Pressan - 15.06.1989, Blaðsíða 16

Pressan - 15.06.1989, Blaðsíða 16
16 Fimmtudagur 15. júní 1989 sjúkdómar og fólk IGERÐ A FÆTI Igerð eftir gaddavír Bóndinn í Ási hafði stungið sig á gaddavír fyrir nokkrum dögum. Hann hafði klofað yfir girðingu og rispað sig illilega á ryðguðum gadd- inum á lærinu innanverðu. Af þessu hafði hlotist sár, sem síðan hafði bólgnað og grafið í. Hann hafði legið með þetta í nokkra daga og var orðinn mjög veikur, þegar læknir var loksins sóttur til hans. Sárið leit illa út og grienilegt að mikil ígerð var komin í lærið. Hann var með bólgna eitla í náranum og lærið var rauðþrútið og svert. — Þetta lítur ekkert sérstaklega vel út, sagði ég, eftir að hafa horft spekingslega á lærið um hríð. — Er það ljótt? spurði bóndinn og horfði á mig með óttablöndnum svip. — Nei, nei, svaraði ég gegn betri vitund og bætti svo við: En það verður að leggja þig inn á sjúkra- hús. — Heldurðu kannski að þejta sé eins og fótarmein Grettis Ás- mundarsonar, sem hann fékk úti í Drangey forðum? spurði bóndinn. — Hefurðu grun um, að einhver hafi galdrað gaddinn inn í lærið? spurði ég svona til að sýna, að ég væri ekki alveg blankur í Grettis sögu. — Nei, nei, svaraði kallinn, mér finnst bara fóturinn vera eins og lýsingin á meini Grettis. Við höfðum ekki um þetta fleiri orð. Ég kallaði á sjúkrabíl og bóndinn var fluttur á sjúkrahús, þar sem lækn- arnir gerðu aðgerð á fætinum, gáfu honum fúkalyf og fóturinn varð nokkuð góður eftir. Ég fór heim og reyndi að sofna en gat það ekki; mér stóð fyrir hugskotssjónum fót- urinn bólgni. Dauði Grettis Þegar ég hafði velt mér nokkrum sinnum reis ég á fætur, náði í Grettis sögu og fór að lesa lokakaflana um dauða Grettis. Samkvæmt sögunni reyndi Grettir að höggva sér trjárót í eldivið en öxin skrapp af rótinni í fót Grettis fyrir ofan hné. Trjárót- ina hafði fóstra Þorbjörns önguls sent Gretti, honum til óheilla. Iltugi bróðir batt um sárið og hafðist það vel við í 3 daga og greri ágætlega eða per primam eins og skurðlækn- arnir segja, þegar þeir dást hvað mest að handarverkum sínum. En fjórðu nóttina kemur í ljós, að ígerð er hlaupin í sárið eins og hjá bónd- anum vini mínum. Þegar þeir Grettir og Illugi skoða fótinn er hann orðinn blásinn og kolblár og sárið nú hlaupið í sundur. Þessu fylgdu miklir verkir og varð Gretti ekki svefnsamt. Verkirnir jukust og fóturinn bólgnaði æ meira og gerð- ist Grettir banvænn eins og stendur í sögunni. Illugi sat yfir honum dag og nótt. Þorbjörn öngull og hans menn komust síðan út í Drangey og drápu Gretti, enda gat hann lítt var- ist vegna fótarsársins og lærið allt grafið upp að smáþörmum. Bakteríusýking En hvað varð Gretti að fjörtjóni? Hann fær sár af axarhögginu og greinilega hleypur illt í það á nokkr- um dögum. Sennilegast hefur verið um sýkingu með bakteríu eins og Streplókokkum, Stafýlókokkum, Clostridíu eða gram ijeikvæöum stöfum að ræða, en það eru allt þekktar bakteríur sem geta valdið slæmum sýkingum í- sárum sem þessum og skapað mikil vandræði. Sýkingin getur verið einskorðuð við húðina og undirhúðina eða farið dýpra niður í vöðvana og á milli þeirra. Slíkar sýkingar eru oft á tíð- um mjög alvarlegar og geta orsakað mikil veikindi. „Líklegast er, að Grettir hafi sýkst af Clostridíu perfringens“ sagði mér sérfræðing- ur minn í smitsjúkdómum forn- manna. Illugi stundaði bróður sinn í þessum veikindum af mikilli natni, en þó hann væri hinn vænsti og hugrakkasti piltur virðist hann hafa kunnað lítið fyrir sér í læknis- kúnst þessara tíma. Hann reynir ekki að skera í sárið til að tæma út ígerðina, eins og menn þó gerðu iðulega á þessum árum, þegar illt hljóp í bardagasárin. Þannig hikaði Þórhallur Ásgrímsson ekki í Njálu, þegar hann hafði fengið fótarmein, heldur tvíhenti spjótið Skarphéð- insnaut og rak í gegnum fótinn til að hleypa út greftri og blóði. Illugi lætur auk þess umbúðir vera of lengi á sárinu án þess að gá hvernig allt gangi. Bakteríurnar fá því að leika lausum hala í fæti Grettis og valda þeim óskunda sem Iýst er hér að ofan. Einkennilegur draumur Ég fór að sofa en svaf óvært. Mér fannst ég vera á leiðinni út í Drang- ey í læknisvitjun til Grettis sterka og Illuga bróður hans. Ég var ferj- aður út í eyna í leiðindaveðri og klifraði svo upp stigann sem þræll- inn Glaumur kastaði niður, þegar báturinn lagði að. Hann vísaði mér til þeirra bræðra og við gengum hlið við hlið að skálanum. Á leiðinni kvartaði Glaumur hástöfum undan vistinni hjá þeim bræðrunum, sagðist aldrei eiga frí og þyrfti stöð- ugt að sitja undir köpuryrðum og ámælum. — Þú verður að tala við trúnaðarmann verkalýðsfélagsins á Sauðárkróki eða Búnaðarfélagið, sagði ég, þeir hljóta að geta talað við þá Illuga og Gretti fyrir þig svo þeir fari ekki svona með þig. Glaumur svaraði fáu. Við komum að skálanum og bönkuðum nokkr- um sinnum. — Knýr Hösmagi hurð, sagði þá Illugi. — Nei, ætli þetta sé ekki bara læknirinn, sagði þá Grettir með hægð. Við snöruð- umst inn, og ég gekk að Gretti, þar sem hann lá á fleti og var greinilega mjög þjáður. Fóturinn var, eins og áður er lýst, blásvartur og mjög bólginn og sver og eitlarnir í náran- um bólgnir. — Þú ert með alvar- lega sýkingu, sagði ég og við verð- um að koma þér í land strax. — Er þetta svo slæmt? spurði Iilugi og var greinilega brugðið. — Já, svar- aði ég og fór í farsímann og pantaði þyrlu landhelgisgæslunnar út í Drangey til að ná í fársjúkan mann. Við biðum komu þyrlunnar dágóða stund og þeir bræður kvörtuðu undan letinni og ómennskunni hjá Glaumi, en ég bað þá sýna honum þolinmæði. — Annars klagar hann ykkur bara fyrir verkalýðsfélaginu og þið fáið aldrei annan mann hing- að út í eyju til langframa í vinnu- mennsku á taxta Búnaðarfélagsins. Síðan kom þyrlan, lenti og út snör- uðust snöfurmannlegir unglæknar í nælonúlpum með Ioðkrögum. Þyrlan flutti Gretti á Borgarspítal- ann, enda tóku unglæknarnir ekki í mál að fara með Gretti á Sauðár- krók. Úti er draumur Ég fór svo í land og leitaði frétta af Gretti. Hann hafði alvarlega sýk- ingu með Clostridium perfringens og var þegar í stað settur á stóra penicillinskammta. Síðan var gerð aðgerð á fætinum og reynt að hleypa út öllum greftrinum og hreinsa þetta upp. Daginn eftir var greinilegt að betur mátti ef duga skyldi og skurðlæknarnir fóru enn dýpra niður í vöðvalögin til að hreinsa ígerðina. — Sennilega missir hann fótinn sagði ábúðar- mikill skurðlæknir í símann, verst að hann skyldi ekki koma fyrr. — Ætli hann geti synt einfættur frá Drangey í land? hugsaði ég með mér, og á hann einhverja möguleika á að sigla á seglbretti? Með þetta vaknaði ég upp af draumnum, löð- ursveittur og argur í skapi. ÓTTAR GUOMUNDSSON Síðan skein sól lét gamminn geisa í Kringlunni í vikunni. Tónleikarnir eru liður í ótaki tónlistar- manna vegna sölu happdrættismiða. Tónlistar- menn eygja stórkostlega möguleika í nýju og rúmgóðu félagsheimili ó þremur hæðum. Tónlistarbandalag íslands ad kaupa tvær hæðir / viðbót við félagsheimili tónlistarmanna TÓNUSTARBAR OG VEITINGASTAÐUR í þessari viku eru allar líkur á að Tónlist- arbandalag íslands festi kaup á tveimur hæðum til viðbótar þeirri sem það hefur nú til afnota sem Felagsheimili tónlistar- manna á Vitastig 3. Tónlistarmenn eiga þriðju hæð hússins sem er um 250 m2 að stærð, en nú er verið að ganga frá kaupum á fyrstu og annarri hæð hússins fyrir mús- íkanta og mun þá félagsheimilsisaðstaðan u.þ.b. þrefaldast. Þarna hillir undir stór- kostlega möguleika fyrir tónlistarmenn að sögn Jóhanns G. Jóhannssonar tónlist- armanns, sem er einn af forsvarsmönnum þessa átaks. Að kaupunum frágengnum fyrstu hæð á að koma upp tónlist- hyggjast tónlistarmenn ráðast í arkrá í stíl við hinn fræga danska miklarendurbæturáhúsnæðinu. Á Montmartre-klúbb. Þar verður kappkostað að skapa sem besta að- stöðu fyrir lifandi tónlistarflutning og og upptökur. Á annarri hæð er reiknað með að rekinn verði veitingastaður i tengsl- um við krána á fyrstu hæð. Þegar kaupin ganga í gegn er ljóst að orð- ið hafa straumhvörf hvað alla að- stöðu til tónlistarflutnings í ís- Iensku músíklífi varðar. Tónlistarmenn hafa staðið að miklum tónlistaruppákomum síð- ustu daga í Kringlunni og selt happ- drættismiða til fjáröflunar vegna félagsheimilisins. Á dagskrá fram að helginni verða m.a. Karlakórinn Fóstbræður og Bjartmar Guðlaugs- son. Öll helstu félög tónlistar- manna eiga aðild að félagsheimil- inu og má telja víst að þriggja hæða vel búið félagsheimili muni efla all- ar tegundir tónlistar þegar fram í sækir og valda byltingu í lifandi tónlistarlífi borgarinnar.

x

Pressan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Pressan
https://timarit.is/publication/298

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.