinn á vellinum metin með
lúmsku skoti sem hinn ungi Helgi
Helgason, markvörður Grindvík-
inga, hefði kannski átt að geta komið
í veg fyrir. Það voru því þung sporin
hjá liðsmönnum Grindvíkinga þegar
þeir gengu af leikvelli enda þeir grát-
lega nærri því að slá Kärnten út.
Fyrri hálfleikurinn í súldinni í
Grindavík var fremur tíðindalítill.
Grindvíkingar báru litla virðingu
fyrir atvinnumönnunum og ekki var
neinn sjáanlegur munur á milli lið-
anna. Grindvíkingar léku af var-
færni. Þeir lokuðu svæðum inni á
miðjunni vel, vörnin var traust og
þegar færi gafst reyndu þeir að
sækja hratt en Óla Stefán Flóvents-
son skorti oftar en ekki hjálp í fram-
línunni og fyrir vikið náðu Grindvík-
ingar ekki að ógna marki Kärnten að
ráði í fyrri hálfleik. Ólafur Örn
Bjarnason átti þó góða aukaspyrnu
yfir markið á 17. mínútu og Ray
Anthony var aðgangsharður upp við
markið eftir hálftíma leik en mark-
vörður Kärnten varði skot hans.
Austurríkismennirnir fóru sér hægt
í sínum leik og voru lítt skapandi;
besta færi hálfleiksins féll Brasilíu-
manninum Junior í skaut á 37. mín-
útu en Helgi Helgason sá við honum
og varði fast skot Juniors í horn.
Mikið fjör færðist í leikinn í síðari
hálfleik. Paul McShane var hárs-
breidd frá því að skora á 53. mínútu
eftir fína fyrirgjöf Óla en Skotinn
knái hitti boltann illa úr góðu færi á
markteig. Sjö mínútum síðar dró aft-
ur til tíðinda. Mario Hieblinger braut
þá gróflega á Eysteini Haukssyni og
sænski dómarinn lyfti umsvifalaust
rauða spjaldinu á loft. Varamaðurinn
Dave Zafarin var stálheppinn að fara
ekki sömu leið og Hieblinger á 64.
mínútu þegar hann danglaði í Gest
Gylfason en hann slapp með gula
spjaldið og þar urðu sænska dóm-
aranum á mistök. Brottreksturinn
gerði það að verkum að Grindvíking-
ar færðu sig eðlilega framar á völlinn
á sama tíma og liðsmenn Kärnten
þéttu lið sitt aftar á völlinn. Óli Stef-
án Flóventsson komst einn í gegnum
vörn Kärnten á 65. mínútu en skot
hans fór framhjá markinu. Grindvík-
ingar voru þó ekkert á þeim buxun-
um að slaka á. Þeir höfðu náð undir-
tökunum og á 74. mínútu kom
markið sem allir höfðu beðið eftir.
Grindvíkingar fengu aukaspyrnu á
miðjum vallarhelmingi Kärnten ná-
lægt hliðarlínu. Undir flestum kring-
umstæðum hefði mátt búast við því
að Ray Anthony, sem framkvæmdi
spyrnuna, hefði sent boltann inn í
vítateig en mörgum á óvart ákvað
hann að reyna skot. Og viti menn.
Boltinn fór í fallegum boga yfir
markvörð Kärnten og steinlá fyrir
aftan hann í netinu. Stórglæsilegt
mark og Grindvíkingar þar með
komnir í vænlega stöðu. Kappsfullir
leikmenn Grindavíkur héldu áfram
að sækja en hvort skilaboð Bjarna
Jóhannssonar þjálfara um að slaka
aðeins á og hugsa kannski meira um
að halda fengnum hlut hafa farið fyr-
ir ofan garð og neðan hjá leikmönn-
um skal ósagt látið. En í öllu falli þá
gerðust leikmenn Grindavíkur helst
til gráðugir og líklega varð það þeim
að falli. Þeir gleymdu sér eitt augna-
blik, misstu einbeitinguna og hvað
hefur maður ekki oft séð íslensku liði
í Evrópukeppni vera refsað fyrir
slíkt? Úr einni af síðustu spyrnum
leiksins jafnaði Hota metin, mark
sem Grindvíkingar hefðu átt að geta
komið í veg fyrir en oft er gott að
vera vitur eftir á.
Grindavíkurliðið á annars mikið
hrós skilið fyrir frammistöðu sína og
ekki verður annað sagt en að það hafi
fallið út með sæmd. Liðið spilaði
virkilega vel sem ein heild og var
betri aðilinn þegar allt er talið. Vörn-
in var mjög traust með miðverðina
Ólaf Örn og Sinisa Kekic í sínu besta
formi. Miðjumennirnir og þá sér-
staklega Paul McShane og Guð-
mundur Bjarnason áttu mjög góðan
leik og þeir Ray Anthony og Óli Stef-
án voru afar duglegir í framlínunni
og gerðu hvað eftir annað usla í aust-
urrísku vörninni.
Leikur Kärnten var ekki mikið
fyrir augað og austurríska liðið má
teljast stálheppið að vera komið
áfram. Helgi Kolviðsson var ekki
ýkja áberandi. Hann stóð þó vaktina
vel sem aftasti miðjumaður og í vörn-
inni eftir að Kärnten varð manni
færra en var látinn víkja fyrir sókn-
armanni þegar austurríska liðið
freistaði þess að jafna undir lokin.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Helgi Kolviðsson, leikmaður Kärnten, með boltann í leiknum í Grindavík en heimamaðurinn Eysteinn Húni Hauksson sækir að honum.
Sárt hjá Grindvíkingum
LEIKMENN Grindvíkinga og þeir sem að liðinu standa eiga svo
sannarlega um sárt að binda eftir viðureignina við austurríska liðið
Kärnten í Grindavík í gærkvöld. Grindvíkingar voru komnir með
annan fótinn og rúmlega það í 1. umferð UEFA-keppninnar. Þeir
höfðu 1:0 yfir þegar leikklukkan sýndi 90 mínútur en einni mínútu
áður en sænski dómarinn flautaði til leiksloka dundi ógæfan yfir
heimamenn. Bosníumaðurinn Almedin Hota jafnaði metin fyrir
Kärnten og tryggði þar með sínum mönnum áframhald í keppninni
en Grindvíkingar sitja eftir með sárt ennið.
Guðmundur
Hilmarsson
skrifar
KNATTSPYRNA
1.deild karla:
Stjörnuvöllur: Stjarnan - Víkingur......18.30
Akureyrarvöllur: Þór - Haukar ...........18.30
Kópavogsv.: Breiðablik - Njarðvík ......18.30
HANDKNATTEIKUR
Opna Reykjavíkurmót karla:
HK - Víkingur.............................................15
Afturelding - Selfoss ..................................16
Haukar - ÍBV..............................................17
Magdeburg - Víkingur ...............................18
Combault - Selfoss .....................................19
HK - KA ......................................................20
ÍBV - Stjarnan ............................................21
Allir leikirnir fara fram í íþróttahúsinu
Austurbergi.
KÖRFUKNATTLEIKUR
Hraðmót Vals:
Hamar-Fjölnir............................................17
Snæfell-Haukar .........................................18
Keflavík-Valur ............................................19
Stjarnan-ÍR ................................................20
KR-Grindavík .............................................21
Leikið verður í íþróttahúsi Vals.
Í KVÖLD