Pressan - 08.12.1988, Side 26

Pressan - 08.12.1988, Side 26
26 Fimmtudagur 8. desember 1988 er jafnstór n œringarþörfin n i Danski rithöfundurinn VITA ANDERSEN í viðtali við PRESSUNA „Þegar á leið var ég orðin svo föst í sögunni að mér fannst ég alltaf vera að mæta einhverju i fari persónanna í vegfarendunum úti á ' götu — handahreyfingu, nefi, göngulagi, alls konar smáatriðum." Pressumynd/Magnús Reynir. VITA ANDERSEN kom til íslands fyrir sex árum þegar verið var að sýna leikrit hennar Elskaðu mig og verk hennar I klóm öryggisins og Haltu kjafti og vertu sœt höfðu komið hér út og margir voru að lesa þau og lána hver öðrum bækurnar. í fyrra kom út í Danmörku fyrsta skáldsaga hennar, Hvora höndina viltu, sem er jólabók hér í ár og Vita kom aftur til íslands í nokkra daga í til- efni útkomu hennar. Aðspurð segir Vita að Hvora hönd- ina viltu sé ástarsaga. „Það er ekki rauð ástarsaga þar sem allir finna alla í lokin og vonda fólkið fer í fangelsi. Það er ástarsaga barns og móður, föður og barns. Sam- band foreldranna og barns þeirra er alltaf ástarsam- band,“ segir Vita. Sagan fjallar um níu ára stelpu, Önnu, einkabarn hjóna sem elska ekki hvort annað og eiginlega þola ekki hvort annað. Pabbinn vill ala barnið upp í festu og regl- um, borða á réttum tíma, eina heita máltíð á dag o.s.frv. Mamm- an liggur í himnasæng og lætur sig dreyma. Dag einn hverfur mamman og barnið Anna leggur af stað í leit að henni. Sagan gerist jafnt í hugum sem á götum og í herbergjum. Þar er barnshugur með nornum og galdrasteinum og öllum þeim ráð- um sem barn finnur upp á til að fá athygli og ást. Þar er bíðandi kona og hugur hennar sem fyllist og tæmist á víxl af vellystingum tilfinninganna. Og svo er pabbinn sem kann ekki að hegða sér í hug- arveislum konu sinnar, skilur ekki himnasængurþörf né fína kjóla og þekkir aðeins óbreytt líf. EINMANA BÖRN Vita segir: „Bernskan getur ver- ið einmanalegasti tíminn í lífi manns og það er vont að vera ein- mana barn. Börn verða að vera elskuð mikið og börn eiga að hafa möguleika á að efska. Hæfileikinn — og þörfin — til að þykja vænt um aðra, það byrjar allt þegar maður er barn. Og það er hæfi- leiki að geta þótt vænt um mann- eskju. Ég vona að hann sé með- fæddur, í öllu fólki. í hugum okkar látum við ástar- sögur okkar gjarnan byrja á ungl- ingsárunum eða um tvítugt. En fái maður ekki tækifæri á að sýna væntumþykju sína og fá væntum- þykju, elska og vera elskaður strax og maður er barn, trúi ég ekki að framhaldsástarsögurnar verði glaðlegar. Ég held að það sé algengt að börn séu einmana. Það er alltaf hægt að skutlast með börn, láta þau bíða eftir manni endalaust. Við tökum tillit til fullorðins fólks af því við erum svo kurteis, en það er alltaf hægt að sleppa því að taka tillit til barna og segja bara: Á morgun, það er ekki hægt fyrr en á morgun. Og börn verða að láta sér allt lynda, beygja sig undir allt og bíða, þangað til á morgun. Ég vil ekki að börnin mín þurfi að beita alls konar til- tækjum svo ég taki eftir þeim, og börn, eins og allt fólk, ganga sí- fellt lengra til að ná í þá athygli sem þau þurfa. Og í athyglisleit- inni er oft gengið hættulega langt. Ég vil heldur ekki að börnin mín fari að bíða eftir því með óþreyju að verða stór: Þegar ég verð stór ætla ég . . . Þá hafa þau gefist upp á því að vera börn og fara á ntis við bernskuna, sem er sá tími sem fylgir hverri manneskju ævi- langt. Tíminn þegar maður verður til. Þegar ég byrjaði á bókinni var ég ekki með niikið af efni í hönd- ununt, fyrir utan eldiviðinn, sem í þessu tilviki er einmanaleiki barns og þörf þess fyrir ást. Það kom svo í ljós að sá eldiviður nægði mér og er alls ekki uppurinn enn. Bókin átti að enda þegar Anna væri orðin tvítug og eignast sitt fyrsta barn. Hún endar þegar hún er tíu ára og ég er byrjuð að skrifa seinni hlutann. Hvora höndina viltu fjallar ekki um það að verða fullorðinn. Margir höfundar í Danmörku skrifa um hvernig það er að verða stór eða skrifa út frá því barni sem er sérstakt á einhvern hátt, kannski mjög gáfað eða mjög list- rænt. Anna er ekki sérstakt barn. Hún er einmana. Og ég held að það sé ekkert sérstakt, miklu fremur ansi almennt. Hún vill líka að sér sé sýnd ást og hún þarf að fara langar og krókóttar leiðir til að ná í skottið á ást og væntum- þykju. Og hún lætur ekkert aftra sér í leit sinni að móður sinni, hvorki dimmar nætur né skólann eða pabba sinn. Hún er sterk. Hún vill og hana langar og hún hættir ekki fyrr en hún fær það sem hún þarf, — ást. Hún er til- búin að gera sig asnalega, fífla- lega, verða afneitað, ganga í sitt- hvorum skónum, allt, fyrir athygli og ást. Ástarþörf barns er jafn- stór næringarþörfinni. Barn þarf meira að sér sé sýnd ást en að vera þvegið. Saga móðurinnar er líka stór þáttur í sögunni. Hún hefur ekki fengið neitt af neinu í æsku og hún leggst í algjöra bið eftir manni og einhverju og öllu sem er fallegt. Hún er alveg glorsoltin og aðframkomin af þorsta í ást. Það er eins og hún hafi verið í ástar- eyðimörk lengi. Og það hefur hún. Allt sitt líf. Svo er það pabbinn og amman og afinn. Og sagan . . . í KLÓM ÖRYGGISINS — Mig hefur alltaf langað til að skrifa skáldsögu. Mér þykir sjálfri mjög gaman að lesa skáld- sögur. Ég veit ekki hvernig ég hefði getað komist í gegnum lífið án bóka. Bækur eru næstum því eini staðurinn þar sem maður getur skyggnst inn í huga og líf ann- arra, líf ókunnugra persóna sem verða manni kunnugar, hvort sem þær eru illmenni, góðmenni og hvað sent þær nú taka til bragðs. Maður kemst í samband við eitt- livað, eitthvað annað en mann sjálfan og allt það í kringum mann. í góðri sögu snertir maður eitthvað sem samtímis snertir mann og getur stundum hreyft ntann úr sporunum. Maður festist \ ■\ \ svo oft í sömu sporunum dag eftir dag. Skáldsögur hafa verið mér góður skóli og mig hefur alltaf langað til að skrifa skáldsögu. Áður en fyrsta bók mín, ljóða- bókin í klóm öryggisins, köm út var ég óþekkt nafn. Allt í einu fékk ég alla þá athygli sem höf- undur getur fengið. Það var ánægjulegt. Það var gaman. En það var líka ógnvekjandi. Ég er engin stjarna að eðlisfari. Það er gott að fá mikla athygli, góðar viðtökur, mörghundruð bréf í viku hverri, — það besta er að finna það áþreifanlega að verk manns er lesið. Ljóðabókin seldist í hundrað þúsund eintökum og það þykir óvenjulegt þegar ljóða- bók á í hlut. Þetta gerðist allt frekar hratt, bókin breiddist út, og hún var mitt fyrsta verk, skúff- urnar ekki fullar af öðrum verk- um. Maður er ekki viðbúinn slíku. Síðan fóru að heyrast raddir sem sögðu: — þetta getur ekki verið góð bók fyrst hún selst svona vel! Háskólamenn fóru að skoða verkið og komust að þeirri niðurstöðu að þetta væru ekki „góðar“ bókmenntir. Það væri ekki verið að takast á við tungu- málið sem slíkt, orðaforðinn ekki auðugur, orð notuð ómeðvitað og orð sett saman sem áttu ekki vel saman. Ég skrifaði í klóm öryggisins frekar hratt og fyrir mig var það líkast kraftaverki, — að ég skyldi geta skrifað. Það var mér mikill léttir. Ég var ekki að vinna með tungumál, var alls'ómeðvituð um það. Bókin var á talmáli og ég var að lýsa tilfinningum sem síðan margir virtust þekkja. Ég hugsa vel til í klóm öryggisins fyrir það eitt að hún fékk fólk, alls konar fólk, til að lesa, fara út í búð, kaupa bók og lesa og þá líka fólk sem venur ekki komur sínar í bókabúðir. í Danmörku eru margir alveg hættir að lesa. MÚSÍK í STÍLNUM — Undanfarin ár hef ég ein- beitt mér að tungumálinu, „æft mig í orðum“, skrifað upp aftur og aftur og leitað og fundið og týnt og skrifað og skrifað. Það er hægt að skrifa upp prósa hundrað sinnum og samt verður viss músík í stílnum. Þegar ég umskrifa Ijóð deyr það. Ljóðið kemur, svona, án viðbúnaðar, án þess að boða komu sína. Stundum rétt áður en maður sofnar á kvöldin. Stundum allt í einu þegar maður stendur og er að hengja upp þvott. Það er ekki hægt að bíða eftir ljóðum. Það er annað með prósa. Mér finnst ég geta skrifað prósa upp, aftur og aftur, án þess maður upplifi hann deyja fyrir framan sig. Hvora höndina viltu er til í mörgum mörgum handritum. í tvö ár fór ég á fætur klukkan fimm á morgnana til að skrifa þessa bók. Eg á þrjú lítil börn og verð að nota tímann mjög vel. Ég var ekki viss um, í upphafi, hvort ég gæti sett mig inn í huga níu ára barns. Börn eru svo hrein og ímyndunaraflið svo sterkt. Þegar á leið var ég orðin svo föst í sög- unni að mér fannst ég alltaf vera að mæta einhverju í fari persón- anna i vegfarendunum úti á götu, — handahreyfingu, nefi, göngu- lagi, alls konar smáatriðum. Ég hitti oft Önnu á götum Kaup- mannahafnar. Að skrifa skáldsögu er eins og að hafa verið langtímum saman með einhverri manneskju. Þegar bókin kom út var sagt við mig: — Já, nú veistu hvernig maður fer að. En það veit ég ein- faldlega ekki. Ég veit aldrei hvern- ig maður gerir, hvernig maður skrifar, þegar ég byrja á nýju verki. Veit aldrei hvernig ég á að fara að. Og heldur ekki hvernig ég fékk skrifað verkið á undan. Hvernig maður fer að því að skrifa, það veit ég barasta ekki. Að skrifa það er eins og að vera sífellt að læra. Maður er aldrei búinn að læra. Aldrei. Það krefst ofsalegrar orku að skrifa. Það krefst alls sem maður á til. Maður kannast við og þekkir flestar tilfinningar manneskjunnar og maður verður að þekkja þær. Þegar maður er i miðri tilfinn- ingu, kannski mjög sorgmæddur eða mjög glaður, getur maður ekki skrifað. Það er betra að vera dálitið fyrir ofan tilfinningarnar um leið og maður er að vinna.“ ■ Kristín Óinarsdóttir

x

Pressan

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Pressan
https://timarit.is/publication/298

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.